PO
EN
Search
Close this search box.

Alþingi staðfestir skuldbindingar Parísarsamkomulagsins

Deildu 

Fjölmörg frumvörp urðu að lögum í upphafi vikunnar við þinglok á Alþingi. Eitt þeirra var frumvarp mitt um loftslagsmál. Samþykkt þess skiptir höfuðmáli fyrir okkur Íslendinga því þar með hefur Alþingi staðfest alþjóðlegar skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu.

Með lögunum hefur Alþingi einnig lögfest samstarf Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um að ná sameiginlega markmiðum sínum gagnvart Parísarsamkomulaginu. Ég tel þetta samstarf mikilvægt til að tryggja að almenningur og íslenskt atvinnulíf búi við sama regluverk í loftslagsmálum og flest önnur Evrópuríki og geti átt í góðu samstarfi um loftslagsmál.

Nýju lögin móta umgjörð í kringum skuldbindingar Íslands til ársins 2030. Þannig fjalla þau um skuldbindingar okkar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í geirum eins og samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði, meðferð úrgangs o.fl., það sem kallað hefur verið skuldbindingar á beinni ábyrgð Íslands. Einnig kveða lögin á um hvernig tekið verði á losun frá stóriðju og flugi, og vegna losunar og kolefnisbindingar vegna landnotkunar.

Mismunandi er hve mikill samdráttur í losun kemur í hlut hvers ríkis í samkomulaginu. T.d. á Grikkland að draga úr losun um 16%, Danmörk um 39% og Ísland um 29%. Samræmdar forsendur þar sem m.a. var horft til þjóðarframleiðslu og kostnaðarhagkvæmni aðgerða við að draga úr losun liggja til grundvallar þessari skiptingu. Hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku hérlendis bæði til raforkuframleiðslu og húshitunar hafði til dæmis áhrif á hlutdeild Íslands. Það þýðir hins vegar ekki að Ísland geti ekki sett sér enn metnaðarfyllri markmið, sem er einmitt það sem núverandi ríkisstjórn hefur gert sem stefnir að 40% samdrætti árið 2030. Í upphafi síðustu viku kynnti ríkisstjórnin nýja útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Hún sýnir hvernig við munum standa við þessar alþjóðlegu skuldbindingar okkar. Samkvæmt áætluninni mun samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 verða að minnsta kosti 35% sem er talsvert meira en okkar hlutur þarf að vera. Auk þess eru aðgerðir sem enn eru í mótun og ekki var unnt að meta taldar geta skilað 5-11%, eða samtals 40-46% samdrætti. Því vil ég meina að blaðinu hafi verið snúið við í loftslagsmálum á Íslandi.

Þessi niðurstaða Alþingis er stórt skref í loftslagsmálum og ég fagna henni innilega. Núverandi ríkisstjórn setti loftslagsmál í öndvegi strax í stjórnarsáttmála og mun halda ótrauð áfram að tryggja þau umskipti sem nauðsynleg eru í samfélaginu til að sporna gegn áhrifum loftslagsbreytinga.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search