EN
PO
Search
Close this search box.
07.05.21

Landsfundur 7. – 8. maí 2021

Deildu 

Stjórnmálaályktun landsfundar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 leggur áherslu á að hreyfingin leiði næstu ríkisstjórn að loknum kosningum í haust.

Þótt núverandi stjórnarsamstarf hafi verið umdeilt er málefnalegur árangur Vinstri grænna af samstarfinu óumdeildur. Nægir þar að nefna:

  • þrepaskipt tekjuskattskerfi tekið upp;
  • fæðingarorlof lengt úr níu mánuðum í tólf með skýrum reglum um skiptingu milli foreldra;
  • stytting vinnuvikunnar;
  • lægri kostnaðarþátttöku sjúklinga;
  • dregið úr skerðingum í almannatryggingakerfinu;
  • ný hlutdeildarlán fyrir þau sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð;
  • dregið úr skerðingum á greiðslum til öryrkja og tekinn upp félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða;
  • barnabætur og atvinnuleysisbætur hækkaðar;
  • stuðningskerfi við börn  endurskoðuð frá grunni með það að leiðarljósi að bæta hag barna sem þurfa á sértækri þjónustu að halda;
  • aukna fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun og aukinn stuðning við menntakerfið;
  • byggingu nýs Landspítala;
  • eflingu  heilsugæslunnar um allt land;
  • stórsókn í geðheilbrigðismálum;
  • fullfjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum;
  • aldrei fleiri friðlýsingar náttúruminja;
  • ný lög um kynrænt sjálfræði;
  • mikilvæg skref stigin við innleiðingu hringrásarhagkerfisins, m.a. bann við markaðssetningu óþarfa einnota plasts;
  • ný lög um þungunarrof.

Nú hillir undir tímamót í baráttunni við heimsfaraldurinn sem sett hefur mark sitt á samfélagið undanfarin misseri. Fólkið í landinu á mestan heiður skilinn fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í baráttunni við veiruna. Á sama tíma hafa stjórnvöld unnið vel með fagfólki og vísindafólki til að tryggja skilvirkar og árangursríkar sóttvarnir án þess að gengið sé lengra en þörf er á. Eftir því sem bólusetningum vindur fram hérlendis sem erlendis verður hægt að slaka á sóttvörnum og hefja uppbygginguna. Stjórnvöld hafa stutt við fólk og fyrirtæki til að lágmarka samfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins en þegar uppbyggingin hefst skiptir öllu að hún verði græn, sjálfbær og tryggi jöfnuð og félagslegt réttlæti.

Stærsta viðfangsefnið er að að skapa ný störf með fjölbreyttum fjárfestingum og áframhald öflugra vinnumarkaðsaðgerða til þess að fyrirbyggja að langtíma atvinnuleysi festist í sessi í íslensku samfélagi með tilheyrandi samfélagslegum afleiðingum.

Næsta ríkisstjórn þarf að halda áfram á sömu braut í loftslagsmálum, auka metnað enn frekar í markmiðum sínum, draga enn meir úr losun, auka kolefnisbindingu og tryggja að aðgerðir gegn loftslagsvánni séu félagslega réttlátar. Það þarf að tryggja grænar áherslur í atvinnuuppbyggingu og nýta þau miklu sóknarfæri sem íslenskt samfélag á í þekkingariðnaði, nýsköpun og skapandi greinum. Það á að halda áfram að efla menntun á öllum skólastigum, tryggja nýliðun í kennarastétt og styðja enn betur við nemendur. Raunhæfar aðgerðir þarf til að útrýma launamun kynjanna, meðal annars með endurmati á stöðu kvennastétta. Næsta ríkisstjórn á að ljúka endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Huga þarf sérstaklega að stöðu öryrkja með börn og styrkja grunnframfærslu almannatrygginga. Mikilvægt er að gæta að samspili atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga með það fyrir augum að framfærsla verði tryggð.

Næsta ríkisstjórn á að halda áfram uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis, sem er besta leiðin til að tryggja sanngjarnan húsnæðismarkað og tryggja fjölbreytt húsnæði fyrir okkur öll. Það á að halda áfram að draga úr kostnaði sjúklinga og efla enn frekar opinbera heilbrigðiskerfið. Frekari aðgerða er þörf til að tryggja réttarstöðu brotaþola og bæta málsmeðferð í kynbundnum ofbeldismálum og kynferðisbrotamálum. Næsta ríkisstjórn á að skjóta nýjum stoðum undir innlenda matvælaframleiðslu, auka nýsköpun og lífræna ræktun. Einnig þarf

