PO
EN

18 milljónir í fræðslustyrki í þágu fólks með heilabilun

Deildu 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitti í dag Alzheimersamtökunum 15 milljóna króna styrk til að hrinda í framkvæmd tveimur fræðsluverkefnum sem snúa að þjónustu við aldraða og fólki með heilabilun. Einnig veitti hún Landssamtökum eldri borgara þriggja milljóna króna styrk til gerðar fræðsluefnis um leiðir til að fyrirbyggja einmanaleika og félagslega einangrun aldraðra.

Verkefnin þrjú falla öll að aðgerðaáætlun í málefnum fólks með heilabilun sem verið er að leggja á lokahönd í heilbrigðisráðuneytinu: „Skilningur á aðstæðum og líðan fólks með heilabilun er mikilvæg forsenda þess að komið sé fram við það af þeirri virðingu sem því ber og að það fái góða og viðeigandi þjónustu í öllum aðstæðum. Við þurfum að efla þekkingu á málefnum fólks með heilabilun og við þurfum einnig að sinna forvarnarstarfi. Það er því ánægjulegt að geta veitt þessa styrki sem hér um ræðir“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem hitti forsvarsmenn Landssamtaka eldri borgara og Alzheimersamtakanna í ráðuneytinu í dag.

Styðjandi samfélög

Fræðsluverkefni Alzheimersamtakanna fjalla annars vegar um svokölluð styðjandi samfélög og hins vegar jafningjafræðslu á hjúkrunarheimilum og eru að danskri fyrirmynd. Til að stuðla að styðjandi samfélögum fyrir fólk með heilabilun munu Alzheimersamtökin standa fyrir gerð fræðsluefnis fyrir sveitarfélög og ýmsa þá sem veita almenningi þjónustu, s.s. afgreiðslufólk í verslunum og bönkum, öryggisverði, lögreglu, fólk sem sinnir almenningssamgöngum o.fl. þar sem fjallað er um heilabilun og ýmsar birtingarmyndir heilabilunarsjúkdóma og farsæl viðbrögð þjónustuaðila í samskiptum við fólk með einkenni heilabilunar. Fræðsluefnið verður gert aðgengilegt öllum sem á þurfa að halda, m.a. í gegnum vefgáttina www.heilsuvera.is. Öldrunarheimili Akureyrar og Akureyrarbær hafa í samvinnu við Alzheimersamtökin unnið að því um skeið að gera Akureyri að styðjandi samfélagi fyrir fólk með heilabilun og er stefnt að því að bæjarfélagið kynni þá stefnu og taki sé nafnbótina styðjandi samfélag í janúar næstkomnandi.

Jafningjafræðsla á hjúkrunarheimilum

Hitt verkefni Alzheimersamtakanna sem heilbrigðisráðherra styrkir; jafningjafræðsla á hjúkrunarheimilum snýst um að koma á fót teymi sem heimsækir hjúkrunarheimili, veitir fræðslu og styrkir getu starfsfólks til að veita fólki með heilabilun umönnun. Mikilvægur liður í verkefninu og megináhersla í störfum teymisins verður að aðstoða starfsfólk á hverjum stað við að koma á fót jafningjafræðslu um umönnun fólks með heilabilun. Gert er ráð fyrir að jafningjafræðsla hefjist á öllum hjúkrunarheimilum landsins á árunum 2020–2021 undir stjórn Alzheimersamtakanna.

Fræðsluefni til forvarna gegn einmanaleika eldra fólks

Landssamband eldri borgara fær þriggja milljóna króna styrk til gerðar fræðsluefnis í forvarnarskyni gegn einmanaleika og félagslegri einangrun. Vitað er að félagsleg einangrun er einn af áhættuþáttum heilabilunar. Meðal annars þess vegna skiptir miklu máli að eldra fólk haldi virkni og félagslegum tengslum og fái til þess markvissan stuðning ef þess er þörf. Fræðsluefnið mun snúa að þessu og beinast jafnt að einstaklingum og stjórnsýslunni. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir lok árs 2020 og að fræðsluefnið verði meðal annars aðgengilegt á vefgáttinni www.heilsuvera.is.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.