Search
Close this search box.

Alþingi ráði um hermál

Deildu 

Sú hugsun læðist oft að undirrituðum að sú staðreynd að aðild að Atlantshafsbandalaginu fylgi skyldur sé ekki öllum kunn. Að sum haldi að með aðildinni sé Ísland bara að merkja sig hvorum megin það vilji standa í alþjóðapólitík; við ætlum að vera með þessum í liði. Svo er ekki. Aðildinni fylgja skyldur og í tilfelli Íslands hafa þær í gegnum tíðina falist í viðveru herliðs og aðstöðu fyrir það. Um þetta er á kveðið í svokölluðum varnarsamningi og bókunum og viðaukum við hann.

Á Íslandi ríkir þingræði og ríkisstjórnir sækja vald sitt til þingsins. Engu að síður er það staðreynd að frá því að Alþingi greiddi atkvæði um varnarsamninginn árið 1951 hefur þingið aldrei fengið að greiða atkvæði um neitt sem að viðveru og umfangi herliðs hér kemur. Grundvallarbreytingar á eðli varnarsamningsins hafa ekki einu sinni verið bornar undir atkvæði Alþingis.

Eitt af forgangsmálum Vinstri grænna á komandi þingi verður tillaga mín um breytingar á varnarmálalögum. Hún felur í sér að allar bókanir og viðbætur við samninginn verði að bera undir Alþingi til samþykktar, sem og öll uppbygging og framkvæmdir sem tengjast hernum, utan eðlilegs viðhalds. Aukinheldur hyggst ég leggja til þingsályktun um að ráðherra verði falið að vinna að bókun við varnarsamninginn sem kveði á um að alla viðveru herliðs hér á landi skuli bera undir Alþingi, en um viðveru herliðs er kveðið á í sjálfum varnarsamningnum.

Hver sem afstaða fólks er til viðveru starfsfólks herliða og uppbyggingar mannvirkja á vegum hersins, hlýtur það að öllum kappsmál að auka lýðræðislega umræðu um þessi mál. Það hlýtur að vera öllum þingmönnum kappsmál að fá að segja skoðun sína á varnarmálum með atkvæði sínu. Samþykkt þessarar tillögu gefur þeim færi á því og eykur þannig mikilvægi Alþingis þegar að þessum málum kemur. Ég vonast því eftir víðtækum stuðningi við málið.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search