PO
EN

Ályktanir samþykktar á flokksráðsfundi VG 2024

Deildu 

Menntakerfið mikilvægasta jöfnunartækið í fjölbreyttu samfélagi

Ályktun um málefni háskólanna og Menntasjóðs námsmanna

Ályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Ályktun um bætt kjör efnaminni ellilífeyrisþega

Ályktun um innflytjendamál

Ályktun um málefni Palestínu og stríðið á Gaza

Ályktun um samgöngumál

Ályktun um náttúruvernd

Ályktun um auðlindir

Ályktun um nýtingu vinds til orkuöflunar

Ályktun um sjávarútvegsmál

Ályktun um kynbundið ofbeldi

Ályktun um aukinn jöfnuð ungmenna

Ályktun um róttækar breytingar á húsnæðismarkaði

Ályktun um endurgjaldslausar getnaðarvarnir fyrir ungt fólk

Ályktun um íbúakosningu í Hafnarfirði

Almenn stjórnmálaályktun

Menntakerfið mikilvægasta jöfnunartækið í fjölbreyttu samfélagi

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 ítrekar að menntakerfið er mikilvægasta jöfnunartækið í fjölbreyttu samfélagi og menntastofnanir á aldrei að reka í hagnaðarskyni. Skólaganga á að vera nemendum og fjölskyldum að kostnaðarlausu á öllum skólastigum. Einkafyrirtæki sýna aukna ásókn í að taka að sér verkefni úr menntakerfinu í hagnaðarskyni. Því þarf að tryggja að velferð nemenda og faglegt skólastarf sé alltaf ráðandi í öllum ákvörðunum sem snúa að menntun barna. Gæði menntakerfisins gegna mikilvægu hlutverki varðandi það hvort takist að skapa samfélag þar sem öll fá jöfn tækifæri í lífinu til þess að vera virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi, rækta hæfileika sína og færni, þroskast og njóta. Á næstu árum er ekki einungis brýnt að gera menntun allra skólastiga endurgjaldslausa heldur líka að innleiða kerfisbundið sex grunnþætti menntunar í aðalnámskrá og uppfæra hana í takt við nútímann, að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, tryggja stuðning við öll börn, þ.m.t. börn innflytjenda í skólum landsins, tryggja endurnýjun í kennarastéttinni, stuðning við kennara og stórauka námsefnisgerð á vegum opinberra aðila.

Ályktun um málefni háskólanna og Menntasjóðs námsmanna

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 ítrekar mikilvægi háskóla landsins fyrir íslenskt samfélag. Tryggja þarf betur fjármögnun háskólanna svo þeir geti gegnt hlutverki sínu, sem er að skapa þekkingu og deila henni. Háskólastigið hérlendis er mun verr fjármagnað en háskólakerfi annars staðar á Norðurlöndum. Flokksráðsfundurinn fagnar hins vegar afnámi skólagjalda í Listaháskóla Íslands og við Háskólann á Bifröst, enda er um mikilvægt skref í átt að jafnræði til náms. Aðgengi að listnámi og fjarnámi á ekki að vera háð efnahag, en skólagjöldin hafa í gegnum tíðina verið verulega íþyngjandi fyrir stóran hóp nemenda.

Skoða þarf frekari breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna í ljósi nýlegrar skýrslu um heildarlögin um sjóðinn sem sett voru árið 2020. Lánþegum hefur fækkað undanfarin ár og mun færri námsmenn nýta sér námsstyrki en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rannsóknir hafa bent til þess að íslenskir stúdentar vinni mun meira með námi en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og fer það beint gegn markmiðum laganna um að auðvelda námsmönnum að einbeita sér að námi sínu. Flokksráðsfundurinn vill hækka hlutfall námsstyrks af lánum enn frekar en gert hefur verið, skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus og að þau falli niður við starfslok að uppfylltum eðlilegum skilyrðum um að námi ljúki fyrir tiltekinn aldur. Fólk á ekki að þurfa að greiða af námslánum sínum í ellinni, eða ef fólk fer á örorkulífeyri og getur ekki aflað sér tekna með launaðri vinnu. Er hér um stórt kjaramál að ræða fyrir stóran hóp fólks. Á tilteknum landsvæðum er erfitt að manna ákveðnar atvinnugreinar og vill flokksráðsfundurinn að stjórnvöld virki ákvæði laga um Menntasjóð námsmanna um afslátt á endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina, ekki síst á slíkum landsvæðum.

Ályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 fagnar því að Alþingi hafi stigið það mikilvæga og löngu tímabæra skref að samþykkja að koma á fót óháðri og sjálfstæðri Mannréttindastofnun sem heyri undir Alþingi Íslendinga. Stofnun Mannréttindastofnunar Íslands er forsenda lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og flokksráðsfundurinn leggur ríka áherslu á að lögfestingu verði lokið á komandi þingvetri til að tryggja enn betur réttindi fatlaðs fólks.

Ályktun um bætt kjör efnaminni ellilífeyrisþega

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 leggur áherslu á að ríkisstjórnin komi til framkvæmdar ákvæðum stjórnarsáttmála um að halda áfram að bæta kjör hinna efnaminnstu í hópi ellilífeyrisþega. Mikilvægar kerfisbreytingar á almannatryggingakerfi ellilífeyrisþega tóku gildi árið 2017 og félagslegur viðbótarstuðningur árið 2020. Þessar breytingar tryggðu aukin réttindi og mikilvægar kjarabætur til eldra fólks. Fundurinn fagnar einnig áherslubreytingum í þjónustu við eldra fólk með verkefninu Gott að eldast og samþykkt þingsályktunartillögu félags- og vinnumarkaðsráðherra þar að lútandi árið 2023. Fundurinn minnir á að enn eru hópar eldra fólks sem bera of lítið úr býtum, ekki síst konur sem eiga takmarkaðan rétt til greiðslu úr lífeyrissjóðum og fólk sem hefur þurft að reiða sig á örorkulífeyri áður en það náði lífeyrisaldri. Tímabært er að skoða næstu skref í bættum kjörum ellilífeyrisþega. Skoða þarf aðgerðir eins og almenna hækkun ellilífeyris, hækkun frítekjumarka og þrepaskiptingu tekjutengingar til að hækkanir nýtist best hinum efnaminni meðal eldra fólks.

Ályktun um innflytjendamál

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 fagnar því að unnið sé að fyrstu stefnu Íslands í málefnum innflytjenda, Samfélag okkar allra, undir forystu félags- og vinnumarkaðsráðherra. Fundurinn leggur áherslu á að stjórnvöld vinni markvisst gegn stéttskiptingu í íslensku samfélagi sem meðal annars birtist í lakari stöðu innflytjenda en innfæddra. Í þessu skyni leggur fundurinn sérstaka áherslu á að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, tryggi aukna aðstoð við börn innflytjenda í skólum landsins og stórauki íslenskukennslu fullorðinna og barna. Fundurinn leggur að stjórnvöldum að vinna stefnu og hrinda aðgerðum í framkvæmd til að sporna við vinnumansali en það beinist að stórum hluta að innflytjendum. Hvað ofangreint varðar fagnar fundurinn fjármagni í nýsamþykktri fjármálaáætlun stjórnvalda um aukið fjármagn til inngildingar innflytjenda, m.a. í skólum og samþykkt frumvarps um samstarf og eftirlit á vinnumarkaði.

Ályktun um málefni Palestínu og stríðið á Gaza

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 fordæmir harðlega aðgerðir Ísraels á Gaza undanfarin misseri. Ekkert fær réttlætt það að murka lífið úr saklausum borgurum m.a. með eldflauga- og loftárásum á sjúkrahús, skóla og flóttamannabúðir, og að koma í veg fyrir neyðaraðstoð og heilbrigðisþjónustu. Nú hafa um fjörutíu þúsund verið drepin og þar af stór hluti börn. Þetta eru stríðsglæpir og við blasir þjóðarmorð. Viðbrögð vestrænna ríkja hafa verið skammarleg. Í yfir 70 ár hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum, með fjárframlögum og vopnasendingum, stutt dyggilega við árásar- og útþenslustefnu Ísraelsríkis sem leitt hefur ólýsanlegar hörmungar yfir Palestínu. Allar tilraunir Sameinuðu þjóðanna til að koma á friði á svæðinu hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum að engu gert.

Í úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag í janúar sl. kom fram að líklega (e. plausible) væri Ísrael að fremja þjóðarmorð í Palestínu, m.a. með því að svipta Palestínumenn aðgengi að vatni, mat og öðrum lífsnauðsynjum. Viðbrögð Ísraelsstjórnar voru ekki að fara að úrskurði dómstólsins og grípa til allra ráðstafana gegn þjóðarmorði, heldur að ráðast í ófrægingarherferð gegn Sameinuðu þjóðunum og Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, sem er eina raunverulega mannúðaraðstoðin á Gaza. Með því var enn frekar grafið undan aðgengi fólks á Gaza að lífsnauðsynjum.

