Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók á móti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, við Hakið á Þingvöllum í kvöld og gengu þær saman niður Almannagjá að ráðherrabústaðnum. Að lokinni göngunni fluttu forsætisráðherra og kanslari Þýskalands ávörp á blaðamannafundi í ráðherrabústaðnum. Þær ræddu meðal annars um loftslagsmál, stöðu stjórnmálanna í Evrópu, þróun efnahagsmála og jafnréttismál.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Víða um Evrópu hefur vegur þjóðernissinnaðra og popúlískra afla aukist og hafa Norðurlöndin ekki farið varhluta af þeirri þróun. Það er mikilvægt að stjórnmálin og stjórnmálamenn – hvar í flokki sem þeir standa – ræði þessa þróun og afleiðingar hennar fyrir samfélagið, lýðræðið, mannréttindi og réttindi kvenna og minnihlutahópa. Áhersla Norðurlandanna á velferð, almenna menntun og jöfnuð er afar mikilvæg til að styrkja samfélagið og standa vörð um hið lýðræðislega opna samfélag.“
Forsætisráðherra og kanslari Þýskalands áttu óformlegan fund að loknum blaðamannafundi og því næst tók við kvöldverður.
Angela Merkel er hér á landi í boði forsætisráðherra og verður sérstakur gestur á árlegum sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna sem hefst á morgun.
Á fundunum verður m.a. fjallað um samnorrænar aðgerðir Norðurlandanna á sviði loftslagsmála og umhverfismála almennt, nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar til næstu 10 ára, málefni Norðurslóða, stöðu mannréttindamála, þ.m.t. jafnréttismála, stöðu alþjóðamála og öryggismál. Sérstaklega verður horft til tækifæra til þess að auka samstarf Norðurlandanna og Þýskalands til að takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi, ekki hvað síst afleiðingar loftslagsbreytinga og stuðning við sjálfbæra þróun.
Í tengslum við leiðtogafundinn mun Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, jafnframt eiga nokkra tvíhliða fundi á næstu dögum. Þá verður fundað með hópi norrænna forstjóra, Nordic CEO’s for Sustainable Future. Í hópnum eru 14 fyrirtæki á Norðurlöndum sem hafa tilkynnt um samstarf sitt um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni „Nordic CEO’s for Sustainable Future“.
Fundirnir og heimsóknir sem þeim tengjast verða m.a. í Hörpu, Viðey, við Hellisheiðarvirkjun, á Þingvöllum og á Gljúfrasteini.