Search
Close this search box.

Ályktanir samþykktar á flokksráðsfundi Vinstri grænna 1.-2. mars 2024

Deildu 

Ályktanir samþykktar á flokksráðsfundi VG 1.-2. mars 2024

Almenn stjórnmálaályktun

Ályktun um heildarsýn í útlendingamálum

Ályktun um málefni Palestínu

Ályktun um heilbrigðismál

Ályktun um húsnæðismál

Ályktun um leikskólamál

Ályktun um samningsrétt

Ályktun um náttúruvá

Ályktun um lífbreytileikaráð

Ályktun um merkingu matvæla

Ályktun um borgaráhrif á hlýnun

Ályktun um sjálfstætt ráðuneyti umhverfismála

Ályktun um svokallaða gullhúðun

Ályktun um orkuöryggi til heimila og smærri fyrirtækja

Ályktun um græn verkefni til orkuskipta

Ályktun um velferð dýra við hvalveiðar

Almenn stjórnmálaályktun

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, ályktar eftirfarandi:

Mikilvægasta viðfangsefni stjórnvalda nú er að tryggja þær aðstæður að hér fari verðbólga niður og forsendur skapist til að lækka stýrivexti. Lykilatriði til að skapa þær aðstæður er að aðilar á vinnumarkaði nái saman um langtímakjarasamninga sem styðja við verðbólgumarkmið. Fundurinn hvetur stjórnvöld til að greiða fyrir slíkum samningum með félagslegum aðgerðum. Sérstök áhersla verði á að styðja við fólk á húsnæðismarkaði, auka framboð á leiguíbúðum og styðja við barnafjölskyldur og tryggja þannig betur lífsgæði fólksins í landinu. Alþingi getur stigið mikilvægt skref sem spara mun heimilunum milljarða króna í ónauðsynleg útgjöld með samþykkt frumvarps um innlenda greiðslumiðlun eins og forsætisráðherra hefur lagt til.

Brýnt er að stjórnvöld ráðist í markvissar aðgerðir gegn stéttskiptingu og fátækt. Fundurinn fagnar þeirri greiningarvinnu sem hefur verið unnin á undanförnum árum, meðal annars til að kortleggja fátækt. Af þeirri vinnu má ráða að ákveðnir hópar eigi undir högg að sækja í samfélaginu, þ. á m. innflytjendur, öryrkjar og einstæðir foreldrar. Sérstaklega er mikilvægt að ráðast gegn fátækt barna. Slíkar aðgerðir eru ekki einungis réttlætismál heldur einnig mikilvægar þjóðhagslega þar sem það er hagur samfélagsins að draga úr langtímafátækt og tryggja öllum jöfn tækifæri.

Fundurinn hvetur til þess að nýtt frumvarp félagsmálaráðherra um endurskoðað örorkulífeyriskerfi verði að lögum. Frumvarpið felur í sér raunverulegar breytingar á kerfinu sem tryggja betur kjör öryrkja, ekki síst þeirra sem einungis hafa tekjur sínar frá almannatryggingakerfinu eða sem hafa litlar aðrar tekjur en frá ríkinu. Breytingarnar munu leiða til betri þjónustu í endurhæfingu og auka þannig líkur á að fólk komist aftur út á vinnumarkað eftir slys, sjúkdóma eða áföll. Þá hvetja breytingarnar til aukinnar samfélagslegrar virkni og búa til aðstæður með fjárhagslegum hvötum til frekari þátttöku fólks með mismikla starfsgetu á vinnumarkaði. Með þessum breytingum verður tekið mikilvægt skref til að útrýma fátækt. Þá hvetur fundurinn til þess að ríki og sveitarfélög taki höndum saman um að tryggja öllum börnum gjaldfrjálsar skólamáltíðir sem væri risavaxið skref til að draga úr fátækt barna.

