Search
Close this search box.

Ályktanir landsfundar VG í Hofi á Akureyri 17. – 19. mars 2023.

Deildu 

Ályktanir landsfundar eru hér birtar með fyrirvara um innsláttarvillur. Þær fara inn á landsfundarsíðuna að loknum endanlegum prófarkarlestri.

Þremur ályktunum var vísað annað og birtast því ekki í efnisyfirlitinu enda ekki með í pakkanum:

Ályktun um kolefnisjöfnun og mólendi → vísað til baka í umhverfis- og samgöngunefnd

Ályktun um fiskveiðistjórnunarkerfið → vísað til atvinnuveganefndar

Ályktun um ályktanir → vísað til stjórnar

ÁLYKTANIR FRÁ FASTANEFNDUM.. 3

Allsherjar- og menntamálanefnd. 3

Ályktun um stöðu hinsegin barna og ungmenna. 3

Ályktun um stöðu minjaverndar 3

Ályktun um skólamál 3

Ályktun um fjárhagsstöðu háskóla. 4

Efnahags- og fjármálanefnd. 4

Ályktun um opinber fjármál og samneyslu. 4

Ályktun um gjaldtöku af umferð, stýringu umferðar og grænar lausnir í samgöngumálum.. 5

Ályktun um tekjustofna sveitarfélaga og tekjusamskipti ríkis og sveitarfélaga. 6

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. 6

Ályktun um kjördæmaskipan og vægi atkvæða. 6

Ályktun um stjórnarskrá. 6

Umhverfis- og samgöngunefnd. 7

Ályktun um loftgæði í þéttbýli 7

Ályktun um orkuskipti fiskimjölsverksmiðja. 7

Ályktun um votlendi á áratugi endurheimtar vistkerfa. 7

Utanríkismálanefnd. 8

Ályktun um fjarstýrð og sjálfstýrð vopn. 8

Ályktun um rétt fólks til heilnæms umhverfis. 8

Ályktun um réttindi kvenna á alþjóðavísu. 8

ÁLYKTANIR FRÁ FÉLÖGUM.. 9

Ályktun um verndun sjávarauðlindarinnar og áhrif veiðarfæra. 9

Ályktun um strandveiðar 9

Ályktun um umhverfi Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði að Keldum.. 9

Ályktun um eflingu dýralæknaþjónustu. 9

Ályktun um aðgengi að gagnreyndri samtalsmeðferð. 10

Ályktun um greiningar- og meðferðarþjónustu fyrir börn og unglinga. 10

Ályktun um málefni höfuðborgar Íslands. 10

Ályktun um almenningssamgöngur með strætó. 10

Ályktun um lengingu fæðingarorlofs. 11

Ályktun um ungmennahús. 11

Ályktun um útlendingamál 11

Ályktun um vindorkuver 11

Ályktun um mat á samfélagsáhrifum virkjana í byggð við Þjórsá. 11

Ályktun um svæði sem skal vernda. 12

Ályktun um stríð og frið. 12

Ályktun um Palestínu. 12

Ályktun um svæðisborgina Akureyri 13

ÁLYKTANIR FRÁ FASTANEFNDUM

Allsherjar- og menntamálanefnd

Ályktun um stöðu hinsegin barna og ungmenna

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu hinsegin barna og ungmenna. Staða þeirra er grafalvarleg þar sem þessi hópur sætir aðkasti, ofbeldi og áreiti í samfélaginu. Heilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp er verulega ábótavant þar sem sálfræðiþjónusta er ekki tryggð og transteymi Landspítalans er undirfjármagnað. Mikilvægt er að tryggja það að hinsegin börn og ungmenni upplifi öryggi í samfélaginu, hvort sem er í skóla eða frístundastarfi. Lykilatriði aukinnar fræðslu er að tryggja fjármagn og stuðning til hennar. Tryggja þarf að þessi hópur njóti nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu og búi við öryggi í samfélaginu óháð búsetu og efnahag.

Ofbeldi og aðkast í garð hinsegin barna og ungmenna er samfélagslegt mein sem okkur ber að uppræta og skal aldrei líðast.

Ályktun um stöðu minjaverndar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 vill standa vörð um minjavernd í landinu til framtíðar. Þar gegnir Minjastofnun Íslands sem fag- og stjórnsýslustofnun málaflokksins lykilhlutverki. Hlutverk stofnunarinnar er varðveisla og eftirlit með öllum menningarminjum; fornleifum, húsum og mannvirkjum auk þess sem hún hefur það hlutverk að veita leyfi til rannsókna og hafa eftirlit og leiðbeiningaskyldu í málefnum menningarminja. Stofnunin er lögboðinn umsagnaraðili við mat á umhverfisáhrifum, í skipulagsmálum og öðrum framkvæmdarmálum. Stofnunin hefur einnig það hlutverk að úthluta úr fornminja- og húsafriðunarsjóði að fengnum umsögnum fagnefnda og annast umsýslu þeirra.

Mikilvægt er að styðja og styrkja sjálfstæða stofnun minjaverndar líkt og gert er hjá öðrum viðmiðunarþjóðum okkar. Tryggja þarf fjármagn svo stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Söguþjóðin Ísland á mikil sóknarfæri í að styðja við málaflokkinn og miðla áfram menningararfi sínum með margvíslegum hætti bæði til innlendra og erlendra gesta.

Ályktun um skólamál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 lýsir yfir þungum áhyggjum af starfsaðstæðum í leik- og grunnskólum landsins. Víða hefur skólahúsnæði verið lokað vegna myglu og annarra vandamála og mikið álag er í skólunum vegna undirmönnunar. Hana má meðal annars rekja til fárra útskrifaðra kennara, vinnuumhverfis og takmarkaðs aðgengis að sérfræðiþjónustu. Skortur á sérfræðiþjónustu veldur því að verkefni kennara aukast með tilheyrandi álagi á þá og annað starfsfólk skóla svo ekki sé minnst á nemendurna sjálfa. Erfiðar starfsaðstæður valda langtímaveikindum kennara og annars starfsfólks, starfsmannavelta er ör og þróun í kennsluháttum verður hægari en ella. Þessir þættir hafa jafnframt neikvæð áhrif á vellíðan og gæði námsumhverfis barna.

Dæmi eru um að sveitarfélög séu upp á fyrirtæki og einstaklinga í samfélaginu komin um kennslugögn og endurnýjun búnaðar sem veldur miklum aðstöðumun.

Landsfundurinn tekur undir ályktanir Kennarasambands Íslands frá því í nóvember 2022 um fjölgun kennara og vinnuumhverfi.

Það er óforsvaranlegt að nemendur, kennarar og annað starfsfólk sitji ekki við sama borð þegar kemur að eina skyldunáminu á Íslandi. Ríki og sveitarfélög verða að beita sér fyrir því að jafna aðstöðuna og gera starfsaðstæður betri með því að hlúa enn frekar að fjölbreyttum fagstéttum skólanna, bæði með auknu námsframboði og fjármagni til rekstrar og framkvæmda. Jöfnunarsjóður er mikilvægt tæki til jöfnunar á aðstöðumun og þess að tryggja jafnræði barna um allt land og skapa þeim námsumhverfi við hæfi. Þörf er á að endurskoða úthlutanir Jöfnunarsjóðs svo hann uppfylli hlutverk sitt að þessu leyti. Jöfnunarsjóður mun ekki leysa vandann einn og sér. Frekari aðgerðir stjórnvalda og aukið fjármagn þarf að koma til.

Ályktun um fjárhagsstöðu háskóla

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 telur fjárhagsstöðu háskólanna á Íslandi vera mikið áhyggjuefni. Háskólar á Íslandi njóta mun minni fjárveitinga á hvern nemanda en háskólar á Norðurlöndum þó að lengi hafi það verið yfirlýst stefna stjórnvalda að efla rekstur þeirra. Eins og staðan er nú eru fjárveitingar ónógar, hvort sem er til rannsókna eða kennslu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð fagnar stórauknum stuðningi á síðustu árum við opinbera rannsókna- og nýsköpunarsjóði og við atvinnulífið á því sviði. Mikilvægt er að gleyma ekki háskólunum sem eru undirstaða þekkingarsamfélagsins sem við lifum í. Rekstur háskólanna verður að tryggja og Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir áhyggjum af samdrætti í fjárveitingum til þeirra. Rekstrarvandinn verður ekki leystur með auknum álögum á nemendur. Landsfundurinn ítrekar mikilvægi þess að tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi óháð búsetu, efnahag og öðrum þáttum.

