Árið 2021 hefur verið mjög sérstakt fyrir okkur öll vegna kórónuveirufaraldursins, líkt og árið 2020 var. Ég er sannfærður um að 2022 verði okkur betra þó það gefi á bátinn þessa dagana. Okkur hefur á þessum skrítnu tímum tekist að verja velferðarkerfið, vernda líf og heilsu fólks og styðja við atvinnulíf og fólkið í landinu. Við höfum líka tekist á við fjölmörg önnur verkefni og náð árangri. Þegar ég lít yfir kjörtímabilið og árið 2021 og þau verkefni sem bæði ríkisstjórnin og ég höfum verið að vinna að, horfi ég stoltur til baka. Töluverðar breytingar urðu á högum mínum þegar ný ríkisstjórn var kynnt en þar tók ég við sem félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Hjá ráðuneytinu eru margir stórir og mikilvægir málaflokkar sem snerta okkur flest á einn eða annan hátt og ég hlakka mikið til að takast á við ný og krefjandi verkefni á næstu árum.
Blaðinu snúið við í loftslagsmálum
Á síðasta kjörtímabili var kyrrstaða áranna á undan í loftslagsmálum rofin. Fjármögnuð aðgerðaáætlun leit dagsins ljós á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að draga úr losun og auka kolefnisbindingu. Rannsóknir, vöktun og stjórnsýsla loftslagsmála hefur verið styrkt til muna. Á árinu 2021 voru stigin stór og mikilvæg skref sem munu skipta miklu máli fyrir næstu ár og áratugi. Í febrúar voru markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda efld til muna með sameiginlegu markmiði með Evrópusambandinu og Noregi, í júní var markmiðið um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 lögfest á Alþingi og í september var fyrsta stefna Íslands um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum samþykkt af ríkisstjórn. Ísland er eitt rúmlega tíu ríkja í heimi sem hafa lögfest kolefnishlutleysi. Með allri þessari stefnumótun hefur verið lagður nauðsynlegur grunnur að frekari árangri í loftslagsmálum á komandi árum. Ný ríkisstjórn stefnir nú að enn frekari metnaði með sjálfstæðu losunarmarkmiði upp á 55% árið 2030, óháð samstarfinu við ESB og Noreg, og ekki verða gefin út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Með þeim áherslum sem ríkisstjórnin hefur ýmist lögfest eða boðað á árinu 2021 skipar Ísland sér í hóp þeirra ríkja sem metnaðarfyllstu markmiðin hafa í loftslagsmálum.
Árangur farinn að sjást
Ég er mjög stoltur af því að framlög ríkissjóðs til umhverfismála hafa aukist um rétt tæp 50% á síðasta kjörtímabili. Fjármagn til loftslagsmála í umhverfisráðuneytinu einu jukust um yfir 700% á sama tíma og verða aukin um 1 milljarð króna á ári á tímabilinu 2022-2031 samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar. Fyrsta stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar í loftlagsmálum sem gefin var út á árinu sýnir að vinna er hafin við allar aðgerðirnar 50 sem eru í áætluninni og ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar af eru 47 ýmist komnar vel á veg eða í framkvæmd og þrjár í undirbúningi. Skipið stefnir nú í rétta átt. Við sjáum vísbendingar um samdrátt í losun þegar skoðaðar eru losunartölur síðustu tveggja ára, þó vissulega gæti þar líka áhrifa kórónuveirufaraldursins. Nú þarf bara að hlaupa enn hraðar og ná enn meiri árangri og það verður eitt stærsta verkefni stjórnmálanna á næstu árum.
Félagslegar aðgerðir og atvinnuátak á tímum kórónuveiru
Ríkisstjórnin hefur gripið til víðtækra aðgerða sem ætlað er að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu. Sérstakt átak var gert í heilsueflingu og örvun á félagsstarfi aldraðra en eldra fólk hefur þurft að þola skerta samveru og félagslega einangrun vegna Covid-19 faraldursins. Einnig var gripið til fjölbreyttra aðgerða sem miðuðu að því að styðja við börn og viðkvæma hópa í samfélaginu.
Við settum af stað sérstakt atvinnuátak undir yfirskriftinni „Hefjum störf“ þar sem markmiðið var að skapa allt að 7.000 tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Það er skemmst frá því að segja að átakið gekk frábærlega og hefur verið ráðið í tæp 7.500 störf frá því að það fór af stað. Atvinnuleysi hefur sömuleiðis minnkað mikið, eða úr 11,4% í mars í 4,9% í nóvember. Þar hafa þær aðgerðir sem stjórnvöld réðust í skipt sköpum.
Móttaka fólks frá Afganistan
Núna rétt fyrir jólin komu 22 einstaklingar frá Afganistan en þeir voru hluti af þeim hópi sem íslensk stjórnvöld samþykktu að taka á móti frá Afganistan vegna valdatöku Talibana. Um 60 manns voru áður komin til landsins. Móttaka fólksins hefur krafist mikils samstarfs, bæði innanlands sem og utan, til að láta allt ganga upp og hafa allir lagst á eitt við að koma fólkinu í öruggt skjól. Fyrir það ber að þakka sérstaklega.
AUGLÝSING
Ráðgjafarstofa innflytjendamála var opnuð á árinu, en tildrög hennar má rekja til þingsályktunartillögu sem þingmenn Vinstri grænna lögðu fram á Alþingi árið 2018. Markmiðið með stofnun ráðgjafastofunnar er að tryggja betri og markvissari ráðgjöf til innflytjenda. Þá voru fyrstu samningar undirritaðir við sveitarfélög um samræmda móttöku við flóttafólk en þetta markar tímamót og eru stór, jákvæð skref í málefnum flóttafólks og innflytjenda. Þau sveitarfélög sem skrifa undir samninginn skuldbinda sig til þess að veita öllu flóttafólki sambærilega þjónustu. Það er mikilvægt að við tökum á móti flóttamönnum með markvissum stuðningi sem hjálpar þeim að aðlagast nýju lífi og samfélagi.
Framundan er að móta stefnu í málefnum innflytjenda, en í mínum huga er mikill auður fólginn í því að taka á móti fólki frá öðrum löndum. Það þurfum við að gera vel.
Heilbrigðiskerfi á veirutímum
Kórónuveirufaraldurinn hefur nú staðið í nærri því tvö ár. Álag á heilbrigðiskerfið, félagsþjónustu, skóla, löggæslu, atvinnulíf og almenning hefur verið mjög mikið. En samstaða okkar allra hefur skilað ótrúlegum árangri í þessari baráttu. Ég vil þakka framlínustarfsfólki fyrir að hafa ýtt hverri hindruninni á fætur annarri úr vegi og staðið sig ótrúlega vel við krefjandi aðstæður. Ég vona innilega að það muni sjá fyrir endann á þessu á árinu 2022 þó faraldurinn sé í miklum vexti nú um stundir.
Á þessu ári var haldið áfram með það áherslumál að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu, en við í VG höfum alla tíð lagt ríka áherslu á það. Þá hefur áhersla á geðheilbrigðismál verið stóraukin, ekki síst í ljósi faraldursins, og byggingu Landspítala við Hringbraut hefur verið haldið áfram. Ný lýðheilsustefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi í vor þar sem áhersla er á heilsueflingu og forvarnir sem eiga að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma. Skilningur fólks á mikilvægi lífsstíls og forvarna fer vaxandi og því er mikilvægt að hafa skýra stefnumótun á þessu sviði. Ekki síst skiptir þetta máli fyrir efri ár ævi okkar, en stórar áskoranir bíða okkar í samhæfingu málefna eldra fólks, ekki síst milli heilbrigðiskerfis og félagsþjónustu.
Launamunur kynjanna áfram brýnt viðfangsefni
Mikið hefur áunnist í jafnréttismálum á kjörtímabilinu og ber þar hæst ný löggjöf um þungunarrof, sem tryggir konum sjálfsforræði yfir eigin líkama og ný lög um kynrænt sjálfræði hafa aukið réttindi hinsegin fólks til muna. Í árslok 2021 lagði svo forsætisráðherra fram frumvarp á Alþingi um jafna meðferð utan vinnumarkaðar sem tekur til trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar. Frumvarpið bíður meðferðar Alþingis og verði það samþykkt er það mikilvægur þáttur í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á Íslandi og réttarbót fyrir fleiri hópa samfélagsins.
