Search
Close this search box.

Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks og efling geðheilbrigðisþjónustu

Deildu 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að verja um 1,0 milljarði króna í sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem starfar undir miklu álagi vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Enn fremur verða framlög til geðheilbrigðisþjónustu aukin um 540 milljónir króna til að efla geðheilbrigðisþjónustu um allt land. Þessar aðgerðir eru liður margþættum aðgerðum stjórnvalda vegna áhrifa Covid-19 hér á landi sem kynntar voru í dag.

Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks verða í formi eingreiðslna til starfsfólks í framlínunni á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og í heilsugæslunni en útfærslan verður á hendi forstöðumanna hverrar stofnunar. Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki á mörgum sviðum heilbrigðisþjónustunnar, þar sem starfsaðstæður hafa verið óvenjulegar og krefjandi og hætta á smiti af Covid-19 daglegur veruleiki margra. Heildarfjárhæðin er 1,0 milljarður króna.

Geðheilbrigðisþjónustan verður efld með fjölgun sérfræðinga í geðheilsuteymunum og innan heilsugæslunnar og með aukinni áherslu á markvissa fræðslu og upplýsingagjöf sem Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu mun leiða. Rík áhersla verður á að tryggja sem best jafnt aðgengi landsmanna að þjónustunni. Aukin framlög vegna þessa eru tímabundin til eins árs.

Stöðugildum sérfræðinga í heilsugæslu fjölgað

Með auknum fjármunum verður sálfræðingum og/eða öðrum sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu fjölgað um 16. Stöðugildum fjölgar um 10 hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og um eitt í hverju heilbrigðisumdæmi utan höfuðborgarsvæðisins. Markmiðið er að hvar sem er á landinu geti fólk fengið meðferð og stuðning sálfræðinga innan heilsugæslu vegna algengustu geðraskana, svo sem vegna þunglyndis og kvíða. Heilsugæslan fær einnig sérstakt framlag til að þróa og efla getu sína til að veita fjarheilbrigðisþjónustu á þessu sviði.

Þjónusta geðheilsuteymanna efld

Framlög til geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins verða aukin svo unnt verði að fjölga geðlæknum og/eða öðrum sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Geðheilsuteymin sinna annars stigs geðheilbrigðisþjónustu, þ.e. sérhæfðari þjónustu en unnt er að veita innan heilsugæslunnar. Teymin eru ætluð þeim sem greindir eru með geðsjúkdóm og eru eldri en 18 ára. Eitt af markmiðunum með því að efla geðheilsuteymin er að auka getu þeirra til að sinna jaðarhópum, t.d. fólki með tvígreindan neyslu- og fíknivanda samhliða öðrum geðröskunum og fólki sem er með þroskaröskun og glímir jafnframt við geðröskun.

Aukin áhersla á fræðslu og forvarnir

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hefur m.a. það hlutverk að leiða faglega þróun og stýra samhæfingu heilsugæslu í landinu. Framlög til hennar verða aukin með áherslu á að samræma vinnubrögð og stuðla að því að aðgengi landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu sé sem jafnast, óháð búsetu. Þróunarmiðstöðinni verður falið að útbúa fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um neyslu- og fíknivanda, innleiða skimun á því sviði og þróa meðferðarúrræði innan heilsugæslu og hjá geðheilsuteymunum. Þróunarmiðstöðinni verður einnig falið að útbúa fræðsluefni fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila um geðheilbrigðismál og einnig fræðsluefni á sviði geðræktar í skólum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search