að styðja endurreisn ferðaþjónustunnar og tryggja að hún geti dafnað með sjálfbærum hætti. Hálendisþjóðgarður á að verða að veruleika og mun verða eitt stærsta framlag þjóðarinnar til náttúruverndar á heimsvísu, sem mun skipta máli til langrar framtíðar. Tryggja þarf að lögreglan hafi mannafla til að taka með skýrum hætti á alþjóðlegri glæpastarfsemi. Það á að halda áfram umbótum á vinnumarkaði, koma í veg fyrir félagsleg undirboð og tryggja alvöru aðgerðir til að útrýma launaþjófnaði sem á hvergi heima á heilbrigðum vinnumarkaði. Áfram á að efla stuðning við fólk á flótta og tryggja að innflytjendur hafi hér tækifæri til að skapa sér betra líf. Fjölga á störfum án staðsetningar hjá hinu opinbera, vinna áfram að innviðauppbyggingu um land allt og tryggja tækifæri til menntunar, rannsókna og nýsköpunar í öllum landshlutum. Baráttunni fyrir mannréttindum lýkur aldrei og mikilvægt er að halda henni áfram á öllum sviðum, meðal annars með því að halda áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar, þar á meðal mannréttindakafla hennar. Auðlinda- og umhverfisákvæði í stjórnarskrá á að afgreiða á Alþingi í haust.

Heimsfaraldur, efnahagslægð og loftslagsvá munu skapa hættu á auknum ójöfnuði og ranglæti. Einmitt þess vegna er mikilvægt að Vinstrihreyfingin-grænt framboð haldi ótrauð áfram sínum góðu verkum og tryggi með öllum sínum krafti að Ísland verði enn betra samfélag, Ísland verði gott samfélag fyrir okkur öll.

 

Ályktun um heilbrigðismál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 lýsir einlægu þakklæti til alls þess fólks sem staðið hefur vaktina á fordæmalausum tímum heimsfaraldurs.

Á kjörtímabilinu hefur mikið áunnist á sviði heilbrigðismála. Rauði þráðurinn hefur verið efling opinberu heilbrigðisþjónustunnar, svo að tryggja megi öllum greiðan og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu sem stenst alþjóðlegan samanburð. Sem dæmi um verkefni sem hafa verið unnin á kjörtímabilinu má nefna samþykkt heilbrigðisstefnu til ársins 2030 á Alþingi og breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu til samræmis við stefnuna. Framkvæmdir við nýjan Landspítala ganga vel og fyrsti áfangi nýs spítala varð að veruleika þegar sjúkrahótel opnaði við Hringbraut. Stór skref hafa verið stigin til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu, en hún hefur lækkað úr um 17,6% árið 2017 í um 16% árið 2021 og opinber geðheilbrigðisþjónusta hefur verið efld með auknu fjármagni, sérstaklega innan heilsugæslunnar og með stofnun geðheilsuteyma.

Heilsugæslan hefur verið efld sem fyrsti viðkomustaður og ráðist í stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma, en samhliða hefur verið unnið að því að efla önnur þjónustuúrræði, s.s. dagdvöl, heimaþjónustu og heilsueflingu, svo að fólk sem það kýs geti búið heima sem lengst. Stefnumörkun um þjónustu við aldraða stendur yfir, endurskoðun er hafin á rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila og fjölbreytt þjónustuúrræði hafa verið sett á laggirnar. Lög um þungunarrof voru samþykkt, unnin úttekt á heilbrigðisþjónustu út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum, stefna samþykkt og unnið að aðgerðaáætlun í málefnum fólks með heilabilun og málefnum endurhæfingar svo eitthvað sé nefnt. Á kjörtímabilinu höfum við stóreflt þjónustu við notendur fíkniefna með áherslu á skaðaminnkun, til dæmis með lagasetningu um neyslurými, framlagningu frumvarps um afglæpavæðingu neysluskammta, bættri þjónustu við aldraða með vímuefnavanda, opnun afeitrunardeildar fyrir börn og ungmenni í neyslu og meiri áhersla lögð á stefnumörkun og aðgerðaráætlanir í málefnum notenda vímuefna.

