PO
EN

Varaformaður VG setur flokksráðsfund: Ræða Guðmundar Inga

Deildu 

Við hittumst nú á okkar fyrsta flokksráðsfundi eftir alþingiskosningarnar í nóvember. Alþingiskosningar sem voru okkur í VG mikið áfall. Og, sem í stærra samhengi eru sögulegar kosningar, því enginn vinstri-sósíalistaflokkur er nú á þingi í fyrsta sinn í áratugi – og enginn græningjaflokkur.

Það er mikilvægt að vinna með áfall sem þetta. Við sem hópur. Við sem hreyfing. Við sem pólitískir samherjar. Við sem vinir.

Hví fór sem fór? Það munum við ræða hér í dag í hópavinnu. Hvers vegna snéru kjósendur baki við VG? Var það stefnan okkar? Var það stjórnarsamstarfið? Voru það einstök mál? Voru það skilaboðin frá okkur? Er breytt pólitískt landslag staðreynd, þar sem ekkert vinstri á heima? Og, engir græningjar ná í gegn?

Þessi fundur er mikilvægur til að ræða opinskátt og hreinskilningslega um hví fór sem fór. En hann er ekki síður tækifæri til að ræða framtíðina.

Undir dagskrárliðnum „VG, hvað næst?“ er meiningin að ræða akkúrat þetta í hópum. Hvernig verður VG 2.0? Eða verður ekkert VG 2.0? Við þurfum að þora að ræða það. Er þörf á VG nú þegar kjósendur eru búnir að gefa til kynna að þeir telji svo ekki vera? Ef svarið er já, á það þá að vera sama VG og hefur verið starfandi eða ætti að stofna „nýtt VG“ með breiðari eða breyttum áherslum og nýju fólki í bland við núverandi kjarna? Og, hvert er þá erindi VG?

Nýtum samveruna hér í dag til að ræða þetta af einlægni og hreinskilni. Verum ekki hrædd við að segja það sem okkur býr í brjósti. Við erum í öruggu umhverfi og öll sammála um að vilja tryggja hugsjónum, gildum og stefnu Vinstri grænna áframhaldandi farveg. Spurningin er: Hvernig?

Staða okkar er ansi snúin. En í öllum mótbyr felast líka tækifæri. Þó svo að hreyfingin hafi tapað í kosningum, þá er hugsjónin lifandi og sennilega sjaldan jafn mikilvæg og akkúrat núna. Það sýnir staðan í alþjóðamálum vel. Það sést á bakslagi í mannréttindum. Það sést á bakslagi í umhverfismálum. Þetta bakslag nær svo sannarlega hingað heim, og bakslagið í náttúruverndarmálum hérlendis er auðvitað ekkert nema heimatilbúið – í boði Samfylkingarinnar – á vakt Samfylkingarinnar.

Við þessu öllu verður að bregðast af festu. Það er verkefni fyrir okkur í VG.

Ég óska nýrri ríkisstjórn alls velfarnaðar fyrir land og þjóð. Það er reyndar ótrúlega gaman að upplifa að formenn allra stjórnarflokkanna eru konur. Nú sitja bara konur við borðsendann. Sjö af ellefu ráðherrum eru konur. Einn ráðherra er hinsegin. Einn ráðherra er fatlaður. Þetta er afar jákvætt.

Sumar fyrirætlanir nýrrar ríkisstjórnar hugnast mér líka ágætlega. Það er afar ánægjulegt að sjá áform um áframhald á umbótum í örorkulífeyriskerfinu, ekki síst að halda eigi áfram með þá vinnu sem hafin var í okkar tíð við að stöðva kjaragliðnun öryrkja og eldra fólks og stoppa upp í þann mun sem er á grunnlífeyri og lágmarkslaunum. Frá okkar tíð munar mestu um 18 milljarðana sem koma nýir inn núna í september næstkomandi vegna kerfisbreytingarinnar í örorkunni.

Ég gæti nefnt áherslur í fæðingarorlofsmálum, lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en frumvarp þess efnis setti ég í samráðsgátt stjórnvalda fyrir ríkisstjórnarslit, og áframhald á vinnu við að bæta lagaumhverfi fiskeldis sem hófst í okkar tíð.

En svo saknar maður margs sem ekki á að gera. Ég sakna áforma um umbætur í skattamálum hinum efnaminni til handa. Ég sakna áherslu á náttúruvernd. Ég sakna áherslu á almenningssamgöngur. Ég sakna áherslu á loftslagsmál. Ég sakna áherslu á femínisma og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Og, svona gæti maður, því miður, of lengi talið.

Það veldur mér áhyggjum að fyrstu stefnu í málefnum innflytjenda sem var tilbúin við stjórnarslit, er ekki að finna á þingmálaskrá vorsins. Þetta er ekki góður fyrirboði. Nýr félagsmálaráðherra, sem rekið hefur harða útlendingastefnu og stefnuna „Íslendingar fyrst og svo aðrir“, ber ábyrgð á innflytjendamálum. Hvernig mun Inga Sæland haga jafnræði milli innfæddra og innflytjenda? Á milli jaðarhópa? Ráðherra sem hringir og hótar skólastjóra ömmubarnsins síns, ef marka má fréttaflutning, því skór unglingsins týndust.

Og, það vekur líka áhyggjur mínar að vera kominn með duglegan iðnaðarkrata með mikið virkjanablæti í umhverfisráðuneytið.

Það er alveg ljóst að rík þörf er fyrir stjórnarandstöðu frá vinstri og af græna vængnum, sem nú er ekki til staðar á Alþingi Íslendinga. Sú stjórnarandstaða er samt hafin, m.a. með umsögnum okkar Vinstri grænna um þingmál.

Það eru sannarlega blikur á lofti í alþjóðamálum. Spenna eykst á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Ásælni Bandaríkjaforseta í nágrannaríki sín, Kanada og Grænland. Áhrif ákvarðana hans á stöðu loftslagsmála og mannréttindi, ekki síst trans fólks, eru og verða stórt áhyggjuefni. Óvarfærnar og óskynsamlegar yfirlýsingar um frið í Úkraínu og brottflutning Palestínumanna frá Gaza. Það hvernig staðreyndum og sannleikanum er snúið á hvolf í hverju málinu á fætur öðru. Og, hótanir um tollastríð sem maður sér ekki hvernig eigi að gagnast nokkru ríki. Á meðan situr Kína á hliðarlínunni og bíður átekta. Hitt stórveldið.

Og við hér heima verðum að spyrja okkur: Viljum við Íslendingar vera bandamenn Trump og félaga? Bandamenn þeirra sem brjóta grundvallarmannréttindi borgaranna um að fá að vera þau sem við erum? Viljum við vera á móti transfólki? Á móti þróunarsamvinna? Með útlendingaandúð? Í fararbroddi í falsfréttum? Styðja geðþóttahreinsanir úr dómskerfinu? Henda vestrænni samvinnu út um gluggann? Hvar ætlar Ísland raunverulega að standa í þessu máli?

Í mínum huga verður utanríkisráðherra okkar og forsætisráðherra að mótmæla þessari gríðarlega alvarlegu stefnubreytingu sem orðið hefur í Bandaríkjunum. Hér er mennskan í húfi. Hér er sannleikurinn í húfi. Hér er réttarríkið í húfi. Hér er lýðræðið í húfi. Og, hér er sjálfsvirðingin í húfi. Þetta eru allt gildi sem utanríkisráðherra okkar hefur talað mikið fyrir sem stjórnmálaleiðtogi, og nú reynir á hvort það verði bara í orði eða líka á borði.

Það er a.m.k. alveg ljóst í mínum huga að heimurinn er að há röng stríð.

Blóðug átök eiga sér stað á að minnsta kosti yfir 110 svæðum í heiminum. Gaza, Súdan og Úkraínu, og fleiri og fleiri svæðum.  

Annars konar stríð eru líka háð. Stríðið gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama og eigin ákvörðunum í lífinu. Stríðið gegn tilverurétti trans fólks og gegn mannréttindum hinsegin fólks. Stríðið gegn flóttafólki og skeytingarleysi fyrir réttindum og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu.

Ný forysta Bandaríkjanna er að skora hátt þessa dagana í að fokka upp réttlæti, sanngirni og skynsemi.

Á sama tíma og þessi vitleysa gengur yfir heiminn fellur ansi margt annað í skuggann. Ekki síst það sem mestu máli skiptir fyrir framtíð mannkyns og er og verður eitt langstærsta alþjóðamálið: Loftslagsbreytingar og baráttan gegn þeim. Loftslagið er grundvallar undirstaða þess að vistkerfi heimsins geti áfram fætt og klætt mankyn og verndað lífverur og samfélög. Þannig að ef við klúðrum því, þá verður allt annað mun erfiðara, fleiri tilgangslaus stríð, loftslagsflóttafólki fjölgar og spenna eykst.