Annað sem ég vil nefna og er gríðarlega mikilvægt er stofnun starfshóps sem skipaður var rétt fyrir áramót um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Nýleg launarannsókn sýnir að aðgerðir stjórnvalda, meðal annars með jafnlaunavottun, hafa minnkað kynbundinn launamun. Könnunin sýnir þó að þessi tæki sem notuð hafa verið eru ekki fullnægjandi til að leiðrétta launamun sem stafar af kynbundinni skiptingu vinnumarkaðar. Ég bind vonir við að starfshópurinn nái að fanga með heildstæðum hætti hvernig hægt er að meta heildstætt virði ólíkra starfa og leiðrétta þannig kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Ríkisstjórnin mun halda áfram að vinna ötullega að jafnréttismálum með mannréttindi að leiðarljósi.
Loksins framfarir í stefnu og löggjöf í úrgangsmálum
Á undanförnum árum hefur Ísland ekki staðist sameiginleg markmið Evrópuríkja um hlutfall endurvinnslu af heimilisúrgangi. Ég tel að með nýrri heildarstefnu í úrgangsmálum sem ég kynnti á þessu ári og víðtækri breytingu á úrgangslöggjöfinni sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum höfum við tryggt að á næstu þremur til fimm árum verði viðsnúningur í úrgangsmálum á Íslandi til hins betra. Skylt verður að flokka úrgang, lífrænt tekið frá sérstaklega, flokkun samræmd á öllu landinu, hagrænir hvatar nýttir í auknum mæli í þágu umhverfisins og neytenda og Úrvinnslusjóði gefin stjórntæki til að fylgjast með afdrifum endurvinnsluúrgangs.
Með þessu eru stigin stór skref í átt að innleiðingu hringrásarhagkerfis hérlendis. Markmiðið með hringrásarhagkerfinu er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. Slíku hagkerfi þarf að koma á í stað línulegs framleiðsluferlis, þar sem vörur eru notaðar, oft í stuttan tíma, og þeim síðan einfaldlega hent.
Um síðustu áramót tóku síðan gildi reglur sem banna afhendingu plastburðarpoka í verslunum, en það er í samræmi við Evróputilskipun sem lýtur að því að draga úr notkun á plastpokum. Í júlí síðastliðnum tóku svo gildi reglur sem banna markaðssetningu ákveðinna einnota plastvara hérlendis. Og, í september tók ég ákvörðun um að ráðast í umfangsmikla strandhreinsun í samstarfi við félagasamtök og Umhverfisstofnun í samræmi við aðgerðaáætlun um plastmál frá árinu 2020. Þá kom út á árinu aðgerðaáætlun gegn matarsóun, en þessar áætlanir eru mikilvægur þáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfis hérlendis.
Stór skref í náttúruvernd
Aldrei hafa fleiri svæði verið friðlýst en á þessu kjörtímabili. Á árinu 2021 skrifað ég undir 19 friðlýsingar þar sem margar mikilvægar náttúruperlur landsins voru friðlýstar. Má þar nefna Látrabjarg sem er eitt stórbrotnasta fuglabjarg landsins og með þeim stærstu við Norður-Atlantshaf, náttúruundrið Stórurð og hluti Gerpissvæðisins á Austurlandi. Vatnajökulsþjóðgarður var stækkaður á þremur svæðum og einnig Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Fimm svæði voru friðlýst gegn orkunýtingu og þar með komið í var gegn virkjunum, þar af hluti af þremur stórum vatnasviðum. Þá urðu Drangar í Strandasýslu fyrsta svæðið á Íslandi sem friðlýst var sem óbyggt víðerni. Friðlýsingin var að frumkvæði landeigenda. Um er að ræða stóran áfanga í náttúruvernd á Íslandi. Með öllum þessum friðlýsingum tryggjum við að næstu kynslóðir fái að njóta stórkostlegrar fegurðar margra merkisstaða í íslenskri náttúru. Okkar bíður enn að stofna Hálendisþjóðgarð en það er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Mikil undirbúningsvinna átti sér stað á kjörtímabilinu sem mun áfram nýtast til þessa mikilvæga verkefnis.