Verkefnunum í heilbrigðismálum er þó hvergi nærri lokið. Mörg verkefnanna sem unnin hafa verið á kjörtímabilinu þarf að vinna áfram. Verkefni úr heilbrigðisstefnu til 2030 liggja fyrir, t.d. verkefni tengd mönnun og starfsumhverfi, mannaaflaþörf, teymisvinnu og þverfaglegri nálgun í heilbrigðisþjónustu. Skilgreina þarf betur skipulag annars stigs þjónustu í samræmi við  heilbrigðisstefnu og skýra hver sinni hvaða hluta hennar og tryggja að samningar um veitingu heilbrigðisþjónustu liggi fyrir. Vinna þarf nýja stefnu í geðheilbrigðismálum og halda áfram að gera geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri. Rannsóknir hafa sýnt að með betra aðgengi er hægt að spara mikinn kostnað á hærri stigum geðheilbrigðisþjónustu og kostnað vegna örorku sem getur orðið afleiðing aðgerðaleysis. Ríki og sveitarfélög þurfa að samræma úrræði fyrir syrgjendur og stuðla að skilvirkri upplýsingagjöf og ráðgjöf til þeirra. Stuðningur við syrgjendur er  mikilvægur liður í heilsueflingu samfélagsins.

Tryggja þarf að gæðaáætlun við veitingu heilbrigðisþjónustu komist til framkvæmda. Fullvinna þarf áætlun um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða í samræmi við stefnu sem kynnt verður á heilbrigðisþingi í haust og skilgreina hlutverk og aðkomu ríkis og sveitarfélaga í þeim málaflokki. Kjör kvennastétta sem starfa í heilbrigðisþjónustu þarf að bæta og tryggja að kynjasjónarmið séu höfð til hliðsjónar í allri þjónustunni. Áfram þarf að leggja áherslu á eflingu lýðheilsu og forvarna.

Enn þarf að halda áfram að vinna samkvæmt áætlun um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga en í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir því að á árunum 2022-2025 verði stigin fleiri stór skref í þessum efnum. Heilsugæslan verði gjaldfrjáls, dag- og göngudeildarþjónusta stórefld og áfram unnið að uppbyggingu endurhæfingarteyma um allt land og veflausnir og velferðartækni í heilbrigðisþjónustu byggðar upp enn frekar.

Mönnun og menntun heilbrigðisstétta er mikilvægt verkefni næstu ára og áratuga jafnframt því að bæta húsnæði, tækjakost og tækifæri til rannsókna fyrir okkar góða heilbrigðisstarfsfólk.

Lýðheilsa er lykilatriði í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Hafa þarf lýðheilsusjónarmið í huga við alla stefnumótun; til dæmis í skipulagsmálum, samgöngumálum, menntamálum og vinnumarkaðsmálum. Aðgengi að ósnortinni náttúru og heilnæmu umhverfi er lykilatriði fyrir lýðheilsu sem og jafnvægi milli vinnu og einkalífs og gott aðgengi að endurhæfingu á ólíkum sviðum. Heilsuefling þarf að vera hluti af daglegu lífi; og þar þarf fjölbreytnin að blómstra.

Með því að stíga þessi skref verður áfram unnið að áherslum okkar Vinstri grænna í heilbrigðismálum; að tryggja jafnan aðgang allra að góðri heilbrigðisþjónustu, að íslensk heilbrigðisþjónusta standi áfram undir nafni sem heilbrigðisþjónusta í fremstu röð, að styrkja og efla opinbera heilbrigðisþjónustu um allt land og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.

Ályktun um listir og menningu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 telur að víðtæk þátttaka almennings í skapandi starfi sé einn af styrkleikum íslensks samfélags og gott aðgengi allra að menningu ein af mikilvægustu undirstöðum þjóðfélagsins. Styðja þarf við listir og menningu um land allt og byggja þann stuðning á faglegum sjónarmiðum og gagnsæjum vinnubrögðum.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur að styrkja þurfi stöðu menningar og skapandi greina í stjórnkerfinu en núna heyra ýmsir hlutar þessa málaflokks undir ólík ráðuneyti. Greina þarf sóknarfæri þess að stofna sérstakt menningarmálaráðuneyti eða auka hlut menningar með sérstöku ráðuneyti rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina.

Menntun er undirstaða öflugs lista- og menningarstarfs. Taka á það skref að Listaháskóli Íslands verði opinber háskóli. Þar með verður tryggt jafnræði nemenda í skapandi greinum þegar kemur að gjaldtöku.

Tryggja þarf öflugt nám í listgreinum á öllum skólastigum. Þar þarf sérstaklega aðhuga að listnámi á framhaldsskólastigi þar sem einstakar listgreinar búa nú við misjafnar aðstæður. Mikilvægt er að búa vel að ólíkum listgreinum og fjölga þannig tækifærum þeirra sem leggja stund á listir og skapandi greinar.

Ákvarðanir um tímabundinn stuðning við sjóði á sviði skapandi greina og fjölgun listamannalauna sem teknar voru vegna heimsfaraldurs eiga að verða varanlegar. Fjárfesting á þessu sviði hefur mikil samfélagsleg og hagræn áhrif; gerir samfélagið fjölbreyttara og eykur efnahagsleg umsvif.

