PO
EN

Ályktanir samþykktar á flokksráðsfundi

Deildu 

Ályktun um alþjóðamál
Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Borgarnesi 31. ágúst 2025
kallar á skýra rödd vinstrisins á víðsjárverðum tímum.
Við lifum á tímum þar sem vaxandi hernaðarhyggja knýr ákvarðanir stórvelda og
ríkjasambanda. Vígbúnaður eykst um allan heim og blikur eru víða á lofti. Á sama tíma
versnar staða fátæks fólks, loftslagskrísan magnast og mannréttindi eru fótum troðin.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar þessari þróun og stendur heilshugar með
alþjóðlegri samstöðu, umhverfi og náttúru, réttlæti og friði.


Palestína – þjóðarmorð og ábyrgð stórvelda
Vinstrihreyfingin – grænt framboð fordæmir þjóðarmorðið í Palestínu, hernámið og
aðgerðaleysi alþjóðasamfélagsins. Þetta er ekki stríð heldur kerfisbundin eyðing
samfélags, þar sem börn, konur og óbreyttir borgarar bera þungar byrðar. Ísrael beitir
vopnum gegn sjúkrahúsum, drepur heilbrigðisstarfsfólk og fréttamenn og notar hungur
sem vopn.

Staðan á Gaza versnar dag frá degi. Rödd Íslands þarf að verða kröftugri en nokkru sinni.
Það er ekki nóg að tala – við verðum að grípa til aðgerða. Ísland á einnig að bjóða fleira
flóttafólki skjól, krefjast þess að alþjóðlög séu virt og að aukið landrán Ísraels á
Vesturbakkanum hætti tafarlaust.

Fundurinn áréttar að ábyrgð Bandaríkjanna er gríðarleg. Í áratugi hafa bandarísk
stjórnvöld stutt dyggilega við árásar- og útþenslustefnu Ísraels með fjárframlögum og
vopnum og ítrekað komið í veg fyrir varanlegan frið með neitunarvaldi innan Öryggisráðs
Sameinuðu þjóðanna. Evrópusambandið hefur einnig brugðist með aðgerðaleysi sínu.
Þetta ber að fordæma afdráttarlaust. Núna hafa Bandaríkin nýtt sér staðsetningu
Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York og útilokað þátttöku fulltrúa Palestínu á
þinginu í næsta mánuði með því að afturkalla vegabréfsáritun þeirra. Ísland á leggja til
að Allsherjarþingið verði flutt frá Bandaríkjunum.

Fundurinn beinir því til Alþingis og íslenskra stjórnvalda að Ísland eigi að beita sér á
vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Evrópu og á Norðurlöndum fyrir tafarlausu vopnahléi,
brottflutningi hernámsliðsins og alþjóðlegri viðurkenningu Palestínu sem fullvalda ríkis.
Ísland eigi að styðja tveggja ríkja lausn sem einu raunhæfu leiðina til friðar og réttlætis,
setja viðskiptabann á Ísrael, ganga til liðs við Haag-hóp þjóða sem vill stöðva
vopnaflutninga til Ísraels og skrá Ísland á lista þeirra þjóða sem kæra Ísrael fyrir
þjóðarmorð. Jafnframt eigi Íslandi að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og hætta
þátttöku í menningar- og íþróttaviðburðum þar sem Ísrael tekur þátt, svo sem í
Eurovision og landsleikjum.

Við minnum á að Ísland var fyrsta ríkið í vestur- og norðurhluta Evrópu til að viðurkenna
sjálfstæði Palestínu. Við eigum að halda áfram að vera í fararbroddi, ekki bara með
orðum, heldur líka með aðgerðum. Afstaða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs
hefur ætíð verið skýr: Frjáls Palestína!

Úkraína
Við fordæmum ólögmætt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og krefjumst friðarumleitana
sem byggja á sjálfsákvörðunarrétti úkraínsku þjóðarinnar og öryggi íbúanna. Við
stöndum með úkraínsku þjóðinni og styðjum hana í að verja fullveldi sitt og frelsi. Stríðið
má ekki verða viðvarandi réttlæting fyrir takmarkalausri vopnaframleiðslu og
hernaðaruppbyggingu í Evrópu. Friðarumleitanir, mannréttindi og sjálfstæði þjóða verða
að ráða för.


