Search
Close this search box.
08.05.21

Landsfundur 2021

Deildu 

Stjórnmálaályktun landsfundar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 leggur áherslu á að hreyfingin leiði næstu ríkisstjórn að loknum kosningum í haust.

Þótt núverandi stjórnarsamstarf hafi verið umdeilt er málefnalegur árangur Vinstri grænna af samstarfinu óumdeildur. Nægir þar að nefna:

 • þrepaskipt tekjuskattskerfi tekið upp
 • fæðingarorlof lengt úr níu mánuðum í tólf með skýrum reglum um skiptingu milli foreldra
 • stytting vinnuvikunnar
 • lægri kostnaðarþátttöku sjúklinga
 • dregið úr skerðingum í almannatryggingakerfinu
 • ný hlutdeildarlán fyrir þau sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð
 • dregið úr skerðingum á greiðslum til öryrkja og tekinn upp félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða
 • barnabætur og atvinnuleysisbætur hækkaðar
 • stuðningskerfi við börn  endurskoðuð frá grunni með það að leiðarljósi að bæta hag barna sem þurfa á sértækri þjónustu að halda;
 • aukna fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun og aukinn stuðning við menntakerfið
 • byggingu nýs Landspítala
 • eflingu  heilsugæslunnar um allt land
 •  stórsókn í geðheilbrigðismálum
 • fullfjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
 • aldrei fleiri friðlýsingar náttúruminja
 • ný lög um kynrænt sjálfræði
 • mikilvæg skref stigin við innleiðingu hringrásarhagkerfisins, m.a. bann við markaðssetningu óþarfa einnota plasts
 • ný lög um þungunarrof

Nú hillir undir tímamót í baráttunni við heimsfaraldurinn sem sett hefur mark sitt á samfélagið undanfarin misseri. Fólkið í landinu á mestan heiður skilinn fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í baráttunni við veiruna. Á sama tíma hafa stjórnvöld unnið vel með fagfólki og vísindafólki til að tryggja skilvirkar og árangursríkar sóttvarnir án þess að gengið sé lengra en þörf er á. Eftir því sem bólusetningum vindur fram hérlendis sem erlendis verður hægt að slaka á sóttvörnum og hefja uppbygginguna. Stjórnvöld hafa stutt við fólk og fyrirtæki til að lágmarka samfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins en þegar uppbyggingin hefst skiptir öllu að hún verði græn, sjálfbær og tryggi jöfnuð og félagslegt réttlæti. 

Stærsta viðfangsefnið er að að skapa ný störf með fjölbreyttum fjárfestingum og áframhald öflugra vinnumarkaðsaðgerða til þess að fyrirbyggja að langtíma atvinnuleysi festist í sessi í íslensku samfélagi með tilheyrandi samfélagslegum afleiðingum.

Næsta ríkisstjórn þarf að halda áfram á sömu braut í loftslagsmálum, auka metnað enn frekar í markmiðum sínum, draga enn meir úr losun, auka kolefnisbindingu og tryggja að aðgerðir gegn loftslagsvánni séu félagslega réttlátar. Það þarf að tryggja grænar áherslur í atvinnuuppbyggingu og nýta þau miklu sóknarfæri sem íslenskt samfélag á í þekkingariðnaði, nýsköpun og skapandi greinum. Það á að halda áfram að efla menntun á öllum skólastigum, tryggja nýliðun í kennarastétt og styðja enn betur við nemendur. Raunhæfar aðgerðir þarf til að útrýma launamun kynjanna, meðal annars með endurmati á stöðu kvennastétta. Næsta ríkisstjórn á að ljúka endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Huga þarf sérstaklega að stöðu öryrkja með börn og styrkja grunnframfærslu almannatrygginga. Mikilvægt er að gæta að samspili atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga með það fyrir augum að framfærsla verði tryggð.

Næsta ríkisstjórn á að halda áfram uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis, sem er besta leiðin til að tryggja sanngjarnan húsnæðismarkað og tryggja fjölbreytt húsnæði fyrir okkur öll. Það á að halda áfram að draga úr kostnaði sjúklinga og efla enn frekar opinbera heilbrigðiskerfið. Frekari aðgerða er þörf til að tryggja réttarstöðu brotaþola og bæta málsmeðferð í kynbundnum ofbeldismálum og kynferðisbrotamálum. Næsta ríkisstjórn á að skjóta nýjum stoðum undir innlenda matvælaframleiðslu, auka nýsköpun og lífræna ræktun. 

Einnig þarf að styðja við endurreisn ferðaþjónustunnar og tryggja að hún geti dafnað með sjálfbærum hætti. Hálendisþjóðgarður á að verða að veruleika og mun verða eitt stærsta framlag þjóðarinnar til náttúruverndar á heimsvísu, sem mun skipta máli til langrar framtíðar. Tryggja þarf að lögreglan hafi mannafla til að taka með skýrum hætti á alþjóðlegri glæpastarfsemi. Það á að halda áfram umbótum á vinnumarkaði, koma í veg fyrir félagsleg undirboð og tryggja alvöru aðgerðir til að útrýma launaþjófnaði sem á hvergi heima á heilbrigðum vinnumarkaði. 

Áfram á að efla stuðning við fólk á flótta og tryggja að innflytjendur hafi hér tækifæri til að skapa sér betra líf. Fjölga á störfum án staðsetningar hjá hinu opinbera, vinna áfram að innviðauppbyggingu um land allt og tryggja tækifæri til menntunar, rannsókna og nýsköpunar í öllum landshlutum. Baráttunni fyrir mannréttindum lýkur aldrei og mikilvægt er að halda henni áfram á öllum sviðum, meðal annars með því að halda áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar, þar á meðal mannréttindakafla hennar. Auðlinda- og umhverfisákvæði í stjórnarskrá á að afgreiða á Alþingi í haust.

Heimsfaraldur, efnahagslægð og loftslagsvá munu skapa hættu á auknum ójöfnuði og ranglæti. Einmitt þess vegna er mikilvægt að Vinstrihreyfingin-grænt framboð haldi ótrauð áfram sínum góðu verkum og tryggi með öllum sínum krafti að Ísland verði enn betra samfélag, Ísland verði gott samfélag fyrir okkur öll.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search