Search
Close this search box.

Ályktun um málefni fatlaðs fólks og öryrkja

Samþykkt: 28. ágúst 2021

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 28. ágúst 2021 ályktar að gera þurfi átak í mannréttindum fatlaðs fólks, tryggja að það njóti allra réttinda til jafns við aðra og geti lifað sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í íslensku samfélagi. Stórt skref í þessa átt er að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Mikilvægt er að hækka örorkulífeyri og huga sérstaklega að kjörum þeirra sem reiða sig alfarið á almannatryggingar. Örorkubætur eiga ekki að vera undir lágmarkslaunum. Vinnumarkaður þarf að vera sveigjanlegur og hlutastörf eiga að vera í boði. Hið opinbera þarf að ganga á undan með góðu fordæmi og ráða fólk með skerta starfsgetu til starfa.

Gera þarf lífeyriskerfið gagnsærra og halda áfram að minnka vægi skerðinga innan þess. Kerfið á að styðja við virkni og atvinnuþátttöku fólks og má ekki undir neinum kringumstæðum halda öryrkjum í fátæktargildru.

Efla þarf hvers kyns endurhæfingu, líkamlega og andlega en ekki síður starfstengda svo fólk geti verið virkt í samfélaginu og á vinnumarkaði, því sjálfu og þar með samfélaginu öllu til hagsbóta. Mikilvægt er að nám geti verið þáttur í endurhæfingu fólks.

Fatlað fólk og öryrkjar búa við ýmiskonar hindranir. Þeim þarf að ryðja úr vegi. Mismunun getur verið fjölþætt og birtist ólíkum hópum með ólíkum hætti. Einkum þarf að huga að hópum sem búa við samþætta mismunun svo sem fötluðum konum, sem eru í aukinni hættu á að verða beittar ofbeldi. Aðgerðir og stefnumótun stjórnvalda verða að taka mið af þessu svo allt fólk búi við jafna stöðu og eigi möguleika á að njóta sömu tækifæra.

Þegar heimsfaraldrar og hamfarir ganga yfir þarf sérstaklega að huga að fötluðu fólki og aðstandendum þeirra. Almannavarnir, og aðrir viðbragðsaðilar, þurfa að huga sérstaklega að þessum hópi í öllum viðbragðsáætlunum og aðgerðum. Þetta á meðal annars við um rýmingaráætlanir, vegna náttúruhamfara, og sóttvarnaráætlanir. Öryggi og velferð fatlaðs fólks skal ávallt höfð í fyrirrúmi. Í þeim stafrænu umbreytingum, sem nú standa yfir, þarf að tryggja að stafrænar lausnir uppfylli kröfur um aðgengi fyrir alla. Miklu skiptir að við öll, þar með talið fatlað fólk, höfum jafnt aðgengi að stafrænum heimi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search