EN
PO
Search
Close this search box.
25.10.11

Landsfundur 2011

Deildu 

Ályktun um kvenfrelsi

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur allt frá stofnun flokksins verið í fararbroddi í baráttunni fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Fulltrúar flokksins hafa haft kjark til að setja erfið mál á dagskrá og fylgja þeim eftir í samfélagsumræðunni, á þingi og í sveitarstjórnum. Þannig hafa Vinstri græn haft mótandi áhrif á hugsunarhátt og samfélagið í heild sinni.

Þátttaka í ríkisstjórn hefur svo gert flokknum kleift að breyta miklu. Baráttumál til margra ára hafa hlotið brautargengi svo sem bann við vændiskaupum, bann við nektardansstöðum, bætt lög gegn kynbundnu ofbeldi á heimilum (austurríska leiðin) og aðgerðaráætlanir gegn mansali, kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi hafa verið samþykktar. Að auki hafa kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja verið festir í lög og kynjuð fjárlagagerð verið innleidd við gerð fjárlaga sem er mikilvægt skref í átt að kynjaðri hagstjórn. Gefið hefur verið út kennsluefni fyrir grunn- og framhaldsskólanema um kynjajafnrétti og jafnréttismenntun er orðin einn af fimm grunnþáttum í nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Verkefnin framundan eru hins vegar ærin og landsfundur brýnir fyrir kjörnum fulltrúum flokksins, að fylgja þurfi eftir þessum mikilvægu verkefnum af festu.

Vinstri græn telja þörf á að efla Jafnréttisstofu til muna. Tryggja verður að fjárveitingar til Jafnréttisstofu séu fullnægjandi til að hún geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Til þess að Jafnréttisstofa geti sinnt því viðamikla starfi sem henni er ætlað í íslensku samfélagi er nauðsynlegt að færa Jafnréttisstofu öflugar eftirlits-, rannsóknar- og sektarheimildir.

Grípa þarf til aðgerða til að útrýma launamun kynjanna, sem ekki verður unað við lengur. Meta þarf hefðbundin kvennastörf á við framlag og störf karla, sem og samfélagslegt framlag kvenna við störf inni á heimilum.

Ályktun um jafnrétti í stjórnarráðinu

Landsfundur VG vill jafna stöðu kynjanna á Íslandi og leggur til að ríkisstjórnin gangi fram fyrir skjöldu. Nauðsynlegt er að hrinda raunverulegum jafnréttisumbótum í framkvæmd innan stjórnarráðsins. Í því skyni þarf að ráða jafnréttisfulltrúa í öll ráðuneyti og taka allt jafnréttisstarf alvarlega.

Landsfundur álítur nauðsynlegt að jafnréttislög séu í stöðugri endurskoðun og leggur til að lögfest verði að slík endurskoðun fari fram með reglulegu millibili. Fundurinn bendir einnig á mikilvægi þess að öll lög verði yfirfarin með sjónarmið kynjajafnréttis að leiðarljósi.

Ályktun um jafnrétti í fjölmiðlum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri helgina 26. til 28. október 2011, fagnar þeim áherslum á jafnrétti og jafna stöðu kynjanna sem fram koma í nýrri heildarlöggjöf um fjölmiðla. Þar er fjölmiðlum falin sú ábyrgð að taka saman árlega skýrslu um hvernig kynin birtast í umfjöllun þeirra, hlutfall kynja á meðal starfsfólks og gera grein fyrir aðgerðum þeirra til að vinna gegn staðalímyndum kynjanna. Tryggja þarf að fjölmiðlar uppfylli þessa grein laganna.

Landsfundur hvetur fjölmiðla til að sýna ábyrgð í verki í baráttunni fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu kynjanna. Fundurinn áréttar skyldu fjölmiðla til að setja sér jafnréttisáætlun og samþætta jafnréttissjónarmið á öllum sviðum, hvort sem um að ræða ritstjórnarstefnu, laun, starfsmannahald eða varðandi inntak frétta og fréttatengds efnis.

Fjölmiðlar hafa veruleg áhrif á samtíð sína og eru iðulega skilgreindir sem fjórða valdið. Þeir gegna lykilhlutverki við mótun hefða, gilda og fyrirmynda. Því er afar mikilvægt að þeir axli ábyrgð í þessum málum og tryggi þar með sanngjarna umfjöllun um kynin, sem er mikilvægur þáttur í lýðræðislegri umræðu.

Ályktun um jafnrétti í Vinstri grænum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í menningarhúsinu Hofi 28.–

  • október 2011 telur að flokksforystan hafi ekki staðið sig sem skyldi í jafnréttismálum. Það er hlutverk flokks sem kennir sig við jafnrétti að tryggja að jafnt kynjahlutfall sé í ríkisstjórn, öllum skipuðum nefndum stjórnarinnar, sem og í öllu starfi flokksins.

Þrátt fyrir ríka áherslu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á kvenfrelsi er mikilvægt að sofna ekki á verðinum og ástunda virka sjálfskoðun á stefnu og innra starfi flokksins. Eitt brýnasta verkefnið er að samþætta hugmyndafræði kvenfrelsis inn í allar stofnanir flokksins. Nýta þarf kynjakvóta við uppstillingu og í forvalsreglum, sem og skipan í embætti og trúnaðarstörf með það að markmiði að ekki halli á konur. Sú stefna sem mörkuð var af hugmyndasmiðju um kvenfrelsi á fyrstu árum flokksins er enn í fullu gildi, en hana þarf að endurskoða með tilliti til þess sem áunnist hefur og nýrra áherslna og viðfangsefna. Eðlilegt er að hreyfingin móti sér viðbragðsáætlun vegna kynbundins ofbeldis, enda eiga allar stofnanir og félagasamtök að hafa slíka áætlun.

Landsfundur felur því stjórn flokksins að vinna að endurskoðun á kvenfrelsisstefnu flokksins og viðbragðsáætlun vegna kynbundins ofbeldis. Endurskoðuð stefna verði lögð fyrir landsfund árið 2013, en viðbragðsáætlunin verði lögð fyrir flokksráð strax á næsta ári.

Að lokum brýnir landsfundur alla félaga til að taka höndum saman og axla ábyrgð á að útrýma kynjamisrétti. Jafnrétti næst ekki fyrr en hugarfar og framkvæmd einkennist af hugmyndafræði kvenfrelsis.

Ályktun gegn mansali, vændi og kynbundnu ofbeldi

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Akureyri helgina 28.-30. október skorar á stjórnvöld að taka virkan þátt í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og styðja áfram við þau samtök sem veita brotaþolum aðstoð við að vinna úr reynslu sinni. Tryggja þarf að kynferðisbrotamál hljóti sanngjarna réttarfarslega meðferð á öllum stigum og landslögum sé fylgt eftir í hvívetna. Skýr vilji og skilningur á málaflokknum þarf að vera fyrir hendi svo hægt sé að vinna bug á vandanum. Ennfremur skorar landsfundur á menntamálaráðherra og fulltrúa flokksins í sveitarstjórnum að þrýsta á þá skóla sem ekki hafa tekið upp jafnréttisfræðslu að gera það hið fyrsta. Jafnréttisfræðsla getur verið öflug forvörn gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi og er sjálfsagður hluti af lífsleiknikennslu í grunnskólum landsins.

Næsta verkefni er að vinna að lagabreytingu, þannig að þó kynferðisbrot séu framin erlendis séu þau refsiverð hér heima. Styrkari löggjöf gegn vændi, mansali og nektardansstöðum dugar ekki ein og sér. Landsfundur ítrekar að framfylgja þarf landslögum og auka eftirlit lögreglu til að koma í veg fyrir mansal og vændi. Í því skyni þarf m.a. að stöðva vændisauglýsingar. Jafnframt er eðlilegt að sömu viðmið gildi um nafnbirtingar dæmdra vændiskaupenda og annarra dæmdra afbrotamanna.

Ályktun um nýtingu auðlinda á láði og legi

Landsfundur VG vill að gengið verði frá löggjöf um sjálfbæra nýtingu auðlinda á láði og legi, þar sem tekin verða af öll tvímæli um eignarhald þjóðarinnar þar sem það á við og girt fyrir alla tilburði til einkavæðingar.

Um rammaáætlun

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktar að biðflokkur og verndarflokkur rammaáætlunar verði stækkaðir frá því sem lagt er til í drögum að þingsályktunartillögu sem er nú í umsagnarferli. Í biðflokk fari þær virkjanahugmyndir sem nú eru í nýtingarflokki en ekki er sátt um vegna skorts á rannsóknum á mikilvægum sviðum.

Landsfundur fagnar því sérstaklega að dýrmæt svæði eins og t.a.m. Þjórsárver, Torfajökull, Kerlingarfjöll, Gjástykki og fleiri eru nú, samkvæmt tillögu verkefnisstjórnar, flokkuð í verndarflokk. Baráttunni er hins vegar ekki lokið. Í þeim efnum ítrekar landsfundur fyrri samþykktir um að ekki verði farið í virkjanaframkvæmdir í byggð við Þjórsá og að staðinn sé vörður til framtíðar um vernd jökulánna í Skagafirði, Skjálfandafljóts, Skaftár og Hólmsár sem nú er á barmi nýtingar. Brýnt er og að endurskoða stöðu svæða sem alltof lítil umræða hefur verið um, s.s. Stóru Sandvíkur á Reykjanesskaga og virkjun Skrokköldu og Hágöngulón.

  • vettvangi rammaáætlunar skortir á að samfélagsleg áhrif hafi verið greind og rýnd með viðunandi gögnum. Landsfundur hafnar því alfarið að virkjuð verði svæði þar sem viðunandi rannsóknir á svo mikilvægum þáttum liggja ekki fyrir, s.s. áhrifum á náttúru, lífríki, vistkerfi, landslag, menningarminjar, ferðaþjónustu, útivist, mannlíf og samfélagsgerð viðkomandi svæða. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ályktar jafnframt að skipuð verði ný verkefnisstjórn rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúruauðlinda á forsendum sjálfbærrar þróunar. Þriðja rammaáætlun bæti við rannsóknum á þeim sviðum sem ekki liggja fyrir í niðurstöðum annars áfanga og taldar hafa verið upp hér að ofan.

Bætt orkunýting raskaðra háhitasvæða

Landsfundur VG hvetur til bættrar orkunýtingar á þeim jarðhitasvæðum sem þegar hafa verið brotin undir virkjanir. Á háhitasvæðum sem einvörðungu eru nýtt til raforkuframleiðslu er nýting jarðhitans takmörkuð og í engu samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Með bættri nýtingu jarðhitasvæða, s.s. með því að stilla raforkuframleiðslu í hóf, með fiskeldi og ylrækt, má efla atvinnulíf og auka verðmætasköpun án þess að raska þurfi óröskuðum háhitasvæðum. Jafnframt þarf að rannsaka betur áhrif háhitavirkjana á lífríki og umhverfi.

Ályktun um hafið

Landsfundur VG hvetur til þess að strandsvæði og grunnslóðir verði í auknum mæli friðaðar fyrir togveiðum og hlutdeild vistvænna veiða verði aukinn.

Þá hvetur Landsfundur VG ríkisstjórn Ísland til að vinna að vernd alþjóðlegra hafsvæða fyrir hvers kyns rányrkju, sjóræningjaveiðum og botnvörpuveiðum á viðkvæmum hafsvæðum og stjórnlausum veiðum.

Fundurinn bendir á að hafið er ein heild – ofveiði, súrnun sjávar, mengun af völdum þrávirkra lífrænna eiturefna verður ekki stöðvuð nema með alþjóðlegum aðgerðum á grundvelli Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, Loftslagssáttmálans og annarra alþjóðlegra stofnanna.

Íslandi ber að styðja við hertar alþjóðlegar aðgerðir á vegum Sameinuðu þjóðanna og/eða svæðisbundinna fiskveiðisamninga til að vernda fiskistofna og líffræðilega fjölbreytni.

Ályktun um Hofsjökuls þjóðgarð

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs haldinn á Akureyri 28. – 30. október 2011 fagnar fram kominni tillögu til þingsályktunar um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs og samþykkir að nú þegar verði hafinn undirbúningur að stofnun þjóðgarðs sem taki til Þjórsárvera, Torfajökulssvæðisins, Orravatnsrústa, jökulánna í Skagafirði, friðlandsins í Guðlaugstungum og Kerlingarfjalla.

Ályktun um þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum

Landsfundur fagnar áformum um nýjan þjóðgarð á Látrabjargi og í landi gamla Rauðasandshrepps.

Ályktun um hvali

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur til að skipulag hvalveiða verði tekið til gagngerrar endurskoðunar, í samstarfi við umhverfisráðuneytið og sjávarútvegs – og landbúnaðarráðuneytið. Sjálfbærni veiðanna verði könnuð og þær metnar út frá heildarhagsmunum þjóðarbúsins, bæði efnahagslegum hagsmunum, dýraverndunar-sjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum. Þá leggur landsfundurinn til að griðasvæði hvala í Faxaflóa verði stækkað, frá Eldey í suðri að ysta oddi Snæfellsness í norðri og tryggt verði griðasvæði hvala fyrir Norðurlandi þar sem hvalaskoðun hefur verið vaxandi atvinnugrein. Brýnt er að setja heildstæðar reglur um framkvæmd og skipulag hvalaskoðunar.

Ályktun um vatn

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs krefst þess að ráðherrar Vinstri grænna og þingmenn beiti áhrifum sínum innan ríkisstjórnar og á Alþingi til að tryggja að eignarhald á vatni verði í nafni íslensku þjóðarinnar. Jafnframt að eignarhaldi á landi fylgi skilyrtur afnotaréttur á því yfirborðsvatni sem á landareigninni er, sem og á grunnvatni jarðeignar. Tryggt verði að eignarrétti á landi fylgi ekki eignarréttur á vatni.