Friður gegn hernaðarvæðingu
Við stöndum gegn vaxandi vopnvæðingu Evrópu þar sem sífellt stærri hluti opinberra
fjármuna rennur í stríðsbúnað í stað velferðar, menntunar og loftslagsaðgerða. Ísland á
að vera rödd afvopnunar, öryggis og sjálfstæðrar utanríkisstefnu, í stað þess að lúta
hagsmunum herveldanna og NATÓ.
Loftslagsvá og hnattrænt réttlæti
Alþjóðamál snúast ekki aðeins um stríð og vopn, heldur einnig um jörðina okkar,
vistkerfin og loftslagið. Loftslagsváin er stærsta ógn við mannkynið og þau sem minnsta
ábyrgð bera á henni verða helst fyrir afleiðingunum sem af henni stafa. Vinstri græn vilja
byggja upp alþjóðlega samstöðu um loftslagsréttlæti, skuldaleiðréttingu fátækra ríkja og
nýja alþjóðlega skipan þar sem líf og náttúra ganga fyrir gróða stórfyrirtækja.

Vinstrið, alþjóðahyggja og mannréttindi
Vinstri græn standa ávallt með kúguðum gegn kúgurum, með friði gegn stríði og með
mannréttindum gegn öfgahyggju. Rödd okkar þarf að vera skýr: Ísland á ekki að fylgja
valdablokkum heldur vinna að heimi byggðum á jafnræði, sjálfbærni, friði og virðingu
fyrir alþjóðalögum.

Ályktun um skaðlega stefnu ríkisstjórnarinnar í náttúruverndarmálum
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Borgarnesi 31.
ágúst 2025 gagnrýnir harðlega skaðlega stefnu ríkisstjórnarinnar í
náttúruverndarmálum, skort á metnaði og aðgerðir sem skaðað geta einstaka náttúru
landsins.


Flokksráðsfundurinn mótmælir harðlega aðför ríkisstjórnarinnar að náttúru Íslands og
skorar á hana að falla frá fyrirhuguðum og vanhugsuðum tillögum að breytingum á
rammaáætlun. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt fram til umsagnar
grafalvarlegar breytingar sem ganga þvert gegn faglegum tillögum verkefnisstjórnar og
faghópa rammaáætlunar og geta ekki að nokkru leyti um jafnvægi milli verndar og
nýtingar. Þannig vill ráðherrann færa virkjanahugmyndir úr verndarflokki yfir í biðflokk á
svæðum sem metin hafa verið afar verðmæt náttúrufarslega séð. Þetta á við um
Jökulsárnar í Skagafirði og Þjórsárver (virkjanahugmynd við Kjalölduveitu), og nú síðast
Hamarsárvirkjun á Austurlandi. Með þessu hefur ráðherrann ákveðið að tæma
verndarflokk rammaáætlunar í öllum tillögum sem verkefnisstjórn hefur unnið og eftir er
að leggja fram á Alþingi og yrði fyrsti umhverfisráðherrann sem ekki gerir tillögu um að
nein virkjanahugmynd fari í vernd. Til viðbótar við þetta vill ráðherra færa
virkjanahugmynd í vindorku í Garpsdal í Reykhólasveit úr biðflokki í nýtingarflokk, áður
en ný stefnumótun í vindorku liggur fyrir.

Samkvæmt markmiðum laga um rammaáætlun ber ráðherra að líta til verndargildis
náttúru og menningarsögulegra minja með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það gerir
núverandi ráðherra náttúruverndarmála ekki heldur stefnir faglegu og pólitísku ferli
rammaáætlunar í hættu.

Fundurinn harmar jafnframt það metnaðarleysi ríkisstjórnar að koma ekki á skýru
regluverki er varðar laxeldi í opnum sjókvíum. Fundurinn telur að leggja af þurfi í
áföngum eldi í opnum sjókvíum og herða viðurlög við slysasleppingum.
Jafnframt lýsir fundurinn yfir miklum vonbrigðum þegar kemur að áformum um nýjar
friðlýsingar sem birtast í tillögu að framkvæmdaáætlun um náttúruminjaskrá sem
ráðherra lagði fram á Alþingi síðastliðinn vetur. Þar er gert ráð fyrir að einungis sex ný
svæði verði friðlýst á næstu fimm árum, en Náttúrufræðistofnun Íslands hafði áður gert
tillögu að friðlýsingu 89 svæða sem ekki voru innan núverandi verndarsvæða. Til
samanburðar voru yfir 30 svæði friðlýst í friðlýsingarátaki umhverfis- og
auðlindaráðherra Vinstri grænna á árunum 2017-2021. Í tillögu núverandi ráðherra eru
engin áform um stofnun þjóðgarða eins og Hálendisþjóðgarðs eða Dynjandisþjóðgarðs,
þó undirbúningur þeirra verkefna hafi verið á lokastigi síðan árið 2021. Engin tillaga er
um friðlýsingu óbyggðra víðerna sem óumdeilt er ein mikilvægasta sérstaða íslenskrar
náttúru ekki síst í evrópsku samhengi. Flokksráðsfundurinn hvetur ráðherrann til að
leggja tillögu um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fram að nýju á Alþingi með
alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um friðlýsingu 30% af landi og hafi fyrir árið 2030 til
hliðsjónar. Öðruvísi verður þeim alþjóðlegu skuldbindingum ekki náð.