Efnahags- og fjármálanefnd

Ályktun um opinber fjármál og samneyslu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 leggur áherslu á að traust afkoma hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, er óaðskiljanlegur hluti af farsælum rekstri velferðarsamfélagsins og öflugri samneyslu. Fullnægjandi og traustir tekjustofnar eru forsenda fyrir sjálfbærum opinberum fjármálum og því ber að gjalda varhug við öllum hugmyndum um að veikja tekjugrunn hins opinbera. Fundurinn varar við ásókn gróðaafla í eignarhald eða rekstur mikilvægra innviða og einkavæðingu samfélagslegra eigna og leggst alfarið gegn frekari einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu og annarri velferðarþjónustu. Áhrif heimsfaraldurs kórónaveiru, stríðið í Úkraínu og afleiddir erfiðleikar á heimsvísu svo sem mikil verðbólga, marka efnahagsaðstæður um þessar mundir jafnt á Íslandi sem annars staðar. Hér er staðan sú að heildartekjur A-hluta ríkissjóðs verða á þessu ári og voru á hinu síðasta undir 29% af vergri landsframleiðslu (VLF) en meðaltal áranna 2010 – 2019 var 32%. Sé litið til hins opinbera í heild blasir svipuð mynd við. Heildartekjur ríkis og sveitarfélaga voru að meðaltali 44% af VLF á árunum 2010 – 2019 en voru 40,5% á árinu 2021 og er það lægsta hlutfall í yfir 20 ár. Þrátt fyrir að ekki verðið ráðið við áhrif heimsatburða er nauðsynlegt að líta til framtíðar og horfast raunsætt í augu við að til að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála, áframhaldandi uppbyggingu og traustan rekstur íslensks velferðarsamfélags, þarf hlutfall tekna hins opinbera af verðmætasköpun þjóðarbúsins að vera að lágmarki á svipuðum slóðum og það hefur að meðaltali verið sl. 15 – 20 ár. Fundurinn áréttar að ekki skuli selja meira af eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka fyrr en þær opinberu stofnanir sem hafa málið til meðferðar hafa lokið umfjöllun sinni og sölufyrirkomulagið hefur verið tekið til endurskoðunar.

Færa má fyrir því gild efnahagsleg og hagstjórnarleg rök að við núverandi aðstæður mikillar spennu og verðbólgu í hagkerfinu sé rétt að sæta lagi og styrkja afkomu hins opinbera. Vísar fundurinn í almennar áherslur hreyfingarinnar í skattamálum í því sambandi. Einnig hvetur fundurinn stjórnvöld til að leggja lið alþjóðlegri viðleitni til að koma böndum á fyrirtæki á heimsvísu sem koma sér hjá skattgreiðslum, m.a. með flóknu neti aflandsfélaga í skattaskjólum.

Ályktun um gjaldtöku af umferð, stýringu umferðar og grænar lausnir í samgöngumálum

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 áréttar nauðsyn þess að móta heildstæða stefnu til framtíðar um gjaldtöku af umferð sem taki mið af breyttum aðstæðum og óumflýjanlegum, fullum orkuskiptum í samgöngum. Fundurinn telur eðlilegast að notendagjöld, þ.e. eknir kílómetrar að teknu tilliti til gerðar ökutækja og hvar og hvenær þeim er ekið o.s.frv. leysi af hólmi hverfandi tekjustofna í formi bensín- og olíugjalda.

Staðbundin gjaldtaka í þágu byggingar einstakra kostnaðarsamra mannvirkja, sem og svæðisbundin gjaldtaka til þess að stýra umferð og efla almenningssamgöngur, þarf ásamt hinni almennu gjaldtöku að mynda saman heildstætt kerfi. Fundurinn telur eðlilegt að sú umferð sem nýtur góðs af stökum dýrum mannvirkjum sem fjármögnuð eru með staðbundinni viðbótargjaldtöku greiði áfram lágt gjald sem dugi til viðhalds og rekstrar eftir að stofnkostnaður hefur verið greiddur eins og er vel þekkt í nágrannalöndunum.

Fundurinn minnir á mikilvægi þess að umhverfis- og samfélagshagsmunir séu ávallt hafðir að leiðarljósi við stefnumótun og ákvarðanatöku í samgöngumálum ekki síður en hefðbundnir umferðar-, byggða- og atvinnuhagsmunir. Sama gildir um að réttur þeirra sem vilja lifa bíllausum lífsstíl sé tryggður með öflugum almenningssamgöngum og áframhaldandi uppbyggingu í þágu fjölbreyttra, virkra ferðamáta.

Ályktun um tekjustofna sveitarfélaga og tekjusamskipti ríkis og sveitarfélaga

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 minnir á að margvísleg nærþjónusta sveitarfélaganna, svo sem leik- og grunnskóli, þjónusta við fatlað fólk, almenn félagsþjónusta, húsnæðisstuðningur o.s.frv. eru undirstöðuverkefni í velferðarsamfélaginu. Tekjur sveitarfélaganna og afkoma þurfa að endurspegla þennan veruleika. Tekjustofnar sveitarfélaga þurfa að vera breiðir, stöðugir og sem minnst háðir hagsveiflum. Þá eiginleika hefur útsvarið eins og það er útfært í uppgjöri ríkis og sveitarfélaga innan tekjuskattsins. Tilfærsla úr tekjuskatti yfir í útsvar, eins og átti sér stað með nýlegu samkomulagi þar sem 5 milljarðar króna voru færðir yfir til sveitarfélaganna vegna málefna fatlaðra er því rökrétt aðferð til að bæta afkomu sveitarfélaganna. Fundurinn lýsir ánægju sinni með þá niðurstöðu.

Fundurinn leggur áherslu á að hraðað verði skattalegum ráðstöfunum til að tryggja að þeir sem fyrst og fremst eða jafnvel eingöngu telja fram fjármagnstekjur greiði eftir sem áður með eðlilegum hætti til síns nærsamfélags. Nærtækast er að slíkum aðilum sé gert að reikna sér endurgjald þannig að þeir greiði að minnsta kosti eðlilegt útsvar til síns sveitarfélags. Þá þarf að stöðva það að eigendur einkahlutafélaga greiði eingöngu fjármagnstekjuskatt en engan tekjuskatt og taki þannig til sín óhóflegar arðgreiðslur, duldar launatekjur, sem ættu annars að renna til samfélagsins í formi útsvarsgreiðslna. Leiðrétting á þessu hvoru tveggja er brýnt hagsmunamál sveitarfélaganna og augljóst sanngirnismál.

Landsfundur VG áréttar mikilvægi þess að bæta og formbinda betur fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Koma þarf samskiptunum í fast mótaðan farveg árlegra viðræna eða á formlegan, lögbundin samráðsvettvang eins og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Þá leggur fundurinn áherslu á að kostnaðarmati nýrra laga og reglna þurfa að fylgja samsvarandi tekjulegar ráðstafanir og farvegur til að útkljá vafaatriði sem upp kunna að koma þessu tengd. Án slíks missir kostnaðarmatið marks og þjónar takmörkuðum tilgangi sem slíkt.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Ályktun um kjördæmaskipan og vægi atkvæða

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 telur að endurskoða þurfi kjördæmaskipan með það að markmiði að jafna vægi atkvæða og tryggja að hagsmuna ólíkra landsvæða sé gætt. Kosningakerfið megi ekki hygla stórum stjórnmálahreyfingum á kostnað þeirra sem minni eru.

Ályktun um stjórnarskrá

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 ítrekar mikilvægi þess að stjórnarskrá sé endurskoðuð og byggt verði á mikilli vinnu undanfarinna ára og áratuga. Fundurinn áréttar sérstaklega mikilvægi þess að stjórnarskráin fjalli um auðlindir og umhverfisvernd. Í þeim nýju ákvæðum þarf að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum og að nýtingu þeirra sé ekki hægt að framselja varanlega.

Úthlutun nýtingarréttar fari fram með gagnsæjum hætti, jafnræðis sé gætt og sanngjarnt gjald sé tekið fyrir nýtingu í hagnaðarskyni. Öll nýting auðlinda skal vera sjálfbær.

Þá er grundvallaratriði að fjalla um vernd náttúru, óbyggðra víðerna og umhverfis í stjórnarskrá, þar sé byggt á varúðar- og langtímasjónarmiðum, fjallað verði um fjölbreytni náttúrunnar og vöxt og viðgang lífríkis. Almannaréttinn á að tryggja í stjórnarskrá.

Þá er tímabært að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og fjalla þar meðal annars um mannréttindi á tímum loftslagsbreytinga og hraðrar tækniþróunar. Sérstaklega þarf að kveða á um réttinn til heilnæms umhverfis.

Umhverfis- og samgöngunefnd

Ályktun um loftgæði í þéttbýli

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 krefst þess að sveitarstjórnir og stofnanir ríkisins vinni markvisst að því að tryggja loftgæði með virkum aðgerðum. Loftmengun hefur neikvæð áhrif á heilsu almennings og ekki hefur tekist að tryggja loftgæði í þéttbýli eins og reglugerðir kveða á um.