Þessum áherslum verði fundinn staður í nýjum vatnalögum er taki til alls vatns, yfirborðsvatns jafnt sem grunnvatns. Ennfremur skorar landsfundurinn á ráðherra, þingmenn og aðra félaga og stuðningsmenn VG að beita sér að ákvæði sama efnis verði sett í stjórnarskrá.

Telur landsfundurinn eðlilegt að forsjá vatnamála falli undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti en ekki undir iðnaðarráðuneyti. Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.

Ályktun um lífræna ræktun

Landsfundur VG haldinn á Akureyri 28.-30. október skorar á þingflokk og ráðherra VG að fylgja eftir tillögu til þingsályktunar um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði. Sérstaklega skal huga að rannsóknum og aðlögunarstyrkjum.

Árósarsamningur

Landsfundur VG haldinn á Akureyri 28.-30. október 2011 fagnar fullgildingu Árósarsamningsins.

Merking erfðabreyttra matvæla

Landsfundur VG haldinn á Akureyri 28.-30. október 2011 fagnar nýrri reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og hvetur eindregið til þess að hún taki gildi sem fyrst.

Ályktun um loftslag

Landsfundur VG áréttar nauðsyn þess að ríkisstjórnin fylgi fast eftir markmiði Kaupmannahafnarráðstefnunnar í desember 2009 um alþjóðlegar aðgerðir í loftslagsmálum, að meðalhækkun hitastigs andrúmslofts jarðar aukist ekki um meira en 2°C að meðaltali, og að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 30% fyrir árið 2020, samkvæmt loftslagsstefnu ESB sem Ísland er aðili að.

Ályktun um undirbúning nýrra náttúruverndarlaga

Landsfundur fagnar metnaðarfullum undirbúningi nýrra náttúruverndarlaga sem endurspeglast í Hvítbók sem nýlega var lögð fram og liggur nú til umsagnar.

Um aðildarviðræður við ESB

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Landsfundurinn ályktar að í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu og leggur áherslu á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum, s.s. makríl, kolmunna, úthafskarfa, loðnu og norsk-íslensku síldinni. Sama á við hvað varðar umfang á stuðningi við íslenskan landbúnað svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað er að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.

Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins. Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur.

Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar.

Ísland úr Nató

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fagnar tillögu þeirri sem lögð hefur verið fram á Alþingi um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Nató. Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga, hafna vígvæðingu og tala í hvívetna fyrir friðsamlegum lausnum í deilum. Hið árásargjarna eðli Nató sem hernaðarbandalags má vera flestum ljóst og hefur enn sannast á liðnum árum, s.s. í Afganistan og Líbíu.

Fundurinn minnir á ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. Mikilvægt er að slík friðlýsing verði til grundvallar í þeirri stefnumótun í utanríkis- og öryggismálum þjóðarinnar sem nú stendur yfir. Sú stefnumótun verður að byggja á breyttri heimsmynd og víðari skilgreiningu á öryggishugtakinu, þar sem tekið er mið af öðrum ógnum en ímynduðum hernaðarógnum.

Vinstri græn hafna sömuleiðis heræfingum Nató-herja í íslenskri lögsögu, enda hafa þær engu jákvæðu hlutverki að gegna. Undir það fellur svokallað „loftrýmiseftirlit“. Flugæfingar þessar eru háskalegar, truflandi, skapa óöryggi og hræðslu og þjóna mannfjandsamlegum tilgangi.

Ályktun um sjálfstætt ríki Palestínu

Landsfundur VG fagnar framkominni þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að Palestína verði viðurkennt sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sexdagastríðið 1967. Jafnframt hvetur fundurinn Alþingi til að samþykkja tillöguna. Þá er mikilvægt að tryggja rétt palestínsku þjóðarinnar til vatns og annarra auðlinda, ferðafrelsis, búsetu, atvinnu og mannréttinda.

Stefna Vinstri grænna í málefnum Íslands og norðurslóða

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs samþykkir að fela kjörnum fulltrúum hreyfingarinnar að vinna að því að

Norðurskautsráðið verði eflt.

Háskólinn á Akureyri og samstarfsstofnanir fái svigrúm til að þróa áframhaldandi rannsóknir og kennslu í málefnum norðurslóða.

Stjórnvöld efli getu Íslands til björgunar og viðbragða við umhverfisslysum á norðurslóðum..

Umhverfissjónarmið og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar verði alltaf höfð til grundvallar auðlindanýtingar á svæðinu ekki síst að því er varðar loftslagsbreytingar. á norðurslóðum.

Stjórn VG verði falið að skipa hóp sem móti stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í norðurslóðamálum fyrir landsfund og kosningar 2013.

Ályktun um heilbrigðiskerfið

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. –

  • október 2011, ályktar gegn frekari niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Ljóst má vera að heilbrigðiskerfið er löngu komið að þolmörkum þar sem skorið var niður í málaflokknum undir einkavæðingarstefnu fyrri ára. Fundurinn hvetur til að heilbrigðiskerfið verði endurskipulagt í samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann sem gerir ráð fyrir eflingu heilsugæslunnar og tilvísanakerfi svo að fjármagn nýtist sem best til þess að tryggja heilbrigði þjóðarinnar.

Frekari niðurskurður í heilbrigðiskerfinu getur ekki orðið án þess að þjónusta við sjúklinga skerðist alvarlega og heilsuspillandi álag á heilbrigðisstarfsfólk aukist. Fundurinn hvetur til þess að aukið svigrúm í ríkisfjármálum verði nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu með því að draga úr niðurskurði og byggja hana upp til frambúðar.

Ályktun um úrræði fyrir unglinga í vímuefnavanda

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. – 30. október 2011, bendir á að staða unglinga í vímuefnavanda og fjölskyldna þeirra er alvarleg. Fundurinn hvetur stjórnvöld til að setja aukið fjármagn í forvarnir og úrræði fyrir þennan hóp.

Réttur til fæðingarorlofs

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. – 30. október 2011 vill að öllum foreldrum verði tryggður réttur til fæðingarorlofs.. Fæðingarorlof skal vara í eitt ár og miðast við 100% laun foreldra upp að ákveðnu tekjumarki og með ákveðnu lágmarki.

Ályktun um fátækt á Íslandi

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. -30.október 2011 vill árétta að fátækt er staðreynd á Íslandi. Við því þarf að bregðast. Forgangsröðun fjármuna á að miða að því að allir hafi í sig og á, þak yfir höfuðið og að öll börn hafi kost á að þroskast á eðlilegan hátt. Það á að vera algert forgangsmál að tryggja rétt fólks til þátttöku í samfélaginu. Með aukinni virkni aukast möguleikar á því að komast út úr vítahring atvinnuleysis.

