PO
EN

Afhverju kærir hún ekki?

Deildu 

Þessi spurning er orðin næstum staðlað svar þeirra sem eiga erfitt með, eða vilja hreinlega ekki horfast í augu við tíðni kynferðisbrota, alvarleika þeirra og áhrifa á líf brotaþola. Af hverju kærir hún ekki? Ástæðurnar geta verið fjölmargar. Sum treysta sér ekki til að endurlifa atburðina aftur og aftur í yfirheyrslum og fyrir dómi, önnur telja sig ekki hafa nægilegar sannanir fyrir því að á þeim hafi verið brotið, enn önnur eru í flóknum samböndum við gerendur sína og vilja ekki raska ró fjölskyldna, vinahópa eða samfélagsins. Upphrópanir á borð við „saklaus uns sekt er sönnuð“ gera það að verkum að komið er fram við þolendur eins og þeir ljúgi upp sakargiftum og þá eru fjölmörg dæmi úr íslensku samfélagi um að  fjandsemi í garð brotaþola hefur hrakið þá úr bæjarfélagi sínu eða jafnvel úr landi, meira að segja þegar sekt gerandans þótti sönnuð fyrir rétti.

Þeirra sem kæra bíður síðan oftar en ekki flókið og erfitt ferli þar sem þeirra hagsmunir virðast vera mun léttvægari en hinna ákærðu. Þessu þarf að breyta. 

Grundvallaratriði er að brotaþolar verði gerðir aðilar máls eða veitt flest þau réttindi sem aðilar máls hafa eins og tíðkast víðast hvar á Norðurlöndunum. Eins og staðan er nú eru brotaþolar vitni í eigin málum og hafa afar takmarkað aðgengi að upplýsingum og þátttöku í málsmeðferðinni. Það gefur auga leið að þegar brotaþoli hefur ekki aðgang að gögnum máls síns kemur það bæði niður á gæðum lögreglurannsókna og meðferð mála þegar í dómsmeðferð er komið.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-g1/banner123769.htmlÞað er mikilvægt að stytta málsmeðferðartíma kynferðisbrotamála. Margir mánuðir geta liðið frá því að brot er kært og þangað til niðurstaða er fengin og þar sem brotaþoli er vitni en ekki málsaðili veit hann ekkert hvernig málinu vindur fram fyrr en bréf berst með upplýsingum. Það þarf einnig að auka þekkingu fagaðila innan réttarvörslukerfisins á orsökum og afleiðingum kynferðisbrota í því augnamiði að bæta gæði lögreglurannsókna og þar er líka mikilvægt að aðild brotaþola að máli sé meiri en bara sem vitnis.

Þessi verkefni eru þegar hafin þar sem fullfjármögnuð aðgerðaráætlun hefur verið kynnt um endurbætur á meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu en hún snýr meðal annars að menntun lögreglufólks og ákærenda og meiri virðingu í viðmóti í garð brotaþola. 

Í ljósi þess hve fá kynferðisbrotamál, þá sérstaklega nauðgunarmál, fara fyrir dóm viljum við auka aðgengi þolenda að skaðabótarétti. Þó fæstir brotaþolar geti hugsað sér að meta sársauka sinn til fjár er ljóst að kynferðisbrot geta valdið þeim miklu andlegu, líkamlegu, félagslegu og efnahagslegu tjóni. Til að koma til móts við það tjón væri einn möguleiki að veita brotaþolum gjafsókn til að sækja skaðabótamál, þar sem sönnunarkrafan er ekki jafn há og í refsirétti, og að ríkið ábyrgist dæmdar bætur.

Með því að bæta réttarstöðu brotaþola er ekki þar með sagt að allir brotaþolar muni kæra. En það er mikilvægt að þeim sem þó kæra verði mætt af virðingu og skilningi, jafnvel skilvirkni, inni í kerfinu. 

Kynferðislegt ofbeldi er samfélagsmein sem ber að útrýma. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur haft það á stefnuskrá sinni frá upphafi og mun halda þeirri vinnu áfram þar til markmiðinu er náð.

Brynhildur Björnsdóttir er feministi og í fjórða sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi suður. 

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search