PO
EN

Áfram til jafnréttis

Deildu 

Í tilefni af alþjóðlegum jafnlaunadegi sem Ísland hafði frumkvæði að því að haldinn yrði árlega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, er ástæða til að meta árangur okkar í jafnlaunamálum.

Ný rannsókn sem Hagstofa Íslands gerði í samstarfi við forsætisráðuneytið leiðir í ljós að dregið hefur hægt og bítandi úr launamun karla og kvenna á síðustu árum, hvort sem litið er til atvinnutekna, óleiðrétts eða leiðrétts launamunar.

Á árunum 2008-2020 minnkaði munur á atvinnutekjum karla og kvenna úr 36,3% í 23,5%, óleiðréttur launamunur minnkaði úr 20,5% í 12,6% og leiðréttur launamunur, sem metur hvort karlar og konur með sömu eiginleika og þætti í sömu störfum fái sambærileg laun, minnkaði úr 6,4% í 4,1%.

Þetta eru góð tíðindi og gefa vísbendingar um að barátta síðustu áratuga og aðgerðir stjórnvalda hafi skilað árangri. Árangurinn er þó ekki nægur, því eftir stendur sá launamunur sem skýrist fyrst og fremst af mismunandi starfsvali og starfsvettvangi kynjanna, það er hinum kynskipta vinnumarkaði.

Verkefnið fram undan er því að skoða þennan kynskipta vinnumarkað og verðmæti ólíkra starfa.

Hefðbundin kvennastörf hafa verið vanmetin í samanburði við hefðbundin karlastörf. Eftir reynslu undanfarinna missera ætti engum að dyljast að störf við umönnun, kennslu og ræstingar, sem allt eru hefðbundin kvennastörf, gera okkur kleift að halda samfélaginu gangandi.

Starfshópur sem ég skipaði í fyrra um endurmat á störfum kvenna skilaði nýlega niðurstöðum sínum í Samráðsgátt stjórnvalda.

Þar eru settar fram tillögur að aðgerðum til að leiðrétta vanmat á kvennastörfum, sem meðal annars byggjast á þróunarverkefni um mat á virði starfa.

Tillögunum verður nú fylgt eftir af aðgerðahópi um launajafnrétti, því við megum aldrei gleyma því að jafnlaunamál snúast ekki eingöngu um krónur og aura heldur jafnrétti og réttlæti. Fjárhagslegt sjálfstæði er lykillinn að frelsi kvenna og grundvallaratriði í baráttunni gegn öðru kynbundnu misrétti.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search