Árið 2022 er að mörgu leyti þversagnakennt ár þegar kemur að athafna- og efnahagslífi landsmanna. Annars vegar hefur þjóðin náð sér feykivel á strik eftir faraldurinn, sérstaklega ef litið er á atvinnulífið og ferðaþjónustuna. Hins vegar er alþjóðleg kreppa skollin á sem hefur einnig áhrif á Íslandi. Í fyrsta sinn um langt skeið geisar nú stríð í Evrópu með hræðilegum afleiðingum fyrir íbúa Úkraínu og erfiðu ástandi víða í Evrópu. Umfram allt annað sem þarf að vinnast á næsta ári þarf þessu stríði að ljúka.
Stríð í Evrópu
Daginn eftir að við afléttum sóttvarnarráðstöfunum hér á Íslandi réðust Rússar inn í Úkraínu. Við náðum í raun ekki að gleðjast yfir því að veiran væri farin að gefa eftir því strax blasti við grimmur veruleiki stríðsins, sem stendur enn með margháttuðum afleiðingum. Milljónir Úkraínumanna hafa flúið heimili sín, þúsundir óbreyttra borgara hafa fallið og eyðileggingin er gríðarleg. Ekkert tóm er til að hugsa um neitt annað en að halda lífinu í þjóðinni – allt annað verður að bíða. Þannig birtist eyðingarmáttur og tilgangsleysi stríðs – andspænis þessu verða hefðbundin pólitísk viðfangsefni léttvæg.
Stríðið hefur breytt stöðunni í Evrópu. Fundir mínir á alþjóðavettvangi á árinu snerust nær allir um öryggismál með einum eða öðrum hætti. Þetta er dapurleg þróun en Ísland hefur talað skýrt og afgerandi; við höfum tekið fullan þátt í viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi, við höfum tekið á móti rúmlega 2000 úkraínskum flóttamönnum og sett umtalsverða fjármuni í mannúðaraðstoð, efnahagsaðstoð og búnað til að styðja úkraínsku þjóðina. Íslensk stjórnvöld hafa á alþjóðavettvangi lagt þunga áherslu á þann sjálfsagða rétt Úkraínumanna að vera frjáls og fullvalda þjóð og að þessu stríði verði að linna. Það er forsenda farsældar í Evrópu þegar litið er fram á veginn.
Snúin efnahagsstaða
Það er snúin staða í efnahagsmálum heimsins um þessar mundir. Aðfangakeðjur riðluðust í heimsfaraldri og ríki heims skuldsettu sig til að verja afkomu heimila og fyrirtækja á tímum veirunnar. Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu bættist við orkukreppa í Evrópu sem hafði reitt sig í talsverðum mæli á rússneskt gas og olíu. Alls staðar er verðbólga himinhá og víða í Evrópu maka einkafyrirtæki á orkumarkaði krókinn vegna þeirrar hörmulegu stöðu sem ríkir.
Við förum ekki varhluta af verðbólgunni hér á landi en sem betur fer hefur Íslendingum borið gæfa til að halda miklum meirihluta af raforkukerfinu í almannaeigu. Þannig eigum við að hafa það áfram enda um lífsnauðsynlega innviði hvers samfélags að ræða sem eiga að vera undir lýðræðislegri stjórn á forræði almennings. Við þurfum ekki að hafa sömu áhyggjur af heitu vatni og rafmagni og vinir okkar víða í Evrópu. Eins er skuldastaða okkar viðráðanleg og afkoma ríkissjóðs í ár mun betri en spáð var í fyrra sökum kröftugrar viðspyrnu í hagkerfinu.
Það var vandmeðfarið að setjast við kjarasamningaborðið á þessum tímapunkti fyrir bæði verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Sú skynsamlega ákvörðun var tekin að semja til skemmri tíma og var það forysta Starfsgreinasambandsins sem braut ísinn þegar hún skrifaði undir samninga við Samtök atvinnulífsins í byrjun desember. Í kjölfarið fylgdu iðnaðarmenn, tæknifólk og verslunarmenn. Það er trú mín að aðilar vinnumarkaðarins hafi þarna stigið mikilvæg skref til að verja kjör félagsmanna sinna á óvissutímum.
Stjórnvöld gerðu sitt til að greiða fyrir samningagerð með markvissum aðgerðum; auknum húsnæðisstuðningi við bæði leigjendur og eigendur og auknu framboði af hagkvæmu leiguhúsnæði á komandi árum. Þá verður stuðningur aukinn við barnafólk í landinu með nýju og endurbættu barnabótakerfi sem nær til fleiri barnafjölskyldna. Verkefnið fram undan er stórt og um leið mikilvægt – að leggja grunninn að langtímasamningum að ári með því að ná niður verðbólgu og vöxtum og bæta um leið lífskjör og velsæld fólksins í landinu.