Núgildandi reglugerðir um viðmiðunar- og heilsuverndarmörk eiga að stuðla að góðum loftgæðum fyrir almenning og yfirvöld þurfa að geta brugðist hratt og örugglega við svo tryggja megi bestu loftgæði á hverjum tíma.

Þá hvetur fundurinn stjórnvöld til þess að tryggja að nægar heimildir séu í lögum og reglum svo ávallt séu góð loftgæði í þéttbýli eins og viðmið kveða á um.

Ályktun um orkuskipti fiskimjölsverksmiðja

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 hvetur orkufyrirtæki í almannaeigu til að tryggja afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja landsins og að verð á henni verði ekki óhagstæðara en verð á olíu. Þótt bræðslurnar teljist ekki til stórnotenda er mikilvægt að vinna að því að hætta með öllu olíubrennslu í fiskimjölsframleiðslu hér á landi með tilheyrandi losun koltvísýrings.

Ályktun um votlendi á áratugi endurheimtar vistkerfa

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 áréttar mikilvægi þess að endurheimta vistkerfi. Votlendi er mikilvægt vistkerfi meðal annars vegna líffræðilegrar fjölbreytni og til kolefnisbindingar í jarðvegi. Frá upphafi tuttugustu aldar hefur stórum hluta votlendis á láglendi verið raskað eða það eyðilagt. Núgildandi náttúruverndarlög duga ekki til að varðveita það og endurheimta og enn er sótt að vistgerðinni. Endurheimt upprunalegrar grunnvatnstöðu í mýrum og flóum er áhrifarík og varanleg aðgerð í kolefnisbindingu og minnkun á losun koltvísýrings.

Tryggja þarf land til endurheimtar, bæði þjóðlendur og jarðir í eigu hins opinbera þar sem hefðbundinn búskapur hefur lagst af og endurheimt skal vera undir gæðaeftirliti Landgræðslunnar. Eins þarf að gera sveitarfélögum grein fyrir ábyrgð þeirra í þessum málaflokki og veita hagræna hvata til landeigenda.

Til fyrirmyndar væri ef fólk og fyrirtæki sem velja að kaupa vottaðar kolefniseiningar geti fylgst með því í hvað fjármunir þeirra fara.

Utanríkismálanefnd

Ályktun um fjarstýrð og sjálfstýrð vopn

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 telur brýnt að stöðva þá hættulegu þróun sem orðið hefur í stríðsátökum að beita fjarstýrðum drápstækjum og sjálfstýrðum vígvélum í vaxandi mæli. Stefna ber að alþjóðlegu banni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hjá öðrum viðeigandi stofnunum á framleiðslu og beitingu þeirra.

Ályktun um rétt fólks til heilnæms umhverfis

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 fagnar því að leiðtogafundur Evrópuráðsins verði haldinn Reykjavík í maí nk. Mikilvægt er að á þeim fundi verði réttur fólks til heilnæms umhverfis og ósnortinnar náttúru staðfestur í bindandi samkomulagi og skilgreindur sem mannréttindi á alþjóðlega vísu.

Ályktun um réttindi kvenna á alþjóðavísu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 harmar að staða kvenna á alþjóðavísu hafi versnað bæði vegna heimsfaraldurs og stríðsátaka. Mikilvægt er að halda á loft gildum kvenfrelsis og félagslegs réttlætis í öllu alþjóðasamstarfi og snúa við þeirri þróun að réttindi kvenna séu fótum troðin í krafti hernaðar og trúarofstækis.

ÁLYKTANIR FRÁ FÉLÖGUM

Ályktun um verndun sjávarauðlindarinnar og áhrif veiðarfæra

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 telur mikilvægt að rannsóknir fari fram á umhverfisáhrifum nýtingar þangs og þara og ólíkra veiðarfæra á sjávarauðlindina og hafsbotninn innan fiskveiðilandhelgi Íslands.

Landsfundurinn ályktar að ekki verði leyft að auka enn frekari veiðar togskipa með auknu vélarafli og öflugum botndregnum veiðarfærum innan viðkvæms botnvistkerfis á grunnslóð. Veiðar og notkun veiðarfæra verði byggðar á rannsóknum með áherslu á verndun uppeldisstöðva fiskistofna og lífríkis sjávar í efnahagslögsögu Íslands.