Uppbygging innviða á náttúruverndarsvæðum hélt áfram af krafti um allt land, og fjöldi stíga, útsýnispalla, salerna og fleiri innviða voru byggð. Opnuð var gestastofa á Ísafirði fyrir Hornstrandafriðland og ríkið festi kaup á húsnæði gamla grunnskólans í Skútustaðahreppi fyrir gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og verndarsvæðisins við Mývatn og Laxá. Framkvæmdir héldu áfram við gestastofur á Hellissandi og Kirkjubæjarklaustri. Þessir innviðir munu auka vernd á náttúruverndarsvæðum og efla fræðslu og upplýsingamiðlun um íslenska náttúru til gesta svæðanna.
Það er ekki hægt að skilja við umræðu um náttúruvernd án þess að nefna endurheimt vistkerfa, en á árinu tók ríkisstjórnin það skref að taka þátt í alþjóðlegu átaki um endurheimt skóga, svonefndri Bonn-áskorun og setti sér það markmið að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins í stað 1,5% nú. Markmiðið er því að meira en þrefalda útbreiðslu birkis á þessum áratug og vinna að mörgum alþjóðlegum markmiðum á sama tíma: stemma stigu við loftslagsbreytingum, auka verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sporna gegn landhnignun. Með breytingum á stjórnarráðinu skapast nú á nýju kjörtímabili einstakt tækifæri til að samþætta endurheimt vistkerfa og sjálfbæra landnýtingu bænda, sem er bæði stórt náttúruverndarmál og loftslagsmál.
Byggjum réttlátt samfélag
Mörg verkefni bíða ríkisstjórnarinnar allrar og mín í ráðuneyti félagsmála og vinnumarkaðar á næstu misserum. Í viðleitni okkar til að skapa réttlátara samfélag eigum við að líta til þeirra sem lakast standa, efla skilning á fjölbreytni samfélagsins og tryggja réttindi allra hópa. Þannig er á stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og setja á fót sérstaka Mannréttindastofnun. Stefnt er að því að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Móta á heildstæða stefnu í málefnum útlendinga. Og, litið verður sérstaklega til bættrar afkomu fátækustu hópanna á meðal eldra fólks og örorkulífeyrisþega. Fátækt á ekki að líðast í því velmegunarsamfélagi sem við lifum í og útrýma þarf því böli og þeim fjötrum sem fátæktinni fylgja.
Hluti af því að búa til réttlátara samfélag er að takast á við loftslagsbreytingar með félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Ný ríkisstjórn hefur sett sér afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum sem krefst aðkomu alls samfélagsins. Réttlát umskipti eru þar lykilatriði.
Það eru því mörg brýn verkefni framundan. Við þurfum að gera eldra fólki kleift að búa lengur heima hjá sér og takast á við aukinn einmanaleika og einangrun þessa hóps. Við þurfum að endurskoða örorkulífeyriskerfið þannig að þau sem ekki geta séð sér farborða fái mannsæmandi stuðning á sama tíma og við hvetjum til atvinnuþátttöku þeirra sem geta unnið með sveigjanlegri störfum og hlutastörfum. Við þurfum áfram að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu, draga enn frekar úr greiðsluþátttöku sjúklinga með áherslu á viðkvæma hópa og efla áfram geðheilbrigðisþjónustu. Þá eru áform ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk og eldri borgara innan almenna íbúðakerfisins mikilvægur þáttur í að tryggja fólki þak yfir höfuðið á betri kjörum.
Hér hafa verið nefnd nokkur stór verkefni sem ný ríkisstjórn hefur sett á oddinn og ég hlakka til að vinna að.
Gleðilegt nýtt ár
Á því kjörtímabili sem er nýhafið bíða stórar áskoranir á mörgum sviðum, ekki síst í loftslagsmálum, í heilbrigðiskerfinu og vegna öldrunar þjóðarinnar, vegna tækninýjunga og varðandi stöðu örorkulífeyrisþega, innflytjenda og eldra fólks. Sjálfur tekst ég auðmjúkur á við ný verkefni og mun leggja mitt af mörkum í þeim efnum. Við höldum ótrauð áfram að vinna að réttlátara og betra samfélagi.
Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á komandi ári.
Höfundur er félags- og vinnumarkaðsráðherra og varaformaður Vinstri grænna.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.