Eftirköst faraldurs
Við skulum ekki ímynda okkur að tveggja ára tímabil af samkomutakmörkunum, þar sem við þurftum öll stöðugt að taka tillit til alls kyns reglna og ráðstafana sem voru síbreytilegar, hafi ekki haft áhrif á okkur öll. Við, sem erum vön því að geta gert það sem við viljum, þurftum skyndilega að setja upp grímu áður en við gengum inn í búð, þurftum að gæta að fjarlægð og máttum allt í einu ekki gera það sem okkur finnst alla jafna sjálfsagt. Samstaðan gat á köflum orðið þrúgandi og umburðarlyndið lítið gagnvart mistökum.
Við höfum sýnt samstöðu gagnvart áföllum – en þegar áföllin vara lengi reynir á þolgæðið. Því er kannski engin furða að við lesum nú fréttir um aukna vanlíðan, vaxandi vopnaburð og ofbeldi meðal barna og ungmenna, sem og fréttir af aukinni hörku í undirheimunum. Við höfðum okkur hæg í tvö ár og mörgum líður eflaust eins og þeir séu að springa.
Við sjáum þessa þróun víða um heim eftir faraldurinn og stjórnvöld hér á landi eru undirbúin, við eyrnamerktum fjármuni fyrir lok heimsfaraldurs í félagslegar aðgerðir næstu þrjú árin til að styðja við viðkvæma hópa og koma í veg fyrir langtímaáhrif vegna eftirkasta Covid. Lögð hefur verið vinna í að kortleggja sérstaklega stöðuna hjá börnum og ungmennum en hana þarf að vakta vel þannig að hægt sé að grípa inn í með aðgerðum. Það er engin ástæða til að ætla annað en að jafnvægi náist að lokum – en til þess að svo megi verða þurfum við að gæta sérstaklega að félagslegum þáttum. Við læknum ekki ofbeldi með meira ofbeldi heldur með því að byggja upp samfélag þar sem fólki líður vel, þar sem það nær endum saman og hefur svigrúm til að njóta sín, láta hæfileika sína dafna og drauma sína rætast.
Þó að mikið hafi verið rætt að undanförnu um ofbeldi í undirheimunum má ekki gleyma því að undanfarin ár hafa heimilisofbeldisbrot verið helmingur allra tilkynntra ofbeldisbrota. Í þeim efnum eru konur iðulega þolendur. Stjórnvöld hafa skorið upp herör gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni á undanförnum árum. Þess sjást merki í auknum fjármunum í meðhöndlun þessara mála, breytingar á löggjöf þar sem réttarstaða brotaþola hefur verið stórbætt og ný lagaákvæði hafa komið inn um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi. Unnið er samkvæmt forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni í skólum landsins. Markmiðið er skýrt: Slíkt ofbeldi er meinsemd sem á ekki að líðast.
Markmiðið er hamingja
Á stóru heimili gengur oft mikið á. Það er ekkert öðruvísi á þjóðarheimilinu. Við erum jafnmismunandi og við erum mörg og hvert og eitt glímir við sín viðfangsefni, stór og smá. Nú er farið að fækka fæðingum í kringum mig og vinir og vandamenn glíma frekar við veikindi eða hjónaskilnaði. Ég horfi gjarnan í kringum mig þegar ég fæ til þess færi, hvort sem það er í sundlauginni eða stórmarkaðnum og hugsa um örlög alls þessa fólks sem fyrst og fremst vill fá tækifæri til að lifa lífi sínu, halda heilsu, ná endum saman og leita hamingjunnar fyrir sig og sína. Það er okkar hlutverk, stjórnvalda, að búa til samfélag sem getur tryggt það.
Allt það sem gert hefur verið á undanförnum árum, réttlátara skattkerfi, styttri vinnuvika, lengra fæðingarorlof, lægri heilbrigðiskostnaður, bygging almennra íbúða, fjölbreyttara atvinnulíf, betra ellilífeyriskerfi og umbætur í örorkukerfinu – allt þjónar þetta sama markmiði: Að hver og einn fái lifað mannsæmandi lífi og fái tækifæri til að leita hamingjunnar. Og oft er hún ekki fjarri. Hún er einmitt oftast hér og nú eins og sagði í vinsælu lagi – og við skulum gera okkar til að sem flest fái notið hennar.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.