Search
Close this search box.

Máttur menntunar

Deildu 

Það hefur lengi verið sagt að menntun sé máttarstólpi samfélagsins. Fjöreggið. Skólakerfið okkar á að vera öflugasta jöfnunartækið, þar eiga allir að hafa sömu tækifærin. En er það svo? Við getum vissulega fagnað þeim breytingum að fríar skólamáltíðir verða að veruleika, aðgerð sem jafnar leikinn að einhverju leyti og er breyting til batnaðar fyrir öll.

En áskoranir í skólakerfinu okkar eru margvíslegar. Fjöltyngi, vanlíðan ungmennanna, skortur á sérfræðingum innan skólakerfisins, skólaforðun og foreldrar jafnvel með hálfgert áreiti á fagfólk svo eitthvað sé nefnt. Kennarar eru ekki einungis í því hlutverki að fræða nemendur sína, þeir hafa mörg önnur hlutverk eins og að vera einhvers konar lífsleikniþjálfarar, stundum sáttasemjarar, sálusorgarar en oft er hlutverkið einmitt að opna faðminn og gefa styrk sinn orðalaust. Kennarastarfið er oft talað niður, kennarar eru jú alltaf í fríi en eru á sama tíma sú stétt sem lendir einna mest í kulnun, því kennarar eru að kikna undan álagi sem þeir sé ekki fyrir endann á. Kennaraskortur er viðvarandi og er alvarlegt að sjá í niðurstöðum nýlegrar könnunar Kennarasambands Íslands að stór hluti kennara og skólastjórnenda sér ekki fyrir sér að halda áfram í sínum störfum innan fárra ára. Við því verður að bregðast.

Í fjölmiðlaumræðu um íslenska skólakerfið er gjarnan rætt við fólk sem er áberandi í þjóðfélaginu, yfirleitt miðaldra einstaklingar sem tína eitthvað til úr eigin reynslu áratugum fyrr. Það er sjaldnast í nokkrum takti við það starf sem á sér stað innan veggja skólanna í dag og afvegaleiðir þannig gjarnan umræðuna, enda hægt að smíða góðar smellibeitufyrirsagnir úr slíku. Á sama tíma fá sögur af sigrum í skólakerfinu allt of lítið pláss. Litlir sigrar einstaklinga sem stíga upp og auka sjálfstraust sitt vegna þess að starfsfólk skólanna trúir á þau og finnur leiðir fyrir hvern og einn til að nýta styrkleika sína. Og ég segi starfsfólk, því það eru ekki bara kennarar sem eru með stórt hjarta, það eru líka stuðningsfulltrúar, skólaliðar, húsverðir, starfsfólk mötuneyta, ritarar og stjórnendur sem eiga heilmikið pláss, athygli, öxl og eyra, fyrir stundum örlítið týnd ungmenni.

Ég er grunnskólakennari og hef starfað sem slíkur í tæpa tvo áratugi. Ekkert af því sem ég gerði í skólastofunni nýútskrifuð geri ég eins í dag. Ekkert sem ég gerði fyrir 10 árum geri ég eins í dag. Og sú saga á almennt við um kennara, þeir uppfæra sig í takt við nútímann. Innihald námsefnisins er að megninu til það sama, enda aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011, en nálgunin á efninu er allt önnur. Þar spilar tæknin stórt hlutverk, hún eykur einstaklingsmiðað nám og fjölbreytta kennsluhætti. Það er auðveldara að vekja áhuga á námsefninu og líka auðveldara að samþætta og búa þannig til pláss fyrir þá þætti sem ekki eru í aðalnámskrá en ættu sennilega að vera það. Þar á ég við fræðslu um stafræna borgaravitund, fjármálalæsi, tilfinningalæsi, forritun, STEM greinar og hvað annað sem líklega er gott veganesti fyrir unga fólkið okkar í dag. Ekki er heldur hægt að sleppa því að tala um tækifærin sem felast í gervigreindinni sem eru í senn spennandi en líka ógnvekjandi. Tæknin veitir nemendum meiri hlutdeild í eigin námi með því að gefa frelsi til sköpunar í skilum og opna á allskonar námstækni sem hver og einn getur aðlagað að eigin hæfni. En tæknin ein og sér er ekki lausn við neinum vanda, hún er einungis eitt verkfæri í kistuna. Það er mikilvægt að skólarnir hafi hæft og menntað starfsfólk, námsgögn sem virka og skýrar leiðir að settum markmiðum.

Skólastarfið er gríðarlega umfangsmikið og verkefnin eru dýrmæt. Á gólfinu á sér víða stað frábær vinna þar sem nemendur uppgötva eigin styrkleika, eflast og byggja upp félagstengsl sem oft fylgir þeim ævina alla. Þetta snýst nefnilega ekki allt um niðurstöður Pisa, heldur er verkefnið að koma ungu fólki sterku út í lífið, eins tilbúnu og hægt er, með sjálfstraust til að elta draumana og en líka til að takast á við mótlæti. Þetta er samfélagsverkefni. Og takist vel til þá er það gríðarlegur sparnaður fyrir samfélagið til langs tíma. Þess vegna á aldrei að horfa til niðurskurðar í menntakerfinu okkar, við eigum að horfa til þess að efla það og bæta markvisst. Það er sparnaður.

Þegar við horfum til framtíðar með eflingu menntunar í huga vakna áleitnar spurningar.

Eru þær breytingar sem hafa átt sér stað í menntakerfinu til batnaðar? Hvar er hægt að gera betur? Er stytting náms til stúdentsprófs að skila raunverulegum ávinningi fyrir bæði einstaklingana og samfélagið í heild? Er 5 ára kennaranám að skila fleiri kennurum eða betri undirbúningi fyrir starfið? Var rétt að hætta með samræmd próf? Eru þessar breytingar meitlaðar í stein eða höfum við kjark til að kanna ávinningin og breyta þeim, jafnvel stíga skref til baka ef ávinningurinn er ekki að nást?

Við höfum öll eitthvað til menntamála að leggja og menntamál á að ræða alls staðar. Ísland á ógrynni frábærra kennara og annars starfsfólks. Stærð íslenska skólakerfisins býður upp á hraðar breytingar því boðleiðinar eru stuttar og vilji fólksins á gólfinu til að gera alltaf betur er mikill. Nýlegar kannanir og rannsóknir sýna okkur að breytinga er þörf og nú er sannarlega tími til endurmats og endurskipulagningar með þarfir nemenda að leiðarljósi í breyttu samfélagi. Við þurfum öll sem samfélag að lyfta menntun og þeim stofnunum sem henni sinna upp á hærri stall, meta störfin sem þar eru unnin að verðleikum og gera umhverfi þeirra og aðstöðu enn meira aðlaðandi.

Sveitarstjórnarráð VG tók samtal um menntamál síðastliðinn laugardag á ráðstefnu sem bar heitið Máttur menntunar. Þar mætti fjöldi fagfólks frá leikskólastiginu, grunnskólum og framhaldsskólum með bæði örerindi og samræður í pallborði. Þar kom margt mjög áhugavert fram en hægt er að horfa á upptöku ráðstefnunnar hér.

Álfhildur Leifsdóttir
grunnskólakennari, sveitarstjórnarfulltrúi VG í Skagafirði
og formaður Sveitarstjórnarráðs VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search