Flokksráðsfundur fordæmir ákvörðun þáverandi utanríkisráðherra að styðja atlögu Ísraelsríkis að mannúðaraðstoð á Gaza með yfirlýsingu um að frysta fjárframlög til Flóttamannaaðstoðarinnar. Fundurinn fagnar því að fjárframlög flóttamannaaðstoðarinnar hafi verið aukin umtalsvert.

Alþjóðadómstólinn gaf jafnframt í júlí sl. út álit þess efnis að herseta Ísraels á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem sé ólögleg, aðgerðir Ísraela á svæðunum jafngildi innlimun og Palestínumönnum sé mismunað á kerfisbundinn hátt. Ísraelar þurfi því að yfirgefa landtökubyggðirnar og hætta landtöku á palestínskum svæðum.

Ísraelum ber að láta af hernaðinum á Gaza, fara af Vesturbakkanum og frá Austur-Jerúsalem. Varanlegur friður verður að komast á þar sem sjálfstæði palestínsku þjóðarinnar er tryggt.

Flokksráðsfundur minnir á mikilvægi friðarbaráttunnar nú þegar ófriðarbál loga víða um heim.

Ályktun um samgöngumál

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 áréttar mikilvægi greiðra samgangna og fjölbreyttra valkosta í samgöngumálum í þágu allra landsmanna. Brýnt er að stefna að hágæða almenningssamgöngum um land allt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og byggja upp greiðar leiðir og fjölbreytt samfélag. Fundurinn hvetur innviðaráðherra til dáða, enda ærið verk að vinna en tækifærin mikil á næstunni í samgöngumálum. Almenningssamgöngur fela í sér mikilvæga kjarabót fyrir vinnandi fólk og fjölbreyttir ferðamátar eru leið til þess að efla lýðheilsu en jafnframt stuðla að vistvænna samfélagi. Fundurinn bendir á að við forgangsröðun framkvæmda þurfi ávallt að hafa grundvallargildi um félagslegt réttlæti og jöfnuð í forgrunni ásamt því að auka umferðaröryggi. Brýnt er að ljúka við uppfærslu Samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu og koma Borgarlínu til framkvæmda. Einnig að tryggja góða og ítarlega vinnu við gerð tillögu um samgönguáætlun fyrir Alþingi í haust.

Ályktun um náttúruvernd

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 leggur áherslu á vernd og sérstöðu íslenskrar náttúru, til lands og sjávar, og líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni hennar. Náttúran skal alltaf njóta vafans. Ná þarf að lágmarki alþjóðlegum skuldbindingum með fjölgun friðlýstra svæða svo þau þeki 30% á landi og í hafi fyrir árið 2030. Til lengri tíma ætti að stefna að enn frekari friðlýsingu. Þjóðgarður á miðhálendi Íslands mun stuðla að verndun víðerna, náttúrufars, jarðminja auk menningar og sögu. Fundurinn áréttar mikilvægi þess að setja á stofn Hálendisþjóðgarð.

Í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er friðun lífveranna meginregla og nýting þeirra undantekning frá þeirri reglu. Fundurinn leggur áherslu á að líta þurfi til sömu meginreglu í allri náttúruvernd. Fundurinn leggur jafnframt áherslu á að binda þarf í stjórnarskrá ákvæði um vernd náttúru, óbyggðra víðerna og umhverfis sem byggi á varúðar- og langtímasjónarmiðum. Ákvæðið fjalli um fjölbreytni náttúrunnar, vöxt og viðgang lífríkis og almannrétt.

Ályktun um auðlindir

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 ítrekar brýna nauðsyn sérstaks auðlindaákvæðis í stjórnarskrá. Tryggja þarf stjórnarskrárvarða þjóðareign á auðlindum fyrir framtíðarkynslóðir og að gjald af nýtingu þeirra renni í sameiginlega sjóði samfélagsins. Auðlindagjöld eru arðgreiðslur en ekki skattar og fullt gagnsæi og jafnræði þarf að ríkja við veitingu nýtingarleyfa til takmarkaðs tíma í senn. Sjálfbær nýting auðlinda er grundvöllur velsældar hérlendis. Nýtingu auðlinda skal ekki vera hægt að framselja varanlega. Flokksráðsfundurinn leggst gegn hverskyns einkavæðingu og fákeppni í nýtingu á auðlindum í náttúru Íslands.

