Við náðum saman tökum á útbreiðslu kórónuveirunnar í upphafi ársins sem var ekki lítið átak. Veiran er vissulega enn til staðar, en veldur ekki sama usla og áður. Við höfðum þó ekki fyrr aflétt flestum takmörkunum í samfélaginu vegna kórónuveirunnar að Rússar réðust inn í Úkraínu. Afleiðingar innrásarinnar hafa verið eitt stærsta málið sem ríkisstjórnin hefur tekist á við á árinu 2022. Ríkisstjórnin brást við líkt og önnur Evrópuríki og virkjaði 44. gr. laga um útlendinga sem kveður á um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta. Við höfum tekið á móti rúmlega fjögur þúsundum á flótta, flestum frá Úkraínu, og viðbragð okkar Íslendinga hefur verið okkur til sóma, bæði í móttöku flóttafólks hér heima og með auknum beinum stuðningi við Úkraínu í gegnum utanríkisráðuneytið. Ég vil þakka sérstaklega öllum þeim sem hafa lagt mikið á sig vegna þessara breyttu aðstæðna, það verður til þess að við getum horft stolt til baka þegar fram líður.
Stóraukin áhersla á móttöku flóttafólks og gerð innflytjendastefnu
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur verið í hringiðu móttöku á flóttafólki og tók forystu í stofnun móttökumiðstöðvar fólks á flótta í húsnæði sem áður hýsti Domus Medica. Þetta gerir umsækjendum um alþjóðlega vernd kleift að sækja þjónustu stofnana ríkisins á einn stað, sem hefur stórbætt þjónustuna. Í framhaldi hófust samningaviðræður við sveitarfélög um samræmda móttöku flóttafólks og nú í vetur er verið að koma samningum til framkvæmdar. Í samningunum felst fjárhagsleg aðstoð ríkisins við lögbundin hlutverk sveitarfélaga í að taka á móti flóttafólki, með það að markmiði að gera flóttafólki auðveldara að komast inn í samfélagið og verða virkir þátttakendur í leik og starfi. Þá er búið að tryggja aukið fjármagn til íslenskukennslu fyrir innflytjendur á næsta ári sem er lykillinn að því að aðlagast samfélaginu. Viðbrögð okkar allra núna munu hafa mikil áhrif á hvernig til tekst í framtíðinni.
Talandi um framtíðina, þá skipaði ég nýlega starfshóp um mótun stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks á Íslandi. Slík stefna er ekki til en mikilvægi hennar er augljóst. Um 18% landsmanna eru af erlendu bergi brotin. Í öllum þeim fjölbreytileika felast margvísleg tækifæri fyrir íslenskt samfélag, en það eru fjölmargar áskoranir sem einnig fylgja, ekki síst að fólk nái að aðlagast samfélaginu og fá sömu tækifæri hér og hver önnur. Þannig þarf að huga sérstaklega vel að íslenskukennslu í skólum og íslensku sem annað tungumál fyrir fullorðið fólk. Við þurfum einnig að meta menntun og reynslu fólks sem hingað kemur að meiri verðleikum og nýta þannig þekkingu innflytjenda þjóðfélaginu til framdráttar.
AUGLÝSING
Fjármunum beint þar sem þeir gera mest gagn
Í efnahagsmálum höfum við hér heima á Íslandi glímt við vaxandi verðbólgu líkt og önnur lönd hafa gert. Verðbólgan stafar bæði af aðstæðum hér innanlands, ekki síst á húsnæðismarkaði, en líka af utanaðkomandi þáttum í öðrum löndum sem erfitt er að ráða við. Staða ríkisfjármála er mun betri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir og bati í efnahagslífinu hefur verið mun skjótari en búist var við, til dæmis hefur ferðaþjónustan tekið hraðar við sér en gert var ráð fyrir. Snarpur efnahagslegur bati er ekki síst vegna þess að okkur auðnaðist með markvissum aðgerðum að halda atvinnulífinu á lífi við ótrúlega krefjandi aðstæður á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð og aðgerðir gegn atvinnuleysi skiluðu góðum árangri. Verðbólgan mun áfram verða eitt meginviðfangsefni efnahagsstjórnunarinnar á næsta ári.
