Search
Close this search box.

Stjórnmálaályktun flokksráðs 8. febrúar 2019

Samþykkt:

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Grand hóteli í Reykjavík 8. febrúar 2019 brýnir hreyfinguna til frekari dáða í samfélagslegri uppbyggingu. Á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá stofnun VG hefur hreyfingin beitt sér markvisst fyrir félagslegu réttlæti, kvenfrelsi, umhverfisvernd og friðarstefnu. Kjörnir fulltrúar hreyfingarinnar hafa unnið ötullega að þessum stefnumálum, í sveitarstjórnum og á Alþingi, í stjórn sem og stjórnarandstöðu.

Sá árangur sem náðst hefur í umhverfismálum frá stofnun hreyfingarinnar er mikið fagnaðarefni. Í fyrsta skipti er loftslagsáætlun stjórnvalda fjármögnuð  auk þess sem henni fylgja raunverulegar aðgerðir þar sem sett eru skýr markmið um samdrátt gróðurhúsalofttegunda, aukna kolefnisbindingu og kolefnishlutleysi 2040 sem hreyfingin setti fyrst á dagskrá árið 2015. Þá er mikilvægt að umhverfisráðherra haldi áfram átaki í friðlýsingarmálum.

Vinstri græn árétta mikilvægi þess að leita allra leiða til að útrýma kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Sá veruleiki sem #metoo bylgjan hefur afhjúpað á að heyra sögunni til. Hreyfingin fagnar þeim krafti sem settur hefur verið í bætta meðferð kynferðisbrotamála og þeirri vinnu sem nú stendur yfir um endurskoðun á réttarstöðu brotaþola og við mótun stefnu í fræðslu og forvörnum. Þá er mikilvægt að þjónusta við þolendur hefur verið efld og nýtt verklag í heimilisofbeldismálum hefur víða verið innleitt.  Alþingi er hvatt til að ljúka við afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi svo halda megi áfram að vinna gegn ofbeldi af öllum mætti. Ofbeldi gegn konum er bæði orsök og afleiðing kynjamisréttis og taka þarf mið af því í öllum aðgerðum sem gripið er til. Þá hvetur fundurinn til þess að kjörnir fulltrúar beiti sér fyrir því að lagaumhverfi hinsegin fólks verði framúrskarandi á alþjóðavísu og fagnar auknum stuðningi við þennan málaflokk í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er að tryggja jöfnuð, velferð og mannsæmandi kjör fyrir alla. Mikilvægt er að vinna með markvissum aðgerðum gegn ójöfnuði í íslensku samfélagi og útrýma fátækt á Íslandi. Fundurinn tekur undir kröfur um kjarabætur til tekjulægstu hópanna og að öllum verði tryggð mannsæmandi kjör.  Vinstri græn lýsa yfir ánægju með nýjar tillögur um húsnæðismál og uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. Fundurinn fagnar þeim skrefum sem stigin hafa verið til að lækka kostnað við heilbrigðisþjónustu og mótun heilbrigðisstefnu. Fundurinn er sammála þeim áherslum sem birst hafa í skattamálum þar sem fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður, barnabætur og persónuafsláttur hafa hækkað og efri og neðri mörk skattkerfisins hafa verið samræmd. Mikilvægt er að frekari breytingar efli jöfnuð enn frekar. Þá hvetur fundurinn til þess að áfram verði haldið á þeirri braut að efla og draga úr kostnaði fólks við opinbera heilbrigðisþjónustu. Efla skal menntun á öllum skólastigum enda er endurgjaldslaus menntun í senn mikilvægt jöfnunartæki, forsenda þess að hver og einn geti þroskað hæfileika sína óháð uppruna og atgervi og undirstaða fjölbreytts atvinnulífs og lýðræðislegs samfélags til framtíðar. Á tímum vaxandi fólksflutninga í heiminum þurfa Íslendingar að axla meiri ábyrgð og taka betur á móti fólki af erlendum uppruna sama hverjar aðstæður þeirra eru. Sérstaklega þarf að tryggja börnum og ungmennum sem hafa annað móðurmál en íslensku þau réttindi sem þeim ber.

Hreyfingin áréttar mikilvægi þess að halda áfram að efla innviði samfélagsins og að byggja upp heilbrigt fjármálakerfi því til stuðnings. Mikilvægt er að draga skýra varnarlínu milli viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi og tryggja að fjármálakerfið þjóni almenningi en ekki fáum útvöldum. Jákvætt viðhorf almennings til eignarhalds ríkisins í fjármálakerfinu sýnir mikilvægi þess að ríkið eigi áfram a.m.k. einn banka.

Vinstri græn telja mikilvægt að áfram verði unnið að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og byggt verði á þeirri vinnu sem unnin hefur verið undanfarinn áratug, í vinnu stjórnlaganefndar, stjórnlagaráðs, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og stjórnarskrárnefndar. Það er mikilvægt að ná árangri við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Vinstri-græn munu leggja sitt af mörkum í því verkefni.

Uppgangur þjóðernishyggju á alþjóðavísu er ógn við mannréttindi og alþjóðasamstarf sem hefur verið hornsteinn friðar í heiminum. Vinstri græn telja mikilvægt að viðhalda alþjóðlegum stofnunum og að efla þverþjóðlega samvinnu á vinstri vængnum til að sporna gegn afturhaldssömum valdboðsstjórnmálum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search