Ályktun um málefni ellilífeyrisþega og öryrkja

  • kjölfar efnahagshrunsins hafa öryrkjar og ellilífeyrisþegar orðið fyrir margvíslegum skerðingum bæði fjárhagslega og hvað réttindi varðar. Frá því í janúar 2009 hafa umtalsverðar tekjuskerðingar átt sér stað í almannatryggingakerfinu og núverandi ríkisstjórn hefur bætt um betur, einkum með ráðstöfunum sem tóku gildi 1. júlí 2009. Landsfundur VG haldinn 28.-30. október 2011 krefst þess að málefni öryrkja og ellilífeyrisþega verði tekin til gagngerrar skoðunar og kjör þeirra leiðrétt hið fyrsta. Landsfundurinn minnir á eftirfarandi orð í stefnuyfirlýsingu VG: „Skylt er að tryggja vaxandi hópi aldraðra mannsæmandi kjör og aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu. Gera verður átak til að stórbæta kjör og allar aðstæður öryrkja.“

Ályktun um menntamál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. -30.október 2011 fagnar þeim árangri sem náðst hefur í menntamálum. Sérstaklega fagnar fundurinn þeim áfanga sem náðist þegar ríkisstjórnin ákvað að ríkið myndi greiða fyrir framhaldsstig í tónlistarnámi sem er gamalt baráttumál VG. Þá fagnar landsfundurinn menntaátaki stjórnvalda, Nám er vinnandi vegur, sem miðar að því að greiða leið ungra atvinnuleitenda inn í skólakerfið. Mikilvægt er að fjölga þeim sem ljúka framhaldsnámi að loknum grunnskóla og auka þannig almennt menntunarstig í landinu. Fundurinn fagnar líka nýjum námskrám þar sem m.a. jafnréttismenntun er meðal grunnþátta í námi frá leikskóla upp í framhaldsskóla.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs varar við hugmyndum um afnám skólaskyldu sem verið hafa í umræðunni. Skólaskyldan er grundvallaratriði til að tryggja jöfnuð í samfélaginu og er í samræmi við sáttmála SÞ um réttindi barnsins. Þá hvetur fundurinn til þess að við endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem nú stendur yfir verði skoðað að taka upp samtímagreiðslur námslána og horfið verði frá yfirdráttalánum sem nú tíðkast.

Að lokum hafnar fundurinn frekari einkarekstri í menntakerfinu og hvetur til að menntun og skólar verði forgangsatriði stjórnvalda við fjárlagagerð næstu ára.

Ályktun um yfirfærslu á málefnum Fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. –

30.október 2011, vill árétta nauðsyn þess að fjármagn sé tryggt til sveitarfélaga vegna flutnings málaflokks fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Ljóst er að sveitarfélög standa misvel að vígi til að veita grunnþjónustu í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks og alþjóðlegar samþykktir sem íslensk stjórnvöld eru aðilar að.

Ályktun um öryggi almennings

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. –

30.október 2011, ályktar að mikilvægt sé að öryggi almennings sé ekki ógnað með niðurskurði, hvort sem er í heilbrigðismálum, löggæslu eða öðru. Sífellt þarf að vera vakandi fyrir fullnægjandi menntun þeirra starfsstétta sem hér um ræðir.

Ályktun um lánamál heimilanna

  • ljósi þess að enn ríkir engin sátt um lánamál heimilanna hvetur landsfundur til að komið verði á sameiginlegum vettvangi, þar sem deiluaðilar verði leiddir saman, sem hafi það að markmiði að finna málamiðlun. Samningar eru forsenda sátta.

Stór hópur ungs fólks sem keypti sína fyrstu íbúð á árunum fyrir hrun hefur í takmörkuðu mæli getað nýtt sér úrræði í þágu skuldsettra heimila, þ.e. fólk sem fékk lánsveð hjá ættingjum. Landsfundur hvetur til þess að lögum og/eða reglugerðum verði breytt um þessi úrræði þannig að þessi hópur hljóti réttláta úrlausn sinna mála.

Sjálfbær húsnæðisstefna

Húsnæði fyrir alla

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tryggja öllum þjóðfélagsþegnum öruggt og boðlegt húsnæði óháð efnahag og félagslegum aðstæðum. Öruggir búsetukostir skulu standa öllum til boða. Stuðla ber að einföldu og skilvirku húsnæðiskerfi þar sem nægjanlegt framboð er af búsetukostum í bæði leigu- og eignarhúsnæði. Vinstri græn vilja taka löggjöf um húsnæðismál til gagngerrar endurskoðunar þannig að hún taki mið af þörfum landsmanna, en snúist ekki eingöngu um veðlán á alltof háum verðtryggðum vöxtum eins og verið hefur um áratugaskeið. Húsnæðisstefna stjórnvalda þarf að taka mið af því hvernig við viljum búa í framtíðinni, um búsetuformið sjálft og félagslegan fjölbreytileika, innviði borga, bæja og íbúðarhverfa, lífssýn og væntinga um lífshamingju. Vinstri græn vilja jafnframt gefa þeim heimilum í landinu sem það kjósa kost á að flytja mikið veðsettar íbúðir yfir í íbúasamvinnufélög eða fasteignaleigufélög gegn búseturétti.

Fjölbreyttari valkostir

Vinstri græn vilja auka hlutfall leiguhúsnæðis á húsnæðismarkaði með því að stuðla að bættri löggjöf fyrir fasteignaleigufélög og leigjendur og gera leiguíbúðir að raunhæfum og góðum búsetukosti. Sérstaklega ber að líta til íbúasamvinnufélaga þar sem íbúar verða rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði. Vinstri græn vilja jafnframt styrkja sjálfseign íbúða með því að taka upp húsnæðisvísitölu þar sem áhættu er

dreift á milli lántakenda og lánveitenda. Húsnæðisvístala myndi draga úr þörf lántakenda til húsnæðisframlaga. Vinstri græn vilja ennfremur að stjórnvöld hverju sinni styðji við búsetukosti landsmanna með því að tryggja aðgang að lánsfé á sanngjörnum kjörum og með stuðningi í formi húsnæðisframlaga. Þá er lagt til að núverandi húsnæðisbótakerfi verði breytt og tekin verði upp húsnæðisframlög, í stað vaxta- og húsaleigubóta, sem taka mið af stærð fjölskyldu, húsnæði og efnahag hvort sem viðkomandi umsækjandi eða fjölskylda býr í eigin íbúð eða leiguhúsnæði.

