Search
Close this search box.

Ályktun Sveitarstjórnarrráðs VG um kjarasamninga og gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Deildu 

Sveitastjórnarráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tekur heilshugar undir þá kjarasamningskröfu að afnema gjöld fyrir skólamáltíðir og minnir á að gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru ekki bara félagslegt jöfnunartæki heldur einnig risavaxið lýðheilsu- og umhverfismál. Slík aðgerð yrði liður í því að ná skynsamlegum langtímasamningum sem styðja við verðbólgumarkmið og skapa forsendur til að lækka vexti sem ætti að vera hagsmunamál allra sveitarfélaga í landinu.

Það hefur lengi verið stefnumál Vinstri grænna að bjóða upp á næringarríkar, hollar og endurgjaldslausar máltíðir barna á skólatíma enda er það jafn mikilvægt og endurgjaldslaus grunnmenntun sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum. Menntun og máltíðir barna á skólatíma eiga ekki að ráðast af tekjum foreldra, enda á menntakerfið að vera samfélagslegt jöfnunartæki. Foreldrar barna bera einna mestu byrðarnar þegar kemur að útgjöldum og eiga einstæðir foreldrar sem og foreldrar með lágar tekjur erfitt með að ná endum saman. Í þeirri verðbólgutíð sem við stöndum öll frammi fyrir munar um hverja krónu og eiga stjórnvöld að leita allra leiða til að íþyngja ekki fólki um of með álögum. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru einn liður í því og það er löngu orðið tímabært að við færum okkur nær Svíum og Finnum sem bjóða öllum börnum ókeypis og nærandi skólamáltíðir.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search