Fundurinn lýsir yfir áhyggjum af þróuninni í skólamálum á Íslandi. Niðurstöður PISA-könnunar ber að taka alvarlega og ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að takast á við þær áskoranir sem hún dregur fram. Sérstaklega þarf að gaumgæfa stöðu barna með íslensku sem annað mál, efla íslenskukennslu og móðurmálskennslu, inngildingu og aðlögun. Ráðast þarf í umfangsmikla og heildstæða rannsókn á inntaki framhaldsskólanáms í dreifstýrðu kerfi og stöðu framhaldsskólans eftir styttingu og skoða í fullri alvöru að lengja námið á nýjan leik eða endurskoða skipulag náms á öðrum skólastigum. Þá er ljóst að háskólastigið á Íslandi er mun verr fjármagnað en háskólakerfi annars staðar á Norðurlöndum. Þegar rætt er um mikilvægi verðmætasköpunar og framleiðniaukningar þarf að horfast í augu við að öflug háskólamenntun á fjölbreyttum sviðum er undirstaða hennar til lengri tíma. Fundurinn hvetur til þess að þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu verði samþykkt sem fyrst. Þá undirstrikar fundurinn mikilvægi vinnu að fyrstu stefnu til næstu 15 ára í málefnum innflytjenda hérlendis sem unnin er undir forystu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Fundurinn fagnar þeim árangri sem náðst hefur í að draga úr kostnaði sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi. Markviss vinna undanfarinna ára hefur nú skilað sér í því að við stöndum öðrum Norðurlöndum jafnfætis þegar kemur að kostnaði sjúklinga. Fundurinn lýsir hins vegar áhyggjum af aukinni áherslu á einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, kerfi sem á ekki að vera gróðalind fárra rekstraraðila heldur sameiginlegt velferðarkerfi okkar allra. Þá er sérstakt áhyggjuefni að þrátt fyrir aukna áherslu á einkarekstur er stór landsbyggðarinnar afskiptur hvað varðar þjónustu sérgreinalækna. Undirstöður heilbrigðisþjónustunnar eru Landspítali-Háskólasjúkrahús, Sjúkrahúsið á Akureyri, heilbrigðisstofnanir um land allt og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.

Loftlagsváin er og verður stærsta áskorun mannkyns. Mikilvægt er að halda áfram skilvirkum loftslagsaðgerðum, innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskiptum og breytingum á neysluvenjum og ferðamátum. Fundurinn áréttar að jafnvægi þarf að vera milli loftslagsaðgerða og náttúruverndar og að forgangsraða eigi orku til innlendra orkuskipta. Sýnt hefur verið fram á að með bættri orkunýtingu og með því að styrkja flutningskerfi raforku um landið megi á næstu árum koma í veg fyrir orkuskömmtun og koma til móts við aukna orkuþörf sem ella kallaði á nýjar virkjanir. Þá kallar fundurinn eftir því að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendi Íslands og sunnanverðum Vestfjörðum til verndar víðernum og lífbreytileika.

Atvinnulíf í sátt við umhverfið er ein forsenda sjálfbærni. Fundurinn kallar eftir því að frumvarp matvælaráðherra um lagareldi verði að lögum en þar er sniðinn mun skýrari rammi utan um fiskeldi á Íslandi og varúðarsjónarmið fest í lög. Þá leggur fundurinn áherslu á að vinnu við Auðlindina okkar verði lokið og lagafrumvarp lagt fram. Áréttað er að lög um hvalveiðar þarf að endurskoða enda komin til ára sinna og löngu orðið tímabært að Alþingi taki raunverulega afstöðu til hvalveiða. Fundurinn hvetur til stóraukinnar áherslu á loftslagsaðgerðir í landbúnaði ásamt því að efla matvæla- og fæðuöryggi. Loftslagsvandinn verður ekki leystur með stórauknum innflutningi á matvælum heldur með raunhæfum aðgerðum í innlendri framleiðslu.

