Í samræmi við heilbrigðisstefnu hefur á síðustu árum verið unnið að því að innleiða þjónustutengda fjármögnun í heilbrigðiskerfinu. Slík fjármögnun hefur tíðkast um árabil í nágrannalöndum okkar og byggist á svokölluðu DRG-flokkunarkerfi sjúkdóma (e. Diagnose Related Groups). Markmiðið er að fjármögnun heilbrigðisþjónustu sé sanngjörn og raunhæf, að hún samræmist þjónustunni sem veitt er hverju sinni og skýrum markmiðum fjárveitingarvaldsins um magn hennar og gæði. Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey var á árinu 2020 fengið til ráðgjafar um innleiðingu þessa kerfis að íslenskum aðstæðum og fyrirtækið skilaði skýrslu um það sama ár. Ákveðið var í kjölfarið að byrja innleiðinguna á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Stefnt er að því að klínísk starfsemi á báðum þessum sjúkrahúsum verði fjármögnuð með DRG-greiningarkerfinu frá og með 1. janúar 2022. Í framhaldinu er ráðgert að önnur sjúkrahúsþjónusta í landinu, og sambærileg þjónusta í einkarekstri, verði fjármögnuð með sama kerfi.
Sjúkratryggingar Íslands, sem samkvæmt heilbrigðisstefnu ber að semja um veitingu heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, og Landspítali undirrituðu hinn 23. september 2021 samning um fjármögnun klínískrar starfsemi Landspítala fyrir árið 2022. Verkefni spítalans sem t.d. tengjast hlutverki hans á sviði kennslu, vísinda og meiriháttar viðhalds verða fjármögnuð með föstum fjárveitingum eins og áður. Nú er unnið að sambærilegum samningi um klíníska þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri.
Kosturinn við þessa nýju fjármögnun sjúkrahúsa er að hún felur í sér hvata, þar sem hún tengist því þjónustumagni sem veitt er. Kerfið auðveldar ríkinu sem greiðanda að sjá hvaða þjónustu er verið að veita og forgangsraða fjármagni til þjónustu þar sem þörfin er mest. Þá auðveldar kerfið tengingu á milli magns þeirrar þjónustu sem veitt er og þeirra gæða sem krafist er, þar sem ákveðinn hluti greiðslna er tengdur gæðavísum.
Nýtt fjármögnunarkerfi (ACG-kerfið) var tekið í notkun fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins árið 2018. Kerfið tengir greiðslur til heilsugæslustöðva við stærð, aldursdreifingu og félagslega þyngd upptökusvæðisins ásamt því að gera kröfur um viss gæðaviðmið til þess að öðlast fullar greiðslur. Þetta kerfi hefur reynst vel og var innleitt fyrir heilsugæsluna um allt land frá og með 1. janúar 2021.
Samningar um þjónustutengda fjármögnun marka tímamót í íslenskri heilbrigðisþjónustu og eru stórt skref í átt að enn betra heilbrigðiskerfi, til handa okkur öllum.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra