PO
EN
Search
Close this search box.

Af neysluhyggju og nægjusemi

Deildu 

Nú þegar sumarið og brúðkaupstímabilið er framundan eru mörg vafalaust farin að kíkja í skápa og skúffur til að finna viðeigandi klæðnað fyrir hvert tilefni. Jafnvel svipast um eftir nýjum fatnaði enda útsölur að hefjast og þá er gott að minna sig á umhverfisþátt fataiðnaðarins. Á tímum netverslunar, hraðtísku, áhrifavalda, reglulegra útsala og tilboða er auðvelt að láta glepjast og finnast man vanta hitt og þetta eða finna til tómleika yfir að eiga ekki nánast hverja einustu tískuflík. Fletta á vefsíðum og finna stöðugt eitthvað fallegt sem birtist síðan á pósthúsinu, hrífast með áhrifavöldum og auglýsingum sem telja okkur í trú um að nýtt sé betra ef ekki best! Þetta eða hitt sé einmitt það sem okkur vantar enda mörg okkar sem elska að klæðast fallegri flík við hin ýmsu tilefni og kíkja á djammið í geggjuðum skóm með flotta tösku. 

Eru skáparnir fullir?

Tískubylgjur og trend virðast koma og fara, haga sé eins og veðrið, aldrei að vita hvað verður í tísku næst. Tímabilin verða sífellt styttri og framleiðendur aðlaga starfsemi sína að breyttum veruleika með örari hönnun og framleiðslu, allt gert til að véla okkur til að kaupa nýja flík því jú það er eitthvað annað komið í tísku. Þróuninni fylgir því miður aukin ofneysla sem við Íslendingar tökum svo sannarlega þátt í því hver Íslendingur losar sig við 15 – 20 kg af textíl á ári, umtalsvert meira en meðal jarðarbúi. Á síðasta ári var komið með um það bil 384 tonn af fatnaði í fatagáma RKÍ á Suðurnesjum. Þetta gera um 13 kg á hvern íbúa á Suðurnesjum eða 52kg á fjögurra manna fjölskyldu á ári af fatnaði sem fólk losar sig við. Þar fyrir utan er jafnvel fatnaður sem fer í sölu í fatabásum eða er gefinn á annað heimili. Textíll er fjórði stærsti umhverfisþátturinn sem huga þarf að á eftir samgöngum, húsnæði og matvælum, sem sagt textíll er ofarlega á listanum yfir það sem við eyðum peningunum okkar í og því er lag að ígrunda vel hvar, hvað og hvernig við verslum. 

Er markaður fyrir endurnotkun?

Vinsældir endurnotkunar (e. second hand clothing, vintage clothing) hafa aukist hratt undanfarin ár og sýnileg jákvæð þróun þá sérstaklega er kemur að fatnaði, skóm og töskum. Lengi voru fataverslanir Rauða krossins, Hjálpræðishersins, Gyllti kötturinn og Spútnik viðkomustaðir þeirra sem þurftu eða vildu kaupa ódýran, notaðan fatnað. Upp á síðkastið hefur fjöldi slíkra verslana með notuð föt, fata- og básaleigur sem og fataleigur litið dagsins ljós og hægt að fá notuð og ný föt leigð eða keypt með sjálfbærni að leiðarljósi. Í básaleigum geta seljendur leigt bása og selt föt eða aðra muni í anda hringrásarhagkerfisins. Vinsældir þeirra og fataleiga er sannarlegt fagnaðarefni, föt og aðrar vörur öðlast framhaldslíf sem fjölgar þeim skiptum sem hver flík er notuð. Erlendis eru fataverslanir með notuð föt víða við verslunargötur og sífellt skemmtilegri heim að sækja. Þær eru gjarnan með uppstillingar og merkingar á fatnaði eftir stærðum líkt og aðrar verslanir með nýjan varning. Slíkt er til fyrirmyndar og auðveldar viðskiptavinum að finna föt við hæfi og sýnir virðingu fyrir notuðum fatnaði.

Eru umhverfisáhrifin einhver?

En hvers vegna ættum við að kaupa frekar notaðan fatnað eða þrifta? Jú textíliðnaður er ábyrgur fyrir 8-10% af losun gróðurhúsaloftegunda í heiminum. Hann losar  rúmlega 1,2 milljarða tonna koltvísýringsgilda á ári, meira en allt millilandaflug og sjóflutningar samanlagt. Áhersla stórfyrirtækja á lágt vöruverð, til að selja meira, leiðir til sparnaðar við mengunarvarnir og launakostnað og vinnuaðstaða starfsfólk er afar bágborin. Slíkt bitnar helst á konum og börnum sem eru jafnan í meirihluta starfsfólks við framleiðslu textíls. Margt jákvætt er þó að gerast í heimi textílframleiðslu þar sem hönnuðir og framleiðendur horfa til þess að lágmarka vistsporið og bjóða upp á gæðavörur, lífrænt vottaða framleiðslu eða sanngjarna viðskiptahætti (e. fair trade). Hönnuðir tala um „línulausa nálgun” eða „árstíðalausa nálgun” þar sem áhersla er lögð á vandaðan og sígildan fatnað sem endist lengur (e. Slow fashion). Einnig hafa vefsíður og smáforrit (t.d. Good On You) sem gefa fyrirtækjum einkunnir út frá aðbúnaði starfsfólks og launakjörum, umhverfisvernd og notkun dýraafurða litið dagsins ljós. Þangað er hægt að líta til að athuga hvort flíkin sem við höfum áhuga á er framleidd í anda hægtísku og með sanngjörnum viðskiptaháttum.

Skiptir ábyrgari neysla máli?

Eftirspurnin eftir sölubásum og fjöldi verslana með notuð föt gefur til kynna að neysla okkar sé hvorki sjálfbær né ábyrg þó sannarlega sé jákvætt að fatnaður fari þó þangað öðrum til góða. Básarnir eru oftar en ekki uppbókaðir allan ársins hring, margir fullir af lítið eða ónotuðum fötum. Hvar hefðu fötin endað ef ekki væri fyrir þessa básaleigur eða verslanir með notaðan fatnað? Það er til mikils að vinna og ávinningurinn getur verið umtalsverður líkt og kemur fram í grein Alexöndru Kjeld á vefsíðu Eflu sem ber heitið: Notuð eða ný föt – skiptir þetta máli? Þar er talið að loftlagsávinningur af endursölu hjá Barnaloppunni, sem er báslaleiga fyrir barnaföt,  yfir tveggja ára tímabil hafi komið í veg fyrir losun 5 þúsund tonna af koltvísýringsgildum út í andrúmsloftið, sem samsvarar útblæstri 5000 bíla yfir sama tímabil. Samantektin setur neyslu okkar í samhengi við umhverfisáhrif og minnir á þörfina fyrir ábyrgari neyslu og breyttu hegðunarmynstri. 

Grænþvottur eða breytingar í jákvæða átt?

Nokkrir alþjóðlegir fatarisar sem hafa sett sér stefnumótandi áætlanir um umhverfisvænni framleiðslu segjast draga úr ríkjandi áherslu á örtískubylgjur (e. „fast fashion“), sem kynda undir stöðuga neysluþörf. Samt sem áður er erfitt að sanna sannleiksgildi slíkra loforða og skilja á milli grænþvottar og raunverulegra breytinga. Á samfélagsmiðlum styðja stórfyrirtæki við áhrifavalda sem upphefja magnkaup (e. “shopping haul”) og smærri fyrirtæki koma vörum sínum á kortið með skipulögðum örtískubylgjum. Áherslan er sett á ofneyslu, föt seljast upp á mettíma en litlu máli virðist skipta að fötin verði aðeins notuð einu sinni og dreifast síðan á endursölur eða enda í landfyllingum. Einn þriðji Íslendinga kaupir varning af netsíðum og fjórfalt meira magn af erlendum netsíðum en innlendum. Tæp 50% varnings sem einstaklingar flytja inn er fatnaður eða skór. Íslendingar versla mikið af kínverska fatarisanum Shein þrátt fyrir fréttir um að eiturefni og annað heilsuspillandi hafi greinst í textíl framleiddum af Shein og það í barnafatnaði. Við virðumst einfaldlega ekki getað hætt að kaupa ódýran fatnað unnin á heilsuspillandi hátt, við háskalegar aðstæður, þar sem börn og fullorðnir hírast í litlu rými og lítil ef nokkur virðing borin fyrir þeim sem vinnuafli. 

Hvað getum við gert?
Við getum keypt minna.
Kolefnisfótspor íslenskra heimila er stærra en þekkist í nágrannalöndum og allt of hægt hefur gengið að draga úr óafturkræfum áhrifum á loftslagið. Ein af stærstu áskorunum Íslands er kemur að baráttunni við loftslagsbreytingar er ofneysla. Við getum notað lengur eða komið fatnaði í áframhaldandi notkun. Við þurfum að nýta auðlindir betur og viðhalda verðmætum þeirra eins lengi og hægt er. Öll þurfum við að leggja okkar af mörkum, stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar. Breytt neyslumynstur, meðal annars á fatnaði er mikilvægt í baráttunni gegn ofneyslu. Ábyrg meðhöndlun, lengri notkun, endurnýting, endurvinnsla og endursala skipta máli. Við ákveðum hvar og hvenær við kaupum fatnað og getum horft til ábyrgra framleiðenda. Þá er gott að hafa í huga vistspor og gæði vörunnar, notagildi og muna að við getum keypt notað eða þriftað, að í hvert skipti sem við kaupum notaða vöru í stað nýrrar drögum við úr framleiðsluþörf. Tökum ábyrgð á eigin neyslu og verum með í að breyta viðhorfum hvað varðar endurnotkun, leigu, kaup og sölu. Með því stuðlum við að samdrætti í losun textíls, umhverfinu okkar og jörðinni til góða.

Höfundur er umhverfissinni og áhugamanneskja um endurnýtingu 

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir er leik- og grunnskólakennari, stjórnarkona í Vinstrihreyfingunni grænu framboði og oddviti hreyfingarinnar í Suðurkjördæmi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search