Fundurinn lýsir áhyggjum af því bakslagi sem sést hefur víða um heim í jafnréttis- og kvenfrelsismálum. Hér á landi hefur okkur miðað áfram á undanförnum árum; með löggjöf um kynrænt sjálfræði, með lengingu fæðingarorlofs sem skiptist jafnt á milli foreldra, framsækinni þungunarrofslöggjöf og margháttuðum réttarbótum á sviði kynbundins ofbeldis og kynferðisofbeldis. Mikilvægt er að stíga fleiri skref til að útrýma kynbundnum launamun og lofar tilraunaverkefni um virðismat starfa góðu í þeim efnum. Fundurinn lýsir yfir áhyggjum af þeirri þróun sem má sjá í leikskólamálum í ýmsum sveitarfélögum þar sem verið er að stytta tíma barna á leikskólum með tilheyrandi áhrifum á möguleika foreldra til að sinna störfum sínum.

Þróun alþjóðamála er uggvænleg en aldrei hafa fleiri verið á flótta frá lokum síðari heimsstyrjaldar og vopnuðum átökum hefur farið fjölgandi. Fundurinn fordæmir skelfilegar árásir ísraelskra stjórnvalda á almenna borgara á Gasa þar sem meira en 30 þúsund manns hafa fallið, krefst tafarlauss vopnahlés og að hafnar verði friðarviðræður um framtíðarlausn á svæðinu. Fundurinn áréttar að Ísland verður að tryggja UNRWA, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, fjárhagsstuðning. Frysting fjármagns eykur aðeins á þjáningar þeirra milljóna flóttamanna í Palestínu sem reiða sig á UNRWA. Þá harmar fundurinn að ólögmæt innrás Rússa í Úkraínu standi enn og ítrekar stuðning sinn við tillögur Úkraínumanna um réttlátan frið. Staða mála í Evrópu og fyrir botni Miðjarðarhafs er ógnvekjandi og má ekki leiða til enn frekari vígvæðingar og stríðsátaka.

Fundurinn hvetur íslensk stjórnvöld til að taka virkan þátt í alþjóðlegri umræðu um þróun gervigreindar og standa þar fremst í flokki til að tryggja mannréttindi og lýðræði gagnvart þróun sem ófyrirsjáanlegt er hvert mun leiða. Tryggja þarf rétt höfunda og listamanna gagnvart gervigreindinni sem nýtir sköpunarverk manna án þess að því séu nein takmörk sett. Þá eru áhrif gervigreindar á pólitíska umræðu í gegnum samfélagsmiðla nú þegar mikil og geta orðið meiri ef ekki eru settar skýrar reglur um notkun hennar í samfélaginu.

Að lokum hvetur fundurinn til þess að Alþingi afgreiði tillögur til breytinga á stjórnarskrá sem hafa verið boðaðar af forsætisráðherra og byggja á vinnu undanfarinna ára. Sérstaklega leggur fundurinn áherslu á að inn í stjórnarskrána komi ný ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd og auðlindir í þjóðareign.

Ályktun um heildarsýn í útlendingamálum

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík, 1.-2. mars 2024 fagnar því að ráðist verði í þverfaglega vinnu ráðuneyta við að skapa heildarsýn í útlendingamálum. Undanfarna mánuði hefur borið á umræðu um það andlega álag sem fylgir margs konar óvissu sem flóttafólk upplifir vegna stöðu sinnar. Mikilvægt er að eyða henni og stuðla að jöfnum tækifærum flóttafólks, innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Öll upplýsingagjöf og þjónusta við þessa hópa á að vera greið, skilvirk og mannúðleg og tryggja þarf að upplýsingar um réttindi þeirra og þann stuðning sem þeim býðst sé á helstu tungumálum. Svo vel takist til í málefnum útlendinga og í þeirri vinnu þarf sérstaklega að huga að börnum, fötluðu fólki og öðrum viðkvæmum hópum, eins og hinsegin fólki og einstæðum mæðrum, sem oft hafa orðið fyrir margþættum áföllum og upplifunum á lífsleiðinni. Fundurinn fagnar boðuðum aðgerðum í málaflokknum sem stuðla að aukinni inngildingu og virkri þátttöku í samfélaginu, ekki síst með áherslu á íslenskukennslu allt frá leikskóla og upp í símenntun. Auk þess er mikilvægt að atvinnuleyfi verði bundin við einstaklinga en ekki atvinnurekendur.