Stuðningur við kjarasamninga á mikilvægum tímum
Sá mikilvægi áfangi náðist nú í desember að kjarasamningar voru undirritaðir fyrir stærstan hluta launafólks á almennum vinnumarkaði. Flest félög innan Starfsgreinasambands Íslands voru í fararbroddi og verslunarmenn og samflot iðn- og tæknifólks fylgdi svo í kjölfarið. Viðræður eru enn í gangi á milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar og vona ég sannarlega að viðsemjendur nái fljótt saman á nýju ári.
Kjarasamningar fyrir stærstan hluta launafólks á almennum vinnumarkaði er mikilvægur og jákvæður áfangi á óvissutímum. Ríkisstjórnin er í stöðugu samtali við aðila vinnumarkaðarins og hefur á undanförum mánuðum átt í nánu samtali við þau um aðgerðir til að greiða fyrir samningum sem styðja við markmið þeirra um að skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum með lækkun verðbólgu og vaxta og þannig náum við meðal annars að verja kaupmátt og lífskjör launafólks.
Byggt verði meira húsnæði og stutt við barnafólk
Í húsnæðismálum mun byggingu nýrra íbúða fjölga í samstarfi við sveitarfélög og haldið verður áfram uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum frá ríkinu sem nemur 4 milljörðum króna á næsta ári. Sú uppbygging bætist við þær 3.000 íbúðir sem byggðar hafa verið upp í almenna íbúðakerfinu á undanförnum árum m.a. í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna í gegn um Bjarg íbúðafélag sem hefur reynst afar mikilvægt til að lækka húsnæðiskostnað og auka húsnæðisöryggi tekjulægri heimila. Einnig verður áfram unnið að því að bæta réttarstöðu leigjenda með breytingum á húsnæðislögum.
Húsnæðisstuðningur verður aukinn nú um áramótin með 13,8% hækkun húsnæðisbóta til leigjenda. Þessi aukning kemur til viðbótar þeirri 10% hækkun sem kom til framkvæmda 1. júní síðastliðinn. Þá munu eignarskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% sem mun styðja betur við eignaminni heimili. Auk þess verður heimild til skattfrjálsrar nýtingar á séreignarsparnaði til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ráðstöfunar inn á höfuðstól framlengd til ársloka 2024.
Stuðningur við barnafjölskyldur verður efldur og fjölskyldum sem fá barnabætur mun fjölga um nærri þrjú þúsund. Þannig mun heildarfjárhæð sem varið verður til barnabóta á næstu tveimur árum verða 5 milljörðum hærri en annars hefði orðið í óbreyttu kerfi. Barnabótakerfið verður einfaldað, dregið úr skerðingum og teknar upp samtímagreiðslur þannig að biðtími eftir barnabótum verði aldrei lengri en 4 mánuðir frá fæðingu barns.
Sorgarleyfi við barnsmissi
Alþingi samþykkti frumvarp mitt á árinu um sorgarleyfi þar sem foreldrum á vinnumarkaði er tryggt leyfi frá störfum í kjölfar barnsmissis auk þess sem þau fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði. Niðurstöður rannsókna sýna fram á mikilvægi þess að einstaklingar sem verða fyrir áföllum í lífinu haldi sambandi við vinnumarkaðinn eins og þeir treysta sér til hverju sinni. Markmiðið með frumvarpinu er að viðurkenna áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis.
Endurskoðun örorkulífeyriskerfisins stærsta málið
Ríkisstjórnin greip til aðgerða um mitt ár 2022 og hækkaði fjárhæðir almannatrygginga og húsnæðisbætur. Var það gert til að bregðast við hækkandi verðbólgu. Nú um áramót munu svo greiðslur almannatrygginga hækka til móts við hækkandi verðbólgu, en ljóst er einnig að horfa þarf enn betur til kjara örorkulífeyrisþega og þess eldra fólks sem minnst hefur á milli handanna. Vinna er í gangi við mótun tillagna í þá veru.