Samráð við sveitarfélög

Vinstri græn vilja að stjórnvöld hafi gott samráð við sveitarfélögin í landinu til að tryggja öllum fjölbreytta valkosti í mismunandi búsetuformi og góða og skilvirka nærþjónustu. Sveitarfélögin kappkosti að bjóða fjölbreytta valkosti í gerð og stærð íbúðarhúsnæðis við skipulag og uppbyggingu nýrra hverfa og við endurnýjun eldri hverfa. Jafnframt er lögð áhersla á að sveitarfélögin geri raunhæfar spár um þörf á uppbyggingu á hverjum stað og að höfuðborgarsvæðið geri sameiginlega spá um þörf fyrir nýbyggingar eða endurnýjun fram í tímann. Sveitarfélögin á landsbyggðinni geri sömuleiðis spár um þörf fyrir nýbyggingar og endurnýjun fram í tímann. Þar sem sérstök þörf verður fyrir nýbyggingar komi til skattívilnana sem taki mið af húsnæðisvísitölu landshlutans. Jafnframt vilja Vinstri græn að þegar verði sett á stofn óháð húsnæðis- og búseturáðgjöf, sem heldur utan um lykilupplýsingar á húsnæðismarkaði og gerir spár um uppbyggingar- og endurnýjunarþörf á húsnæði fyrir húsnæðismarkaðinn í heild sinni. Hlutverk Íbúðalánasjóðs verði skilgreint betur og félagslegt hlutverk hans styrkt.

Vistvænt húsnæði

Vinstri græn leggja áherslu á að nýtt íbúðarhúsnæði verði vistvænt, sjálfbært og í hóflegri stærð. Tillit verði tekið til umhverfissjónarmiða við skipulag nýrra íbúðarhverfa hvað varðar, landnýtingu, almenningssamgöngur, sorphirðu, þjónustu og annað sem stuðlað getur að sjálfbærni samfélagsins. Fullt tillit verði tekið til þess að orkunotkun verði sem minnst við byggingu og rekstur íbúðarhúsnæðis og að lögun þess og skipulag sé með þeim hætti að þau markmið náist. Stuðla ber að því að efnisnotkun verði í samræmi við þessi markmið og að hægt verði að endurnýta eða farga byggingarefni síðar án þess að spilla umhverfinu. Þá leggja Vinstri græn áherslu á að tekið verði tillit til umhverfisþátta, veðurfars og staðbundinnar þekkingar, sögu og menningar. Að íbúðarhúsnæði framtíðarinnar verði góður vitnisburður um byggingarlist hverju sinni. Hugmyndafræði vistskipulags verði aðlöguð að íslenskum aðstæðum.

Endurnýjað húsnæði

Vinstri græn vilja að skipulega verði farið í það að endurnýja eldra íbúðarhúsnæði og aðlaga það að þörfum samtímans hverju sinni án þess að ganga á menningararf í byggðamynstri og í byggingarlist. Endurnýjun eldra íbúðarhúsnæðis verði örvað með sérstöku átaki og aðgerðum eins og t.d. með endurgreiðslu á virðisaukaskatti og lánsfé. Lögð verði áhersla á að bæta húsakost landsmanna, styrkja íbúðahverfi og nærþjónustu og nýta betur þá samfélagslegu innviði sem þegar eru til staðar. Þá verði aðgengi fyrir alla tryggt.

Orðskýringar:

Húsnæðisframlag. Lagt er til að notað verði orðið húsnæðisframlag í húsnæðisstefnuVinstrihreyfingarinnar græns framboðs í stað þess að nota orð eins og húsnæðisbætur. Húsnæðisframlag hefur jákvæðari merkingu og skírskotar til einhvers sem er lagt til með þeim sem kaupir eða leigir íbúð. Hann er ekki að fá bætur fyrir eitthvað heldur framlag. Orðið bætur hefur neikvæðari merkingu og sá sem býr í íbúð hefur ekki endilega orðið fyrir skaða eða missi. Í dönsku er notað orðið boligsikring og í sænsku er það orðið bostadsbidrag. Bæði skýrskota til framlags eða til að tryggja einhverjum eitthvað í stað skaðabóta.

Húsnæðisvísitala. Lagt er til að tekin verði upp húsnæðisvísitala sem tekur mið af þróunfasteignaverðs og dreifir áhættu af lántöku á milli lánardrottna og skuldunauta. Jafnframt því verði veðhlutfall lækkað og lánstími styttur á eignaríbúðum. Húsnæðisvísitala gildi fyrir ákvörðun á verði húsaleigu.

Íbúasamvinnufélög. Íbúasamvinnufélög eru húsnæðisfélög þar sem íbúar verða rétthafar ífélögunum og reksturinn í þágu íbúa en ekki markaðsafla. Eina arðsemiskrafan á reksturinn snýr að því að hægt sé að sinna rekstri og viðhaldi húsnæðis, borga af lánum og stuðla að uppbyggingu félagsins. Allar ákvarðanir eru teknar á íbúafundum og er reglan sú að hver rétthafi fari með eitt atkvæði. Til eru margvíslegar útfærslur á slíkum félögum bæði þar sem íbúar kaupa búseturétt þar sem lagt er til stofnfé og síðan borguð leiga eða leigurétt þar sem íbúar leggja fram tryggingu gegn rýmri réttindum leigjenda.

Félagslegt réttlæti

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fagnar skýrslu rannsóknanefndar Alþingis um orsakir og aðdraganda falls íslensku bankanna. Skýrslan er áfellisdómur yfir þeirri pólitísku hugmyndafræði sem réði ferð í íslensku samfélagi um langt árabil og því viðskiptalífi, stjórnsýslu og tíðaranda sem hún gat af sér. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur tekist á við það vandasama verkefni frá hruni að byggja íslenskt samfélag upp að nýju með þátttöku í stjórnarsamstarfi með Samfylkingunni frá árinu 2009. Margt hefur áunnist hvað félagslegt réttlæti varðar en margt er enn ógert.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra. Aðstaða allra landsmanna verður að vera sem jöfnust óháð búsetu og félagslegri stöðu. Krafa er um fullt jafnrétti til náms og jafnan rétt allra til opinberrar þjónustu, upplýsinga um samfélagsleg málefni og til virks tjáningarfrelsis.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að skilgreina þurfi hvaða grunnstofnanir samfélagsins eigi að vera í eigu almennings. Til þess að ná fram þessum markmiðum þarf að setja valdi fjármagns og markaðsafla skorður, tryggja réttláta tekjuskiptingu og lýðræðislega stjórnarhætti.

Ákveðin skref hafa þegar verið stigin til að breyta skattkerfi landsins til tekjujöfnunar. Auka þarf ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og endurskoða enn betur samspil almannatrygginga, lífeyrissjóða og skatta. Auk þess þarf að endurskoða almannatryggingakerfið þar sem lífeyrir taki mið af framfærslukostnaði einstaklings og hækki samkvæmt launavísitölu. Í stað þess að einblína á hagvöxt telur Vinstrihreyfingin – grænt framboð mikilvægt að horfa til samfélagslegra þátta á borð við jöfnuð og menntun.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að grunnþjónusta eigi að vera gjaldfrjáls og á jöfnum grunni um allt land. Því er nauðsynlegt að skilgreina grunnþjónustu og tryggja tekjustofna þeirra sem henni sinna.

Landsfundur ítrekar enn mikilvægi dreifðs eignarhalds fyrirtækja í atvinnulífinu. Jafnframt verði lögð áhersla á félagleg rekstrarform eins og samvinnufélög.