Ályktun um málefni Palestínu

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík, 1.-2. mars 2024, krefst þess að framlög til Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í Palestínu verði greidd enda hefur stofnunin um áratuga skeið gegnt lykilhlutverki í því að koma aðstoð til flóttafólks frá Palestínu m.a. á Gasa og á Vesturbakkanum. Ísland á ekki að taka þátt í óréttmætri hóprefsingu annarra vestrænna ríkja sem bitnar á lífsbjörg milljóna almennra borgara. Ályktun Alþingis frá því seint á síðasta ári er skýr, ríkisstjórnin á að beita sér fyrir mannúðaraðstoð á svæðinu og mikilvægt er að árétta það. Rödd Íslands þarf að heyrast á alþjóðavettvangi þar sem þess er krafist að morðárásum á saklaust fólk verði tafarlaust hætt og ber að fordæma ítrekuð hryðjuverk og stríðsglæpi fyrir botni Miðjarðarhafs líkt og íslensk stjórnvöld hafa gert. Tekið verði undir með þeim þjóðríkjum sem vilja að aðskilnaðarstefna, stríðsglæpir og þjóðarmorð verði tekin fyrir hjá viðeigandi dómstólum alþjóðasamfélagsins.

Flokksráðfundurinn hvetur ráðherra hreyfingarinnar til að beita sér enn frekar fyrir aðgerðum til að sameining palestínskra fjölskyldna verði að veruleika. Það er mikilvægt að forysta og ráðherrar Vinstri grænna tjái afstöðu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með skýrum hætti og stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að ná fólki án tafar af hættusvæðinu á Gasa og komi því í öruggt skjól á Íslandi. Flokksráðfundurinn krefst þess einnig að þegar í stað verði látið af brottvísunum á palestínsku flóttafólki og því veitt vernd á Íslandi. Sjötíu og fimm ára útþenslustríði Ísraels gagnvart nágrönnum sínum ber að fordæma og bregðast við rétt eins og ofríki rússneskra yfirvalda gagnvart sínum nágrönnum. Þá styður flokksráð eindregið sniðgöngu almennings á vörum og þjónustu frá Ísrael.

Flokksráðsfundurinn hvetur forystu, þingflokk og ráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að halda áfram að tjá afstöðu hreyfingarinnar opinberlega með skýrum hætti.

Ályktun um heilbrigðismál

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, telur þá auknu áherslu sem verið hefur á einkarekna heilbrigðisþjónustu á sl. tveimur árum mjög alvarlega. Fundurinn telur að þessu fylgi umtalsverð hætta á tilfærslu mannauðs og fjármuna úr opinberri heilbrigðisþjónustu, sem koma muni niður á aðgengi og þjónustu heilsugæslu og sjúkrahúsa. Með samningsgerð heilbrigðisráðherra við sérgreinalækna hefur verið fest í sessi það fyrirkomulag að þjónusta þeirra sé óaðgengileg öðrum en þeim sem búa á eða nærri höfuðborgarsvæðinu. Kannanir hafa ítrekað sýnt að þjóðin vill geta reitt sig á opinbera heilbrigðisþjónustu. Þá þarf að styrkja heilsugæsluna og ekki síst í dreifbýli með því að skilgreina ákveðna sérfræðiþjónustu, s.s. barna-, kvensjúkdóma-, öldrunar-, geð- og augnlækningar, sem nærþjónustu þannig að hún sé veitt með reglulegum hætti í öllum heilbrigðisumdæmum. Eins þarf að styrkja Sjúkrahúsið á Akureyri enn frekar, ekki síst með almannavarnir, rannsóknar- og kennsluhlutverk þess í huga, sem og styrkja heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Ályktun um húsnæðismál