Það er mín stefna og áherslumál að við byggjum réttlátt samfélag þar sem við öll getum notið styrkleika okkar. Það er flestum ljóst að örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfið hefur beðið lengi eftir endurnýjun. Kerfið er flókið og stagbætt eftir lagfæringar og viðbætur gegnum árin og löngu kominn tími á heildarendurskoðun í átt að einföldun og gegnsæi. Þessi vinna er hafin og þegar farin að skila jákvæðum breytingum, en Alþingi samþykkti nýlega frumvarp mitt um hækkun frítekjumarks örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega úr tæpum 110.000 krónum í 200.000 krónur og taka þær breytingar gildi um áramótin. Þá samþykkti Alþingi einnig lengingu á tímanum sem hægt er að stunda endurhæfingu úr þrem árum í fimm. Þetta er hvoru tveggja gert til að auka líkur á að fólk með mismikla starfsgetu geti stundað vinnu. Í því samhengi er einnig mikilvægt að okkur auðnist að fjölga hlutastörfum og sveigjanlegum störfum, en vinna er í gangi við það.
Ég stefni á að kynna tillögur að frekari breytingum á örorkulífeyriskerfinu fljótlega á nýju ári sem hafa það að markmiði að skapa aukin tækifæri og betri kjör fyrir fólk með mismikla starfsgetu. Ég vil fá að þakka hagaðilum fyrir samstarf að þessum málum.
Fatlað fólk á að njóta sömu réttinda og tækifæra og hver önnur
Við eigum öll sama rétt til tækifæra í lífinu. Ég hef frá upphafi ráðherratíðar minnar lagt mikla áherslu á stöðu fatlaðs fólks, hinsegin fólks og innflytjenda, en tækifæri þeirra eru oft takmarkaðri en annarra. Á þessu kjörtímabili verður Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lögfestur og komið á fót óháðri Mannréttindastofnun, en þessi vinna er á ábyrgð forsætisráðherra. Undir ábyrgð mína fellur að vinna að gerð landsáætlunar um innleiðingu samningsins sem mun verða grundvallarbreyting hvað varðar viðurkenningu á réttindum, menntun, störfum og aðgengi fatlaðs fólks. Vinna verkefnastjórnar og starfshópa stendur yfir og við munum kynna drög að landsáætlun snemma á næsta ári.
Einnig var samþykkt á Alþingi núna fyrir jólin að fjölga samningum fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) um helming á næsta ári sem skiptir gríðarlega miklu máli til að auka lífsgæði og þátttöku í samfélaginu. Einnig stendur yfir umfangsmikil vinna við að bæta úr aðgengi fatlaðs fólks að hinum stafræna heimi. Komið var á fót rafrænum námskeiðum fyrir persónulega talsmenn fatlaðs fólks og stafrænn talsmannagrunnur tekinn í notkun sem er stórt skref og mikilvægt í að gera stafræna umbreytingu mögulega fyrir fatlað fólk. Þá tekur til starfa eftir áramót starfshópur sem á að skila mér tillögum að auknum starfs- og menntatækifærum fatlaðs fólks. Það er fátt meira gefandi en að taka þátt í að auka tækifæri fólks til betra lífs.
Hækkum um fimm sæti á Regnbogakortinu
Undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem stýrir jafnréttismálum hérlendis hefur á síðustu árum verið gripið til markvissra umbóta í málefnum hinsegin fólk, með löggjöf og auknum fjárhagslegum stuðningi við mannréttindasamtök á borð við Samtökin 78. Á árinu 2022 hélt sú vinna áfram en þá samþykkti Alþingi fyrstu aðgerðaráætlun á Íslandi í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022-2025. Þá er í gangi vinna starfshóps vegna hatursorðræðu, sem kemur meðal annars inn á hinsegin fólk og að vænta tillagna á næsta ári.
Regnbogakort ILGA Europe er mælikvarði á stöðu réttinda hinsegin fólks. Við hækkuðum úr 14. sæti upp í það 9 við síðustu mælingu. Engu að síður hefur orðið bakslag í viðhorfum og framkomu við hinsegin fólk, bæði hérlendis og erlendis, ekki síst meðal ungs fólks. Það er áframhaldandi verkefni að verja og berjast fyrir réttindum hinsegin fólks og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mun ótrauð vinna áfram að því verkefni.
