Search
Close this search box.

Áhersla forsætisráðherra á loftslagsmál

Deildu 

Loftslagsmál og áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga voru í brennidepli í umræðum á fundi norrænu forsætisráðherranna í Reykjavík 20. ágúst. Í nýrri framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar er afar skýrt að forsætisráðherrarnir vilja að norrænt samstarf verði áhrifaríkara tæki en það hefur verið í vinnunni að því að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og best samþætta svæði heims á árunum fram til 2030. Loftslagsmálin settu einnig svip sinn á aðrar umræður á fundi forsætisráðherranna.

Forsætisráðherrarnir segja í framtíðarsýninni að taka verði alvarlega þær áskoranir sem jörðin standi frammi fyrir og áhyggjur af loftslagsmálum sem ekki síst koma fram hjá ungu fólki.

„Norrænu löndin eiga möguleika á því að taka alþjóðlega forystu í loftslagsmálum og við erum reiðubúin að gegna því hlutverki,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, sem var fundarstjóri.

Norrænt samstarf byggir á gildum og sameiginleg gildi auðvelda ráðamönnum svæðisins að sameinast um hvað skuli setja á oddinn. 

Forsætisráðherrarnir lögðu áherslu á að allir hlutar samstarfsins verði að aðlaga sig að nýrri og skýrari forgangsröðun til þess að Norðurlöndin nái markmiðum sínum um að svæðið verði grænna, samkeppnishæfara og rekið með félagslega og menningarlega sjálfbærari hætti en verið hefur. Forsendur fyrir að þetta geti orðið eru meðal annars sameiginlegar aðgerðir á sviði nýsköpunar, menntunar og rannsókna.

„Við vitum hve snúið er að forgangsraða,“ segir Katrín Jakobsdóttir, „en við verðum að axla ábyrgð. Við þurfum að sýna fólkinu, ekki síst yngri kynslóðunum, að við meinum það sem við segjum og að við breytum í samræmi við það sem við boðum.“Nánari upplýsingar: Framtíðarsýn forsætisráðherranna fyrir árið 2030

Kolefnishlutlaust svæði

Forsætisráðherrarnir komu sér strax í upphafi ársins saman um að vinna að því að Norðurlöndin verði kolefnishlutlaust svæði og áhersla er lögð á það markmið meðal væntinga þeirra til árangurs norræns samstarfs. Aðgerðirnar sem nauðsynlegar eru til að ná markmiðinu munu hafa áhrif á flestum sviðum samfélagsins. 

Forstjórar úr norrænu atvinnulífi vilja taka ábyrgð

Það er ekki aðeins opinberi geirinn á Norðurlöndum sem leggur áherslu á sjálfbærni og umhverfismál. Forsætisráðherrarnir hittu því í tengslum við fund sinn einnig forstjóra allnokkurra norrænna stórfyrirtækja, Nordic CEOs for a Sustainable Future.

Í sameiginlegri yfirlýsingu eftir þann fund kynna forsætisráðherrarnir og forstjórarnir yfirgripsmikinn lista yfir nauðsynleg og aðkallandi úrræði til þess að Norðurlöndin megi ná markmiðum Parísarsamningsins og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

Í samræmi við nýju framtíðarsýnina er Norræna ráðherranefndin hvött til þess í yfirlýsingunni að vinna tillögur að markvissum aðgerðum til þess að markmiðunum verði náð á norrænum vettvangi.Sameiginleg yfirlýsing norrænu forsætisráðherranna og Nordic CEOs for a Sustain…

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search