Search
Close this search box.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á fundi flokksráðs 20 maí 2022

Deildu 

Kæru félagar.

Við höldum þennan flokksráðsfund nýkomin út úr sveitarstjórnarkosningum. Þær voru í senn skemmtilegar og erfiðar. Skemmtilegar því að baráttan var skemmtileg, frambjóðendur frábærir og málefnavinnan öflug. Ég heimsótti öll sjálfstæð framboð okkar um landið og eins nokkur blönduð framboð. Alls staðar var sóknarhugur og góð stemmning.

En þær voru líka erfiðar því að þær fóru ekki alls staðar eins og við hefðum kosið. Víða úti um land gekk okkur vel og við erum fjórði stærsti stjórnmálaflokkur landsins þegar taldir eru fulltrúar okkar í sveitarstjórnum. En annars staðar uppskárum við ekki eins og við hefðum viljað. Hér á höfuðborgarsvæðinu tókst okkur ekki að ná inn fulltrúum í Hafnarfirði og Kópavogi og við misstum okkar góða fulltrúa í Mosfellsbæ. Reykjavík og Garðabær halda upp merki okkar á höfuðborgarsvæðinu en þar eigum við einn fulltrúa á hvorum stað.

Ýmsar kenningar eru uppi um af hverju ekki gekk betur. Vinsælt er að benda á landsmálin sem skýringu og vafalaust hafa þau haft einhver áhrif þó að þau geti ekki talist fullnægjandi skýring. Einum stjórnarflokkanna gekk jú mjög vel í þessum kosningum – okkur hinum síður. En við höfum auðvitað mætt ýmsum áskorunum í þessu stjórnarsamstarfi. Alvarlegasta málið er líklega Landsréttarmálið sem kom upp snemma á síðasta kjörtímabili og leiddi til þess að einn ráðherra sagði af sér.

Það er ljóst að þau mál sem tengjast sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafa valdið mikilli umræðu í okkar hreyfingu. Og þannig á það að vera. Það er stórmál þegar ríkið selur hlut í banka. Og við eigum að gera kröfu til þess að slíkt sé hafið yfir allan vafa. Um slíkt verður að ríkja algjört gagnsæi því það er besta leiðin til að tryggja aðhald og framkvæmdin sé í samræmi við væntingar.

 Málið er nú til rannsóknar bæði hjá Fjármálaeftirlitinu og Ríkisendurskoðun sem eru þær stofnanir sem hafa það hlutverk að gera það. Það má gera ráð fyrir að niðurstaða þeirra liggi fyrir nú um mánaðarmótin. Við höfum sagt að ef niðurstöður þeirra gefa tilefni til frekari rannsókna þá verði ráðist í það. Það er einfaldlega vegna þess að fólkið í landinu á að fá allar upplýsingar um þetta mál. Öðruvísi verður ekkert traust.

Það hvernig þetta mál og önnur tengjast niðurstöðum sveitarstjórnarkosninga er hins vegar ekki samkvæmt einhverri einfaldri og fyrirséðri reikniformúlu. Stjórnarandstöðuflokkar sem gengið hafa hvað harðast fram gegn okkur – ekki síst í bankasölumálum – riðu til dæmis ekki feitum hesti frá þessum kosningum. Þau hljóta nú að fara að endurskoða sína niðurrifspólitík sem oft virðist aðallega snúast um að tala aðra, og kannski ekki síst okkur Vinstri-græn sem mest niður. Niðurrifspólitíkin hefur skilað þeim litlum sem engum árangri í tvennum kosningum. Og þar sem ég legg ekki í vana minn að tala um aðra flokka þá læt ég mér nægja að segja: Ég óska þeim velfarnaðar og gef þeim það einlæga ráð að einbeita sér að því að bera fram sínar eigin hugmyndir, stefnur og aðgerðir ef þau vilja ná einhverju fram. Um það eiga stjórnmál að snúast.

Annað mál sem ég var í öllu falli spurð um í kosningabaráttunni var möguleg aðild Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu. Þar stöndum við frammi fyrir því að þeir atburðir sem hafa orðið í álfunni – innrás Rússa í Úkraínu – hafa breytt mjög umræðu um þessi mál í nágrannaríkjum. Þar hafa þjóðþing bæði Finnlands og Svíþjóðar samþykkt aðildarumsókn – og hafa forsætisráðherrar þessara landa óskað eftir stuðningi íslenskra stjórnvalda við sínar umsóknir. Ég hef því lýst þeirri afstöðu minni að ég muni styðja umsóknina þegar hún kemur til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga. Það byggi ég á því að ég virði lýðræðislega niðurstöðu þessara frænd- og vinaþjóða sem hafa komist að þessari niðurstöðu vegna innrásarinnar í Úkraínu og ég minni á að Finnland og Svíþjóð hafa ásamt okkur og öðrum Norðurlandaþjóðum verið fremst í flokki að tala fyrir friðsamlegum lausnum á vettvangi heimsmálanna.

Ég held að margir samverkandi þættir hafi haft áhrif á úrslit kosninga á hverjum stað. Við höfum lengi átt undir högg að sækja á sveitarstjórnarstigi og þrátt fyrir mjög gott starf í sveitarstjórnarráði hafa sveitarstjórnarmálin átt undir högg að sækja í almennri umræðu innan hreyfingarinnar sem hefur fyrst og fremst snúist um landsmálin. Við í forystu hreyfingarinnar verðum að taka það til alvarlegrar skoðunar að forgangsraða bæði starfsfólki og fjármunum í að styðja við þá sveitarstjórnarfulltrúa sem við eigum sem og þau svæðisfélög þar sem við eigum ekki fulltrúa. Við vitum að starf svæðisfélaganna styrkist stórkostlega við það að eiga fulltrúa í sveitarstjórn og þar með fulltrúa í nefndum og ráðum. Sveitarstjórnarmálin verða að vera til meiri umræðu innan okkar hreyfingar. Og við þurfum líka að sjálfsögðu að ræða hvernig við setjum okkar málefni fram – hvað við getum gert betur þar. Og auðvitað eigum við líka að ræða landsmálin.

Kæru félagar.

Árangurinn af þátttöku okkar í ríkisstjórn er að mínu viti ótvíræður. Ég get nefnt félagsleg réttlætismál eins og þrepaskipt skattkerfi, lengingu fæðingarorlofs, nýja löggjöf sem kemur í veg fyrir samþjöppun lands á of fáar hendur eða styrkingu barnabótakerfisins. Ég get nefnt jafnréttis- og mannréttindamál eins og nýja löggjöf um þungunarrof – sem tryggir grundvallarréttindi kvenna sem víða er sótt að – , kynrænt sjálfræði og þá staðreynd að Ísland hefur farið hratt upp á listum um hinsegin réttindi í heiminum vegna okkar forystu. Ég get nefnt umhverfis- og náttúruverndarmál eins og tugi friðlýsinga á ómetanlegri náttúru, bann við olíuvinnslu og fyrsta fullfjármagnaða aðgerðaáætlunin og metnaðarfull markmið í loftslagsmálum.

Allt eru þetta ómetanleg framfaramál. Mál sem íslensk vinstrihreyfing og umhverfisverndarhreyfing hefur barist fyrir í áratugi – nú orðin að veruleika fyrir okkar tilstuðlan. Ekkert af þessu hefði orðið að veruleika án okkar.

Það eru mörg mikilvæg verk framundan. Ég get nefnt löngu tímabæra endurskoðun almannatryggingakerfisins þar sem fyrstu skrefin hafa þegar verið stigin með auknu framboði sveigjanlegra starfa. Ég get nefnt réttlát umskipti í landbúnaði þar sem við leggjum áherslu á aukna matvælaframleiðslu sem styður við loftslagsmarkmið. Efling barnabótakerfisins þannig að það nái til fleiri fjölskyldna er annað mál. Endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Aðgerðir til að draga enn meira úr launamun kynjanna. Stefnumótun um útlendinga og breyttar áherslur þar sem við leggjum aukna áherslu á að taka á móti kvótaflóttafólki. Við erum komin af stað í mikilvægar aðgerðir í loftslagsmálum. Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Ný stefna í mannréttindamálum og ný Mannréttindastofnun. Allt eru þetta okkar framfaramál sem við höfum lengi barist fyrir og miða að því bæta samfélagið. Þetta eru allt mál sem við viljum að sjálfsögðu að verði að veruleika.

Þá eru ónefnd þau verkefni sem koma í fangið á okkur eins og heimsfaraldur á síðasta kjörtímabili og stríðið sem nú stendur yfir.