Menningarminjar eru mikilvægur fjársjóður sem brýnt er að sinna betur. Ljúka þarf skráningu menningarminja um land allt sem getur í senn flýtt fyrir skipulagsáætlunum og stutt við stefnumótun sveitarfélaga. Styðja þarf betur við viðurkennd menningarminjasöfn,  þar felast mikil tækifæri, til dæmis í menningartengdri ferðaþjónustu.

Helstu menningar- og listastofnanir þjóðarinnar þurfa að sinna landinu öllu. Um leið þarf að fjölga menningarsamningum sem styðja við sjálfstætt menningarstarf í öllum landshlutum og efla þá. Sérstaklega þarf að huga að menningarsamningi við Akureyri og byggja upp þær stofnanir sem þar gegna lykilhlutverki.

Efnahagslegum hvötum hefur verið beitt með jákvæðum hætti til að efla kvikmyndagerð hér á landi sem hefur blómstrað undanfarin ár. Þar fara saman jákvæð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif og er mikilvægt að viðhalda því kerfi.

Áfram þarf að styðja við stöðu íslenskrar tungu í stafrænum heimi og tryggja að tungutækni fylgi uppfærslum í tækjabúnaði. Auk þess þarf að gera átak í að koma menningararfinum á stafrænt form til að gera hann aðgengilegan öllum.

Ályktun um kjör örorkulífeyrisþega

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 áréttar mikilvægi þess að sérstaklega verði hugað að kjörum örorkulífeyrisþega á komandi kjörtímabili. Mikilvæg skref voru stigin þegar dregið var úr skerðingum á núverandi kjörtímabili og kjör tekjulægstu örorkulífeyrisþega bætt. Miklu skiptir að endurskoða framfærslukerfi örorkulífeyrisþega á komandi kjörtímabili og huga þar sérstaklega að grunnframfærslunni og samspili almannatrygginga við önnur stuðningskerfi hins opinbera. Þá þarf að skoða að hækka aldursmörk á barnalífeyri og öðrum félagslegum stuðningi, enda ljóst að ungmenni búa lengur í foreldrahúsum nú en áður fyrr. Mikilvægt er að tryggja að fólk njóti viðeigandi endurhæfingar, virkniúrræða og að kerfið styðji fólk til að fara aftur út á vinnumarkaðinn ef heilsa leyfir. Í því samhengi þarf að marka stefnu um fjölgun hlutastarfa og aukna fjarvinnu hjá hinu opinbera til að tryggja að fólki með skerta starfsgetu bjóðist störf við hæfi. Í kjölfarið þarf að innleiða hvata fyrir sambærilega þróun á almenna vinnumarkaðnum. Þá skiptir miklu að byggja upp forvarnir til að stuðla að bættri lýðheilsu. Mikilvæg skref hafa verið stigin á núverandi kjörtímabili til að styrkja geðheilbrigðisþjónustu en fleiri skref þarf að stíga; bæði í forvörnum og geðheilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að huga að kjörum örorkulífeyrisþega þegar eftirlaunaaldri er náð. Mestu skiptir að styðja við möguleika fólks til að lifa með reisn og við bestu mögulegu heilsu alla ævi.

Ályktun um ferðaþjónustu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 telur framtíð ferðaþjónustu á Íslandi bjarta eftir því sem bólusetningum vegna kórónuveirunnar vindur fram og ferðafólki tekur að fjölga á nýjan leik. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafa stutt við starfsfólk í ferðaþjónustu og gert mörgum fyrirtækjum kleift að lifa af, sem er grundvallaratriði fyrir skjótan bata í greininni. Ísland hefur verið gríðarlega vinsæll viðkomustaður ferðamanna allan síðasta áratug og ekkert sem bendir til að það breytist. Yfir 80% erlendra ferðamanna hafa nefnt náttúru Íslands sem meginástæðu Íslandsfarar. Eldgos á Reykjanesskaga mun áreiðanlega auka enn vinsældir Íslands sem ferðamannalands og Hálendisþjóðgarður sömuleiðis. Landsfundurinn fagnar auknum friðlýsingum og stórauknu fjármagni til uppbyggingar innviða og landvörslu á kjörtímabilinu, enda er slíkt til þess fallið að efla náttúruvernd og ferðaþjónustu í sömu andrá.

