PO
EN

Ályktun flokksráðsfundar

Deildu 

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Öræfum 30. – 31. ágúst, ályktar að öll stefnumótun hreyfingarinnar eigi að taka mið af loftslagssjónarmiðum, flétta þarf inn í hana leiðir til að draga losun gróðurhúsaloftegunda, auka kolefnisbindingu og gera um leið áætlanir til að bregðast við þeim breytingum í veðurfari sem fyrirsjáanlegar eru. Hamfarahlýnun og veðurfarsöfgar vegna loftslagsbreytinga eru brýnasta pólitíska viðfangsefni samtímans.

Flokksráð áréttar að aðgerðir stjórnvalda þurfi að vera róttækar og skýrar og skila sýnilegum árangri. Nýta þarf skattkerfið og hagstjórnina til að sporna gegn frekari loftslagsbreytingum og byggja upp sjálfbært samfélag og hringrásarhagkerfi. Grænir skattar og hvatar eru lykilverkfæri í þessu samhengi. Flokksráð fagnar aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Þá telur flokksráð áríðandi að þróa mælikvarða á velsæld til að meta þróun samfélagsins, fremur en að einblína á hagvöxt, óháð því hvernig hann er tilkominn.

Fundurinn leggur áherslu á að samhliða baráttunni við loftslagsvána verði staðinn vörður um velferð almennings og tryggt að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verði ekki til þess að auka á ójöfnuð, heldur þvert á móti. Það verði meðal annars gert með skýrri forgangsröðun í þágu velsældar og breyttri hugsun í ríkisrekstri. Fundurinn fagnar nýrri heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðherra sem Alþingi samþykkti í vor þar sem byggt er á faglegum grunni og skýr stefnumið eru sett um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, þverfaglega vinnu og minni greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.

Þá fagnar fundurinn innleiðingu þriggja þrepa skattkerfis sem mun auka jöfnuð í samfélaginu sem og þeim skrefum sem hafa verið stigin til að draga úr skerðingum örorkulífeyris. Fundurinn lýsir yfir ánægju með áform um lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í eitt ár og hækkun barnabóta. Búa þarf vel að barnafjölskyldum og brúa umönnunarbilið sem nú er fyrir hendi og kemur verst niður á lágtekjufjölskyldum og á konum. Fundurinn leggur áherslu á að kjör þeirra verst settu í samfélaginu verði bætt og áfram verði stefnt að því að uppræta fátækt í okkar ríka samfélagi. Fundurinn telur að góður árangur hafi náðst með lífskjarasamningunum og að halda verði áfram að beina aðgerðum stjórnvalda til lífskjarajöfnunar.

Flokksráð lýsir yfir stuðningi við tillögur um bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis sem kynntar voru 19. júní sl. og kallar eftir því að þær nái fram að ganga. Tillögurnar, ásamt öðrum aðgerðum stjórnvalda og aukinni áherslu á forvarnir og fræðslu, eru mikilvægur liður í því að taka kynbundið ofbeldi föstum tökum.

Flokksráð lýsir andstöðu við aukna vígvæðingu í Norðurhöfum og á Norðurslóðum sem og aukin hernaðarleg umsvif á Suðurnesjum sem verða ekki slitin úr samhengi við aðildina að Atlantshafsbandalaginu og Varnarsamninginn við Bandaríkin, sem VG hefur staðið gegn frá upphafi. Fundurinn kallar eftir pólitískri og almennri umræðu um þessi mál. Aukin vígvæðing stuðlar að auknum ófriði og er þar að auki með stórt kolefnisfótspor sem eykur enn frekar á ógnina af loftslagsbreytingum.

Flokksráð brýnir ráðherra og þingmenn til að ljúka nauðsynlegum breytingum á lögum og reglum þannig að það verði skýr umgjörð um jarða- og fasteignaviðskipti og nauðsynlegar heimildir til að takmarka eignarhald og stýra auðlindanýtingu. Í því samhengi er nauðsynlegt að samþykkt verði ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá.

Að lokum fagnar fundurinn langþráðri friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum sem hefur verið baráttumál þessarar hreyfingar frá upphafi.

Öræfum, 31. ágúst 2019

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search