EN
PO
Search
Close this search box.

Ályktanir samþykktar á flokksráðsfundi á Flúðum 26.-27. ágúst 2023

Deildu 

Ályktanir samþykktar á flokksráðsfundi á Flúðum 26.-27. ágúst 2023

Ályktun um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd. 1

Ályktun um áfengi og forvarnir 1

Ályktun um forgangsröðun raforku til heimila. 2

Ályktun um strandveiðar 2

Ályktun um stofnun þjóðgarðs á hálendinu. 2

Ályktun um veiðigjöld. 2

Ályktun um hvalveiðar 3

Ályktun um blóðmerahald. 3

Ályktun um dýravelferð. 3

Ályktun um varðstöðu um menningarverðmæti 3

Ályktun um auðlindir í þjóðareign. 3

Ályktun um nýtt fyrirkomulag á eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum.. 4

Ályktun um aðgerðir gegn loftslagsvá og hamfarahlýnun. 4

Ályktun um jafnt aðgengi að menntun og frístundum.. 4

Ályktun um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins. 5

Ályktun um aðgerðir gegn hatursorðræðu. 5

Ályktun um innlent greiðslumiðlunarkerfi 5

Ályktun um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, mótmælir vinnubrögðum við framkvæmd nýrra útlendingalaga hvað varðar þjónustumissi þeirra, sem hlotið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, að 30 dögum liðnum. Framkvæmdin má ekki verða til þess að fólk sé skilið eftir á götunni. Slíkt er grafalvarlegt og í hróplegu ósamræmi við það samfélag sem við viljum búa í. Um leið er ítrekað mikilvægi þess að samkvæmt lögunum má ekki fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna ásamt alvarlega veikum einstaklingum og fötluðum með langvarandi stuðningsþarfir. Grundvallarmannréttindi þeirra sem missa þjónustu verður að tryggja. Lokaðar flóttamannabúðir þar sem fólk er geymt þar til hægt er að senda það úr landi er ekki lausnin á þessari stöðu.

Flokksráðsfundurinn hvetur til þess að ávallt þegar lög er varða málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd eru endurskoðuð verði mannúð höfð að leiðarljósi og grundvallarmannréttindi virt.

Ályktun um áfengi og forvarnir

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, felur þingflokki hreyfingarinnar að vinna að styrkari löggjöf um sölu, auglýsingu og dreifingu á áfengi. Til grundvallar vinnunni verði stuðst við bestu fáanlegu vitneskju fag- og vísindafólks um afleiðingar aukins aðgengis að áfengi og þar með neyslu. Leiðbeiningar Embættis landlæknis og alþjóðlegra heilbrigðisstofnana verði hafðar að leiðarljósi, almennri lýðheilsu til líkama og sálar til sem mests gagns.

Setja þarf viðeigandi hömlur gegn ásókn þeirra aðila sem sækja fast eftir því að græða sem mest á óheftri dreifingu og sölu á þessu útbreiddasta fíkni- og vímuefni hér á landi.

Ályktun um forgangsröðun raforku til heimila

Flokksráðfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, leggur áherslu á að stjórnvöld setji skýran lagaramma svo raforka sé ávallt tryggð til heimila.

Sáralítill hluti raforkuframleiðslu rennur til heimila á Íslandi. Langmestur hluti hennar fer til stórnotenda, einkum þungaiðnaðar: álvera, kísilvera og járnblendis, en einnig í gagnaver og fiskeldi.

Flokksráðfundurinn leggur áherslu á, með vísan í stefnu flokksins um orkumál, að öllum landsmönnum verði tryggt gott aðgengi að raforku, stuðlað verði að betri nýtingu orkunnar og orkutap minnkað. Orkusóun, líkt og í rafmyntargröft eða annað sem ekki nýtist til græns sjálfbærs samfélags, þarf að stöðva og stjórnvöld verða að meta orkuþörf landsins til framtíðar áður ráðist er í frekari virkjanaframkvæmdir með tilheyrandi og meiriháttar óafturkræfum skemmdum á einstakri náttúru landsins.

Þá leggur flokksráðsfundurinn til að við lok samningstíma orkusölusamninga til stórnotenda sem hér hafa verið nefndir verði kannaðir kostir þess að samningarnir verði ekki endurnýjaðir og að sú orka sem þá losnar verði fremur nýtt til heimila og orkuskipta.

Ályktun um strandveiðar

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, fagnar vinnu við Auðlindina okkar en áréttar stefnu hreyfingarinnar, Auðlindir hafs og stranda, þegar ákvarðanir eru teknar um sjávarútvegsmál. Strandveiðikerfið verður að endurskoða og búa svo um hnútana að strandveiðisjómenn geti sótt á sín heimamið þegar veiðin er best og verðmæti fisksins er mest. Kerfið á ekki að stuðla að því að sjómenn telji sig þurfa að róa alla fyrstu daga í hverjum mánuði, oft í misjöfnum veðrum með tilheyrandi slysahættu, áður en veiðar verði stöðvaðar. Í þessu fara hagsmunir strandveiðiflotans, kaupenda á fiskmörkuðum og þjóðarbúsins saman.

Ályktun um stofnun þjóðgarðs á hálendinu

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, ítrekar ályktun frá flokksráðsfundi í febrúar sl. um að vinnu við stofnun þjóðgarðs á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu verði flýtt eins og hægt er.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ,,Stofnaður verður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð…“. Ríkisstjórnin sem nú situr er hálfnuð með kjörtímabilið og því mikilvægt að stofnun þjóðgarðsins komist á dagskrá næsta þingvetrar.

Ályktun um veiðigjöld

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, fagnar boðaðri hækkun veiðigjalda á sjávarútvegsfyrirtæki eins og fram kemur í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028. Fundurinn ítrekar mikilvægi þess að tekið verði tillit til smærri og útgerða við útfærsluna. Undanfarin ár hafa reynst mjög gjöful fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og afkoma batnað verulega samkvæmt árlegum tölum Hagstofunnar. Ljóst er að staða sjávarútvegsfyrirtækja er mun betri nú en þegar núverandi hlutfall veiðigjalds var ákveðið og því tímabært að hækka það til samræmis. Sjávarútvegur gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi en það er sanngirnismál að arðinum sem sprettur af nýtingu sameiginlegrar auðlindar í eigu þjóðarinnar sé skipt á réttlátari hátt en nú er.

Ályktun um hvalveiðar

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, fagnar þeirri vinnu sem matvælaráðherra hefur unnið í tengslum við hvalveiðar sem byggir á faglegu mati og sjónarmiðum dýravelferðar. Flokksráðsfundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til fram til þessa. Fundurinn áréttar samþykkta stefnu VG um hvalveiðar og að dýravelferðarsjónarmið verði áfram ráðandi í þeirri vinnu sem framundan er.

Ályktun um blóðmerahald

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, telur brýnt að núverandi fyrirkomulag blóðmerahalds verði tekið til endurskoðunar í ljósi álitamála sem snúa að dýravelferð og lagaumhverfi, þar með talið ákvæðum reglugerðar nr. 460/2017 um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni.

Ályktun um dýravelferð

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, fagnar áherslubreytingum og aukinni umræðu í samfélaginu um velferð dýra. Fundurinn hvetur matvælaráðherra til að taka á þeim vanda sem snýr að dýravelferðareftirliti Matvælastofnunar (MAST) og efla það þannig að farið verði eftir öllum reglugerðum um velferð búfjár. Fundurinn telur að atvinnustarfsemi sem ekki getur staðist kröfur um velferð dýra eigi sér ekki framtíð á Íslandi. Því telur fundurinn brýnt að innleidd verði ný tækni og þekking í dýrahaldi til að auka velferð dýra enn frekar.

Flokksráðsfundurinn leggur áherslu á að kannaðir verði kostir þess að innleiða velferðarmerkingar á dýraafurðum eins og stefnt er að í Þýskalandi.

Ályktun um varðstöðu um menningarverðmæti

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, brýnir fyrir sveitarstjórnum og öðrum opinberum aðilum að standa vörð um menningarstofnanir, hvort sem um söfn, fastar sýningar, merkar byggingar eða annað sem heyrir undir fræðslu- og menningartengda starfsemi er að ræða. Menningarstarfsemi er byggð upp á löngum tíma en það er fljótgert að leggja hana niður og eyðileggja það sem hefur tekið áratugi eða lengur að safna og varðveita, ekki bara fyrir daginn í dag heldur til lengri tíma litið. Það eru skammsýnir ráðamenn sem fara með offorsi og eyðileggingu gegn sögunni, hún mun síðar dæma þá.

Ályktun um auðlindir í þjóðareign

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, ítrekar mikilvægi þess að sett verði ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá líkt og formaður hreyfingarinnar lagði til á þingi á síðasta kjörtímabili. Ísland byggir tilvist sína á náttúruauðlindum og það hefur aldrei verið mikilvægara að setja þá grundvallarreglu að þær séu þjóðareign, skýrar reglur gildi um mögulega nýtingu þeirra og tryggt sé að hún sé sjálfbær. Það á við um fiskinn í sjónum, orku, vatn, jarðefni á landi og á hafsbotni, ósnortna náttúru og allar aðrar þær auðlindir sem finna má í náttúru Íslands. Tryggja þarf fullt gagnsæi og jafnræði við veitingu nýtingarleyfa til takmarkaðs tíma í senn og að sanngjarn arður renni til þjóðarinnar. Þá þarf að tryggja almenningi forgang að fersku og ómenguðu vatni um alla framtíð. Nýleg viðskipti með hluta vatnsauðlindarinnar sýna að eftirspurnin eftir margháttuðum auðlindum er gríðarleg, hvaðanæva úr heiminum. Þá er rétt að árétta að löngu tímabært ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd verði samþykkt í stjórnarskrá þar sem almannarétturinn er einnig tryggður en uppbygging lúxusferðaþjónustu á hálendi Íslands vekur spurningar um vernd lítt snortinna víðerna og rétt almennings til að fara um þau. Þá er að lokum mikilvægt að lög verði sett sem tryggja eðlilega rýni á erlenda fjárfestingu, ekki síst þegar um fjárfestingu í auðlindum eða rekstri þeim tengdum er að ræða – það er þjóðaröryggismál.

Ályktun um nýtt fyrirkomulag á eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, áréttar að fullnusta þarf ákvörðun um að leggja niður Bankasýslu ríkisins og taka upp nýtt fyrirkomulag á eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum sem er að hluta eða í heild í eigu ríkisins. Þar þarf að tryggja lýðræðislega aðkomu og ríkan skilning á þeim lögmálum sem eiga að gilda um rekstur félaga í almannaeigu hvað varðar gagnsæi, almannahagsmuni og fyrirmyndar viðskiptahætti.  Ekki er hægt að líta fram hjá ábyrgð Bankasýslu ríkisins á framkvæmdinni á sölu Íslandsbanka og mikilvægt að betra fyrirkomulag verði tekið upp hvað varðar eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Þá hvetur fundurinn til þess að þau skref sem stigin voru á síðasta kjörtímabili til að aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi verði metin og tekið til skoðunar að lögfesta fullan aðskilnað.

Ályktun um aðgerðir gegn loftslagsvá og hamfarahlýnun

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, hvetur stjórnvöld til þess að hraða aðgerðum til að takast á við loftslagsvá og hamfarahlýnun. Brýnt er að ná settum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi árið 2040, en markmið um hið síðarnefnda var lögfest á Alþingi fyrir tveimur árum að tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra VG. Nýliðið sumar sýnir alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga um allan heim sem birtast í auknum öfgum í veðurfari með skelfilegum afleiðingum á borð við flóð og gróðurelda. Orkuskipti eru mikilvæg en fleira þarf til. Forgangsmál er að lágmarka þá orkusóun sem til staðar er og stuðla að orkusparnaði á öllum sviðum samfélagsins. Framfylgja þarf lögum um hringrásarhagkerfið og sveitarfélög þurfa að setja aukinn metnað í meðhöndlun úrgangs til að tryggja að endurnýting og endurvinnsla verði aðgengilegri fyrir íbúa. Matvælaframleiðsla þarf að taka mið af loftslagsmarkmiðum og öll mötuneyti á vegum ríkis og sveitarfélaga þurfa að setja sér loftslagsviðmið. Allar atvinnugreinar þurfa að leggja sitt af mörkum og þar liggur fyrir að undanþágur eiga eingöngu við í sérstökum tilfellum af málefnalegum orsökum. Innan ferðaþjónustu á Íslandi er hægt að ná miklum árangri með breyttum samgöngum og skýrum loftslagsviðmiðum í hótel- og veitingarekstri. Fagna ber aukinni gjaldtöku á skemmtiferðaskip og rétt er að skoða möguleika á að takmarka komu þeirra enda gríðarlegur mengunarvaldur.

