Search
Close this search box.

Á­kall eftir einka­rekstri?

Deildu 

Á Íslandi hefur verið góð samstaða um að heilbrigðisþjónusta eigi að vera kostuð af ríkinu og allir eigi að hafa jafnan aðgang að henni. Vinstri græn líta á aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem sjálfsögð mannréttindi og hreyfingin lagt mikla áherslu á að efla opinbera heilbrigðiskerfið, einkum með uppbyggingu Landspítalans og eflingu heilsugæslunnar og aukinnar áherslu á geðheilbrigðismál. Þá hefur kostnaðarþátttaka sjúklinga lækkað á kjörtímabilinu og er nú á pari við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum.

Hjá okkur hefur einnig verið rík hefð fyrir því að viss verkefni innan heilbrigðisþjónustu væru á hendi einkaaðila, en kostuð að mestu af ríkinu. Þar má nefna rekstur hjúkrunarheimila, starfsstofur sérfræðilækna, nokkrar heilsugæslustöðvar og starfsstöðvar heimilislækna, tannlækna og sjúkraþjálfara og fleiri. Þetta hefur verið þannig að í kring um fjórðungur af allri heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur verið rekinn með þessum hætti. Um þetta hefur ríkt ágæt sátt í samfélaginu. Spítalarekstur og bróðurpartur heilsugæslunnar hefur þó verið á hendi ríkisins, enda góð sátt um það, eins og fjöldi kannana hefur sýnt. Almenningur hefur ekki kallað eftir auknu vægi einkarekstrar í íslensku heilbrigðiskerfi.

Eflum heilbrigðiskerfið

Vinstri græn vilja efla heilbrigðiskerfið og hafa sýnt það á undanförnum 4 árum. Við teljum að rekstur heilbrigðisþjónustu eigi ekki að vera í hagnaðarskyni eða vettvangur arðgreiðslna út úr fyrirtækjum. Rekstur óhagnaðardrifinnar heilbrigðisþjónustu á sér langa sögu um allan hinn vestræna heim. Þar er hugsunin að það fjármagn sem samið er um að veita til heilbrigðisþjónustu nýtist til hennar en sé ekki tekið út úr fyrirtækjum sem sækja sér greiðslur til opinberra aðila.

Vinstri græn munu áfram standa vörð um rétt fólks til heilbrigðisþjónustu. Einkarekstur með gegnsæjum samningum og án hagnaðarsjónarmiða hefur reynst vel og verður áfram hluti af okkar heilbrigðisþjónustu. En ákallið eftir auknum einkarekstri á fleiri sviðum í gróðaskyni er ekki það sem við heyrum.

Ólafur Þór Gunnarsson, alþingismaður og öldrunarlæknir, skipar 3. sæti lista VG í Suðvesturkjördæmi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search