Ályktun um nýtingu vinds til orkuöflunar

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 ítrekar mikilvægi þess að mörkuð sé stefna um nýtingu vinds til orkuöflunar hvort heldur á landi eða hafi í íslenskri lögsögu. Við þá stefnumörkun sé horft til þess að nýting vindorku byggi á reynslu og eigi sér stað á fáum stöðum. Fundurinn ítrekar þá kröfu Vinstri grænna að vindorka eiga að heyra undir lagaumgjörð rammaáætlunar. Auðlindagjald af vindorkuvirkjunum renni til samfélagsins alls og fyrirtæki í almannaeigu hafi forgang við úthlutun nýtingarleyfa. Fundurinn minnir á þá meginafstöðu hreyfingarinnar að í stað áherslu á frekari orkuöflun hérlendis skuli horfa til orkunýtni og styrkingar flutningskerfisins svo tryggja megi afhendingaröryggi og jafna aðgengi að nauðsynlegum orkuskiptum um land allt. Jafnframt að ef afla þurfi frekari orku skuli henni án undanbragða ráðstafað í þágu aukinnar orku til almennra nota og innlendra orkuskipta en ekki til útflutnings. Jafnvægi þarf ávallt að ríkja á milli náttúruverndar og orkuöflunar.

Ályktun um sjávarútvegsmál

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 leggur ríka áherslu á sanngirni og jafnræði í nýtingu auðlinda þjóðarinnar. Í því ljósi telur fundurinn mikilvægt að hækka veiðigjald á tilgreindar uppsjávartegundir til að tryggja að greitt sé sanngjarnt gjald fyrir afnot sameiginlegra auðlinda.

Fundurinn leggur áherslu á nauðsyn aukins gagnsæis og upplýsingaöflunar vegna tengdra aðila í sjávarútvegi.

Tryggja þarf sanngirni og nýtingu aflaheimilda með nýju byggðakvótakerfi. Fundurinn leggur til að úthlutanir verði endurskoðaðar til að styrkja brothættar byggðir og byggðarlög sem hafa orðið fyrir áföllum vegna varanlegs aflabrests og framsals aflaheimilda.

Endurskoða þarf lög um strandveiðar og tryggja að afli dreifist með sanngjörnum hætti um landið. Markmið strandveiða er, og á að vera, að styrkja smærri sjávarpláss og glæða lífi hafnir um land allt.

Flokksráðsfundurinn kallar eftir því að matvælaráðherra leggi fram heildstæða sjávarútvegsstefnu til að tryggja hagkvæma og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Fundurinn kallar einnig eftir því að orkuskiptum í sjávarútvegi verði flýtt til muna sem og í ferjum innanlands eða til og frá landinu.

Mikilvægt er að lagt verði fram frumvarp um verndarsvæði í hafi sem muni styrkja lagastoð fyrir verndun hafsvæða með það að markmiði að vernda 30% hafsvæða fyrir árið 2030.

Endurskoða þarf stefnu stjórnvalda í málefnum hafsins en hún hefur ekki verið endurskoðuð síðan 2004. Endurskoðuð stefna þarf að taka tillit til nýrra áskorana og tryggja að við stöndum vörð um auðlindir hafsins og nýtingu hafsvæða á sem bestan hátt.

Ályktun um kynbundið ofbeldi

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 fordæmir allt kynbundið ofbeldi. Uppræta þarf þau viðhorf og kerfi sem leiða af sér kynbundið ofbeldi og tryggja að ofbeldismál fái skjóta og faglega meðferð í réttarvörslukerfinu.

Ályktun um aukinn jöfnuð ungmenna

Flokksráðsfundur Vinstri grænna haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 hvetur til þess að máltíðir ungmenna í framhaldsskólum verði gjaldfrjálsar sem og öll námsgögn þeirra að 18 ára aldri. Einnig þarf að jafna stöðu allra við íþrótta- og tómstundaiðkun bæði hvað varðar aðbúnað og fjármögnun og fundurinn hvetur til þess að reglur um styrki til íþróttafélaga verði skilyrtar og öllum iðkendum til góða.

