EN
PO
Search
Close this search box.

Innviðaúrbætur, tillögur stjórnvalda fyrir 1. mars

Deildu 

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, í framhaldi af fárviðrinu sem gekk yfir landið 10. og 11. desember, skipan starfshóps fimm ráðuneyta sem falið er að meta hvaða aðgerðir séu færar til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum til að tryggja að slíkir grunninnviðir séu sem best í stakk búnir til að takast á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir. 

Til viðbótar við öryggi í raforku og fjarskiptum mun hópurinn skoða samgöngur, byggðamál og dreifikerfi RÚV.

Er það mat ríkisstjórnarinnar að öryggi í þessum samfélagslegu innviðum lúti að þjóðaröryggi. Í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, nr. 26/148, frá 11. júní 2018, er kveðið á um að flutningskerfi raforku sé hluti af grunninnviðum samfélagsins, með sambærilegum hætti og samgöngu- og fjarskiptainnviðir, og ein af mikilvægum forsendum fjölbreyttrar atvinnu- og byggðaþróunar.

Starfshópurinn mun beina athygli sinni sérstaklega að afhendingaröryggi raforku. Þannig verður kallað eftir skýrslum og greiningum af hálfu Landsnets og dreifiveitna á því tjóni á flutnings- og dreifikerfi raforku sem varð dagana 10. og 11. desember, hvernig fyrirtækin voru undirbúin, hvernig unnið var í samræmi við fyrirliggjandi viðbragðsáætlanir fyrirtækjanna, sem og hvað hefði betur mátt fara.

Starfshópnum er falið að greina upplýsingar og koma fram með tillögur um úrbætur sem geta eflt flutnings- og dreifikerfi raforku þannig að það geti betur mætt slíkum atburðum og þar með verði unnt að lágmarka það samfélags- og efnahagslega tjón sem hlýst af langvarandi og víðtæku rafmagnsleysi á tilteknum landsvæðum. Hluti af vinnu starfshópsins er jafnframt að leggja mat á tiltækt varaafl í landinu við slíkar aðstæður og stýringu þess. Jafnframt er starfshópnum falið að taka til umfjöllunar og úrvinnslu þær tillögur sem liggja fyrir um einföldun leyfisveitingarferla að því er framkvæmdir í flutningskerfinu varðar.

Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, mun leiða vinnu starfshópsins. Miðað er við að hann skili tillögum sínum fyrir 1. mars 2020.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search