Ísland á sér langa sögu um endurheimt vistkerfa, en lengi vel var áskorunin að stöðva eyðingu gróðurs og jarðvegs. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst áratuginn 2021-2030 áratug endurheimtar vistkerfa. Það er ákall um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Markmiðið er að stöðva hnignun vistkerfa og endurheimta þau sem þegar eru röskuð. Þá er átt við vistkerfi bæði á landi og í hafi, eins og náttúruskóga, votlendi, borgarvistkerfi og sjávarvistkerfi. Lítil áhersla hefur hingað til verið á endurheimt sjávarvistkerfa, því vil ég breyta. Heilbrigð vistkerfi, til sjós eða lands eru grundvöllur þess að bæta lífskjör fólks, vinna gegn loftslagsbreytingum og stöðva hrun líffræðilegrar fjölbreytni.
Endurheimt birkiskóga og votlendis hefur aukist
Samkvæmt tillögu að landgræðsluáætlun sem nú er til meðferðar í matvælaráðuneytinu er áhersla á tvö markmið fyrir stöðvun jarðvegseyðingar og endurheimt vistkerfa. Annars vegar að þrefalda endurheimt birkiskóga og hins vegar að þrefalda í heild umfang endurheimtar verkefna fyrir árið 2030 miðað við meðaltal áranna 2015-2017. Endurheimt votlendis er ein af lykilaðgerðum í loftslagsmálum og jafnframt fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Aðgerðum sem Ísland hefur skuldbundið sig til. Endurheimt votlendis hefur aukist undanfarin ár og er áætlað að hún muni aukast enn meira á komandi árum. Fram kemur í stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum frá september 2021 að umfang endurheimtar votlendis tífaldaðist á milli áranna 2018-2020.
Nýtum tækifærin og græðum landið
Ísland mun auka aðgerðir enn frekar á þessu sviði á þessum áratug endurheimtar vistkerfa. Tæplega 1/3 af yfirborði Íslands er með minna en 20% gróðurþekju. Því til viðbótar er talsvert eða mikið rof á ríflega 1/3 landsins. Því er verkefnið afar stórt og til þess að árangur náist þurfa margir að koma að því, almenningur, hið opinbera og fyrirtæki. Á landinu eru því mikil tækifæri til að bæta ástand vistkerfa, auka kolefnisbindingu og stöðva eyðingu jarðvegs og að því er þegar unnið. Stór hluti landgræðslustarfsins fer fram í samstarfsverkefnum Landgræðslunnar, Bændur græða landið og Landbótasjóði, þar sem einstaklingar, félagasamtök og sveitarfélög eru styrkt til að vinna að landgræðslu. Alls eru um 600 þátttakendur í Bændur græða landið. Á árinu 2021 var úthlutað úr Landbótasjóði rúmlega 90 milljónum til 96 verkefna. Mikil tækifæri felast í kolefnisbindingu og stöðvun losunar frá landi með aukinni útbreiðslu birkis og víðikjarrs og er markmið Íslands innan Bonn-áskorunar að þrefalda þekju birkiskóga landsins, úr 1,5% í 5%. Tækifærin má nýta í auknu samstarfi við bændur og sveitarfélög um stefnumörkun varðandi endurheimt landgæða, okkur öllum til heilla.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.