PO
EN

Andrés Skúlason, áramótagrein að austan.

Deildu 

Kæru félagar – ég hafði svo sem ekkert frekar í hyggju að að gerast sjálfskipaður stjórnmálaskýrandi hér á síðasta degi ársins. En nú þegar árið er að renna sitt skeið á enda og við horfum jafnhliða fram á veginn, þá ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn og ég ætla líka að leyfa mér að þakka þingflokki okkar vel unnin störf og þá ekki síst þeim sem staðið hafa fremst í eldlínunni fyrir hreyfinguna. Ég hef áður komið inn á undirliggjandi neikvæðni m.a. inn á þessum vettvangi okkar í garð þeirra sem bera okkar mál okkar uppi á alþingi. Áður hef ég einnig sagt að aðhaldið skiptir einnig máli gagnvart fulltrúum okkar enda séu mál sett fram með rökum. Hitt gefur á að líta að sú gagnrýni sem sett hefur verið fram að VG hafi ekki náð neinum alvöru árangri í þessu stjórnarsamstarfi, þykir mér með öllu óboðlegur málflutningur, enda hafa verk m.a. okkar góðu ráðherra sannarlega talað sínu máli með margvíslegum hætti sem sjá má t.d. samantekið á heimasíðu VG.

Þegar litið er til baka yfir árið þá hafa fjölmörg góð mál verið sett á dagskrá af hálfu VG og ekki bara það heldur eru mörg mál ýmist komin fram og eða eru í góðum farvegi. Það er á engan hallað að segja að okkar frábæri formaður og forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur borið hitann og þungann í umræðunni í þessu stjórnarsamstarfi og þurft að setja sig inn í öll mál og ganga fram fyrir skjöldu þegar á hefur reynt. Allt þetta hefur form. okkar leyst af einstakri hæfni og yfirvegun. Það að hafa náð að halda svo vel á málum í jafn flóknu stjórnarsamstarfi þykir amk mér einstakt afrek út af fyrir sig. Auk þessa hefur Katrín sett mjög mikilvæg málefni á dagskrá og komið til leiðar meðfram verkstjórn sinni í ríkisstjórn og það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum þegar þarf að halda mörgum boltum á lofti í einu.

Þá skulum við einnig halda því hátt á lofti á þessum tímamótum að aðrir ráðherrar okkar hafa einnig staðið sig afburða vel það sem liðið er af kjörtímabilinu. Svandís Svavarsdóttir og Mummi Guðbrandsson hafa eins og forsætisráðherra staðið sig frábærlega og komið meiru í verk en ég hafði sjálfur látið mig dreyma um þegar stigið var inn í þetta stjórnarsamstarf. Um öll þessi góðu verk sem fulltrúar okkar hafa komið á dagskrá og í gegnum þingið undir stefnu og merkjum VG er fyrir mér mikið afrek. Það er nefnilega fráleitt að mínu mati að líta á öll þessi góðu verk ráðherra okkar eins og um einhvern sjálfsagðan hlut sé að ræða. Það þarf að berjast til að ná málum fram og það hefur líka verið gert af hálfu okkar kraftmiklu ráðherra. Þau eiga því skilið extra gott klapp á bakið á þessum tímamótum.

Það að ég hafi ætlað á einhverjum tímapunkti að við gætum náð öllum okkar áherslum fram í þessu stjórnarsamstarfi eða öðru hef ég auðvitað aldrei reynt að selja sjálfum mér, því eðli máls byggist allt samstarf á málamiðlunum. Lífið sjálft er nefnilega ein stór málamiðlun frá degi til dags. Ég þurfti m.a. að gera málamiðlun hvort ég yrði í RVK um áramót eða á Djúpavogi, en læt hjá líða að segja hver hafði betur í þeirri annars ágætu rökræðu.

En án gríns og að síðustu langar mig til þess að segja ykkur frá því að við í meirihluta VG félaga á Austurlandi höfum tekið skýra afstöðu til þess að fara með hreint VG framboð í nýsameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi og það er auðvitað stórfrétt. Við ætlum að leyfa okkur að vera bjartsýn á að í komandi sveitarstjórnarkosningum í nýju sveitarfélagi þann 18 april 2020 náum við ásættanlegri fótfestu í litrófi pólitíkunnar fyrir austan. Rödd VG þarf að heyrast með skýrari hætti inn á sveitarstjórnarsviðinu almennt, því aðeins þannig náum við málstaðnum i gegn út um landið.

Með þessum fátæklegu orðum langar mig að þakka samstarfið innan VG á árinu sem er að líða og óska ykkur öllum farsældar á komandi ári í þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru. Með baráttukveðjum að austan.

Andrés Skúlason, formaður svæðisfélags VG Austfjarða.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search