Landsfundurinn ítrekar stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ferðamálum og leggur sérstaklega áherslu á eftirfarandi varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi á komandi árum:

  • Tekjur af ferðaþjónustu voru miklar fyrir kórónuveirufaraldurinn og eðlilegt er því að gera ráð fyrir að greinin geti lagt meira til hins opinbera þegar ferðamönnum fjölgar að nýju. Ekki verði þó auknar álögur á ferðaþjónustu á næstu tveimur árum í ljósi faraldursins, en tíminn notaður til að útfæra réttláta gjaldtöku í samstarfi við greinina.
  • Ferðaþjónustan verði byggð upp að nýju með sjálfbærni að leiðarljósi og réttindi og hagsmuni launafólks verði einn af hornsteinunum við uppbygginguna. Unnið verði að því að störf við ferðaþjónustu séu góð og eftirsótt og launin sanngjörn.
  • Könnuð verði nauðsyn á frekari stuðningi við ferðaþjónustuna við að endurreisa greinina.
  • Ferðaþjónustan þróist í samræmi við áherslur um sjálfbæra þróun.
  • Á Íslandi verði ferðamönnum gert kleift að ferðast með vistvænum hætti, í öflugu neti almenningssamgangna eða á visthæfum bílaleigubílum. Stjórnvöld styðji við slíka þróun.
  • Hálendisþjóðgarði verði komið á fót en stofnun hans er mikilvægur þáttur í að efla jákvæða ímynd Íslands sem náttúruverndarlands á alþjóðavettvangi.
  • Halda þarf áfram uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum til að verja náttúru og menningarminjar fyrir álagi af völdum ferðamanna.
  • Halda þarf áfram að efla landvörslu á friðlýstum svæðum til að auka öryggi, fræðslu og upplýsingagjöf sem leiðir til jákvæðari upplifunar ferðamanna af landinu okkar.
  • Huga þarf sérstaklega að samspili ferðaþjónustu, landbúnaðar og sjávarútvegs og sóknarfærum í markaðssetningu sem byggi á vöru og þjónustu heima úr héraði, um land allt allan ársins hring.
  • Fram fari greining á því hvaða flugvöllur eigi að vera næsta hlið inn í landið og horft verði sérstaklega til Akureyrar og Egilsstaða eða Hornafjarðar í því samhengi.

 

Ályktun um menntamál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 áréttar mikilvægi þess að skólastarfi hafi verið forgangsraðað í heimsfaraldrinum og áhersla hafi verið lögð á að halda skólum opnum og starfandi. Starfsfólk skóla á þakkir skildar fyrir að hafa staðið vaktina í gegnum faraldurinn og tryggt að nemendur á öllum skólastigum hafi áfram notið menntunar við hæfi. Um leið ber að minna á að álag á nemendur hefur verið annars eðlis en nokkru sinni – breytingar á skólastarfi, fjarnám og lítið félagslíf hafa sett svip sinn á námið og það hefur reynst mörgum þungt í skauti. Mikilvægt er að hlúa vel að unga fólkinu og veita því allan þann félagslega og andlega stuðning sem mögulegt er.

Til framtíðar er mikilvægt að halda áfram þeirri uppbyggingu sem verið hefur í íslensku skólakerfi undanfarin ár. Fagna ber því átaki sem gert var til að fjölga kennaranemum en mikilvægt er að tryggja mönnun í skólum til lengri tíma. Gildandi aðalnámskrá hefur reynst mikilvægur leiðarvísir gagnvart áskorunum samtímans þar sem áhersla er meðal annars lögð á velferð, sjálfbærni, jafnrétti og lýðræði.

