Search
Close this search box.

Um nefndarstörf á Alþingi

Deildu 

Mikilvægt er að almenningur fái sem gleggsta og réttasta mynd af starfsháttum Alþingis. Það hefur áhrif á traust. Flestir þingmenn, aðrir en ráðherrar, sitja í tveimur af átta fastanefndum þingsins en að auki í alþjóðanefndum og sérnefndum. Þingmenn geta verið áheyrnarfulltrúar án tillöguréttar. Þetta eru ekki sérlaunuð störf nema hvað formenn og varaformenn fá álag sem er sýnilegt á vefsíðu Alþingis. Nefndarritarar skrá komu nefndarmanna á boðaða fastanefndarfundi. Þeir eru haldnir tvisvar í viku fyrir hverja fastanefnd (jafnan að morgni dags) og svo eru fyrirfram ákveðnir dagar þar sem fastanefndarfundir eru meginverkefni allan daginn. Aðrir nefndarfundir hafa ýmsa fundartíðni.

Skráning er ýmist miðuð við komu manna á fundarstað eða þegar formaður eða varaformaður setur fund. Hún er opin á vefsíðu þingsins. Stundum tefjast fundir af því að beðið er stund eftir formanni eða jafnvel líka öðrum hvorum varaformanninum til þess unnt sé að setja fund. Yfirleitt boða þingmenn fjarvist og margir láta einnig vita af seinkomu. Aðstæður þingmanna eru misjafnar hvað varðar ferðafjarlægð á vinnustað og aðstæður á leiðinni. Þeim þingmönnum sem búa í nágrannasveitarfélögum, t.d. víða á Suðurnesjum, í Mosfellsbæ eða á Akranesi (um það bil tugur á þessum stöðum) seinkar iðulega á leiðum sínum í morgunumferðinni. Þingmenn fjær utan af landi, t.d. úr Borgarnesi, af Vestfjörðum, úr Fjallabyggð eða að norðaustan, gjarnan komandi úr helgarferð heim til sín, geta lent í töfum. Alkunna er að flugferðum er alloft aflýst á vetuna. Fámennir þingflokkar glíma auk þess við þann vanda að manna nefndir og iðulega verða árekstrar milli nefndarfunda. Þingmenn verða þá að velja á milli þeirra. Ég minnist hér ekki á (mér ókunnar) einkaaðstæður hvers og eins enda breytir þá engu hver er vinnustaður eða verkefni.

Þegar unnið er úr mætingarskráningu til dundurs og pælt í útkomunni, hvað þá dregnar einhverjar ályktanir, verður að taka tillit til þess sem ég hef hér minnst á. Ef það er ekki gert getur áhugafólk um starfshætti þingsins hrapað að ályktunum sem eru annað hvort hálfsögð saga eða engin saga. Oftast, tel ég, er til eðlileg skýring á fjarvistum, seinkomum eða öðrum vandræðum. Ekki er útilokað að einhverjir þingmannanna slái viljandi slöku við nefndarstörfin og geti þá sjálfir skýrt frá sínum hug til þeirra.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search