Ályktun um róttækar breytingar á húsnæðismarkaði

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 kallar eftir róttækum breytingum á húsnæðismarkaði til að tryggja félagslegt réttlæti og aðgengi allra að öruggu húsnæði. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld virði að aðgengi að öruggu húsnæði á sanngjörnu verði eru mannréttindi. Allar aðgerðir stjórnvalda á húsnæðismarkaði eiga þess vegna að taka mið af því. Öruggt húsnæði á sanngjörnu verði er forsenda fyrir réttlátu og friðsömu samfélagi þar sem fólk fær notið jafnra tækifæra til mannsæmandi lífskjara.

Efla þarf almenna íbúðakerfið enn frekar og standa vörð um opinberan húsnæðissjóð sem nýttur skal í almannaþágu. Mikilvægt er að búsetuform sé fjölbreytt m.a. í formi húsnæðissamvinnufélaga og annarra óhagnaðardrifinna húsnæðis- og leigufélaga þar sem aðkoma hins opinbera er tryggð. Mikilvægt er að skoða einnig nýjar og skapandi lausnir í húsnæðismálum svo sem samvinnubúsetu og aukna aðkomu húsnæðissamvinnufélaga og annarra óhagnaðardrifinna aðila á húsnæðismarkaði.

Ályktun um endurgjaldslausar getnaðarvarnir fyrir ungt fólk

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 vill undirstrika mikilvægi þess að móta heildstæða stefnu í kynheilbrigðismálum með áherslu á forvarnir, ráðgjöf og aðgengi. Aldurssamsvarandi fræðsla þarf að eiga sér stað á öllum skólastigum en aukin kynfræðsla stuðlar að heilbrigðara og réttlátara samfélagi. Tryggja þarf gott aðgengi fyrir ungt fólk að ráðgjöf og endurgjaldslausum getnaðarvörnum því fólk á ekki að þurfa að standa frammi fyrir fjárhagslegum hindrunum þegar það tekur ábyrgð á eigin kynheilbrigði.

Fundurinn leggur áherslu á að þessi vinna hefjist strax því aðgerðaleysi hefur einkennt málaflokkinn þrátt fyrir að mikilvægið sé ótvírætt.

Ályktun um íbúakosningu í Hafnarfirði

Flokksráðsfundur Vinstri grænna haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 tekur undir kröfu íbúa í Hafnarfirði um íbúakosningu vegna fyrirhugaðs stórtæks kolefnisbindingariðnaðar í bænum. Fundurinn áréttar að virða beri stefnu Íslands um sjálfbæra þróun og lykilmarkmið um að stuðla að réttlátum umskiptum fyrir alla hópa samfélagsins. Það felur í sér málsmeðferðarréttlæti að lýðræðisleg aðkoma að stefnumótun og samráð við almenning um aðgerðir séu tryggð.

Almenn stjórnmálaályktun

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 ályktar eftirfarandi:

Ójöfnuður er eitt helsta viðfangsefni stjórnmálanna. Baráttan fyrir jöfnum kjörum og tækifærum allra er eilífðarverkefni vinstrisins og kjarni erindis þess. Fundurinn áréttar að farsælasta undirstaða þróttmikils efnahagslífs er blandað hagkerfi þar sem hin efnamestu eru skattlögð umfram hin tekjulægri. Sú stefna hefur skilað mestri hagsæld og jöfnuði í þeim samfélögum þar sem hún hefur verið rekin. Breiðu bökin í samfélaginu og atvinnugreinar sem standa vel þurfa að leggja meira til samfélagsins. Þá á innheimta gjalda af nýtingu sameiginlegra auðlinda að vera ein af undirstöðum fjármögnunar velferðarkerfisins.

Fundurinn minnir á að skattkerfið er öflugasta tæki samfélagsins til að stuðla að auknum jöfnuði og réttlæti. Á síðasta kjörtímabili innleiddi ríkisstjórnin þriggja þrepa tekjuskattkerfi, sem er mikilvægur þáttur í að jafna kjörin. Vinstri græn eru óhrædd við að nýta skattkerfið til að styðja við velferðarsamfélagið og ná fram ýmsum félagslegum markmiðum, svo sem í umhverfismálum, lýðheilsu og byggðamálum. Fundurinn telur tímabært að hefja samtal um ásættanlegan launamun í samfélaginu. Rannsóknir sýna að of mikill ójöfnuður, hvort sem hann birtist í tekjum eða eignum, getur valdið klofningi milli hópa í samfélaginu. Berjast verður gegn þessari þróun, meðal annars með hóflegum auðlegðarskatti á þau sem eiga miklar eignir og koma á þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti.

