Nú hefur önnur aðgerðaáætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnu verið lögð fram á Alþingi. Áætlunin gildir fyrir árin 2021-2025 og á sér stoð í þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 en samkvæmt heilbrigðisstefnu skal uppfærð aðgerðaáætlun til fimm ára lögð fyrir þingið ár hvert. Áætlunin er tengd við fjárlagavinnu Alþingis á hverjum tíma og tekur mið af helstu áskorunum og áhersluverkefnum í heilbrigðismálum. Um fjórðungur fjárheimilda ríkissjóðs rennur til heilbrigðismála svo mikilvægt er að forgangsraða fjármunum til málaflokksins þannig að þjónustan verði sem öflugust fyrir okkur öll.
Í aðgerðaáætluninni eru sett fram þau meginmarkmið að kaup á heilbrigðisþjónustu tryggi að fjármunum sé varið til þeirrar þjónustu sem mest er þörf fyrir á hverjum tíma, að nýtt þjónustutengt fjármögnunarkerfi verði tekið í notkun fyrir opinber sjúkrahús og sambærilega einkarekna þjónustu, að nauðsynlegar kröfur séu gerðar um aðgengi, gæði og öryggi sjúklinga og að notendur heilbrigðisþjónustu hafi gott aðgengi að upplýsingum til að taka upplýstar ákvarðanir um val á heilbrigðisþjónustu. Að lokum eru tilgreind meginverkefni til að ná þeim markmiðunum sem lýst er í áætluninni.
Aðgerðaáætlunin hefur verið send stjórnendum stofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið og starfsáætlanir stofnana fyrir árið 2021-2022 ættu að endurspegla hana. Einnig hefur starfsáætlun heilbrigðisráðuneytisins fyrir árið 2020 verið birt. Markvisst starf heilbrigðisstofnana landsins og farsæl innleiðing embættis landlæknis á gæðaáætlun í heilbrigðisþjónustu er lykillinn að árangursríkri innleiðingu þessarar fimm ára aðgerðaáætlunar.
Í samræmi við fyrri aðgerðaáætlun heilbrigðisstefnu, fyrir árin 2019 –2023, og markmið heilbrigðisstefnu hefur á síðustu misserum verið unnið að því að skýra ákveðna grunnþætti innan heilbrigðiskerfisins. Þegar hafa verið gerðar breytingar á löggjöf um heilbrigðisþjónustu í þessu skyni og hún samræmd heilbrigðisstefnu þannig að löggjöfin er nú skýrari og afdráttarlausari um hlutverk heilbrigðisstofnana og þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu. Efnt var til heilbrigðisþings í fyrra þar sem hófst undirbúningur að gerð þingsályktunartillögu um þau siðferðilegu gildi sem hafa skuli að leiðarljósi við forgangsröðun í íslenskri heilbrigðisþjónustu og var þingsályktunin samþykkt á Alþingi í júní síðastliðnum. Stefnt er að því að boða einnig til heilbrigðisþings síðar á þessu ári.
Nú hafa ný áhersluverkefni og markmið í heilbrigðismálum verið skilgreind í hinni nýju aðgerðaáætlun og þar með tökum við fleiri mikilvæg skref í því stóra verkefni að koma heilbrigðisstefnu til ársins 2030 til framkvæmda.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.