Vandi bráðamóttöku Landspítala hefur verið viðvarandi um langt skeið og í ljósi þess að ekki var útlit fyrir varanlegar lausnir í sjónmáli nú í janúar var settur sérstakur átakshópur á laggirnar til að fást við umræddan vanda og gera tillögur til…
Vandi bráðamóttöku Landspítala hefur verið viðvarandi um langt skeið og í ljósi þess að ekki var útlit fyrir varanlegar lausnir í sjónmáli nú í janúar var settur sérstakur átakshópur á laggirnar til að fást við umræddan vanda og gera tillögur til úrbóta. Landlæknir hafði ítrekað komið að málinu með úttektum og ábendingum og lagði nú í ársbyrjun áherslu á að ráðist yrði í aðgerðir sem sérstaklega yrðu miðaðar að því kjarnaverkefni að létta álagi af bráðamóttöku enda ekki hægt að una við ástandið þar, hvorki fyrir sjúklinga né starfsfólk og tafarlausar aðgerðir óhjákvæmilegar. Í yfirlýsingu okkar landlæknis og forstjóra Landspítala frá 16. janúar segir: „Með stofnun sérstaks átakshóps með víðtækt umboð til að leysa brýnan vanda teljum við unnt að koma í veg fyrir að sjúklingar ílengist á bráðamóttökunni og bæta þannig aðstæður og öryggi sjúklinga og starfsfólks.“ Hópurinn var skipaður 18. janúar og verkefni hans var meðal annars að sjá til þess að ábendingum embættis landlæknis yrði fylgt, greina vandann og leggja fram tillögur að aðgerðum.
Hópurinn hefur nú lokið störfum og tillögur hans voru kynntar á fréttamannafundi á Landspítalanum sl. þriðjudag, 25. febrúar. Hópurinn leggur fram 11 tillögur um aðgerðir sem forgangsraðað er eftir mikilvægi.
Fyrsta tillagan, og í mínum huga sú allra mikilvægasta, lýtur að töku stefnumarkandi ákvörðunar af hálfu Landspítala um að sjúklingar á bráðamóttöku sem þurfa innlögn flytjist á viðeigandi legudeildir sem fyrst. Þessi ákvörðun er nauðsynleg til að tryggja betur öryggi sjúklinga og að mögulegt sé að veita sjúklingum bestu mögulegu þjónustu. Forstjóri Landspítala greindi frá því á fundinum að ákvörðunin hefði verið tekin með formlegum hætti á fundi framkvæmdastjórnar Landspítala sama dag og skýrslan var kynnt. Til að fylgja þessari ákvörðun eftir mun Landspítali gera verk- og tímaáætlun sem mun liggja fyrir 1. apríl. Gera skal ráð fyrir að sjúklingar bíði ekki innlagnar lengur en í tiltekinn tíma, að hámarki 6 klst. frá komu. Tryggt verði að um verði að ræða lausn bæði til skemmri og lengri tíma. Þessi hluta tillagnanna er á ábyrgð Landspítala.
Aðrar tillögur hópsins eru t.d. að Landspítali stofni þróunarteymi um hvernig þjónustu við aldraða sé best fyrir komið í framtíðinni, hafist verði handa við endurskipulagningu á færni- og heilsumati og að auka möguleika flutningamanna til að meðhöndla sjúklinga í heimahúsum.
Nú liggur skýrt fyrir að sú staða að sjúklingar liggi á göngum bráðamóttökunnar í stórum stíl verður að baki ekki síðar en 1. apríl. Það skiptir meginmáli að ákvörðun hafi verið tekin um að hrinda þessari lykiltillögu átakshópsins í framkvæmd þegar í stað, og undirstrikar mikilvægi verkefnisins.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.