Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að stofna skuli þjóðgarð á miðhálendi Íslands, en allt frá árinu 2016 hefur verið unnið að þróun þessarar hugmyndar á vegum stjórnvalda í nánu samstarfi við fjölmarga hagsmunaaðila.
Hvaða svæði nær þjóðgarðurinn yfir?
Drög að lagafrumvarpi um Hálendisþjóðgarð voru sett í samráðsgátt stjórnvalda fyrir jól. Frumvarpið byggir á viðamikilli vinnu nefndar sem í sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis. Nefndin lagði til að mörk þjóðgarðsins miðist við landsvæði sem eru í sameign þjóðarinnar – það er þjóðlendur og svæði sem þegar eru friðlýst innan miðhálendisins.
Um 30% af flatarmáli Íslands yrði þannig innan þjóðgarðsins. Um helmingur þess landsvæðis er nú þegar friðlýstur.
Hvaða tækifæri felast í stofnun Hálendisþjóðgarðs?
Hálendisþjóðgarður yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu og einstakur á heimsvísu. Hann myndi vernda ein stærstu óbyggðu víðerni álfunnar og afar sérstæða náttúru. Hálendisþjóðgarður yrði stærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum fram til þessa.
Hálendisþjóðgarður hefur ekki í för með sér að miðhálendinu verði lokað eins og stundum er haldið fram. Eitt af markmiðum þjóðgarðsins er einmitt að auðvelda almenningi að kynnast og njóta náttúru miðhálendisins, menningu þess og sögu.
Gert er ráð fyrir að endurheimt raskaðra vistkerfa verði eitt af markmiðum þjóðgarðsins og að m.a. verði unnið að henni í samvinnu og samstarfi við félög og sjálfboðaliða á viðkomandi svæðum, ekki síst bændur sem víða hafa unnið gott starf við landgræðslu á hálendinu. Hefðbundnar nytjar verða áfram leyfðar innan þjóðgarðsins, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum. Gerð er krafa um sjálfbæra nýtingu þessara auðlinda.
Með þjóðgörðum fjölgar opinberum störfum á landsbyggðinni, en þjóðgarðar hafa líka mikið aðdráttarafl og geta þannig skilað efnahagslegum ávinningi. Rannsókn Hagfræðistofnunar HÍ á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða á Íslandi, sem unnin var árið 2018 og tók til tólf ólíkra svæða á landinu, leiddi í ljós að fyrir hverja 1 krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila sér að meðaltali 23 krónur til baka. Friðlýstu svæðin sem rannsökuð voru sköpuðu margvísleg störf, svo sem við skipulagðar ferðir, gistingu, akstur og veitingaþjónustu.
Hvernig verður stjórnfyrirkomulagi þjóðgarðsins háttað?
Stjórnskipulag þjóðgarðsins felur í sér að ríki, sveitarfélög og hagaðilar koma sameiginlega að stefnumótun og stjórnun þjóðgarðsins.
Í áðurnefndum drögum að lagafrumvarpi er gengið út frá að stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins verði dreift. Meirihluti stjórnarmanna verði kjörnir fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem ná inn á miðhálendið og í stjórninni verði einnig fulltrúar ríkis, ferðaþjónustu, umhverfisverndar- og útivistarsamtaka og Bændasamtaka Íslands. Gert er ráð fyrir að þjóðgarðinum verði skipt upp í sex rekstrarsvæði og svokölluð umdæmisráð fari með stefnumótun hvers svæðis. Fulltrúar sveitarfélaga verða í meirihluta í umdæmisráðum og aðkoma heimafólks að stjórnun þjóðgarðsins er því rík. Ný stofnun, Þjóðgarðastofnun, myndi sinna daglegum rekstri og þjónusta svæðin.
Gert er ráð fyrir að stjórnun og umsýsla þjóðgarðsins verði ekki í Reykjavík heldur dreift um rekstrarsvæðin og að þar verði starfsstöðvum komið upp.
Hvað með skipulagsábyrgð sveitarfélaganna?
Með Hálendisþjóðgarði verður hægt að ná utan um skipulag miðhálendisins í heild sinni. Sveitarfélög munu eftir sem áður gefa út leyfi á borð við framkvæmdaleyfi og byggingaleyfi innan þjóðgarðsins. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga munu þó verða bundnar af því sem fram kemur í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins en sveitarfélögin taka ríkan þátt í að vinna þá áætlun með setu sinni í umdæmisráðum og stjórn þjóðgarðsins. Þar eru fulltrúar þeirra í meirihluta.
Hvað með virkjanir?
Virkjanir hafa verið bitbein stjórnmálanna og samfélagslegrar umræðu í langan tíma. Með frumvarpsdrögum um Hálendisþjóðgarð er lagt til að þær leikreglur sem Alþingi setti með lögum um vernd og orkunýtingu landsvæða (öðru nafni rammaáætlun) verði virtar, en einnig tekið tillit þeirra leikreglna sem þjóðgarður skapar. Hægt verði að meta þær virkjunarhugmyndir inni á miðhálendinu sem þegar hafa komið fram og eru til skoðunar í núverandi rammaáætlun. Hvort af þeim virkjunum verður ræðst hins vegar af strangari kröfum en samkvæmt núgildandi löggjöf, enda svæðin innan þjóðgarðs. M.a. verði horft til þess hvort virkjunarhugmynd sé á röskuðu eða óröskuðu svæði. Nýjar virkjunarhugmyndir verði hins vegar ekki teknar til skoðunar og þannig dregin lína í sandinn við þriðja áfanga rammaáætlunar.
Hvað gerist næst?
Í vor mun ég mæla fyrir frumvarpi á Alþingi um Hálendisþjóðgarð. Þessa dagana er ég að kynna frumvarpsdrögin í kringum landið. Ég vonast til að sjá sem flesta, heyra ólík sjónarmið og ræða þau tækifæri sem þjóðgarður getur skapað fyrir náttúruvernd, útivist og byggðaþróun. Nánari upplýsingar um fundina má nálgast á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, uar.is.
Að lokum vil ég óska ykkur gleði og gæfu á árinu sem nú er að hefjast.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson,
umhverfis- og auðlindaráðherra