Sveitarstjórnarkosningar 16. maí 2026
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Borgarnesi 31.
ágúst 2025 áréttar mikilvægi þess að félagsleg sjónarmið eigi sér sterka málsvara í
sveitarstjórnum um allt land. Fundurinn hvetur svæðisfélög hreyfingarinnar því til að
hefja þegar í stað undirbúning sveitarstjórnarkosninga 2026. Sveitarstjórnarstigið sinnir
mörgum af mikilvægustu málaflokkum samfélagsins. Brýnt er að hugsjónir Vinstri
grænna um jöfnuð, náttúruvernd, mannréttindi og lýðræði nái fram að ganga á vettvangi
sveitarstjórna, hvort sem það er undir nafni hreyfingarinnar sjálfrar eða í samstarfi við
einstaklinga og stjórnmálaöfl sem deila þessum gildum.

Samþykkt um alþjóðamál
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs samþykkir að niðurstöður úr
vinnustofum og umræðu um alþjóðamál verði nýttar sem grundvöllur áframhaldandi
samtals innan hreyfingarinnar í aðdraganda landsfundar 2026.
Markmiðið er að halda umræðunni opinni og lifandi um þau stóru viðfangsefni sem
varða frið, mannréttindi og alþjóðlega samstöðu.

Almenn stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Borgarnesi 31. ágúst 2025

Heimurinn stendur á tímamótum. Stríð og hernaðaruppbygging magnast,
loftslagskreppan versnar og ójöfnuður eykst bæði á heimsvísu og innan landa. Á Íslandi
finnum við fyrir þessum áhrifum í gegnum verðbólgu og hátt vaxtastig, húsnæðisvanda
og aukið álag á náttúru og vistkerfi.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur félagslegt réttlæti, jöfnuð, náttúruvernd, frið og
lýðræði að leiðarljósi. Þessi gildi eru forsenda þess að tryggja framtíð fyrir komandi
kynslóðir. Í þeim felst kjarninn í samfélagi sem byggir á trausti, mannúð og ábyrgð.

Efnahagsmál og jöfnuður
Verðbólga og hátt vaxtastig hafa þrengt að heimilum landsins. Útilokað er að vextir
Seðlabankans lækki frekar á þessu ári og það bitnar mest á almennu launafólki.
Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið og getur ekki tryggt lækkun vaxta. Áform hennar
um að draga úr ríkisútgjöldum fela í sér niðurskurð á grunnstoðum velferðarkerfisins,
menntakerfisins og aðgerðum í loftslagsmálum.
Vinstri græn leggja áherslu á að endurskoða skattkerfið til að draga úr ójöfnuði og tryggja
sterkt og sanngjarnt almannatryggingakerfi. Markmiðið er að byggja samfélag þar sem
byrðar og gæði dreifast með réttlátum hætti og grunnþjónusta er aðgengileg öllum.

Náttúruvernd og loftslagsaðgerðir
Álag á náttúruna hefur aukist á vakt núverandi ríkisstjórnar. Aðför umhverfis-, orku- og
loftslagsráðherra að grundvallarstoðum náttúruverndar, á borð við rammaáætlun, hefur
grafið undan náttúruvernd í landinu. Ákvörðun um virkjanaframkvæmdir án fullnægjandi
rannsókna ógnar víðernum og jarðfræðilegri og líffræðilegri fjölbreytni.
Orkuskipti verða að byggjast á réttlæti og ekki má fórna dýrmætum svæðum eins og
Þjórsárverum, Jökulsánum í Skagafirði og Hamarsá á Austurlandi. Ríkisstjórnin hefur
sýnt algert skeytingarleysi með stefnulausri uppbyggingu vindorku, áhættusömu fiskeldi
í opnum sjókvíum, vanvirðingu við rammaáætlun og því að gæla við olíuleit í
efnahagslögsögunni. Vinstri græn leggja áherslu á vernd hálendisins, sjálfbæra orku án nýrra stórvirkjana sem ganga gegn náttúruvernd og að styrkja stofnanir sem vinna að náttúruvernd og lýðræðislegri stefnumótun í málaflokknum.

Heilbrigðisþjónusta á traustum grunni
Heilbrigðisþjónustan á Íslandi þarf að vera aðgengileg öllum, óháð efnahag, búsetu eða
uppruna. Í dag glímir kerfið við mönnunarvanda og undirfjármögnun. Á sama tíma hefur
einkavæðing heilbrigðisþjónustu aukist, sem grefur undan jafnræði og trausti.
Vinstri græn hafna frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Við viljum styrkja opinbera
þjónustu með raunhæfum fjárframlögum og tryggja starfsfólki bætt kjör og aðstæður.
Heilbrigðisþjónusta er mannréttindi – ekki markaðsvara.

Menntakerfi gegn ójöfnuði
Menntakerfið stendur einnig frammi fyrir þrengingum og undirfjármögnun. Það þarf að
tryggja gæði og jöfnuð á öllum skólastigum og koma í veg fyrir frekari markaðsvæðingu
menntakerfisins. Tryggja þarf að menntastofnanir geti tekið vel á móti börnum
innflytjenda til að draga úr ójöfnuði og stéttaskiptingu. Vinstri græn leggja áherslu á að
gætt verði að íslenskri tungu í menntakerfinu og tryggt verði að öll börn fái viðeigandi
stuðning til að geta skilið og tjáð sig á íslensku.
Skólamáltíðir eiga að vera hluti af jöfnuði og næringu, ekki til mismununar.
Vinstri græn hafna einkavæðingu menntakerfisins og vilja styrkja það með raunhæfum
fjárframlögum, faglegri stefnumótun og nýrri sýn á jöfnuð í námi. Fræðsla um jafnrétti,
mannréttindi og samfélagslega ábyrgð á að vera óaðskiljanlegur hluti náms á öllum
skólastigum.

Heilbrigður húsnæðismarkaður
Húsnæðisvandi er eitt stærsta réttlætismál samtímans. Braskvæðing á
húsnæðismarkaði og síhækkandi húsnæðisverð hafa skapað óöryggi fyrir fjölda fólks.
Vinstri græn vilja byggja upp viðráðanlegt leiguhúsnæði á félagslegum grunni,
endurreisa félagslega eignaíbúðakerfið og tryggja réttindi leigjenda. Við leggjum til
leiguþak á leigumarkaði og skattlagningu á fleiri en tvær fasteignir til að stemma stigu
við gróðradrifinni uppbyggingu. Húsnæði á að vera heimili – ekki fjárfestingartæki.

Réttlæti og jafnrétti
Framfarir í jafnrétti, réttindum barna, innflytjenda, hinsegin fólks og annarra jaðarsettra
hópa verða að vera óafturkræfar. Samstaða gegn mismunun og hatursorðræðu er
forsenda réttláts og heilbrigðs samfélags.
Á Íslandi eru 50 ár liðin frá því að konur lögðu niður störf og kröfðust jafnréttis. Þrátt fyrir
það búa konur og kvár enn við launamun kynjanna, óöryggi og kerfisbundið vanmat.
Kvennabaráttan er því ekki afstaðin heldur brýnni en nokkru sinni fyrr. Vinstri græn styðja
skýrt við kröfur og markmið Kvennaársins 2025 og krefjast aðgerða gegn launamisrétti,
hatursorðræðu og ofbeldi, auk þess að tryggja börnum leikskólavist strax að loknu
fæðingarorlofi.

Friður og alþjóðleg samstaða
Ísland á að standa gegn hernaðaruppbyggingu og vopnakapphlaupi. Við krefjumst
skýrrar afstöðu gegn þjóðarmorði og mannréttindabrotum, þar á meðal á Gaza, og
viljum að Ísland leggi sitt af mörkum í alþjóðasamstarfi sem vinnur að friði og réttlæti.

Pólitískt verkefni Vinstri grænna
Vinstrihreyfingin – grænt framboð stendur frammi fyrir mikilvægu verkefni: Að dýpka og
endurnýja tengsl sín við almenning. Á næstu misserum ætlum við að efla rætur
hreyfingarinnar í grasrótinni, hlúa að nýjum röddum innan hreyfingarinnar, tryggja
kynslóðaskipti og skapa rými fyrir nýja sýn og róttæka pólitík. Við undirbúum
sveitarstjórnarkosningarnar 2026 með trúverðugum stefnumálum sem tengja félagslegt
réttlæti, náttúruvernd, frið og jafnrétti og tökum forystu í að leiða vinstrið og hugsjónir
náttúruverndar saman í samfélagsumræðunni.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð er ómissandi afl í mótun framtíðar Íslands. Við köllum
eftir samstöðu allra sem vilja byggja réttlátt, friðsamt og sjálfbært samfélag þar sem
virðing fyrir náttúru og manngildi er í forgrunni.
Framtíðin mótast af þeim sem mæta til leiks – við hvetjum félaga, stuðningsfólk og alla
landsmenn til að leggja sitt af mörkum

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search