Allar ákvarðanir um frekari orkunýtingu þarf að taka á faglegum grunni þar sem hugað er að náttúruvernd. Tryggja þarf í lögum að almenningur hafi forgang að orku og vatni og taka þarf mið af til hvers orkan er ætluð áður en tekin er ákvörðun um nýtingu hennar. Hið opinbera þarf að setja reglur til að koma í veg fyrir grænþvott sem er alþjóðlegt og stigvaxandi vandamál í öllum geirum. Þar þarf eftirlit og heimildir til að taka á slíkum málum.

Ályktun um jafnt aðgengi að menntun og frístundum

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, óskar öllum börnum og ungmennum sem hefja nú nám að hausti velfarnaðar í námi sínu. Aldrei hefur verið mikilvægara að tryggja jafnt aðgengi að menntun og það á líka við um íþrótta- og tómstundastarf. Samfélagið er orðið fjölbreyttara og einmitt þess vegna er ástæða til að ríki og sveitarfélög leggi sérstaka áherslu á jafnt aðgengi en aukin félagsleg þátttaka dregur úr vanlíðan ungs fólks og byggir sterka einstaklinga. Þá þurfa bæði ríki og sveitarfélög að styðja við skólana til að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja fjölbreyttari hópi nemenda með ólíkan bakgrunn.

Ályktun um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, ítrekar mikilvægi þess að ljúka endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem fyrst. Fundurinn fagnar þeim áföngum sem þegar hafa náðst, meðal annars með breytingum á lengd greiðslna á endurhæfingarlífeyri og hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Fundurinn fagnar því líka að fjármögnun kerfisbreytingarinnar var samþykkt í fjármálaáætlun í júní síðastliðnum. Brýnt er að einfalda kerfið þannig að auðveldara sé að átta sig á réttindum í kerfinu, fjölga hvötum til virkni og atvinnuþátttöku og styðja fólk betur til að komast út á vinnumarkað og öðlast aukna færni í vinnu. Jafnframt þarf að stuðla að opnari vinnumarkaði með fleiri hlutastörfum og sveigjanlegum störfum sem betur henta fötluðu fólki og fólki í endurhæfingu.

Ályktun um aðgerðir gegn hatursorðræðu

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, áréttar mikilvægi þess að unnið sé skipulega og markvisst gegn hatursorðræðu í samfélaginu. Greina má bakslag í mannréttindabaráttu hinsegin fólks og vaxandi hatursorðræðu því samfara. Dæmin sanna að bakslag fylgir gjarnan framsækinni löggjöf á sviði mannréttinda og mikilvægt að sporna gegn því með öllum tiltækum ráðum. Hatursorðræða getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga eða hópa sem fyrir henni verða, innrætt staðalímyndir og fordóma, fætt af sér andúð og hatur í samfélaginu, leitt til mismununar og þess að fólk dragi sig út úr opinberri umræðu eins og nýlegar rannsóknir sýna.

Ályktun um innlent greiðslumiðlunarkerfi

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, hvetur til þess að sem fyrst verði tekið upp innlent greiðslumiðlunarkerfi. Greiðslukort eru lykilþáttur í rafrænni greiðslumiðlun hér á landi en nú fara um 90% af innlendri greiðslumiðlun í gegnum erlend kortafyrirtæki, einkum VISA og Mastercard og smáforrit sem tengjast þeim. Í skýrslu frá í desember 2022 benti Þjóðaröryggisráð á nauðsyn þess að innlendar greiðslur fari fram undir innlendri stjórn en séu ekki háðar fjarskiptum til og frá landinu eða mögulegum inngripum af hálfu erlendra aðila. Þá hefur Seðlabankinn lýst því yfir að núverandi fyrirkomulag varði þjóðaröryggi en þrátt fyrir þetta hafa lánastofnanir og Seðlabankinn enn ekki skilað tillögum um breytt fyrirkomulag. Flokksráðsfundurinn telur að það megi ekki dragast og hvetur stjórnvöld til að setja lög um innlenda greiðslumiðlun sem væri til mikilla hagsbóta fyrri neytendur, almenning allan og atvinnulífið.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search