Öflugt opinbert menntakerfi á öllum skólastigum mun verða lykilatriði í síbreytilegu samfélagi samtímans og undirstaða atvinnu- og efnahagslífs framtíðarinnar. Skólakerfið er lifandi samfélag nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks. Innan þess verður að mæta þörfum nemenda í samræmi við þarfir og þroska hvers og eins og tryggja um leið jöfn tækifæri allra. Tryggja ber þátttöku nemenda í mótun skólastarfs.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað og stefnt verði í kjölfarið að gjaldfrjálsum leikskóla. Ennfremur að stefnt verði að gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Allt eru þetta mikilvæg jöfnunartæki sem tryggja réttlátara samfélag. Taka þarf mið af sjónarmiðum barna við mótun námsframboðs og tryggja þannig aukna fjölbreytni í námi og að stuðningur við börn innan menntakerfisins sé á þeirra forsendum. Efla þarf fræðslu í kynfræðslu, fjármálalæsi, kynjafræði og netöryggi. Miklu varðar að nemendur fái að glíma við raunveruleg viðfangsefni og geti tengt námið eigin þekkingu, reynslu og veruleika. . Mikilvægt er að auka sveigjanleika framhaldsskóla þegar kemur að skipulagningu námsbrauta svo nemendum í öllum skólum gefist færi á að ljúka námi á þeim tíma sem hentar. Það á bæði við um bekkjarkerfis- og áfangaskóla. Tryggja þarf góðan stuðning við nemendur, hvort sem það er með sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf eða náms- og starfsráðgjöf. Lykilatriði er að nám í iðn- og verkgreinum og listgreinum sé aðgengilegt um land allt og skipulagt með þeim hætti að námsframvinda tefjist ekki vegna hnökra á vinnustaðanámi. Vel hefur verið stutt við grunnrannsóknir á kjörtímabilinu. Halda ber áfram á þeirri braut en um leið þarf að huga að því að styðja betur við háskólana sjálfa og gera þeim kleift að halda áfram að vera mikilvægar lykilstofnanir fyrir menntun og rannsóknir á Íslandi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fagnar nýjum Menntasjóði en leggur áherslu á að styðja betur við grunnframfærslu námsmanna. Að lokum telur hreyfingin að taka þurfi stór skref til að efla sí- og endurmenntun þar sem fólk sækir sér menntun allt lífið og mikilvægt að tryggja fjölbreytni og gæði um land allt í þess konar námsframboði.                   

Ályktun um samgöngumál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 fagnar góðum árangri ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í samgöngumálum á kjörtímabilinu.
Í núverandi samgönguáætlun hefur verið lögð sérstök áhersla á öryggi vegfarenda, með nýframkvæmdum bæði á vegum og með jarðgöngum, ásamt sérstöku átaki í viðhaldsverkefnum. Unnið hefur verið að stefnu í almenningssamgöngum og síðast en ekki síst hefur niðurgreiðsla á flugleiðum innanlands tekið gildi til hagsbóta fyrir íbúa á landsbyggðinni. Þá er samgöngusáttmáli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sérstakt fagnaðarefni. Breyttar ferðavenjur með tilkomu Borgarlínu og aukinni áherslu á göngu- og hjólreiðar auk orkuskipta munu styrkja mjög stefnu um kolefnishlutleysi Íslands, bæta loftgæði og efla lýðheilsu.

Landsfundurinn leggur áherslu á að heildstætt og nútímalegt samgöngukerfi sé lífæð samfélagsins alls í okkar dreifbýla landi. Landsfundurinn leggur sérstaklega áherslu á að við áframhaldandi uppbyggingu samgöngukerfa þurfi að horfa til eftirfarandi:

  • Að byggja á sjálfbærri þróun og líta sérstaklega til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á loftslag og náttúru og tryggja sem best öryggi og fræðslu.
  • Að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki vinni áfram markvisst að orkuskiptum í samgöngum, meðal annars með uppsetningu hleðslustöðva og annarra umhverfisvænna lausna.
  • Að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í landinu skapi starfsfólki sínu aðstæður til að sinna hluta af fundarhöldum og vinnu að heiman eða utan vinnustaðar. og þá í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins um fjarvinnu og evróputilskipun um fyrirkomulag fjarvinnu. Slíkt mun draga úr umferð og loftmengun, minnka þörf á viðhaldi og nýframkvæmdum í samgöngukerfinu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Að efla almenningssamgöngur á landinu öllu.
  • Að leita leiða til að flýta gerð Borgarlínu, sérstaklega að flýta undirbúningi og framkvæmd á síðari áfönga verkefnisins, í Garðabæ og Hafnarfirði sem og í Mosfellsbæ.
  • Að fjölga jarðgöngum, fækka einbreiðum brúm og breikka vegi eftir markvissri áætlun.
  • Að styrkja tengivegi, fjölga útskotum þar sem það á við og tryggja þjónustu við vegi allan veturinn í öllum byggðalögum.
  • Bæta nýtingu flugvalla á Akureyri og Egilsstöðum fyrir millilandaflug sem mun bæði nýtast heimafólki og ferðaþjónustu um allt land.
  • Flugsamgöngur bera ábyrgð á um 2% af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og fer sú losun vaxandi. Beita þarf mengunarbótareglunni og tengja flugvallagjöld við losun frá flugvélum til að hvetja til meiri orkunýtni og notkunar umhverfisvænni orkugjafa.
  • Setja kröfur um stigvaxandi notkun umhverfisvænni orkugjafa í flugi innanlands og á milli landa og fylgja í þessum efnum framsækinni þróun í nágrannaríkjum okkar.

