Tafarlaust vopnahlé á Gaza!
Félagsfundur Vinstri grænna í Reykjavík, haldinn laugardaginn 28. október 2023 tekur undir yfirlýsingu þingflokks Vinstri grænna og krefst þess að nú þegar verði gert vopnahlé í stríði því sem nú geisar á Gaza.
Heimsbyggðin hefur um langt árabil fylgst með því hvernig þrengt hefur verið að möguleikum Palestínumanna til frjálsrar og eðlilegrar tilveru og að byggja upp lífvænlegt ríki, eins og gert var ráð fyrir í Óslóarsamningunum. Með ólöglegum landnemabyggðum, hvers kyns frelsisskerðingu og reglubundnum innrásum á svæði Palestínumanna hefur Ísraelsstjórn, með beinum og óbeinum stuðningi vestrænna ríkja, leynt og ljóst reynt að berja niður palestínsku þjóðina og þannig komið í veg fyrir möguleika á raunverulegum friði.
Þær árásir sem nú eiga sér stað á almenna borgara á Gaza eru af nýrri og áður óþekktri stærðargráðu. Tveimur milljónum manna er haldið í heljargreipum loftárása sem engan greinarmun gera á vígamönnum og almennum borgurum. Alþjóðalög eru þverbrotin með því að meina fólkinu á svæðinu um brýnustu nauðsynjar og hjálpargögn. Árásirnar eru stríðsglæpir og viðhalda vítahring ofbeldis með tilheyrandi hörmungum.
Stríðið á Gaza verður að stöðva tafarlaust með vopnahléi og því vopnahléi verður að fylgja eftir með friðarsamningum og tveggja ríkja lausn. Forsendur þeirra samninga hljóta að vera þær að tryggja öllum íbúum Palestínu og Ísraels öryggi, mannréttindi og réttlæti. Um þessi markmið verður að ná víðtækri samstöðu ríkja heims og íslenskum stjórnvöldum ber siðferðileg skylda til að gera allt sem þau geta til að stuðla að því enda hafa þau viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki.
Fundurinn skorar á íslensk stjórnvöld að fordæma hernaðaraðgerðir Ísraelshers sem bitna helst á börnum, konum og almennum borgurum.