Við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum sem samfélag vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Áhrif faraldursins eru margþætt og hann hefur snert daglegt líf okkar allra á einhvern hátt. Þegar kemur að efnahag landsins sérstaklega og uppbyggingu hans höfum við í ríkisstjórninni lagt áherslu á það að Ísland geti vaxið til aukinnar velsældar út úr kreppunni; að samtímis og við náum stöðugleika í verðlagi og vöxtum og komum ríkissjóði á réttan kjöl stöndum við vörð um þá uppbyggingu sem orðið hefur í almannaþjónustu á undanförnum árum og eflum hana enn frekar. Áhersla á loftslagsmál er leiðarstef í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og baráttan við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu verður forgangsverkefni næstu ára og áratuga.
Fjárlög á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fyrir árið 2022 endurspegla þessar áherslur í loftslagsmálum, en einnig hvata til nýsköpunar, aukið matvælaöryggi og aukið frelsi til fjölbreyttari matvælaframleiðslu og verðmætasköpunar. Þá er lögð áhersla á að einfalda stjórnsýslu enn frekar og auka stafræn samskipti.
Á málefnasviði landbúnaðar verður fjárheimild til loftslagsaðgerða í landbúnaði aukin um 75 milljónir króna, auk þess sem fjárlögin endurspegla verkefni sem tengjast mótun og framfylgni á heildstæðri áætlun um vöktun og ábyrga nýtingu lands, kolefnishlutleysi nautgriparæktar fyrir árið 2040 og verkefni tengd vörnum gegn sýkalyfjaónæmi. Einnig má nefna mótun fæðuöryggisstefnu og aðgerðaáætlun hennar sem og innleiðingu landbúnaðar- og matvælastefnu og áframhaldandi þróun á mælaborði landbúnaðarins.
Unnið verður að heildarendurskoðun á löggjöf um búvöruframleiðslu og áhersla lögð á veitingu aukinnar stafrænnar þjónustu, til dæmis þróun gagnagrunna og rafrænna lausna til að bæta stjórnun og skráningu búfjársjúkdóma og tryggja rekjanleika afurða. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 35 m.kr. í tvö ár til að koma upp heildstæðu upplýsingastjórnunarkerfi hjá Matvælastofnun fyrir opinbert eftirlit með matvælum, fóðri, dýraheilbrigði og fleiru, þ.e. svokölluðum gagnaskilagrunni.
Á málefnasviði sjávarútvegs og fiskeldis er áhersla lögð á að auka samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs, styðja við minni sjávarbyggðir og auka verðmætasköpun. Þá er meðal annars lögð áhersla á verkefni um aukinn rekjanleika hráefnis frá veiðum til markaðar og þar með bættan markaðsaðgang fiskafurða og endurskoðun framkvæmdar við ráðstöfun atvinnu- og byggðakvóta. Nýr fiskeldissjóður var stofnsettur 2021, til styrkingar innviða þar sem fiskeldi er stundað í sjókvíum en fjárheimild málaflokksins er aukin um rúmar 80 milljónir samkvæmt fjárlögum.
Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra