PO
EN

Á páskum

Deildu 

Á páskum minnumst við þess að þrír menn voru líflátnir á kvalarfullan hátt á Golgatahæð við Jerúsalem í Palestínu, fyrir rúmum 2000 árum.

Einmitt nú, árið 2025, eru dag hvern tugir ef ekki hundruð saklauss fólks á öllum aldri tekið af lífi eða svelt til dauða í því sama landi.

Fyrir 2000 árum reis einn af þessum þremur upp frá dauða og minning hans er ljóslifandi um heim allan – sá boðskapur að við, mannkynið, eru öll systur og bræður og eigum að hjálpast að.

Ég efa að margir af þeim tugþúsundum sem líflátnir hafa verið síðustu 16 mánuði (og síðustu 78 ár) í Landinu helga muni rísa upp, en minnig þeirra mun lifa, likt og minning þeirra milljóna Gyðinga sem Hitler og þýsku nazistarnir tóku af lífi fyrir 80 árum.

Nú er meira en mánuður síðan zíonistarnir í Ísrael, með Netanyahu í broddi fylkingar, lokuðu á alla aðdrætti til þeirra milljóna sem eiga heima á sundursprendri Gazaströndinni. Þar magnast hungrið dag hvern og líklega deyja nú þegar fleiri úr hungri og ótímabærum sjúkdómum en vegna sprenginganna. Sú kynslóð sem lifir þessar hörmungar af hlýtur að vera mörkuð til lífstíðar af áfallastreituröskun, hafandi varla getið sofið í 16 mánuði án þess að heyra sprengjudrunur og geta alltaf búist við að sprengja hæfi tjaldið þeirra .

Öll stjórnvöld um hinn vestræna, kristna heim styður þessar fjöldaaftökur í Landinu helga – eða í besta falli horfa aðgerðarlaus á. En meðal almennings fjölgar þeim sem mótmæla og reyna að koma vitinu fyrir Heródesa og Pílatusa okkar tíma og mörg sendum við smáaura til fólks á Gaza svo það geti gefið börnum sínum a.m.k. eina máltíð á dag og drykkjarhæft vatn. En framleiðsla matar er lítil á innilokuðu og sundursprengdu Gaza og æ erfiðara og æ dýrara að fá matarbita.

Látum þessa páska verða raunverulega friðarhátíð, rísum sjálf upp frá dauða, látum til okkar heyrast og gerum það sem við getum til að stöðva aftökurnar í Landinu helga, núna!

Til að fylgjast með því sem þar skeður dugar ekki að fylgjast með fréttum Rúv. Þar er bara lapið upp úr meginstraumi vestrænna fréttamiðla sem flestir eru á bandi Heródesar og Pílatusar og klæða þeirra ódæðisi í falleg orð.

Á páskadagsmorgun voru engar fréttir frá þessum ódæðisverkum kl. 8, en klukkan 7 var þó ein lítil frétt, – til að réttlæta gerðir Netanyahu, á þessa leið: „Benjamin Netanyahu hét því að koma þeim gíslum sem eftir eru í haldi Hamas-samtakanna á Gaza aftur til síns heima, án þess að verða við kröfum Hamas. Hann sagði ákveðinn vendipunkt í stríðinu núna og á þessum tímapunkti þarf þolinmæði og þrautseigju til að vinna stríðið….“

Nei, sannleikann um fjöldamorðin á Gaza er ekki að finna á Rúv, því miður, þó margt gott megi um þann miðil segja. Ein hjúkrunarkona norður í landi heldur úti miklu áreiðanlegri og umfangsmeiri fréttaflutningi, beint frá Golgata okkar tíma, á facebook-síðu sinni, með hjálp tuga fréttaritara – þolenda á Gaza. Ferskar fréttir í máli og myndum og þýðingarvélar gera sitt gagn. Þessi kona er Kristín S. Bjarnadóttir. Fylgjumst með henni og fylgjum hennar fordæmi – en það hef ég gert, og fæ til baka fréttir beint af vettvangi og mikið þakklæti fyrir smá stuðning sem ég læt af hendi. Fleiri fésbókarsíður koma að gagni, m.a. Frjáls Palestína, og Félagið Ísland-Palestína sem hefur stutt Palestínufólk á margan hátt í nær 50 ár og er einnig með efni á instagram.

Þorvaldur Örn Árnason

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search