Landsfundurinn ítrekar mikilvægi alþjóðlegra skuldbindingar Íslands frá COP15-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Montréal árið 2022 um friðun allt að 30% hafsvæða heims. Mikilvægt er að tryggja fjármuni í að rannsaka enn frekar lífríki sjávar og byggja alla nýtingu sjávarauðlindarinnar á rannsóknum og sjálfbærni.

Ályktun um strandveiðar

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 leggur áherslu á mikilvægi strandveiða og eflingu þeirra. Landsfundurinn leggur áherslu á að aflaheimildir í 5,3% hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins verði auknar í áföngum í 8-10%. Landsfundurinn vill einnig tryggja þann sveigjanleika innan kerfisins að ráðherra sé heimilt að flytja aflaheimildir til þess að tryggja ávallt 48 daga til strandveiða ár hvert. Mikil óvissa ríkir ár hvert meðal sjómanna um aflaheimildir, sú óvissa kemur í veg fyrir það að smábátasjómenn geti treyst á kerfið og sinnt strandveiðum sem öruggri atvinnugrein. Því telur landsfundurinn að einfalda þurfi kerfið til þess að það sé fyrirsjáanlegt.

Með handfæraveiðum er minna álag á fiskistofna og lífríki sjávar. Veiðarnar eru stundaðar með rafknúnum handfærarúllum og bátarnir eyða litlu eldsneyti í dagróðrum. Mikil tækifæri eru til orkuskipta með raf- eða rafeldsneytisvæðingu innan smábátaflotans sökum stærðar bátanna.

Landsfundurinn áréttar þá stefnu Vinstri grænna að festa þurfi strandveiðar enn betur í sessi og auka svigrúm til félags- og byggðaráðstafana.

Ályktun um umhverfi Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði að Keldum

Landfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 leggur áherslu á að starfsemi Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði verði tryggð að Keldum. Áætlanir eru um að taka land Keldna undir vöxt höfuðborgarinnar. Við þetta tækifæri þarf starfsemi tilraunastöðvarinnar að fá að eflast og þroskast í takt við breyttar áherslur í landbúnaði, fiskeldi og dýrahaldi og að framtíð hennar endurspegli þær áskoranir í sjúkdómum manna og dýra sem við stöndum frammi fyrir bæði innanlands og á alþjóðavísu.

Ályktun um eflingu dýralæknaþjónustu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 telur að leita þurfi leiða til að laða að dýralækna til starfa á Íslandi en menntun dýralækna fer öll fram erlendis og því er áskorun að tryggja nauðsynlega endurnýjun og vöxt í stéttinni. Efla þarf dýravelferð með því að bæta vaktþjónustu dýralækna um allt land og leita leiða við að laða fleiri dýralækna til starfa í dreifðari byggðum, til dæmis með auknu samstarfi um verkefni á vegum hins opinbera.

Ályktun um aðgengi að gagnreyndri samtalsmeðferð

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 leggur áherslu á að auka aðgengi að gagnreyndri samtalsmeðferð og hún verði lögð að jöfnu við aðra heilbrigðisþjónustu.

Ályktun um greiningar- og meðferðarþjónustu fyrir börn og unglinga

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 leggur áherslu á mikilvægi greiningar- og meðferðaþjónustu fyrir börn og unglinga. Biðtími eftir greiningu og þjónustu er allt of langur.

Ályktun um málefni höfuðborgar Íslands

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 áréttar að eins og önnur sveitarfélög í landinu stendur Reykjavík frammi fyrir stórum áskorunum. Kröfur íbúanna um bætta og betri þjónustu aukast sífellt á meðan fjármagn er af skornum skammti. Ráðast þarf í umfangsmiklar framkvæmdir og fjárfestingar á næstu árum m.a. til að stemma stigu við loftslagsbreytingum og á sama tíma þarf Reykjavíkurborg að innleiða aukið félagslegt réttlæti á húsnæðimarkaði og bæta kjör fólks. Komandi verkefni kalla á útsjónarsemi og nýja forgangsröðun og standa þarf vörð gegn áformum um einkavæðingu og sölu innviða í borginni sem og útvistun á samfélagslegum rekstri sem sífellt skýtur upp kollinum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er sem endranær leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum þegar kemur að umhverfismálum. Í borginni þarf að takast á við loftslagsmálin og hraða innleiðingu hringrásarhagkerfisins m.a. með því að flýta fyrir innleiðingu aukinnar flokkunar, byggja upp öflugar almenningssamgöngur og miða allt skipulag að því að innlima náttúru og fegurð og vernda lífbreytileika. Samhliða stórtækum breytingum sem fram undan eru með tilkomu Borgarlínu og uppbyggingu húsnæðis meðfram henni þá þarf að gæta þess að ekki sé gengið á náttúrugæðin í Reykjavík.