Eftir vel heppnaðar aðgerðir til að takast á við kórónuveirufaraldurinn – bæði sóttvarnaraðgerðir, félagslegar aðgerðir og efnahagslegar sem allar byggðu á að tryggja félagslegan stöðugleika – stöndum við nú frammi fyrir annars konar áskorunum. Þenslu og verðbólgu, sem nú eru ekki séríslensk heldur vandamál bæði austan hafs og vestan. Stjórnvöld hafa nú þegar gripið til aðgerða til að styðja betur við tekjulægri hópa sem hafa lítið svigrúm til að mæta þessum aðstæðum og verja þá fyrir verðbólgunni. Það gerðum við með því hækka greiðslur almannatrygginga og hækka húsnæðisstuðning sem nýtist fyrst og fremst þeim sem eru á leigumarkaði og hafa margir þunga byrði húsnæðiskostnaðar. Þá verður sérstakur barnabótaauki  sem nýtist barnafólk. Framundan er endurskoðun á barnabótakerfinu sem við viljum byggja upp enda mikilvægt tekjujöfnunartæki sem styður við fólk einmitt á því skeiði lífsins sem þörfin er mest. Og við munum áfram fylgjast náið með áhrifum þessarar þróunar á ólíka hópa til þess að geta brugðist við með áhrifaríkum hætti.

Það er ávallt hlutverk stjórnvalda að styðja við almenning þegar aðstæður breytast og áfram reynir á samstöðu okkar allra gagnvart nýjum áskorunum. Verðbólgan nú er í senn afleiðing heimsfaraldurs og styrjaldar sem geisar í Evrópu – hvorttveggja hefur mikil áhrif á framleiðslukeðjur heimsins með tilheyrandi verðbólgu.

En fyrirtækin bera líka ábyrgð í samfélaginu. Það skiptir máli að fyrirtæki sem jafnvel hafa skilað góðum hagnaði sýni samfélagslega ábyrgð í verki og standi með íslensku samfélagi. Til dæmis með því að taka á sig hluta verðhækkana í stað þess að velta þeim beint út í verðlag og styðja þannig við almenning í landinu sem alltaf þarf að kaupa í matinn, sama hvernig viðrar. Þau eiga að leggja sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika í víðum skilningi. Þetta voru skilaboð mín til atvinnulífsins á Viðskiptaþingi fyrr í dag.

Samfélagið stóð svo sannarlega með fyrirtækjunum í landinu í gegnum þann mótbyr sem heimsfaraldurinn skapaði þeim og nú er komið að þeim að standa með samfélaginu. Það er nefnilega hluti af hinni samfélagslegu sátt að við stöndum ekki aðeins saman þegar á móti blæs heldur líka þegar betur gengur.

Kæru félagar

Stjórnvöld munu ekki láta sitt eftir liggja til að koma samfélaginu í gegnum þennan brimskafl – svo notað sé sívinsælt orð – við kynntum í gær tillögur í húsnæðismálum um að tryggja húsnæðisöryggi fyrir fólk. Húsnæðismál eru eitt stærsta velferðarmálið og er eitt af forgangsmálum okkar á þessu kjörtímabili. Ríki og sveitarfélög munu skuldbinda sig til að tryggja uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til lengri tíma og leggja sitt af mörkum í gegnum stofnframlög og stuðning við innviði, lóðaframboð og skipulagningu. Þar verður horft til þess að tryggja nægt framboð, húsæðisöryggi og að sem fæstir – og helst enginn – búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Þar verður líka horft til þess að tryggja jöfnuð og fjölbreytni, til dæmis með ákvæðum um félagslega blöndun við skipulagningu hverfa og þar verður horft til þess að fólk sem lætur húsnæði standa tómt og jafnvel drabbast niður verði einfaldlega látið greiða fyrir slíka sóun.

Og gleymum því ekki að hvernig við byggjum upp nýtt húsnæði er líka loftslagsmál, bæði þegar kemur að byggingageiranum sjálfum og losun frá byggingarefnum og framkvæmdum en ekki síður tengist það náið skiplags- og samgöngumálum. Við viljum sjá græna uppbyggingu um land allt sem býr til góð og mannvæn samfélög. Og um leið viljum við koma í veg fyrir stöðugar sveiflur á húsnæðismarkaði og að húsnæðisverð verði sá drifkraftur verðbólgunnar sem við höfum séð undanfarið og raunar oft áður – það gerum við með því að tryggja aukinn stöðugleika í framboði sem stuðlar að lægri húsnæðiskostnaði, jafnara aðgengi að hagkvæmu húsnæði og að lokum að húsnæðisöryggi fyrir alla sem er okkar stóra markmið og tilgangur.