Fundurinn minnir á mikilvægi félagslegs eignarhalds á helstu innviðum og varar við aukinni markaðshyggju, einkavæðingu og pilsfaldakapítalisma. Vinstri græn hafna frekari markaðsvæðingu í sölu raforku, heilbrigðis- og velferðarþjónustu, í menntakerfinu og í áfengissölu. Einkaaðilar áforma nú stórar virkjanir út um allt land en mikilvægt er að orkuöflun og orkuinnviðir séu í opinberri eigu og undir stjórn opinberra fyrirtækja. Aukin einkavæðing og einkarekstur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu er varhugaverð, grefur undan opinberri þjónustu og ógnar jöfnuði í samfélaginu.

Undir forystu Vinstri grænna hafa ýmis mikilvæg skref verið stigin í átt til jöfnuðar. Afar mikilvægir kjarasamningar náðust á almennum vinnumarkaði í vor með styrkri aðkomu ríkisstjórnarinnar. Stuðningsaðgerðir stjórnvalda við kjarasamningana miða að betri lífskjörum, ekki síst fyrir láglaunahópa og fjölskyldufólk. Má þar nefna gjaldfrjálsar og næringarríkar skólamáltíðir í grunnskólum, sem lengi hafa verið baráttumál Vinstri grænna og munu gagnast þúsundum foreldra í auknu ráðstöfunarfé í lok hvers mánaðar, minnka álag á barnafjölskyldur og draga úr hinni hugrænu byrði sem fylgir rekstri heimilis í dag. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru taldar ein árangursríkasta leiðin til að draga úr fátækt barna.

Þá fagnar fundurinn því að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði muni hækka í áföngum í 900.000. kr. á mánuði og að barnabætur muni ná til fleiri fjölskyldna en áður. Enn er verk að vinna í málefnum barnafólks, bæði hvað varðar það að hækka lágmark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og að brúa umönnunarbilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hér þarf kröftuga aðkomu ríkisvaldsins, sveitarfélaga og atvinnulífsins.

Að búa í mannsæmandi húsnæði er grundvallarmannréttindi. Húsnæðismál eru því eitt af mikilvægustu kjaramálum almennings. Hluti af stuðningsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í síðustu kjarasamningum er áframhaldandi öflug uppbygging á almenna íbúðakerfinu og styrkingu húsnæðisbótakerfisins. Fundurinn fagnar nýjum húsaleigulögum sem bæta réttarstöðu leigjenda, til að mynda með skýrari ramma um ákvörðun leigufjárhæðar og auknum fyrirsjáanleika í þeim efnum. Betur má þó ef duga skal og á næstu árum verður að efla leigumarkaðinn til muna, ekki aðeins að fjölga íbúðum sem leigðar eru út á óhagnaðardrifnum forsendum heldur líka að koma á afgerandi leigubremsu þannig að meira jafnvægi skapist á milli þeirra sem eru á eigna- og leigumarkaði. Fundurinn fagnar því sérstaklega að Vinstri græn fari nú með innviðaráðuneytið og hreyfingunni gefist þannig enn frekara tækifæri til að setja mark sitt á húsnæðismálin.

Fundurinn fagnar þeim breytingum sem samþykktar voru á örorkulífeyriskerfinu á síðasta þingi. Það hefði ekki gerst nema fyrir þrotlausa vinnu félags- og vinnumarkaðsráðherra og starfsfólks ráðuneytis hans með aðkomu fjölmargra hagaðila. Frumvarpið felur í sér allt að 19 milljarða króna nýtt framlag á ári til örorkulífeyrisþega sem mun bæta kjör þeirra til muna. Dregið er úr skerðingum á greiðslum til öryrkja vegna annarra tekna eins og launa eða lífeyrissjóðsgreiðslna og skapaðir raunverulegir hvatar til atvinnuþátttöku. Komið verður í veg fyrir að fólk falli á milli kerfa á meðan á endurhæfingu stendur og nýtt kerfi sniðið að aukinni virkni og tækifærum öryrkja. Hér er um að ræða stærstu aðgerð sem farið hefur verið í til þess að draga úr fátækt meðal öryrkja.