Eins setja Vinstri græn í Reykjavík mennta- og velferðarmálin í öndvegi. Það þarf að halda áfram að bæta stofnanir og húsnæði borgarinnar í þágu menntunar og velferðarþjónustu og það á að vera grunnskilyrði að gera menntun endurgjaldslausa. Efnahagur má heldur ekki standa í vegi fyrir því að börn njóti tómstunda, s.s. með íþróttaiðkun og þátttöku í listum og ein leið til þess gæti verið efling skólahljómsveita borgarinnar.

Reykjavíkurborg á að bera með sóma titilinn höfuðborg Íslands og því á borgarstjórn að leggja allt sitt kapp á að búa til borg á heimsmælikvarða í mennsku og náttúruvernd.

Ályktun um almenningssamgöngur með strætó

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 hvetur Alþingi að festa í sessi með lögum almenningssamgöngur með strætó sem grunnþjónustu og hluti af grunnneti samgangna á Íslandi. Skal það gert innan höfuðborgarsvæðisins sem og innan annarra þéttbýliskjarna; milli þéttbýliskjarna og til og frá Keflavíkurflugvelli og annarra lykilsamgöngumiðstöðva landsins. Það felur jafnframt í sér að festa í sessi viðmið fyrir hágæða almenningssamgöngur, þ.e. tíðni ferða og aðbúnað innviða, biðstöðva sem aðgengilegar eru öllum og festa lykilstofnleiðir í sessi sem hluti af grunneti samgangna á Íslandi.

Ályktun um lengingu fæðingarorlofs

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 hvetur til þess að fæðingarorlofið verði lengt í átján mánuði í áföngum. Áfram verði tryggt að fæðingarorlof skiptist jafnt milli beggja foreldra til að tryggja að það stuðli að jafnrétti kynjanna. Landsfundur felur stjórn hreyfingarinnar að halda málþing með sérstakri áherslu á fæðingarorlofsmál.

Ályktun um ungmennahús

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 skorar á Alþingi að treysta í sessi starfsemi ungmennahúsa fyrir fólk á aldrinum 16 til 25 ára. Gera þarf starfsemina að lögbundnu hlutverki sveitarfélaga, tryggja jafnframt fjármagn til reksturs þessa mikilvæga verkefnis og faglega umgjörð á forsendum óformlegrar fræðslu.

Ályktun um útlendingamál

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 leggur áherslu á mikilvægi þess að öll stjórnsýsla sé vönduð er varðar málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Allar lagabreytingar í málaflokknum þarf að vanda vel og vinna í tengslum við móttöku og inngildingu innflytjenda í samfélagið.

Landsfundurinn fagnar vandaðri vinnu við gerð fyrstu heildarstefnumótunar í málefnum innflytjenda sem félags- og vinnumarkaðsráðherra setti af stað í ársbyrjun og undirstrikar að sú stefnumótun skuli vera lögð til grundvallar öllum lagabreytingum í málaflokknum.

Öll samfélagsumræða um jaðarsetta og viðkvæma hópa, ekki síst fólk á flótta, verður að byggja á staðreyndum og virðingu.

Ályktun um vindorkuver

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 hafnar gylliboðum erlendra orkurisa og innlendra milliliða þeirra um byggingu vindorkuvera hringinn í kringum landið. Mikilvægt er að stjórnvöld komi í veg fyrir að auðlindagjald af vindorkuverum verði greitt sérstaklega til landeigenda og sveitarfélaga þar sem hætta er á að þau láti glepjast á kostnað íslenskrar náttúru. Slíkar hugmyndir stórauka hættuna á að vindorkuver verði sett upp þar sem þau eiga alls ekki heima. Ef reisa á vindorkuver í landinu skulu þau lúta lögum um rammaáætlun og auðlindagjöld af þeim renna í sameiginlega sjóði landsmanna. Raforkukerfið á Íslandi á að vera í opinberri eigu og setja þarf stefnu um að innlend orkuskipti hafi forgang umfram t.d. útflutning á rafeldsneyti.