Stjórn efnahagsmála og að ná tökum á verðbólgunni er vissulega ein þeirra áskorana sem er framundan. En hinar áskoranirnar fara ekki í frí á meðan við tökumst á við hana. Loftslagsváin fór hvergi á meðan faraldrinum stóð og raunar mega flestar aðrar áskoranir sín lítils í samanburði við það verkefni sem við okkur blasir í þeim efnum eins og við höfum lengi vitað.

Ef við ætlum að ná árangri í baráttunni þá er það lífsnauðsynlegt að við setjum okkur skýr markmið og aðgerðaáætlanir til að ná þessum markmiðum. Og það höfum við gert; um 55% samdrátt í losun sem er á ábyrgð Íslands fyrir árið 2030. Nú stendur yfir vinna í umhverfisráðuneytinu við að fá alla geira atvinnulífsins til að setja sér loftslagsmarkmið og áætlanir því ef við ætlum okkar að ná stóra markmiðinu þurfa allir að gera sitt. Við höfum byggt upp bæði skattalega hvata og ívilnanir sem eiga að hvetja til orkuskipta í samgöngum, við höfum sett miðlæga stefnu um úrgangsmál, við viljum að sjávarútvegurinn og landbúnaðinn taki með okkur stór græn skref, höfum lagt áherslu á samþættingu loftslagsmarkmiða og skipulags- og samgöngumála, loftslagsvænni byggingariðnað og stutt við rannsóknir og þróun í loftslagsvænum lausnum svo eitthvað sé nefnt.

En betur má ef duga skal, niðurstöður vísindamanna eru skýrar, við þurfum að gefa í og gera betur. Ríkisstjórnin leggur nú sérstaka áherslu á að ljúka við stefnumótun um sjálfbæra þróun fyrir Ísland og að hugmyndafræði réttlátra umskipta marki allar okkar aðgerðir í loftslagsmálum og við tryggjum að samhliða samdrætti í losun, aukinni kolefnisbindingu og aðlögun að loftslagsbreytingum aukum við velsæld og lífsgæði almennings og skiljum engan eftir. Þetta verkefni kallar á að við horfum til allra þátta, efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra í öllum þeim viðfangsefnum sem við okkur blasa.

Ég hef sagt það víða um land að við stöndum frammi fyrir áskorunum á 21. öldinni sem eiga eftir að verða enn meira áberandi í hinni pólitísku umræðu á komandi árum. Þær eru einfaldlega orka – matur – vatn.

Og þróun í alþjóðamálum hefur gert þessar áskoranir enn meira knýjandi. Evrópa reynir nú að hraða för í orkuskiptum. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna talar um að framundan sé heimskreppa í matvælum. Og loftslagsváin ýkir þetta hvorttveggja – og þar kemur vatnið inn, ein dýrmætasta auðlind sem við eigum.

Það skiptir máli að marka hina pólitísku stefnu í orkumálum. Þar eigum við í VG að tala skýrt:

  • Það á að forgangsraða orkunni til innlendra orkuskipta – þau eiga að auka velsæld á Íslandi.
  • Við verðum að muna að orku-auðlindin og yfirráð yfir henni er hluti af fullveldinu.
  • Fallvötnum verður ekki fórnað í þágu erlendra aðila, ekki nú fremur en áður. Það verður aðeins gert í þágu almennings á Íslandi – nú og til framtíðar.

Við hitaveituvæddum Ísland og það hefur skilað sér í lífskjörum íslensks almennings. Við fluttum ekki heita vatnið úr landi! Og að sama skapi eiga innlend orkuskipti að vera okkar forgangsmál, við eigum áfram að forgangsraða innlendum orkuskiptum.  Á þeirri vegferð getum við þróað leiðir og tækni sem við getum deilt með umheiminum eins og við höfum gert með þróun á hitaveitu víða um heim.

