PO
EN

Alþjóðleg velsældar- og sjálfbærniráðstefna í Reykjavík 14.-15. júní

Deildu 

Forsætisráðuneytið í samvinnu við embætti landlæknis, Reykjavíkurborg og fleiri aðila stendur að alþjóðlegri velsældar- og sjálfbærniráðstefnu í Hörpu dagana 14.-15. júní nk.

Undanfarin ár hafa stjórnvöld lagt aukna áherslu á velsæld og sjálfbærni í aðgerðum sínum til auka lífsgæði almennings og komandi kynslóða. Hafa stjórnvöld mótað velsældarvísa og sérstakar velsældaráherslur auk þess að ráðast í umfangsmikla stefnumótun á sviði sjálfbærni með útgáfu grænbókar og heildarstefnu í málaflokknum síðar á þessu ári.

Ísland hefur verið virkur í þátttakandi í samstarfi velsældarríkja (Wellbeing Economy Governments) þar sem markmiðið er að styðjast við aðra mælikvarða en eingöngu landsframleiðslu til að mæla framgang ríkja og lífsgæði íbúanna. Önnur ríki í því samstarfi eru Nýja-Sjáland, Skotland, Finnland og Wales.

Ráðstefnan er liður í því að efla enn frekar vitund opinberra aðila, almenna markaðarins og almennings um mikilvægi þessara mála með það að markmiði að fleiri skref verði tekin í átt að enn öflugra velsældarhagkerfi og velsældarsamfélagi. Ráðstefnan er vettvangur fyrir frekara samstarf um velsældarhagkerfi milli Norðurlandanna og annarra þjóða sem eru leiðandi á þessu sviði.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra verða meðal þátttakenda. Þá mun fjöldi erlendra fyrirlesara koma til landsins og halda erindi. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru:

  • Hans Kluge, framkvæmdastjóri WHO í Evrópu
  • Lord Richard Layard, forstöðumaður Centre for Economic Performance
  • Kate Pickett og Richard Wilkinson, prófessorar og stofnendur Patron of the Equality Trust
  • Chris Brown, yfirmaður Evrópuskrifstofu WHO fyrir fjárfestingar, heilsu og þróun
  • Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri hjá Embætti landlæknis
  • Gary Gillespie, aðalhagfræðingur skosku heimastjórnarinnar
  • Georgina Sturge, rithöfundur og tölfræðingur hjá breska þinginu
  • Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor
  • Carrie Exton hjá OECD Wise Centre
  • Heikki Hiilamo prófessor
  • Rutger Hoekstra, rithöfundur og fræðimaður
  • Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar HÍ
  • Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í sjálfbærnifræðum.

Ráðstefnan fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og skráningu

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search