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, lýsir yfir eindregnum vilja til að efla enn frekar framboð húsnæðis og eftirlit á húsnæðismarkaði sem nauðsynlegt er til að viðhalda stöðugleika og tryggja framboð sem mætir þörfum almennings hverju sinni. Standa þarf vörð um opinberan húsnæðissjóð sem stofnaður hefur verið að norrænni fyrirmynd til að hægt sé að halda áfram að fjármagna húsnæðiskerfi byggt á jöfnuði og á forsendum almennings. Nauðsynlegt er að koma böndum á háan fjármagns-og vaxtakostnað og tryggja aðgengi að hagkvæmu lánsfé á framkvæmdatíma í slíkum verkefnum. Síðastliðin ár hafa stjórnvöld staðið undir um þriðjungi húsnæðisuppbyggingar á landinu. Þar munar mest um almenna íbúðakerfið og fjármögnun 3.500 íbúða frá árinu 2016. Tvöföldun stofnframlaga og efling hlutdeildarlánakerfisins hafa skilað sínu en mikilvægt er að efla og útvíkka þau úrræði enn frekar. Halda þarf áfram að efla almenna íbúðakerfið, efla hlutdeildarlánin til að þau nýtist fleirum, stofna húsnæðisfélag í eigu ríkisins að fordæmi Finna og skoða útvíkkun á almenna íbúðakerfinu með því að bjóða upp á búseturéttaríbúðir og eignaríbúðir innan kerfisins. Mikilvægt er að klára vinnu við endurskoðun á húsaleigulögum, efla réttindi leigjanda og koma í framkvæmd útfærslum á hugmyndum um leiguþak. Skráning allra leigueigna á leiguskrá HMS er liður í því að efla opinbert eftirlit með leigumarkaðnum.

Ályktun um leikskólamál

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, tekur undir ályktun miðstjórnar ASÍ um óheillaþróun í leikskólamálum. Nokkur stærstu sveitarfélög landsins, þar sem hægriöfl eru í meirihluta, hafa ýmist kynnt eða hrundið í framkvæmd breytingum á leikskólastarfi sem munu hafa neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði og grafa undan velferðarstoðum samfélagsins. Stöndum vörð um börnin okkar og upprætum birtingamyndir kynjamisréttis.

Ályktun um samningsrétt

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, leggur áherslu á að þó aðkoma stjórnvalda styðji við umgjörð og ramma samninga, líkt og gert var í hinum svokölluðu lífskjarasamningum, sé samningsréttur stéttarfélaga aldrei frá þeim tekinn. Samningaviðræður launafólks og launagreiðenda standa nú yfir og brýnt er að aðkoma stjórnvalda nái til allra aðila vinnumarkaðarins svo hægt sé að ná markmiðum um stöðugleika í efnahagsmálum.

Ályktun um náttúruvá

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, leggur áherslu á að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu efli samstarf sitt um skipulag og endurmeti, eftir atvikum, áhættumat vegna mögulegra eldgosa og annarra jarðhræringa í upplandi þess. Undanfarin misseri hafa verið viðvarandi jarðhræringar og endurtekin eldgos á þessu svæði nærri byggð og samfélagslega mikilvægum innviðum. Jarðvísindafólk spáir að svo muni vera næstu ár og áratugi, jafnvel árhundruð. Því þarf að gæta þess að íbúar séu upplýstir um hættumat og að skipulagsferlið sé gagnsætt. Búið verði svo um hnútana að lög um skipulagsmál nái yfir áhættumat vegna allrar náttúruvár.

Ályktun um lífbreytileikaráð

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024 felur þingflokki hreyfingarinnar að útfæra tillögu um stofnun lífbreytileikaráðs. Ráðið skal vera sjálfstætt starfandi og veita stjórnvöldum ráðgjöf og aðhald við eftirfylgni þeirra skuldbindinga og markmiða sem stjórnvöld hafa sett sér varðandi lífbreytileika. Horfa má til reynslu Loftslagsráðs sem sinnir sambærilegu hlutverki innan stjórnsýslu loftslagsmála.

