Search
Close this search box.

Á ríkið að eiga banka

Deildu 

  

Hvers vegna á ríkið að eiga banka og binda fjármuni sína í fjármálastofnunum sem bankarnir fengu t.d. í stöðugleikaframlaginu? Ríkið hefur engin áhrif á rekstur, vaxtastig, útlán eða almenna þjónustu eða viðskiptakjör við almenning í landinu. Fjölda bankaútibúa hefur verið lokað undanfarin ár víða um land og ríkið hefur ekkert haft um það að segja þó það hafi verið eigandi í viðkomandi banka.

354 milljarðar eignarhlutur ríkisins í bönkum

Eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum er metinn í dag á um 354 milljarða kr. og ég verð að segja að ég er komin á þá skoðun að það sé hagur almennings í landinu til lengri tíma litið, að ríkið selji í skrefum allan eignarhluta sinn í þessum fjármálastofnunum þegar komin verður ný löggjöf sem tryggir að bankasýsluklúðrið endurtaki sig ekki og almenningur geti treyst því að fá sem hæst verð fyrir sinn hlut og að gegnsæi sé í fyrirrúmi í almennu útboði og hagsmunir ríkisins tryggðir með skýrum útboðsreglum og eftirliti. Við eigum að nota þessa fjármuni til að byggja upp innviðina og velferðarkerfið í landinu og greiða niður skuldir.

Fjármálaeftirlit hefur verið eflt mikið

Löggjafinn hefur frá hruni verið að setja öflugra regluverk um fjármálafyrirtæki og það þarf að halda því áfram og sérstaklega að efla neytendaverndina og tryggja enn frekara gegnsæi í viðskiptakjörum og allri þjónustu við fólk og fyrirtæki og jafnræði fólks og fyrirtækja gagnvart fjármálastofnunum óháð búsetu.

Samfélagsbanki tálsýn

Ég held að draumur margra, mín og annarra, um einhvern samfélagsbanka sé tálsýn ein, því að ríkið mun hvorki né hefur haft neitt með það að gera hvernig rekstri bankanna í þess eigu er háttað og hefur trúlega ekki möguleika á því heldur í okkar samkeppnisumhverfi. Við þurfum þetta fjármagn til innviðauppbyggingar í landinu til fjölda málaflokka, og peningunum er betur varið í framfarir og aukna velsæld fyrir fólkið í landinu, frekar en að binda þessa fjármuni í bankarekstri á vegum ríkisins sem við höfum ekkert um að segja.

Arðgreiðslur eða minni vaxtakostnaður ríkisins

Jú, við fáum auðvitað einhvern arð af eignarhlutanum í fjármálastofnunum í eigu ríkisins, en gætum á móti losað okkur við stóraukinn vaxtakostnað af lánum ríkisins og komist hraðar í að styrkja alla innviði í landinu, hvort sem við nefnum samgöngur, heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða velferð og kjör almennings almennt, óháð búsetu.

Endurtökum ekki Bankasýsluklúðrið!

Látum ekki klúðrið í síðustu sölu á hlut í Íslandsbanka eyðileggja fyrir að eignarhluti ríkisins í fjármálastofnunum, 354 milljarðar í dag, nýtist frekar almenningi í landinu til framfara og til uppbyggingar í nútíðinni, þegar verkefnin allt í kringum okkur kalla á aukna fjármuni.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður Norðvestur­kjördæmis

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search