Search
Close this search box.

Að taka sér far með Verbúðinni

Deildu 

Athygli mín var vakin á því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nú formaður Viðreisnar en áður þingmaður, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefði skrifað blaðagrein. Nánar tiltekið í Morgunblaðið og beini þar spjótum m.a. að undirrituðum og þeim stjórnmálahreyfingum sem ég hef starfað í um dagana. Ég útvegaði mér greinina og barði mig í gegnum hana.

Greinin er að uppistöðu til ásakanafroða sem ekki er svara verð. Ég hefði því látið kyrrt liggja ef ekki væri það að í niðurlaginu leggur Þorgerður lykkju á leið sína og sparkar í látinn félaga minn og vin. Svavar Gestsson er því miður ekki lengur á meðal vor til að svara fyrir sig. Af hverju segi ég það að þarna leggi Þorgerður lykkju á leið sína? Jú, Þorgerður velur að nafngreina aðeins tvo af þremur ráðherrum Alþýðubandalagsins í ríkisstjórn áranna 1988-1991. Af hverju lét Þorgerður það ekki nægja að nefna bara mig og sleppa þá Svavari Gestssyni eins og hún sleppir Ólafi Ragnari Grímssyni? Getur verið að skýringin sé Svandís Svavarsdóttir? Eða vinnur Þorgerður bara yfir höfuð úr sannleikanum og sögulegum staðreyndum með valkvæðum hætti?

Almennt vekur framsetning af þeim toga sem Þorgerður notar í sinni grein ekki áhuga minn, né tel ég hana til þess fallna að bæta stjórnmálamenninguna. Sem sagt þessi framsetning Þorgerðar að aðrir stjórnmálamenn séu upp til hópa ómerkilegir og selji hugsjónir sínar fyrir ráðherrastóla, aðrir en hún auðvitað. Stundum fæ ég það á tilfinninguna að Þorgerði Katrínu sé sérstaklega uppsigað við kynsystur sínar í stjórnmálum sem skara fram úr. Ég er ekki búinn að gleyma henni í ræðustól Alþingis á síðasta þingvetri Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún ítrekað veittist ómerkilega að henni í stað þess að þakka hennar merka framlag til stjórnmálanna og kveðja hana með virðingu. Af einhverjum ástæðum eru það bara Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir sem í grein Þorgerðar eru að selja sál sína fyrir ráðherrastóla en ekki þriðji ráðherra sama flokks, Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Eða er þarna aftur á ferð, og e.t.v. óvart, hin valkvæða úrvinnsla staðreyndanna? 

Verbúðin á betra skilið 

Sjónvarpsþættirnir Verbúðin eru sannkallað þrekvirki í þáttagerð á íslenskan mælikvarða, hafa raunverulegt innihald og boðskap að flytja og hin besta skemmtun. Vinsældirnar enda eftir því og það hefur greinilega ekki farið fram hjá Þorgerði. Um að gera að fá sér far. En pólitískar útleggingar hennar í framhaldinu rista grunnt og eru ómerkilegar. Þrennu getur þó Þorgerður velt fyrir sér til að dýpka skilning sinn á málinu og eftir atvikum sinn hlut;

a) Hvernig stóð á því að sjávarútvegurinn og útflutningsgreinar almennt stóðu á barmi gjaldþrots haustið 1988? Hvers vegna þurfti víðtækar, en sem betur fer vel heppnaðar, aðgerðir til að forða hruni og atvinnumissi, sérstaklega í sjávarútveginum? Gæti þessi hörmungarstaða og þörfin fyrir bætta afkomu hafa haft áhrif á ýmislegt sem gert var misserin á eftir? Þetta getur Þorgerður rætt við Þorstein Pálsson, ég trúi að hann sé í kallfæri við Viðreisn.

b) Hvar var Þorgerður Katrín 2012 þegar alvörutilraun var gerð til grundvallar kerfisbreytinga í sjávarútvegsmálum og þar á meðal að færa aðgangsréttinn yfir á grundvöll tímabundinna nýtingarleyfa? Reyndi hún þá að hjálpa til í anda þess sem Viðreisn telur sig berjast fyrir nú eða tók hún þátt í að drepa málið sem einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins? 

c) Hvaða afrek, eða a.m.k. áform um kerfisbreytingar í sjávarútvegsmálum, standa eftir frá sjávarútvegsráðherratíð Þorgerðar á árinu 2017? Þótt sú ríkisstjórn slægi Íslandsmet í skammlífi mætti ætla miðað við málflutning Þorgerðar og Viðreisnar nú að einhver áform um kerfisbreytingar hefðu hið minnsta verið kynnt. Í anda Ara fróða er rétt í lokin að hjálpa Þorgerði Katrínu aðeins þar sem hún gengur enn valkvætt eða rúmt um staðreyndir. Lög nr. 38/1990 eru samþykkt á Alþingi 5. maí 1990 og er þá tæpt ár til kosninga en ekki fjórir mánuðir eins og Þorgerður virðist telja. Eða var ekki annars kosið 20. apríl 1991? 

Höfundur: Steingrímur J. Sigfússon, fv. alþingismaður og ráðherra.

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu, 22. febrúar 2022.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search