Áfram eigum við að tryggja faglegt ferli í mati á virkjanakostum í gegnum rammaáætlun – og tryggja þannig hið mikilvæga jafnvægi verndar og nýtingar og það má ekki gleyma því að vernd skilar okkar samfélagi ómetanlegum gæðum sem verða æ eftirsóknarverðari í heiminum í dag – þar sem ósnortin náttúra verður æ fágætari. Innan úr ferðaþjónustunni heyrast þær fregnir að Ísland hafi sjaldan verið eftirsóttara, og eftir uppbyggingartímabil á innviðum og auknum framlögum til landvörslu sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson forgangsraðaði í tíð sinni sem umhverfisráðherra verður hægt að taka hér á móti fólki í sumar sem vill upplifa okkar einstöku náttúru með öruggari hætti en áður og án þess að ganga um of á þolmörk náttúrunnar.

Að lokum þurfum við að tryggja það að á þessu kjörtímabili verði markaður rammi utan um það hvernig við ætlumst til þess að arðurinn af nýrri auðlind – vindorkunni – renni til samfélagsins. Þar þurfum við að skrifa leikreglurnar áður en meira gerist því staðan er sú að einkaaðilar, innlendir og erlendir, hafa merkt sér svæði víða um land. Fyrst þarf að ná samfélagslegri sátt um arðinn – og ekki síður marka stefnu um uppbyggingu vindorku. Víða erlendis hefur uppbyggingunni verið beint út á haf og við eigum að marka stefnu um það hvernig við viljum haga málum því vindorkan hefur svo sannarlega áhrif á landslagið – okkar ósnortnu víðefni – og það er mikilvægt að marka skýra sýn um það hvar hún á heima og hvar ekki.

Við stöndum líka á tímamótum þegar kemur að matvælaframleiðslu – og þá er ekki ónýtt að hafa Svandísi sem okkar vinstri-græna matvælaráðherra. Við eigum ómæld tækifæri til að efla hér matvælaframleiðslu þannig að við verðum í auknum mæli sjálfum okkur nóg. En gera það um leið með þeim hætti að matvælaframleiðslan stuðli að markmiðum okkar í loftslagsmálum. Við getum kallað það réttlát umskipti í landbúnaði og sjávarútvegi; áherslumál okkar sem fór inn í stjórnarsáttmála og getur skipt sköpum um það hvernig framtíðin verður á Íslandi.

Og að lokum vatnið. Eignarhald á landi er lykilatriði þegar kemur að þessari auðlind. Þar skiptir máli eignarhald almennings á þjóðlendunum. Að við settum ný lög sem koma í veg fyrir samþjöppun lands á of fáar hendur.

Það er ljóst, kæru félagar, að verkefni okkar við að stuðla að framförum, félagslegu réttlæti, mannréttindum, jafnrétti og umhverfisvernd eru óteljandi. Það undanförnum fimm árum hefur náðst árangur og mörgum verkefnum hefur verið lokið. En erindi okkar lýkur aldrei. Það kallar á úthald, staðfestu, kjark og baráttuvilja. Þessi barátta er stundum eins og eilíf fjallaganga – með mótbyr og mótlæti – en við megum ekki gleyma því að hver varða á leiðinni upp skiptir máli og við megum vera stolt af þeim vörðum sem við höfum náð.

Er þetta  þess virði? Kann einhver að spyrja. Mitt svar við því er ótvírætt já. Og ég held að fólkinu í landinu finnist þetta allt vera þess virði, og ég er með fréttir: Niðurrifsstjórnmálin hafa beðið skipsbrot í síðustu tveimur kosningum. Eru skilaboðin kannski þau að fólkið í landinu vilji ekki slík stjórnmál? Vill það ekki heldur stjórnmálahreyfingar sem hafa getu og sjálfstraust til þess að koma með nýjar hugmyndir og stefnur sem miða að því að auka velsæld í landinu og takast á stærstu úrlausnarefni samtímans? Stjórmálahreyfingar sem eru tilbúnar til að taka ábyrgð og koma stefnu sinni í framkvæmd? Og er ekki líklegt að fólk vilji að stjórmálahreyfingar séu tilbúnar til að takast á um málefni og hlusta á aðra af virðingu – líka fólk sem hugsar ekki alveg eins? Höfum þetta í huga og sýnum áfram kjark og baráttuvilja.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search