Landsfundurinn hvetur til þess að komið verði á hópi til að yfirfara stefnu flokksins, samþykktir landsfunda og flokksráðsfunda ásamt fyrirliggjandi áherslum flokksins á ólíkum sviðum.

Ályktun um barnalagafrumvarp

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 28. – 30.október 2011, áréttar mikilvægi þess að vel sé vandað til verka við setningu nýrra barnalaga og að velferð barna sé ávallt höfð í fyrirrúmi. Fundurinn tekur undir þau sjónarmið sem innanríkisráðherra hefur sett fram og lúta að því að lögfesta ekki að svo stöddu heimild fyrir dómara til að dæma sameiginlega forsjá, hvað sem síðar verður.

Á Íslandi er sameiginleg forsjá meginregla við sambandsslit foreldra. Þegar foreldrar deila lýkur þeim málum oftast með sátt á einhverju stigi og í nýju barnalagafrumvarpi er kveðið á um aukna sáttameðferð fyrir foreldra. Því ber sérstaklega að fagna enda hlýtur það að vera barni fyrir bestu að foreldrar nái sátt um forsjá og umgengni. Aukin áhersla á stuðning við sáttaferli er mikilvægt skref. Í því samhengi skal áréttað að afar fá forsjármál enda með dómi og það hlýtur að vera barni fyrir bestu að slíkum máli ljúki sem oftast með sátt.

Landsfundur hvetur jafnframt innanríkisráðherra og þingflokk Vinstri grænna til að huga alvarlega að þeim lagaákvæðum sem heimila foreldri að krefjast þess að lögregla fari inn á heimili barna og ná í þau til að koma á umgengni.

Ályktun um hústöku og ábyrgð húseigenda

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur til að sveitarstjórnir beiti sér í auknum mæli til að tryggja að eigendur tómra og niðurníddra bygginga axli ábyrgð á húsum sínum. Ennfremur að sveitarstjórnir fái lagaheimild til að setja búsetu- eða notkunarskyldu, annaðhvort í heilum byggðakjörnum eða hverfum, til að koma í veg fyrir að hús grotni niður. Að lokum að lögfest verði ákvæði um rétt hústökufólks sem myndist við tilteknar aðstæður, líkt og fordæmi eru um frá Bretlandi og Hollandi.

Um málefni flóttafólks og hælisleitenda

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Akureyri helgina 28.-30. október skorar á innanríkisráðherra að setja málefni flóttafólks á oddinn. Staða hælisleitenda á Íslandi er enn ófullnægjandi, ekki síst þar sem afgreiðslutími umsókna er einatt óhóflega langur, sem eykur á einangrun og tilfinningalegt álag þeirra sem í hlut eiga. Landsfundur lýsir efasemdum um beitingu Dyflinnar-reglugerðarinnar og telur vafa undirorpið að hún sé til þess fallin að bæta vanda flóttamanna hnattrænt. Hvetur landsfundur til þess að þessi sjónarmið séu tekin til greina við mótun stefnu um málefni útlendinga utan EES og fagnar jafnframt því starfi og þeim mannúðaráherslum sem þar liggja til grundvallar.

Þá skorar landsfundur á ríkisstjórnina að framfylgja þeirri stefnu að taka árlega á móti hópum kvótaflóttamanna. Þrátt fyrir efnahagsþrengingar er Ísland vel í stakk búið til að axla slíka ábyrgð í samfélagi þjóðanna.

Tillaga um málefnaþing

Landsfundur felur flokkstjórn að efna til málþings þar sem fjallað verði um tilgang, eignarhald og lagalega umgjörð fjármálastarfsemi á Íslandi, réttarstöðu almennings gagnvart fjármálastofnunum og kynjaða hagstjórn. Flokkstjórn skal á sínum fyrsta fundi skipa starfshóp til að undirbúa málþingið sem haldið verði samhliða fyrsta flokksráðsfundi á nýju ári. Einnig verði efnt til ráðstefnu um peningastefnu fyrir Ísland. „Krónu eða ekki krónu“.

Ályktun um stöðu skuldara

Landsfundur VG telur nauðsynlegt að gætt verði jafnræðis milli lántakenda sem lögðu eignir til húsnæðiskaupa og þeirra sem fjármögnuðu kaup sín með hærra lánshlutfalli. Þá getur það ekki talist réttmætt að lán sem færð voru frá þrotabúunum til nýju bankanna á undirverði séu innheimt á fullu verði, með auknum verðbótum vegna bankahrunsins, á sama tíma og bankarnir skila milljarða hagnaði.

Eftirlit með fjármálastarfsemi

Landsfundur VG hvetur til þess að eftirlit með fjármálastarfsemi verði aukið og rannsakað verði hvernig hagnaður bankanna er til kominn.

Hagrænir mælikvarðar

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á traustar undirstöður og uppbyggingu hagkerfis í jafnvægi til langs tíma þar sem öryggi og velferð allra landsmanna eru í fyrirrúmi. Til að glöggva sig á þróun samfélagsins er nauðsynlegt að nota fleiri mælikvarða en hagvöxt,

  • atvinnustig, jöfnuð og sjálfbærni. Ná verður góðum tökum á stjórn hagkerfisins þar sem markaðurinn er þjónn alþýðu en ekki herra.

Efnahagsmál

Ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar var mynduð til að takast á við þá erfiðleika sem fylgdu í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og móta nýtt umhverfi í efnahagsmálum landsins. Landsfundurinn bendir á að þrátt fyrir að árangur hafi náðst á ýmsum sviðum er enn langt í land og hvetur til þess að hvergi verði hvikað frá markmiðum um félagslegan jöfnuð sem sett voru í samstarfsyfirlýsingu flokkanna.

Ríkisfjármálin

Landsfundur VG telur að mikilvægasta verkefnið á sviði ríkisfjármála sé að haga útgjöldum og tekjuöflun ríkisins með þeim hætti að auka félagslegan og efnahagslegan jöfnuð í landinu. Landsfundurinn fagnar þeim árangri sem náðst hefur og hvetur stjórnarflokkana til að halda áfram á þeirri braut.

Kynjuð hagstjórn

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er kveðið á um að kynjuð hagstjórn verði höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn. Landsfundurinn fagnar því að nú hafa fyrstu skrefin verið tekin með kynjaðri fjárlagagerð. Mikilvægt er að hraða vinnu við að þróa áfram kynjaða hagstjórn þannig að hún verði sem fyrst eðlilegur og sjálfsagður hluti af fjárlagagerð hvers árs en ekki sérverkefni hverju sinni.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Landsfundurinn fagnar því að formlegu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé nú lokið.

Ályktun um sjávarútvegsmál

Landsfundur  Vinstrihreyfingarinnar  –  græns  framboðs  ítrekar  mikilvægi  þess  að  á  140.

löggjafarþingi verði lögð fram og afgreidd ný lög um stjórn fiskveiða.