Ályktun um málefni aldraðra

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 telur að auka þurfi fjölbreytni í búsetuúrræðum aldraðra í því skyni að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun en ekki síður til að bjóða upp á húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Í Reykjavík eru 450 þjónustuíbúðir til leigu, þar sem boðið er upp á sólarhringsvakt, mat og félagsstarf. Slíkum búsetuúrræðum þarf að fjölga.

Um leið og fagnað er myndarlegri uppbyggingu hjúkrunarheimila um land allt þá er rétt að benda á að gróðasjónarmið þarf að útiloka við byggingu og rekstur hjúkrunarheimila, arðsemiskröfur eiga ekki heima þar.

Aldraðir eiga að geta búið heima eins lengi og þeir vilja og geta. Þar skiptir mestu máli samþætting þjónustu ríkis og sveitarfélaga, heilsugæslan, heimaþjónusta og heimahjúkrun með viðunandi kvöld- og helgarþjónustu. Efla þarf nýsköpun í þjónustu við aldraða. Þar eru bundnar vonir við velferðartækni ýmiss konar sem gjörbyltir möguleikum fólks til að  geta búið heima. Þekking eldra fólks á nýrri tækni til að eiga í samskiptum við ættingja, vini og ýmsa þjónustuaðila skiptir einnig miklu máli.

Samþætta þarf þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Skipulag heilbrigðisþjónustu taki mið af ört vaxandi fjölda aldraðra. Efla þarf þjónustu á hjúkrunarheimilum, einkum með þverfaglegum teymum þar sem, auk starfsfólks sem nú þegar starfar þar, verði bætt við og lögð sérstök áhersla á geðvernd, iðjuþjálfun og tannvernd.

Fagna ber gjörbyltingu í greiðsluþátttöku aldraðra í læknisþjónustu sem aldraðir kunna svo sannarlega að meta eins og sést best í nýútkominni rannsókn á högum eldri borgara. Slík ráðstöfun kemur sér best fyrir þá sem minnst hafa milli handanna og skiptir þann hóp meira máli en skattaívilnanir.

Ályktun um rekjanleika búvara á Íslandi

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 ályktar að VG hafi það á stefnuskrá sinni að rekjanleiki búvara á Íslandi verði að fullu innleiddur til neytenda. [1] 

 

Ályktun um íþróttir og útivist 

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 leggur áherslu á mikilvægi íþrótta, hreyfingar og útivistar. Það er ekki síst á tímum eins og nú þegar farsótt geisar að í ljós kemur hversu hreyfing er mikilvæg fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði landsmanna. Íþróttir og útivist bæta og styrkja heilsu landsmanna og draga þannig úr álagi á heilbrigðiskerfið. Innlendar rannsóknir sýna að aðstaða til iðkunar íþrótta og útivistar er einn af lykilþáttum þess sem fólk lítur til þegar það ákveður búsetu. 

Með þá staðreynd að leiðarljósi, hvetur Vinstrihreyfingin – grænt framboð sveitarfélögin til áframhaldandi góðra verka hvort sem er til stuðnings við íþróttafélög á sínu svæði eða uppbyggingar til ástundunar íþrótta og útivistar þannig að hvert og eitt geti stundað hreyfingu við hæfi í nærumhverfi sínu. Til fyrirmyndar er þegar byggð er upp aðstaða til hreyfingar á útivistarsvæðum og mættu vera fleiri slíkir lýðheilsugarðar um land allt.  

Íþróttahreyfing er fjölmennasta grasrótarhreyfing landsins með yfir 150.000 skráða meðlimi. Afreksíþróttafólkið okkar ber hróður landsins um allan heim og eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir æsku landsins. VG vill styðja þessar fyrirmyndir enn frekar með eflingu afrekssjóðs ÍSÍ að því marki að fleiri afreksíþróttamenn geti helgað sig æfingum og keppni án þess að hafa áhyggjur af sinni framfærslu. Þetta verði gert í samstarfi við ÍSÍ í gegnum afreksíþróttasjóð. Við erum öll íþróttafólk.

Ályktun um mannúð ofar skilvirkni

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 brýnir mikilvægi þess að taka málefni útlendinga og þá sérstaklega fólks sem kemur hingað í leit að alþjóðlegri vernd, fastari tökum. Sú staðreynd að aftur og aftur komi upp mál sem sýna ómannúðlega meðferð á fólki í leit að alþjóðlegri vernd er engan veginn í takt við yfirlýsingar stjórnvalda um betrumbætur í þessum málaflokki.