Fundurinn lýsir ánægju með stofnun Mannréttindastofnunar Íslands. Stofnunin mun hafa það hlutverk að styrkja mannréttindi í samfélaginu. Mannréttindastofnun er ætlað víðtækt og mikilvægt hlutverk í samfélaginu og mun veita stuðning og leiðsögn þeim sem til hennar leita. Þó að stofnunin muni gagnast öllum mun hún líklega skipta jaðarsetta hópa, sem eru sérlega útsettir fyrir mannréttindabrotum, mestu máli. Stofnunin mun þannig stuðla að auknu jafnrétti og réttlæti á Íslandi og mun gegna mikilvægu hlutverki í baráttu gegn því bakslagi sem orðið hefur í mannréttindabaráttu á undanförnum misserum.

Fundurinn fagnar því að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur nú loks verið uppfærð, en ítrekar að aðgerðir verði að vera róttækari, meiri kröfur gerðar til fyrirtækja og þeirra sem menga meira og réttlát umskipti verður að tryggja. Fundurinn gagnrýnir áætlunina fyrir að uppfylla ekki markmið stjórnarsáttmála um 55% samdrátt í samfélagslosun og að stór hluti aðgerðanna er einungis á hugmyndastigi, óútfærður og ófjármagnaður. Þá ítrekar fundurinn að lögfesta þarf bann við olíuleit í íslenskri lögsögu og allri olíuvinnslu á Íslandi. Fundurinn fagnar aðkomu Íslands að alþjóðlegum skuldbindingum um friðlýsingu 30% á landi og í hafi árið 2030 og hvetur stjórnvöld til að vinna aðgerðaáætlun til að ná þeim markmiðum. Miðhálendisþjóðgarður er mikilvægur hluti slíkra aðgerða og kallar fundurinn eftir aðgerðum ráðherra hvað það varðar.

Fundurinn fagnar þeim framfaraskrefum sem tekin hafa verið í matvælaráðuneytinu undir stjórn ráðherra VG síðustu ár, ekki síst hvað varðar vistkerfisnálgun, áherslu á sjálfbærni í hvívetna og dýravelferð, vinnu að stefnumörkun í sjávarútvegsmálum og lagareldi. Nú síðast má nefna aðkomu ríkisins að uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi við Eyjafjörð, sem verður förgunarstöð fyrir skaðlegar dýraleifar. Fundurinn fagnar stefnumótun og auknum stuðningi við kornrækt og fjármögnun Jarðræktarmiðstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þá markar setning reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu tímamót en hún hefur verið í vinnslu í allmörg ár og landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu er eitt mesta framfaraskref í opinberri stefnumótun varðandi íslenska sauðfjárrækt í langan tíma. Fundurinn hvetur matvælaráðherra til dáða í áframhaldandi vinnu við dýravelferð í anda hugmyndafræði Einnar heilsu (e. One Health). Mikilvægir áfangar hafa náðst, en enn eru áskoranir fram undan.

Fundurinn lýsir yfir þungum áhyggjum af risi öfgahægri afla víða um heim. Öfgahægrið þrífst á hatri á útlendingum, hinsegin fólki, konum, fötluðu fólki og öðrum jaðarsettum hópum sem hafa sótt sjálfsögð mannréttindi á undanförnum árum. Bakslagið í mannréttindabaráttu er drifið áfram af þjóðernishyggju og fyrirlitningu á fjölbreytileika mannlífsins. Fundurinn leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld haldi áfram að vinna ötullega að mannréttindum allra í alþjóðlegu samstarfi og hér heima.

Fundurinn minnir á mikilvægi alþjóðlegrar friðarhyggju. Þróun alþjóðamála er mikið áhyggjuefni en ófriðarský hafa hrannast upp víða um heim. Aldrei hafa fleiri verið á flótta frá lokum seinni heimsstyrjaldar og vopnuðum átökum hefur farið fjölgandi. Íslenska friðarhreyfingin á þakkir skildar fyrir að halda uppi málstað mannúðar og afvopnunar. Fundurinn krefst þess að Ísrael fari að alþjóðalögum, láti tafarlaust af hernaði á Gaza, yfirgefi landtökubyggðir og hætti landtöku á palestínskum svæðum.

Að lokum vill fundurinn ítreka að erindi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í íslenskum stjórnmálum er ótvírætt og hvetur forystu hreyfingarinnar og alla félaga til að halda gildum okkar og góðum árangri á undanförnum árum á lofti í pólitískri umræðu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search