Search
Close this search box.

Aðgengi að kosningum er ekki jafnt.

Deildu 

Kosningaþátttaka sem fjölbreyttasts hóps samfélagsins er gífurlega mikilvæg svo niðurstöður kosninga endurspegli vilja og skoðanir samfélagsins í heild. Fyrir hverjar einustu kosningar er lagt mikið upp úr því að minna fólk á að nýta kosningarétt sinn. Þó er einum hópi samfélagsins gert erfitt fyrir að nýta þennan mikilvæga rétt að beinu lýðræði en það er fatlað og langveikt fólk sem þarf aðstoð á kjörstað.

Í 86. gr. kosningalaga er að finna reglur sem gilda fyrir þá kjósendur sem þurfa aðstoð við að rita á kjörseðilinn sinn. Þar segir „Ef kjósandi skýrir kjörstjórn svo frá að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal sá úr kjörstjórninni er kjósandi nefnir til veita honum aðstoð til þess í kjörklefanum.“

Fatlað og langveikt fólk vildi meira vald

Fatlað fólk hefur lengi barist fyrir því að geta sjálft valið sinn eigin aðstoðarmann í kosningum. Árið 2012 skilaði sú barátta því að kosningalögum breytt þannig að fötluðu fólki væri heimilt að velja sinn eigin aðstoðarmann í kosningum. Enn í lögunum er þó sérstaklega fjallað um fatlað fólk sem þarf aðstoð vegna fyrrnefnds sjónleysis eða ónothæfrar handar. Einnig er gerð krafa um að kjósandi geti sjálfur, með skýrum hætti, tjáð kjörstjórn vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar viðkomandi. Hins vegar er mögulegt að fá aðstoð af öðrum ástæðum en til þess þarf útgefið vottorð réttindagæslumanns fatlaðs fólks.


Mismunun eftir fötlun

Nú í vikunni blasti við okkur hvernig óljóst orðalag þessara laga er nýtt til að mismuna fólki þegar Ellý Guðmundsdóttur var meinað að kjósa með eigin aðstoðarmanneskju því hönd hennar þótti ekki nægilega ónothæf. Ljóst er að það að geta valið sinn eigin aðstoðarmann er sérstaklega mikilvægt fólki sem tjáir sig óhefðbundið eða á með einhverjum hætti erfitt með að koma vilja sínum skýrt fram við ókunnuga. Því er með ólíkindum að þessi hópur langveiks og fatlaðs fólks eigi hvað erfiðast með að fá sína eigin aðstoð inn í kjörklefann. Þessum aðstæðum væri hægt að líkja við að ófatlaðir kjósendur þyrftu að tjá vilja sinn í kosningum við einstakling sem ekki skilur sama tungumál né líkamstjáningu. Það er ljóst að við slíkar aðstæður er mikil hætta á misskilningi.

Eins og fyrr sagði þarf fólk sem ekki er talið geta tjáð vilja sinn með skýrum hætti að fá útgefið vottorð frá Réttindagæslumanni fatlaðs fólks um hver muni aðstoða viðkomandi. Upplýsingar um að útvega þurfi slíkt vottorð eru ekki á allra vitorði eða auglýstar sérstaklega. Lítið gagn er í úrræðum sem þessum ef starfsmenn kjördeilda þekkja ekki einu sinni til þeirra. Þó mál Ellýjar Guðmundsdóttur hafi verið leyst og henni gefin kostur á að endurtaka kosningu sína þarf að koma í veg fyrir að atvik sem þessi endurtaki sig.

Þörf á aðgengilegra og skýrara regluverki

Ljóst er að núverandi kerfi er of flókið og mismunar fólki á grundvelli eðli fötlunar og/eða veikinda. Að sjálfsögðu er mikilvægt að vanda til verks hér svo tryggt sé að ekki sé hægt að misnota aðstöðu fólks. Mestu máli skiptir er að aðstoðin og þær reglur sem um hana gilda séu skýrar og aðgengilegar kjörstjórnum, fötluðu og langveiku fólki sem og aðstandendum.

Landssamtökin Þroskahjálp standa nú fyrir herferðinni ‘Ég kýs ekki‘ þar sem bent er á allar þær fjölmörgu hindranir sem standa í vegi fyrir því að fatlað og langveikt fólk geti nýtt kosningarétt sinn og skorað á yfirkjörstjórnir að styðja við fatlað fólk í kosningum.

Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir, skipar fjórða sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi og Baráttukona fyrir málefnum fatlaðs fólks

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search