Stjórnvöld þurfa að marka stefnu í útlendingamálum sem byggir á mannúð og þeim sáttmálum sem Ísland er aðili að, og þá sérstaklega Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það þarf að styrkja stoðir og samræma vinnu þeirra stofnana sem koma að málefnum útlendinga og fylgja vel eftir þeim sem hér fá vernd, þá sérstaklega með félagslegum og sálrænum stuðningi. Landsfundur VG telur tímabært að leggja niður Útlendingastofnun í þeirri mynd sem hún er í dag og byggja upp mannúðlegra kerfi og endurskoða lista yfir „örugg lönd.“

Ályktun um að ungt fólk er ekki skrautmunir

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 telur löngu tímabært að ungt fólk fái raunverulegt sæti við borðið og ekki sé komið fram við það eins og skrautmuni sem gott er að auglýsa á tyllidögum. Ungt fólk er ekki bara framtíðin, það er hér núna, greiðir skatta og mikilvægt er að raddir þess heyrist sem víðast. Við viljum sjá kosningaaldur lækkaðan niður í 16 ára í Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og krefjumst þess að Vinstrihreyfingin – grænt framboð setji inn í forvalsreglur að fólk undir 35 ára skipi eitt af fjórum efstu sætum á listum hreyfingarinnar í öllum kjördæmum, sama gildi um lista í kosningum til sveitastjórna.

Ályktun um að setja markið hærra í loftslagsmálum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 fagnar því að aðgerðaáætlanir til að sporna gegn aukinni losun gróðurhúsalofttegunda hafi verið gerðar og, það sem meira er, fjármagnaðar. Aðgerðaáætlun ein og sér dugir þó skammt. Við þurfum að sjá fleirum af þeim stórgóðu aðgerðum sem má finna í áætluninni hrint í framkvæmd strax, svo hægt sé að snúa við þróuninni sem orðið hefur og svo að Ísland geti með afgerandi hætti staðist skuldbindingar Parísarsáttmálans. Auk þess eigum við að gera betur en að uppfylla skyldur sáttmálans og vera fyrirmynd fyrir alþjóðasamfélagið.

Ályktun um Samtökin 78

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 fagnar því að forsætisráðuneyti hafi gert þriggja ára samning við Samtökin 78 sem hafa unnið ómetanlegt brautryðjendastarf í þágu hinsegin fólks á Íslandi og verið miðpunktur hinsegin samfélagsins, fyrir utan að bjóða skólakerfinu og vinnustöðum á landinu upp á mikilvæga fræðslu. Öryggi rekstrar Samtakanna 78 hefur lengi liðið fyrir að samningar við þau eru tímabundnir, og mikilvægt er að tryggja rekstaröryggi til framtíðar.

Ályktun um úrræði fyrir heimilislausa

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 vekur athygli á mikilvægi aðgerða vegna húsnæðisvanda heimilislausra með fjölþættan vanda, sem tekur mið af  raunverulegum aðstæðum fólks og er í anda hugmyndafræði ,,húsnæði fyrst” (e. housing first). Slíkar aðgerðir þurfa bæði að miða að lausnum til langs tíma og enn fremur að fjölþættum áskorunum heimilislausra. Neyðarskýli með takmarkaðan opnunartíma eru einungis til þess fallin að einstaklingar frjósi ekki á götum úti þá nóttina. Öruggur og mannsæmandi húsnæðiskostur og góð stuðningsþjónusta er grundvöllur þess að fólk nái undir sig fótum og geti tekist á við flóknari vanda. Tímabundið úrræði á vegum Reykjavíkurborgar sem var hluti af viðbrögðum við fyrstu bylgju Covid-19 á Íslandi, fól í sér að húsnæðiskostur stóð til boða allan sólarhringinn, jók til muna öryggi og lífsgæði þeirra sem nýttu sér það. Þörf er á því að stuðla að viðhorfsbreytingu með aukinni fræðslu og þekkingu. Landsfundurinn hvetur ríki og sveitarfélög til að beita sér fyrir langtímalausnum af þessu tagi. 

Ályktun um viðurlög við launaþjófnaði

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 7. og 8. maí 2021 fordæmir að launaþjófnaður, sem helst bitnar á ungu fólki og fólki af erlendum uppruna, viðgangist án afleiðinga. Launaþjófnaður er ein birtingarmynd fjölþætts misréttis sem þessir hópar mæta oft á atvinnumarkaði. Það er gjörsamlega óásættanlegt að slíkt viðgangist í okkar samfélagi. 

Á meðan launaþjófnaður hefur ekki afleiðingar fyrir atvinnurekendur mun hann viðgangast áfram. Stöðva þarf þessa þróun með afdráttarlausri lagasetningu.

Félagsleg undirboð og brotastarfsemi verði stöðvuð og einnig tekið á starfsemi þeirra fyrirtækja sem ekki fara eftir ákvæðum innlendra kjarasamninga.


Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search