Íslendingar búa að þeim auði að hafa lítt snortna náttúru, víðerni, fossa og fjöll rétt innan seilingar víðast hvar á landinu. En þessi auðævi eru ekki sjálfsögð og við þurfum að gæta þeirra vel. Í tíð minni sem umhverfis- og auðlindaráðherra hef ég skrifað undir 27 friðlýsingar og bætist ein við í dag. Á meðal svæða sem nú hafa hlotið vernd eru perlur í íslenskri náttúru á borð við Geysi, Goðafoss, Kerlingarfjöll, Stórurð og Látrabjarg. Loksins segi ég.
Uppskera átaks í friðlýsingum
Þessar friðlýsingar eru afsprengi átaks sem ég setti af stað í upphafi kjörtímabilsins, sem unnið hefur verið í samstarfi Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Markmiðið var að fjölga friðlýstum svæðum á Íslandi, stækka þau sem fyrir voru og friðlýsa svæði sem Alþingi hafði þegar tekið ákvörðun um að skyldu friðlýst, en lengi hafði dregist.
Til hvers að friðlýsa?
Með friðlýsingum er stuðlað að því að lífríki fái að þróast á eigin forsendum, að jarðmyndunum sé ekki raskað og landslag, víðerni og náttúrufegurð haldist ósnortin. Einnig geta friðlýsingar verið til þess að endurheimta landgæði, til dæmis gróður og votlendi. En friðlýst svæði hafa líka mikið aðdráttarafl og eru í mörgum tilfellum helstu áfangastaðir ferðamanna á Íslandi. Þannig skapa friðlýsingar efnahagsleg tækifæri fyrir fólk um leið og þær sjá náttúrunni fyrir vernd.
VG stendur vörð um náttúruna
Við Vinstri græn höfum sett í stefnu okkar að friðlýsa beri 30% af landi og hafi fyrir árið 2030. Það er markmið sem er í samræmi við stefnu metnaðarfyllstu ríkja heims. Stofnun Hálendisþjóðgarðs og frekari verndun verðmætra hafsvæða við landið eru nauðsynlegur hluti þessa.
Til hamingju með daginn
Til hamingju með Dag íslenskrar náttúru, sem nú er haldinn hátíðlegur í ellefta sinn. Það er ekki sjálfsagt að hafa aðgang að lítt spilltri náttúru í eigin landi og við Vinstri græn viljum áfram standa vörð um þessi verðmæti. Það skiptir nefnilega máli hver stjórnar.