Loftslagsmálin eru stærsta velferðarmál þessarar aldar og eina réttmæta stríðið sem við ættum að vera að há. En heimurinn er ekki þar. Og því þarf að breyta.

Ísland hefur gert margt gott í þessum málum en verður að gera betur og á að taka þessa baráttu á öllum sviðum, bæði hér heima og erlendis. Láta heyra hátt í sér og endurspegla það hér heima. Við erum mörg sem erum tilbúin að veita slíkri baráttu liðsinni okkar óháð pólitískum flokkalínum. Heimurinn er í húfi og hann er stærri en flokkspólitík.

Hugsjónir okkar Vinstri grænna um friðarhyggju, félagslegt réttlæti, femínisma, mannréttindi og umhverfisvernd, eiga svo sannarlega heima í umræðunni um alþjóðamál í dag. Höldum þeim hátt á lofti.

Mig langar að víkja aðeins að efnahagsmálum. Það vinnur með nýrri ríkisstjórn að verðbólga er að fara niður og þar með vaxtastig í landinu. Þessi þróun var hafin fyrir ríkisstjórnarslit og heldur áfram. Hún er vegna aðgerða fyrrverandi en ekki núverandi ríkisstjórnar. Núverandi ríkisstjórn hefur lagt á það ríka áherslu að hrófla ekki of mikið við ríkisfjármálunum á þessu ári til þess að verðbólga fari ekki aftur af stað. Með öðrum orðum, ný ríkisstjórn fylgir ríkisfjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar sem þau gagnrýndu út í hið óendanlega fyrir kosningar – reyndar hver núverandi stjórnarflokkur á sinn hátt.

En þetta eru nú einhver umskiptin maður minn.

Ný ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar rekur hægri efnahagsstefnu. Aukin áhersla á aðhald, að ná fram stóraukinni hagræðingu í ríkisrekstri og engin ný verkefni koma til nema sparað verði fyrir þeim á öðrum stöðum eða aukin tekjuöflun komi til. En áætlanir um aukna tekjuöflun eru afskaplega fátæklegar, óútfærðar og ósannfærandi. Og þó svo að aukinn hagvöxtur muni hjálpa ríkisstjórninni á næstu árum að fá aukinn pening í ríkiskassann, er ansi hætt við því að þetta bitni á opinberri þjónustu og opinberum starfsmönnum.

Þá vekur sérstaka athygli, svona í ljósi kosningabaráttu Samfylkingarinnar og Flokks fólksins, að það eru engar skattkerfisbreytingar í þágu láglaunafólks boðaðar. Það er engin hækkun á sköttum á þau sem hæstar hafa tekjurnar, enginn hækkun á fjármagnstekjuskatti og engin áform um að lækka skatta á þau sem lægstar hafa tekjurnar.

Eigum við að bera þetta saman við síðustu ríkisstjórn sem hækkaði fjármagnstekjuskatt og kom á þriggja þrepa skattkerfi sem nýttist mest þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Það var fyrir tilstilli okkar í VG, í ríkisstjórn með þeim flokkum sem árið 2013 boðuðu að koma á einu tekjuskattsþrepi.

Efnahagsstefna og skattastefna núverandi ríkisstjórnar er mun lengra til hægri en síðustu ríkisstjórnar. Og það í boði Samfylkingarinnar – á vakt Samfylkingarinnar!

Hvar eru umbætur í skattkerfinu í þágu tekjulágra, Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland? Hvar er velferðarskattastefna Samfylkingarinnar? Hvar eru efndir kosningaloforðanna?

Jú, kosningaloforðin eru ofan í skúffu hjá Þorgerði Katrínu og rötuðu ekki inn í endanlegt plan Samfylkingarinnar. Kristrún Frostadóttir og Samfylkingin kunna að hafa verið sigurvegarar kosninganna en ÞKG og Viðreisn voru svo sannarlega sigurvegarar í ríkisstjórnarmynduninni og halda á stærstu trompunum, geta farið í aðra ríkisstjórn ef svo viðrar og með öll tromp á hendi.

Setan í ráðherrastólnum í umhverfisráðuneytinu var ekki einu sinni orðin volg þegar að ráðherra Samfylkingarinnar var búinn að koma fram með þær róttækustu yfirlýsingar í virkjanamálum sem heyrst hafa síðan virkjanasinna dreymdi stóriðjudrauma allar nætur hér fyrir 30-40 árum síðan. Manni fannst nú Guðlaugur Þór oft fara alltof mikinn í umræðu um orkumál en hann kemst ekki með tærnar þar sem Virkjana-Jói hefur hælana. Engan veginn. Enda var VG við ríkisstjórnarborðið.

