Hertar sóttvarnaráðstafanir um allt land tóku gildi í dag, 31. október. Meginbreytingin felst í 10 manna fjöldatakmörkunum í stað 20 áður. Allt íþróttastarf verður óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Gert er ráð fyrir að reglur um hertar aðgerðir gildi til og með 17. nóvember. Þær verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg.
Áfram gildir 2 metra regla, aukin áhersla er á grímunotkun frá því sem áður hefur verið, sundlaugar verða lokaðar, krár og skemmtistaðir sömuleiðis, veitingastöðum þarf að loka kl. 9 á kvöldin og börn fædd 2015 og síðar verða undanþegin 2 metra reglu, fjöldatakmörkunum og grímuskyldu. Ýmsar frekari takmarkanir leiðir af þessum takmörkunum og þær gera margvíslega starfsemi örðuga og suma starfsemi ómögulega.
Þetta er verulega íþyngjandi skref, en því miður nauðsynlegt skref. Við þurfum að hemja faraldurinn með því að grípa fast í taumana og með því að grípa strax í taumana. Veiran er sannarlega á ferðinni úti í samfélaginu og hættan á ítrekuðum hópsmitum er yfirvofandi vegna þess hvernig dreifing veirunnar er. Ef við bregðumst ekki skjótt við munum við væntanlega sjá ítrekaðri hópsmit.
Landspítalinn sem er okkar flaggskip í heilbrigðisþjónustunni er á neyðarstigi, álagið þar er mikið og vaxandi og það er álag víða í heilbrigðiskerfinu. Það er mikið álag í sóttvarnarhúsum og meiri veikindi meðal þeirra sem eru þar í einangrun en áður hefur verið.
Þetta er besti kosturinn í erfiðri og flókinni stöðu. Það er ekki ráðrúm til þess núna að bíða og sjá til og vona það besta. Það er eðlilegt að við séum orðin bæði þreytt og leið á þessu ástandi, en ég bið okkur öll um að muna eftir markmiðinu. Við viljum ekki draga þetta ástand á langinn, við viljum ekki bíða eftir því að staðan versni áður en við grípum til aðgerða, vegna þess að það gerist ef við grípum ekki til aðgerða strax. Tökum á þessu hratt og náum vopnum okkar aftur, við þurfum áfram að búa með þessari veiru, við vitum ekki hve lengi – það er hún sem ræður ferðinni en við vitum af reynslunni að með markvissum aðgerðum og góðri samstöðu getum við náð taumhaldi á henni og haldið henni í skefjum.
Til þess að okkur gangi öllum vel þurfum við að vera ábyrg, en við þurfum líka að sýna umhyggju. Við þurfum líka að vera góð hvert við annað og við samfélagið okkar. Ef við tökum saman á þessu, af afli, sem við eigum til, af samstöðu, sem við þekkjum best, þá getum við leyft okkur að hlakka til aðventu og jóla. Sannarlega óvenjulegra jóla, en jóla samt.