PO
EN

Af verkefnum ársins 2019

Deildu 

Í til­efni ára­móta lang­ar mig að fara yfir árið og nefna nokk­ur af þeim verk­efn­um sem ég og ráðuneyti mitt unn­um að á ár­inu 2019. Verk­in eru ólík og spanna vítt svið en eiga það sam­eig­in­legt að stuðla öll að betra heil­brigðis­kerfi fyr­ir fólkið í land­inu.

Sjúkra­hót­el við Hring­braut var af­hent form­lega með viðhöfn 31. janú­ar 2019. Í fe­brú­ar var hjúkr­un­ar­heim­ilið Seltjörn á Seltjarn­ar­nesi með 40 hjúkr­un­ar­rým­um af­hent til rekstr­ar með pompi og prakt og 1. mars 2019 tóku gildi ný lög um rafrett­ur.

Í apríl var tíma­móta­sam­starf nor­rænna þjóða á sviði lyfja­mála staðfest með und­ir­rit­un sam­komu­lags þess efn­is í Ráðherra­bú­staðnum og í maí voru lög um þung­un­ar­rof samþykkt á Alþingi. Samþykkt lag­anna mark­ar tíma­mót í sögu kven­rétt­inda hér á landi, en mark­mið þeirra er að tryggja að sjálfs­for­ræði kvenna sem óska eft­ir þung­un­ar­rofi sé virt. Í maí voru einnig opnuð 30 ný dagdval­ar­rými á Hrafn­istu fyr­ir fólk með heila­bil­un.

Í júní var heil­brigðis­stefna til árs­ins 2030 samþykkt á Alþingi og í kjöl­farið voru haldn­ir kynn­ing­ar­fund­ir um stefn­una í öll­um heil­brigðisum­dæm­um lands­ins. Áætl­un heil­brigðis­stefnu til fimm ára var einnig lögð fram á Alþingi í júní. Sam­komu­lag var und­ir­ritað milli Sjúkra­trygg­inga Íslands og Rauða kross Íslands um fram­leng­ingu á samn­ingi um kaup og rekst­ur sjúkra­bif­reiða og staðfest af mér í júlí 2019, en auk þess var opnað nýtt 60 rýma hjúkr­un­ar­heim­ili Sólvangs í Hafnar­f­irði.

Þegar leið á haustið var þjón­usta geðheilsu­teyma efld með þátt­töku borg­ar­inn­ar, en sam­starfs­yf­ir­lýs­ing þessa efn­is var und­ir­rituð milli Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins og Reykja­vík­ur­borg­ar í októ­ber 2019. Fjöl­menn­ur vinnufund­ur um siðferðileg gildi og for­gangs­röðun í heil­brigðisþjón­ustu var skipu­lagður af ráðuneyti mínu og hald­inn á Naut­hóli um miðjan októ­ber, en fund­ur­inn var liður í und­ir­bún­ingi Heil­brigðisþings sem var haldið 15. nóv­em­ber. Í nóv­em­ber var end­ur­nýj­un sjúkra­bíla­flot­ans haf­in með kaup­um á 25 nýj­um bíl­um í kjöl­far útboðs, auk þess sem fyrsta skóflu­stung­an að 60 rýma hjúkr­un­ar­heim­ili í Árborg var tek­in form­lega.

Í des­em­ber voru tvö mik­il­væg skref stig­in, ann­ars veg­ar þegar Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins var falið að sinna geðheil­brigðisþjón­ustu við fanga í öll­um fang­els­um lands­ins og sér­stakt geðheilsu­teymi fanga sett á fót og hins veg­ar þegar ég kynnti áætl­un um að verja 1,1 millj­arði á næstu tveim­ur árum í að lækka greiðsluþátt­töku sjúk­linga, en sem dæmi má nefna að komu­gjöld í heilsu­gæslu verða felld niður, niður­greiðslur fyr­ir tann­lækn­isþjón­ustu, lyf og til­tek­in hjálp­ar­tæki aukn­ar og regl­ur um ferðakostnað rýmkaðar.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search