Það sem er að gerast með nýjum ráðherra Samfylkingarinnar í umhverfismálum er grafalvarlegt. Svo alvarlegt að gömlu græningjarnir í flokknum þeirra eins og Mörður Árnason rísa upp og mótmæla. Og, náttúruverndarsamtök mótmæla. Og Vinstri græn mótmæla.

Hvers vegna? Jú, umhverfisráðherra Samfylkingarinnar stendur fyrir aðför að náttúru- og umhverfisverndarlöggjöf í landinu með nýju frumvarpi sínu sem ætlað er að bregðast við dómi héraðsdóms um Hvammsvirkjun. Þannig á að valta yfir dómstóla með lagabreytingum í máli sem nú er fyrir Hæstarétti, skerða aðkomu umhverfisverndarsamtaka að þátttöku í ákvarðanatöku og brjóta þannig á Árósasamningnum, og gera rammaáætlun að engu í skilningi laga um stjórn vatnamála. Og, allt eru þetta mál sem Samfylkingin var með okkur í VG að koma á í vinstristjórninni.

Erlendir sérfræðingar telja m.a.s. að verði frumvarp ríkisstjórnarinnar að lögum sé verið að brjóta Mannréttindasáttmála Evrópu.

Aðra eins aðför að náttúruvernd og lýðræðislegri þátttöku almennings í umhverfismálum höfum við ekki séð síðan setja átti sérlög um lagningu háspennulínu norður í Mývatnssveit árið 2016.

Og, hver er fyrirstaðan í þinginu að þessu sinni? Hún er engin, ólíkt því sem var árið 2016 og VG átti stóran þátt í að komið var í veg fyrir sérlög. Við í VG verðum því að hafa hátt og náttúruverndarsamtök verða að hafa hátt.

Gleymum því ekki að við höfum áorkað miklu á síðustu sjö árum í ríkisstjórn sem við getum og megum vera stolt af. Við höfum breytt skattkerfinu þannig að það þjóni betur tekjulágum. Við höfum staðið vörð um og aukið réttindi kvenna til yfirráða yfir eigin líkama og sett mannréttindi hinsegin fólks í öndvegi.

Við höfum aukið gagnsæi og réttlæti með umbótum á upplýsingalöggjöf og rétti allra hópa til jafns aðgengis innan sem utan vinnumarkaðar.

Við höfum staðið vörð um hið opinbera heilbrigðiskerfi, sett Íslandi heilbrigðisstefnu og dregið stórlega úr kostnaðarþátttöku í heilsugæslunni.

Við höfum umbylt löngu úreltu örorkulífeyriskerfi og tryggt 18 nýja milljarða inn í það kerfi – stærsta aðgerð gegn fátækt á Íslandi í langan, langan tíma.

Við höfum sett fram aðgerðaáætlanir í loftslagsmálum og fjármagnað þær, sem áður var ekki, friðlýst ótal verðmæt svæði í náttúru Íslands og bætt löggjöf í loftslagsmálum og úrgangsmálum til muna.

Við höfum líka rutt leiðina fyrir aukið gagnsæi í sjávarútvegi og stórbætta löggjöf á sviði fiskeldis sem vonandi verður haldið áfram með og klárað.

Og við höfum staðið með hvölunum í hafinu og víðernunum á hálendinu.

Og við megum heldur ekki gleyma því að við eigum öflugt sveitarstjórnarfólk um allt land sem heldur stefnu okkar á lofti. Og nú erum við í meirihluta á tveimur stöðum. Á sameiginlegum lista í Ísafjarðarbæ. Og, okkar kona þar er orðin bæjarstjóri. Því ber sannarlega að fagna og ég óska Sigríði Júlíu innilega til hamingju með stöðuna.

Og, núna hér í Reykjavík er kominn splunkunýr meirihluti, vinstrisinnaður félagshyggju meirihluti. Því ber að fagna.

Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á efnahags- og skattastefnu, umhverfis- orku og náttúruverndarmálum, í ljósi sviptinga á alþjóðavettvangi og í ljósi fyrri verka okkar í ríkisstjórnum og öflugrar félagshyggju og umhverfisverndarstefnu, má spyrja sig þessarar spurningar: Ætlum við bara að gefast upp? Eða ætlum við að finna hugsjónum okkar farveg áfram?

Að lokum þakka ég starfsfólki skrifstofunnar og félögum í stjórn VG fyrir að undirbúa Flokksráðsfund okkar að þessu sinni. Ég segi fundinn settan!

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search