Landsfundurinn telur þær breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem nú þegar hafa náð fram að ganga skipta miklu máli. Breytingarnar hafa skapað fjölda starfa og leitt til eflingar sjávarbyggða, nýliðunar í greininni og aukins hagnaðar samfélagsins.

Auðlindir sjávar skulu vera í þjóðareigu og jafnræðis skal beitt við úthlutun þeirra svo tryggja megi búsetuöryggi sjávarbyggða landsins. Tryggt sé skýrt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar og komið verði í veg fyrir framsal aflaheimilda og veðsetningu sem ýtt hefur undir eignarréttarkröfu á auðlindinni.

Landsfundurinn ályktar að innlend fiskvinnsla skuli hafa forgang á vinnslu afla, veiddum á Íslandsmiðum. Ennfremur skal fylgja verði þeirri meginreglu að auðlindir sjávar verði nýttar með sjálfbærum hætti.

Landsfundurinn telur að í nýjum fiskveiðistjórnunarlögum verði að líta til samfélagslegra sjónarmiða samhliða arðsemiskröfu greinarinnar. Brýnt er að sjávarbyggðir landsins geti aftur orðið sjálfbærar og njóti nálægðar við gjöful fiskimið og þess mannauðs og fjárfestinga sem þar hafa byggst upp.

Landsfundurinn hvetur þingmenn og ráðherra flokksins til að standa þétt saman í þeirri baráttu sem framundan er við þrönga sérhagsmunagæslu og varðstöðu við núverandi fiskveiðilöggjöf.

Ályktun um landbúnað

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ítrekar að öflugur og framsækinn landbúnaður er einn af hornsteinum íslensks samfélags. Stefna skal að því að unnin verði heildarendurskoðun á aðkomu ríkisvaldsins að stuðningi við landbúnaðinn. Það verði gert á forsendum fæðu- og matvælaöryggis og sjálfbærni. Landbúnað á Íslandi verður, líkt og alla aðra starfsemi, að reka í sátt við umhverfið. Ætíð skal leitast við að velja þá búskaparhætti sem henta landgæðum sem best og allt búfjárhald ber að lúta eðlilegum reglum um dýravelferð.

Til að tryggja eðlilega og nauðsynlega nýliðun í landbúnaði þarf að bæta aðgengi að fjármagni á eðlilegum kjörum fyrir þau sem vilja hefja búvöruframleiðslu. Fjölskyldubú verði áfram grunneining landbúnaðarstefnunnar á Íslandi. Tryggja þarf að framleiðendur lífrænna afurða búi við sambærileg kjör og búin eru lífrænum búskap í nálægum löndum.

Skoða þarf möguleika á að efla verulega Framleiðnisjóð landbúnaðarins og að honum verði sett þau markmið að stuðla að og efla rannsóknir og nýsköpun í landbúnaði.

Skoða þarf möguleika á að efla verulega Framleiðnisjóð landbúnaðarins og að honum verði sett þau markmið að stuðla að og efla rannsóknir og nýsköpun í landbúnaði.

Tryggja þarf að dreifbýli búi við sömu skilyrði og þéttbýli hvað varðar verð og afhendingaröryggi á raforku. Tryggja þarf strax að garðyrkjubændur sem nýta raforku til lýsingar gróðurhúsa fái orkuna á sambærilegu verði og aðrir stórkaupendur og þeim þannig gert kleift að auka markaðshlutdeild sína á innlendum markaði og eftir atvikum flytja út afurðir sínar.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur þingmenn til að vinna að framgöngu frumvarps um upprunamerkingu landbúnaðarvara, þar sem notast verði við íslenska fánann.

Skapandi greinar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að skapandi greinar feli í sér mikil sóknarfæri í íslensku atvinnulífi. Ný rannsókn sem sýnir að skapandi greinar velta álíka miklu og áliðnaðurinn án þess að hafa í för með sér sambærileg náttúruspjöll og orkunýtingu sýnir svart á hvítu að atvinnustarfsemi sem byggir á hugviti er ekki aðeins möguleg heldur veitir nú þegar fjölda fólks vinnu um land allt. Fundurinn hvetur kjörna fulltrúa VG til að vinna að því að þessar greinar verði mikilvægur hluti af atvinnustefnu til framtíðar fyrir Ísland. Ennfremur að hið opinbera styrki við þessar greinar með því tryggja öflugt nám og menntun í skapandi greinum, stuðning við nýja sprota og að myndarlega verði staðið að kynningu á íslenskri menningu, bæði innanlands og utan. Þá er mikilvægt að stjórnvöld eigi virkt samráð við fulltrúa hinna skapandi greina, rétt eins og önnur samtök atvinnulífs, þegar unnið er að framtíðarstefnumótun í atvinnu- og menntamálum.

Landsfundur VG fagnar þeim áhuga á íslenskri menningu og bókmenntum erlendis, sem birtist þegar Ísland var heiðursgestur bókamessunnar í Frankfurt í október 2011. Landsfundurinn telur mikilvægt að verkefninu sé fylgt eftir, þannig að allt það sem unnist hefur í aðdragandanum og í kringum bókamessuna sjálfa geti orðið áframhaldandi lyftistöng fyrir skapandi greinar, ferðaþjónustu, orðstír lands og þjóðar og kynningu á menningararfi Íslendinga á alþjóðavísu.

Ályktun um jöfnuð landsbyggðar og höfuðborgar

Landsfundur VG skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir jöfnun lífskjara á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Er sérstaklega brýnt að:

Jafna flutningskostnað fyrirtækja á landsbyggðinni og þeirra sem starfa á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og tryggja starfsemi í heilbrigðis- og menntakerfi á landinu öllu, samhliða mikilli uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Tryggja þarf að sú uppbygging komi ekki niður á störfum á landsbyggðinni.

Standa að baki öflugu menningarstarfi á landsbyggðinni.

Tryggja gæði og öryggi samgangna milli og innan byggðalaga.

Við endurskipulagningu fjármálakerfisins þarf sérstaklega að huga að og styðja við bankastafsemi sem starfar á samfélagslegum grunni.

Að tryggja að fyrirtæki á landsbyggðinni sitji við sama borð og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu varðandi úrvinnslu skulda og endurskipulagningu lána, bæði hvað varðar biðtíma sem og úrvinnsluna í heild.

Öflug heilbrigðisþjónusta og heilsugæsla um land allt

Landsfundur VG ítrekar mikilvægi góðrar heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu fyrir alla landsmenn. Sérstök áhersla er lögð á að standa vörð um þjónustuna á hinum minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og minnt á að öflug heilbrigðisþjónusta er ein af grunnstoðum búsetu um land allt. Fundurinn lýsir áhyggjum sínum yfir þeim mikla niðurskurði sem áfram er boðaður í heilbrigðiskerfinu og bitnar ekki síst á minni heilbrigðisstofnunum í dreifbýlinu sem sumar eru nú þegar illa leiknar.

Fundurinn ítrekar ennfremur fyrri ályktanir um að bein aðkoma heimamanna að stjórnum heilbrigðisstofnana verði tryggð á nýjan leik. Landsfundur VG vill minna á að fleiri leiðir eru færar í hagræðingu í heilbrigðiskerfinu en beinn niðurskurður, þ.m.t að auka samvinnu og nýta sérstöðu hverrar stofnunar mun meira en gert er.

Vegagerð orkufyrirtækja nýtist almenningi

Landsfundur VG ítrekar að tryggt verði að vegir og akstursslóðar orkufyrirtækjanna verði þannig úr garði gerðir að þeir nýtist almenningi, þeir séu vel merktir og vakin athygli á því sem þar er að sjá, auk þess sem tilurð hvers vegar sé útskýrð á skilti við upphaf og enda hans.

Efling almenningssamgangna

Landsfundur tekur undir tillögu samgönguráðs um að ríkið fresti stórframkvæmdum í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu og leggi þess í stað til tíu milljarða króna til eflingar á almenningssamgöngum á næstu tíu árum. Framlag ríkisins komi á móti framlagi sveitarfélaga og endurskoðist á tveggja ára fresti að fenginni reynslu af verkefninu.

Ályktun um almannarétt

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur kjörna fulltrúa til að vinna að því að réttur almennings til að ferðast um landið verði sem mestur, bæði í lögum um náttúruvernd og stjórnarskrá. Nú stendur yfir endurskoðun á stjórnarskrá og boðuð hefur verið endurskoðun á náttúruverndarlögum með nýrri hvítbók umhverfisráðuneytis.

Landbúnaðarstefna

Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri dagana 28. til 30. október, leggur til að flokksstjórn skipi nefnd til þess að marka skýra landbúnaðarstefnu fyrir VG. Fundurinn beinir því einnig til stjórnar að hópurinn sem skipaður verði leiti eftir áliti svæðisfélaga varðandi mótun stefnunnar.

Ályktun um mótun lýðræðisstefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Akureyri helgina 28. til 30.

október 2011 ályktar að flokkurinn setji sér lýðræðisstefnu.

Landsfundur felur stjórn flokksins að halda áfram starfi við mótun lýðræðisstefnu. Við þá vinnu þarf að tryggja lýðræðislega umræðu innan flokks sem utan. Stjórn skal auglýsa eftir félögum til þess að mynda starfshóp sem heldur utan um og leiðir mótun stefnunnar. Öll vinna hópsins skal vera opin, gagnsæ og öll gögn aðgengileg á netinu eða skrifstofu flokksins. Mikilvægt er að vinna hópsins feli í sér opnar ráðstefnur og fundi þar sem öllum grundvallarspurningum er varða lýðræði verði velt upp.

Ályktun um rannsóknarnefnd Alþingis

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þakkar rannsóknarnefnd Alþingis fyrir starf sitt og heitir að breyta starfsháttum flokksins í samræmi við gagnrýni hennar á starfi flokkanna í aðdraganda hrunsins.

Jöfn tækifæri til þátttöku

Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. –30. október 2011, skorar á flokksstjórn að leita leiða til þess að taka upp notkun fjarfundabúnaðar í stjórnum og hópum sem starfa á vegum flokksins.

Með því teljum við að flokkurinn spari umtalsverða peninga og verði umhverfisvænni fyrir vikið. Einnig tryggir notkun slíks búnaðar mun fleiri félögum tækifæri til virkrar þáttöku í starfi flokksins, óháð búsetu.

Miðlun upplýsinga og aukið gagnsæi

Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. –30. október 2011, brýnir fyrir ráðherrum ríkisstjórnarinnar nauðsyn þess að starfandi sé virkur almannatengslafulltrúi sem komi ekki einungis upplýsingum um starf flokksins og ríkistjórnarinnar til félagsmanna flokksins, heldur einnig til landsmanna allra.

Fyrirkomulag funda

Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Menningarhúsinu Hofi 28. –30. október 2011, mælir fyrir því að annar hver reglulegur flokksráðsfundur fari í málefnavinnu, sem og að minnsta kosti hálfur dagur hvers landsfundar.

Höldum áfram góðum verkum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn að Hofi á Akureyri 28.-30. október hvetur kjörna fulltrúa sína til að halda stefnuföst áfram á þeirri góðu braut sem þau voru kjörin til að fylgja. Mikið starf hefur unnist en þó eru fjölmörg verkefni sem bíða úrlausna og er því brýnt að fulltrúar okkar haldi ótrauðir áfram. Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir fullum stuðningi við ráðherra og þingmenn flokksins og áframhaldandi þátttöku í ríkisstjórn VG og Samfylkingar.

Ályktun um aðskilnað ríkis og kirkju

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn að Menningarhúsinu Hofi 28– 30. október 2011 ályktar að mikilvægt sé að víðtæk sátt náist í þjóðfélaginu um samstarf ríkis   og   trúfélaga.   Í   ljósi   þess   að   ályktun   um   jafnrétti   í          trúmálum          var           samþykkt síðasta landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fagnar landsfundur því að innanríkisráðherra hefur boðað framlagningu frumvarpa sem jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og afnema sjálfvirka skráningu barna í trúfélög. Fundurinn áréttar afstöðu sína til þess að aðskilja beri þjóðkirkju og ríkisvald. Ennfremur telur fundurinn að afnema beri 125. gr. almennra hegningarlaga um guðlast. Þá lýsir fundurinn því yfir að ávallt beri að virða rétt foreldra til að ráða trúaruppeldi barna sinna.

Ályktun um upplýsingaöryggi og aðgengi almennings að upplýsingum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Akureyri 28.-30. október 2011 vill að Alþingi tryggi að í lögum er varða upplýsingaskyldu opinberra aðila og opinbera skjalavörslu verði sem minnstar hömlur lagðar á aðgengi almennings og fjölmiðla að opinberum skjölum. Áfram verði þó gætt trúnaðar um viðkvæmar persónuupplýsingar.

Einnig verði í lögum tryggt að ábyrgð á eftirliti með opinberri skjalavörslu bæði ríkis og sveitarfélaga sé bæði á hendi þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna í samræmi við hefðbundin valdmörk milli ríkis og sveitarfélaga. Þessar stofnanir verði efldar og áhersla verði lögð á að sá aðili sem sinnir eftirliti sé staðsettur sem næst þeirri stjórnsýslu sem er eftirlitsskyld.

Landsfundur leggur jafnframt áherslu á að í lögum verði skerpt á kröfum um skjalavörslu hjá einkaaðilum í lánastarfsemi og fjármálaumsýslu og þeim gert að fylgja meginreglum um opinbera skjalavörslu. Mikilvægt er að kröfur um gagnsæi í vinnubrögðum nái ekki síður til þessara aðila en til almennrar stjórnsýslu og þannig verði almannahagsmunir jafnan þyngri á metum en viðskiptahagsmunir.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search