EN
PO
Search
Close this search box.

Að byrja á byrjuninni

Deildu 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur bent á að geðheilbrigðismál séu ein helsta áskorun sem heilbrigðiskerfi okkar og alþjóðasamfélagið muni þurfa að takast á við í framtíðinni. Í því samhengi er nauðsynlegt að leggja áherslu á andlega, líkamlega og félagslega vellíðan barna í gegnum menntun og fræðslu. Þannig má vinna gott forvarnarstarf sem skilar sér í eflingu andlegrar og líkamlegrar heilsu barna og komandi kynslóða.

Gríðarlega mikilvægt skref var stigið þegar 630 milljónum var úthlutað í geðheilbrigðisþjónustu af fjárlögum árið 2019. Snemmtæk íhlutun er grundvallaratriði og eru forvarnir sterkasta vopnið. Nú skipar heilsugæslan mikilvæga rullu á fyrstu stigum eftir að sálfræðiþjónusta var tryggð á heilsugæslum landsins og gerir það að verkum að þessi mikilvægi fyrsti snertiflötur sé veittur í heimabyggð. Mönnun sálfræðinga á landsbyggðinni er þó mikil áskorun og því verður að fylgja þessu verkefni eftir og halda utan um það af festu. Eins og Svandís Svavarsdóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra benti á þá er „geðheilbrigði þjóða ekki eingöngu viðfangsefni heilbrigðiskerfisins heldur veltur það ekki hvað síst á öflugu menntakerfi, félagþjónustu og dómsmálakerfi“. Nýrrar nálgunar er þörf og í skýrslu um „Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030“ er lögð áhersla á að meðhöndla ekki einungis einkennin þegar allt er farið á versta veg heldur fara af krafti yfir í forvarnir og fræðslu og nýta geðfræðslu til að efla geðheilbrigði.

Sambærilegar niðurstöður má lesa úr tillögum starfshóps um „Innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi“ frá 2019 þar sem fram kemur að mikilvægt er að geðrækt og kennsla í geðrækt verði hluti af námi kennara og aðalnámskrá grunnskóla.

Nauðsynlegt er á tímum misvísandi upplýsinga, sem auðveldlega má nálgast á netmiðlum, svo og óheilbrigðra fyrirmynda og viðmiða, að fræða börn og ungmenni um geðheilbrigði. Efla þarf þær leiðir sem þau sjálf hafa til að bæta eigin líðan, veita þeim fræðslu og kennslu í tilfinningastjórnun og eiga almenna heilbrigða umræðu um mannlegar tilfinningar.

Jódís Skúladóttir, þingmaður NA-kjördæmis.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search