Auðlindir Íslands og matvælaöryggi Íslendinga
Það er mikilvægt að við búum okkur til umhverfi þar sem við getum verið sem mest sjálfbær hvað varðar matvælaöryggi og verjum þær auðlindir sem við byggjum velferð okkar á. Slík vinna bar þegar árangur þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði spretthóp síðastliðið vor um matvælaframleiðslu sem sendi inn tillögur um styrki til greinarinnar til að verja íslenska matvælaframleiðslu. Styrkirnir voru svo afgreiddir í haust, en þeir voru ekki síst mikilvægir sauðfjárbændum, en staða þeirra hefur verið erfið um árabil. Þá er verið að skoða tillögur um aukið vægi kornræktar til að stuðla enn fremur að fæðuöryggi okkar.
Í lok maí 2022 skipaði matvælaráðherra fjóra starfshópa til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Starfshóparnir fjalla um samfélag, aðgengi, umgengni og tækifæri. Úr þeirri vinnu erum við að stefna á að skapa nýjan ramma þegar kemur að því hvernig við umgöngumst og ávöxtum auðlindirnar okkar á sem bestan hátt.
Sjálfur hef ég sérstakan áhuga á framtíð fiskeldis hér á landi, en ég hef lengi talað fyrir því að laxeldi í sjó verði að þróast úr opnum sjókvíum yfir í lokaðar sjókvíar og/eða færast upp á land. Umhverfisáhrif opins sjókvíaeldis, hvort sem horft er til staðbundinnar mengunar frá úrgangi, laxalúsar eða erfðablöndunar við villtan lax, eru að mínu mati of mikil. Á sama tíma fer mikilvægi þessarar atvinnugreinar ört vaxandi, bæði á landsvísu, en ekki síst í byggðum þar sem hallað hefur undan fæti. Einmitt þess vegna er gríðarlega mikilvægt að tekin verði stefnumótandi ákvörðun um hvernig við viljum sjá fiskeldi þróast á næstu árum og áratugum, í sátt við náttúruna. Ég vonast til að við fáum góðar tillögur úr starfshópum matvælaráðherra.
Mikilvæg vatnsföll komin í verndarflokk rammaáætlunar
Á árinu sem leið var rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða loksins samþykkt á Alþingi. Ég tel samþykki áætlunarinnar mikilvæga ekki síst til að þetta öfluga stjórntæki geti áfram lifað, því það væri verra að fara aftur til þess tíma þegar teknar voru ákvarðanir um hverja og eina virkjunarhugmynd. Rammaáætlun tekur nefnilega frá svæði í verndarflokk, þar sem ekki má virkja, sem er afar mikilvægt tæki í náttúruvernd.
Vissulega þarf málamiðlanir til að afgreiða mál sem þetta og við í VG stóðum að slíkri málamiðlun. Hún þýðir að sum þeirra svæða sem við hefðum viljað sjá í verndarflokki fara aftur til skoðunar (í biðflokk), en á móti kemur að önnur mikilvæg svæði sem flokkast höfðu í nýtingarflokk í tillögu að rammaáætlun og mikil andstaða var við, meðal annars Skrokkalda á hálendinu, fara líka aftur til skoðunar. Mikilvægast er að stór vatnsföll á borð við Skaftá og Skjálfandafljót með Aldeyjarfossi og fleiri náttúruundrum, eru nú komin í verndarflokk rammaáætlunar eins og náttúruverndarfólk hefur lengi barist fyrir. Því fagna ég.
Vatnaskil í úrgangsmálum
Það verður stórt skref stigið á þessu ári þegar sveitarfélög hefja innleiðingu á breyttri löggjöf varðandi úrgangsmál. Þetta er risastórt skref og hluti af því að styðja við hringrásarhagkerfi hérlendis. Aðdragandi þessa er samþykkt frumvarps míns sem umhverfisráðherra 2021 og byggir á úrgangsstefnu sem sett var í ráðherratíð minni. Lögin taka gildi 1. janúar 2023.