Ályktun um merkingu matvæla

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, vill auka vitund fólks um loftslagsmál með því að tryggja að upplýsingar um umhverfisáhrif og kolefnisspor matvæla séu aðgengilegar á merkingum vara og á matseðlum. Þá þurfa upplýsingar líka að koma fram á varningi sem notaður er í landbúnaði og garðrækt. Eins myndi það stuðla að aukinni lýðheilsu ef orkuinnihald er tilgreint á matseðlum líkt og vörum.

Ályktun um borgaráhrif á hlýnun

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, leggur áherslu á að úttekt verði gerð á borgaráhrif á hlýnun og að vinnu lokinni verði gerðar tillögur að mótvægisaðgerðum.

Ályktun um sjálfstætt ráðuneyti umhverfismála

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, leggur áherslu á mikilvægi þess að hafa sjálfstætt starfandi umhverfisráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Í slíku ráðuneyti er mikilvægt að halda skyldum málaflokkum saman þ.m.t. allt sem varðar umhverfismál, vernd og endurheimt vistkerfa, vernd náttúruminja, friðlýsingar svæða, loftslagsmál og vernd lífbreytileika.

Ályktun um svokallaða gullhúðun

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, leggur áherslu á að staðinn verði vörður um þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í umhverfismálum. Innleiðing Evrópureglna í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins hefur um margt tryggt okkur aukna vernd umhverfisins hérlendis. Flokksráðsfundurinn hafnar öllu tali um svokallaða „gullhúðun“ í löggjöf um umhverfismál og náttúruvernd. Rík ástæða er til að styrkja lög um umhverfis- og náttúruvernd og stórauka grunnrannsóknir á náttúrufari í ljósi stóraukins ágangs á viðkvæm vistkerfi okkar og því hafnar flokksráðsfundurinn jafnframt öllum hugmyndum sem veikja lagagrunn umhverfis- og náttúruverndar.

Ályktun um orkuöryggi til heimila og smærri fyrirtækja

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024,leggur þunga áherslu á að orkuöryggi til íslenskra heimila og smærri fyrirtækja verði tryggt með lögum. Orkuöryggi er liður í sjálfsagðri grunnþjónustu sem almenningur verður að geta nálgast á hagstæðu verði. Þá leggur flokksráðsfundurinn áherslu á að almenningur verði ekki hafður að leiksoppi á kapítalískum orkumarkaði eins og gerst hefur hjá nágrannaþjóðum okkar. Mikilvægt er að tryggja neytendavernd með hófstilltri verðlagningu á raforku til almennings og smærri fyrirtækja svo ekki bitni á kjörum þeirra sem minnst mega sín.

Ályktun um græn verkefni til orkuskipta

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld ráðist í skilgreiningu á því hvað teljist vera græn verkefni í þágu orkuskipta. Lög og reglur þurfa að taka mið af þessum skilgreiningum áður en til frekari nýrra virkjana komi. Flokksráðsfundurinn telur brýnt að stjórnvöld sporni gegn hverskonar upplýsingaóreiðu og grænþvotti sem einkennt hefur umræðu um orkumál hér á landi. Flokksráðsfundurinn hafnar því að ráðist verði í nýjar virkjanir án þess að sýnt sé að orkan rati til orkuskiptaverkefna. Raforkuframleiðsla verður að byggja á sjálfbærum stoðum þar sem óseðjandi eftirspurn og græðgi á ekki ráða för. Raforkan sem og náttúran sjálf er orðin mjög takmörkuð auðlind sem þarf að umgangast á ábyrgan hátt með hliðsjón af þörfum núverandi og ekki síður komandi kynslóða.

Ályktun um velferð dýra við hvalveiðar

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 1.-2. mars 2024, lýsir yfir stuðningi við þá áherslu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að standa með lögum um velferð dýra við veiðar á hvölum. Flokksráðsfundurinn styður matvælaráðherra í að færa lög um hvalveiðar til nútímans og áréttar í því samhengi stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að ekki eigi að leyfa þær.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search