Search
Close this search box.

Ályktanir Svæðisfélags VG í Skagafirði

Deildu 


Aðalfundur Svæðisfélags VG í Skagafirði sem var haldinn þann 14. janúar 2023, tekur undir mikilvægi þess að svæðaskipta veiðum á grásleppu. Þær rannsóknir og sú þekking sem aflað hefur verið undanfarin ár hafa undirstrikað mikilvægi þess að taka upp svæðaskipta veiðistjórn á hrognkelsum til að tryggja sjálfbæra nýtingu stofna, en einnig tryggja hagsmuni viðkomandi byggðarlaga og fjölskyldna sem byggja lífsviðurværi sitt á grásleppuveiðum. Með því að beita svæðaskiptingu og sóknarstýringu eftir stöðu veiðistofna hrognkelsa innan svæða og hagnýta betur þá nýju þekkingu sem aflað hefur verið, verður best stuðlað að farsælli nýtingu og verndun þeirra.
Fundurinn lýsir yfir áhyggjum sínum yfir hugmyndum um kvótasetningu grásleppu vegna hættu á samþjöppun veiðiheimilda og neikvæðra byggðaáhrifa. Margvíslegar áskoranir fylgja mögulegri kvótasetningu hrognkelsaveiða sem ekki verður séð á þessari stundu hvernig verða leystar með fullnægjandi hætti.

Aðalfundur Svæðisfélags VG í Skagafirði sem haldinn var þann 14. janúar 2023, skorar á stjórnvöld að taka upp fyrri takmarkanir á veiðum með dragnót í Skagafirði. Jafnframt er vakin athygli á mikilvægi þess að endurskoða heimildir til að veiða með dragnót upp í fjörur víða um land, í ljósi þess skaða sem þær valda á vistvænum veiðum smábáta í nærliggjandi byggðarlögum og hve illa þær geta leikið lífríki og botndýralíf á viðkvæmum svæðum og nýliðun margra nytjategunda. Þá varar fundurinn af sömu ástæðum við því að heimildir til skipa með togveiðarfæri til veiða nær landi verði rýmkaðar. Slíkt gæti einnig haft í för með sér langvarandi skaða á viðkvæmum vistkerfum meðfram ströndum landsins.


Aðalfundur Svæðisfélags VG í Skagafirði
sem haldinn var þann 14. janúar 2023  skorar stjórnvöld, að styrkja stoðir Háskólans á Hólum, sem leiðandi stofnunar á landsvísu á sínum sérsviðum á sviði rannsókna, kennslu og þróunarstarfs. Hólaskóli nýtur einnig alþjóðlegrar viðurkenningar og á í öflugu alþjóðlegu samstarfi sem skapa Hólastað og starfinu enn frekari sóknarfæri. Starfsemi Hólaskóla er þýðingarmikill fyrir héraðið en ekki síður fyrir landið allt. Fjárveitingar hafa hins vegar ekki fylgt í takt við áframhaldandi uppbyggingu á starfi skólans og brýn þörf er á að tryggja honum nauðsynlega aðstöðu til rannsókna og kennslu og hlúa að þeim byggingum sem hýst hafa starfsemi Hólaskóla gegnum árin.


Aðalfundur Svæðisfélags VG í Skagafirði
sem haldinn var þann 14. janúar 2023, skorar á innviðaráðherra, án frekari tafa, að láta fara fram ítarlega athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Alexandersflugvöllur er vel staðsettur landfræðilega og fjarri svæðum þar sem jarðhræringar og möguleg eldgos geta skapað hættu fyrir flugsamgöngur til lengri tíma. Á flugvellinum er aðflug gott, fjörðurinn víður og lítið um hindranir. Flugvöllurinn vísar í norður og suður, sem eru einnig ríkjandi vindáttir á þeim slóðum, og þá er staðsetning vallarins hagstæð með tilliti til snjóa.
Verulegur ávinningur gæti verið að því að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll fyrir Reykjavík og Keflavík. Jafnframt myndi slíkur flugvöllur mun þjóna Akureyri og Egilsstöðum vel sem varaflugvöllur og tryggja og treysta þá mikilvægu starfsemi sem þar er rekin í sambandi við ferðaþjónustu og flug almennt. Ástæða er til að vekja sérstaklega athygli á meiri nálægð flugvallarins við flugvellina í Keflavík og Reykjavík og traustari samgöngur landleiðina sem skiptir einnig máli fyrir varaflugvöll, en frá Akureyri og Egilsstöðum.  Það sannaðist meðal annars þegar Reykjanesbrautin lokaðist um lengri tíma vegna veðurs nýverið, en þá var allan tímann fært landleiðina á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur en samgöngur við aðra varaflugvelli sem staðsettir eru í fjarlægum héruðum lokuðust.

 
Aðalfundur Svæðisfélags VG í Skagafirði
sem haldinn var þann 14. janúar 2023, beinir því til ráðherra samgöngumála að tryggja nauðsynlega fjármuni til vegaframkvæmda í Skagafirði og á Norðurlandi vestra. Uppbygging Hegranesvegar (nr. 764) með bundnu slitlagi að vestanverðu, þar sem byggð hefur verið að þéttast og umferð að aukast mikið, þolir ekki frekari bið. Þá er áréttað að veruleg þörf er á auknum fjárveitingum til viðhalds fleiri safn,- og tengivega í Skagafirði, eins og um Sæmundarhlíð, Skaga, Ásavegs og heim í Hóla. Hegranesvegur og fleiri mikilvægar framkvæmdir hafa ekki verið á dagskrá samgönguáætlunar undanfarinna ára, sem brýnt er að bæta úr. Viðhald ofangreindra vega hefur og verið afar takmarkað en umferð um þá aukist mikið síðustu ár.
Einnig er brýnt að tryggja frekara fjármagn í endanlega hönnun jarðgangna á milli Fljóta og Siglufjarðar, þannig að hægt verði að bjóða þau út eins fljótt og hægt er. Ástand vegarins á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði er íbúum og vegfarendum óásættanlegt og hættulegt vegna jarðsigs, skriðufalla, grjóthruns og snjóflóða.

 
Aðalfundur Svæðafélags VG í Skagafirði sem haldinn var þann 14. janúar 2023, fagnar þeim skrefum sem stigin eru í bættu farsímasambandi í sveitum landsins, en áréttar að gera þarf miklu betur í þeirri sjálfsögðu innviðauppbyggingu. Það er órofa hluti búsetuöryggis að fá notið fjarskipta en einnig að taka þátt í nútíma samfélagi. Því miður er það svo að fjarskiptaöryggi víða um land er ótryggara nú en það var fyrir tuttugu árum þar sem sími í gegnum koparlínur hefur víða verið aftengdur áður en að almennilegu farsímasambandi hefur verið komið á.  Ekki er síður mikilvægt að hraða tryggingu farsímasambands á öllum þjóðvegum ekki síst á fjallvegum og þar sem ekið er daglega með skólabörn. Þessir grunninnviðir hafa grundvallarhlutverki að gegna fyrir almannaöryggi og uppbygging þeirra á að vera órjúfanlegur hluti af þjóðaröryggisstefnu Íslands. Í dag er fjarskiptakerfið ekki skilgreint sem öryggisfjarskiptakerfi en til þess að tryggja öryggi allra hvort sem er á þjóðvegum, fjallvegum eða í dreifbýli skiptir máli að svo sé. Þá leggur fundurinn áherslu á að tvítenging fjarskipta við alla byggðakjarna landsins og varaleiðir á landsvísu verði tryggð til að koma í veg fyrir alvarlega öryggisbresti sem annars geta og hafa orðið.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search