PO
EN

Áhættan, ábyrgðin og frelsið

Deildu 

Sérstætt er, en ekki óviðbúið, að heimsfaraldurinn hefur kallað fram siðfræði- og heimspekiumræður óvenju margra um flestar hliðar mjög mikilvægs hugtaks. Það er raunar svo margþætt, umdeilt og víðfemt að menn hafa glímt við það öldum saman. Auðvitað á ég við frelsið; einn hornstein samfélagsins og lýðræðisins sem við höfum þróað. Við skilgreinum það í samræmi við sjálfmótaðar lífsskoðanir, eigið uppeldi, og reynslu og/eða kenningar og hugmyndafræði sem okkur hugnast. Höfum skilgreint hugtök eins og tjáningarfrelsi, félagafrelsi, atvinnufrelsi og ferðafrelsi. Mátað þau við raunveruleikann, óskir okkar eða væntingar. Samið lög og reglur sem ýmist auka frelsi eða takmarka það enda starfa samfélög þjóða á þann hátt og hafa lengi gert. Þannig tengjast stjórnmál frelsinu.

Náttúran, einkum ótemjanlegir ferlar hennar, fylgir ekki umræðunni um frelsi. Hana varðar, jafn laus og hún er við vitund sem mótunarafl á jörðinni, ekki nokkurn skapaðan hlut um frelsi mannsins. Náttúruvá, sem við verðum að bregðast við, er hluti af bæði lífrænni og ólífrænni náttúru, allt frá óveðri og eldgosi til engisprettu-, veiru- eða bakteríufaraldurs. Oft tekst að verjast vánni, reyndar misvel, en stundum aðeins unnt að beygja sig og bíða átekta.

Covid-19 faraldurinn fellur í fyrri flokkinn og er illviðráðanlegur í bili og hættulegur. Þar með verður til áhætta; hætta á að hann að taki geisa lítt heftur, hætta á að margir tugir eða enn fleiri látist og hætta á að samfélagsstarfsemi stöðvist umfram það sem við þolum. Áhættuna meta greiðast og réttast þeir sem hana þekkja best. Hún er vegin á móti frelsinu, efnahagsstöðunni, velferðinni og heilbrigði hópa sem standa frammi fyrir mismunandi mikilli hættu af veirunni. Til þessa hefur stjórnvöldum í meginatriðum heppnast að taka ákvarðanir eftir ráðleggingar sérfræðinga og komist bil beggja af ábyrgð. Allir vita að frelsi raungerist ekki án ábyrgðar. Ég tel að meirihluti landsmanna samþykki það, umgangist frelsið frammi fyrir veirunni af ábyrgð, taki á sig efnahagslegar byrðar og sýni af sér samstöðu sem er lykilatriði. Gagnrýni er þörf en þar blasir við að þungu orðin um ónógt frelsi vega miklu minna en samstaða landsmanna. Þess vegna næst ágætur árangur, eins þótt við gætum þurft að lifa með veirunni næstu misseri.

Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search