Löggjöfinni er ætlað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu og að úrgangur sé meðhöndlaður á þann hátt að hann skapi ekki hættu fyrir menn eða dýr eða valdi skaða í umhverfinu. Þá verður skylda að flokka sorp hvort sem er á heimilum eða hjá fyrirtækjum, sorpflokkun verður samræmd á öllu landinu, þannig að við þurfum ekki að flokka með mismunandi hætti eftir sveitarfélögum. Sveitarfélögin fá einnig lagalega heimild til að rukka fólk eftir því hve miklu rusli það hendir og eftir því hversu duglegt það er að flokka.
Við skulum taka þessum breytingum vel því við getum haft umtalsverð áhrif fyrir náttúru og loftslag með þessum breytingum.
Vernd 30% haf- og landsvæða
Þau gleðilegu tíðindi urðu nú í desember að tæplega 190 ríki sem eru aðilar að Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika komust að tímamótasamkomulagi um skilvirka verndun og stjórnun a.m.k. 30% af landi, strandsvæðum og hafsvæðum heimsins fyrir árið 2030. Sem stendur eru 17% lands og um 10% prósent hafsvæða í vernd á heimsvísu. Við Íslendingar höfum verndað um 24% af landsvæðum okkar en vel innan við 1% af hafsvæðum svo það eru næg sóknarfæri þar. Í ráðherratíð minni sem umhverfisráðherra friðlýsti ég yfir 30 svæði, ýmist var um að ræða stækkun þegar friðlýstra svæða eða ný svæði. Má þar nefna Geysi, Goðafoss, Látrabjarg, Kerlingarfjöll, Dranga á Ströndum, Stórurð og Gerpissvæðið, auk umfangsmikilla stækkana á Vatnajökulsþjóðgarði og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Þá friðlýsti ég nokkur vatnasvið og háhitasvæði gegn orkuvinnslu í samræmi við rammaáætlun.
Betri umgjörð um framtíð okkar á efri árum
Á árinu 2022 settum ég og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, í góðu samstarfi með sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi eldri borgara og fjármálaráðuneytinu, í gang heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Við ætlum að sameina krafta félags- og heilbrigðisþjónustu til þess að veita samfellda þjónustu þegar og þar sem fólkinu hentar. Verkefnið heitir Gott að eldast og hafa drög að aðgerðaáætlun verið sett í samráðsgátt. Ég vil sjá miklar breytingar á næstu árum til þess að við getum öll haft meiri tækifæri til þess að njóta þjónustu heima fyrir og stuðla að meiri virkni okkar allra sem er lykill að því að viðhalda góðri heilsu andlega sem líkamlega. Þessi vinna er að horfa til nútíðar sem og 50 ár fram í tímann og væntum við mikils af henni.
Formennska í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári
Á þessu ári hefur verið unnið að þeim áherslum sem Ísland vil sjá í norrænu samstarfi undir hatti Norrænu ráðherranefndarinnar en ég gegni formennsku í nefndinni fyrir Íslands hönd á næsta ári. Stefna ráðherranefndarinnar er að Norðurlönd eiga að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 og verður áfram unnið að þeim yfirmarkmiðum. Ísland verður með sérstaka áherslu á frið á formennskuárinu. Norðurlöndin leitast við að vera talsmenn friðsælla lausna á heimsvísu og státa af sterkum og öflugum velferðarkerfum, miklu samfélagsöryggi og miklum lífsgæðum. Við munum því leitast við að fjalla um mikilvægi friðar sem undirstöðu velferðarsamfélagsins, kvenfrelsis, sjálfbærni og umhverfisverndar í samræmi við framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar til 2030 og verður stór ráðstefna um frið haldin á Íslandi á árinu 2023.
Að lokum
Verkefnin framundan eru stór en ábatinn af því vinna að réttlátara og betra samfélagi fyrir okkur öll er ómældur og við höldum ótrauð áfram.
Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á komandi ári og þakka kærlega gjöfult samstarf á árinu sem er að líða.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, vinnumarkaðsráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda og varaformaður Vinstri grænna.