Ályktun um mat á samfélagsáhrifum virkjana í byggð við Þjórsá

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 fer fram á að gert verði ítarlegt mat á samfélagsáhrifum Hvammsvirkjunar. Landsfundurinn skorar á ráðherra og þingflokk Vinstri grænna að beita sér fyrir því að ráðist verði í þetta faglega mat, eins og kveðið er á um í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Ekki verði lengra haldið með áform um framkvæmdir fyrr en þetta mat á samfélagsáhrifum liggur fyrir.

Í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis með þingsályktun um þriðja áfanga rammaáætlunar kemur fram að meta þurfi samfélagsleg áhrif allra þriggja Þjórsárvirkjananna sem áformaðar eru í byggð. Þessum vilja Alþingis þarf að fylgja eftir. Vilji þingsins um mat á samfélagsáhrifum tekur til Hvammsvirkjunar, ekki síður Urriðafossvirkjunar og Holtavirkjunar sem eru í biðflokki, en Hvammsvirkjun var ein tekin út úr eðlilegu ferli og sett í nýtingarflokk árið 2015. Mat á samfélagsáhrifum þarf að taka sérstaklega til hins mikla samfélagslega tjóns sem aðferðir Landsvirkjunar í samningaferlinu leiddu af sér í brothættri byggð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og raunar á miklu stærra svæði, þar sem ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein.

Ályktun um svæði sem skal vernda

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 vill að virkjunarhugmyndinni Kjalölduveitu og fjórum virkjunarhugmyndum í Héraðsvötnum verði komið aftur í verndarflokk rammaáætlunar án tafar.

Landsfundurinn sættir sig ekki við afgreiðslu Alþingis á þingsályktun þriðja áfanga rammaáætlunar að setja í biðflokk svæði sem verkefnisstjórn rammaáætlunar mat í verndarflokk. Fundurinn vill að bæði Þjórsárver (Kjalalda) og Héraðsvötn verði friðlýst gegn orkuvinnslu á grundvelli samþykkts verndarflokks áætlunarinnar. Það er stefna Vinstri grænna að hálendið verði friðlýstur þjóðgarður og að náttúran njóti vafans.

Ályktun um stríð og frið

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 harmar þá þróun sem orðið hefur í kjölfar styrjaldarinnar i Úkraínu. Hernaðarhyggja og stríðsæsingar hafa farið eins og sinueldur um allan heim. Ljóst er að hernaðaröflin nýta nú þessi átök sem réttlætingu fyrir auknum vígbúnaðarumsvifum vítt og breitt, svo sem á vegum Nató á norðurslóðum. Vopnaframleiðendur maka krókinn sem aldrei fyrr og hergagnaiðnaðurinn blómstrar. Sérstakt áhyggjuefni er að þeim þjóðum sem standa vilja utan hernaðarbandalaga og styrjaldarrekstrar og framfylgja hlutleysisstefnu hefur fækkað.

Innrásin í Úkraínu á sér enga réttlætingu og er skýlaust brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og ýmsum alþjóðalögum. Hún er siðlaus og ólögmæt og hana skal fordæma skilyrðislaust.

Vinstri græn ítrekar þá skoðun sína að vinna beri að friði og sáttum milli þjóða með samningum á friðsamlegum grunni og baráttu fyrir afvopnunarsáttmálum. Hvað Ísland varðar er alhliða friðarstefna traustari grunnur undir þjóðaröryggi en vopnavald stórvelda.

Ályktun um Palestínu

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 17. – 19. mars 2023 leggur áherslu á mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að knýja á um afnám hernámsins í Palestínu, að mannréttindi og alþjóðalög verði virt þar sem annars staðar og fylgi eftir samþykktum og skuldbindingum um frjálsa, sjálfstæða og fullvalda Palestínu.

Ályktun um svæðisborgina Akureyri

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri dagana 17. – 19. mars 2023, fagnar framkomnum tillögum starfshóps um svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Þær kveða á um að Akureyri verði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu. Fundurinn hvetur þingmenn hreyfingarinnar til að leggjast á árarnar um að styrkja innviði á borð við samgöngur, heilbrigðisþjónustu, menningarstarfsemi og menntakerfi á Akureyri til þess að fólk á Norður- og Austurlandi og eftir atvikum víðar geti sótt þangað þá þjónustu sem ekki er hægt að halda úti um allt land. Með því móti geta svæði utan höfuðborgarsvæðisins vaxið og dafnað með eðlilegum hætti og dregið úr því ójafnvægi sem orðið hefur í þróun byggðar á Íslandi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search