Search
Close this search box.

Ár andstæðna

Deildu 

Árið 2022 er að mörgu leyti þversagna­kennt ár þegar kem­ur að at­hafna- og efna­hags­lífi lands­manna. Ann­ars veg­ar hef­ur þjóðin náð sér feyki­vel á strik eft­ir far­ald­ur­inn, sér­stak­lega ef litið er á at­vinnu­lífið og ferðaþjón­ust­una. Hins veg­ar er alþjóðleg kreppa skoll­in á sem hef­ur einnig áhrif á Íslandi. Í fyrsta sinn um langt skeið geis­ar nú stríð í Evr­ópu með hræðileg­um af­leiðing­um fyr­ir íbúa Úkraínu og erfiðu ástandi víða í Evr­ópu. Um­fram allt annað sem þarf að vinn­ast á næsta ári þarf þessu stríði að ljúka.

Stríð í Evr­ópu

Dag­inn eft­ir að við aflétt­um sótt­varn­ar­ráðstöf­un­um hér á Íslandi réðust Rúss­ar inn í Úkraínu. Við náðum í raun ekki að gleðjast yfir því að veir­an væri far­in að gefa eft­ir því strax blasti við grimm­ur veru­leiki stríðsins, sem stend­ur enn með marg­háttuðum af­leiðing­um. Millj­ón­ir Úkraínu­manna hafa flúið heim­ili sín, þúsund­ir óbreyttra borg­ara hafa fallið og eyðilegg­ing­in er gríðarleg. Ekk­ert tóm er til að hugsa um neitt annað en að halda líf­inu í þjóðinni – allt annað verður að bíða. Þannig birt­ist eyðing­ar­mátt­ur og til­gangs­leysi stríðs – and­spæn­is þessu verða hefðbund­in póli­tísk viðfangs­efni létt­væg.

Stríðið hef­ur breytt stöðunni í Evr­ópu. Fund­ir mín­ir á alþjóðavett­vangi á ár­inu sner­ust nær all­ir um ör­ygg­is­mál með ein­um eða öðrum hætti. Þetta er dap­ur­leg þróun en Ísland hef­ur talað skýrt og af­ger­andi; við höf­um tekið full­an þátt í viðskiptaþving­un­um Evr­ópu­sam­bands­ins gagn­vart Rússlandi, við höf­um tekið á móti rúm­lega 2000 úkraínsk­um flótta­mönn­um og sett um­tals­verða fjár­muni í mannúðaraðstoð, efna­hagsaðstoð og búnað til að styðja úkraínsku þjóðina. Íslensk stjórn­völd hafa á alþjóðavett­vangi lagt þunga áherslu á þann sjálf­sagða rétt Úkraínu­manna að vera frjáls og full­valda þjóð og að þessu stríði verði að linna. Það er for­senda far­sæld­ar í Evr­ópu þegar litið er fram á veg­inn.

Snú­in efna­hags­staða

Það er snú­in staða í efna­hags­mál­um heims­ins um þess­ar mund­ir. Aðfanga­keðjur riðluðust í heims­far­aldri og ríki heims skuld­settu sig til að verja af­komu heim­ila og fyr­ir­tækja á tím­um veirunn­ar. Þegar Rúss­ar réðust inn í Úkraínu bætt­ist við orkukreppa í Evr­ópu sem hafði reitt sig í tals­verðum mæli á rúss­neskt gas og olíu. Alls staðar er verðbólga him­in­há og víða í Evr­ópu maka einka­fyr­ir­tæki á orku­markaði krók­inn vegna þeirr­ar hörmu­legu stöðu sem rík­ir.

Við för­um ekki var­hluta af verðbólg­unni hér á landi en sem bet­ur fer hef­ur Íslend­ing­um borið gæfa til að halda mikl­um meiri­hluta af raf­orku­kerf­inu í al­manna­eigu. Þannig eig­um við að hafa það áfram enda um lífs­nauðsyn­lega innviði hvers sam­fé­lags að ræða sem eiga að vera und­ir lýðræðis­legri stjórn á for­ræði al­menn­ings. Við þurf­um ekki að hafa sömu áhyggj­ur af heitu vatni og raf­magni og vin­ir okk­ar víða í Evr­ópu. Eins er skuld­astaða okk­ar viðráðan­leg og af­koma rík­is­sjóðs í ár mun betri en spáð var í fyrra sök­um kröft­ugr­ar viðspyrnu í hag­kerf­inu.

Það var vandmeðfarið að setj­ast við kjara­samn­inga­borðið á þess­um tíma­punkti fyr­ir bæði verka­lýðshreyf­ingu og at­vinnu­rek­end­ur. Sú skyn­sam­lega ákvörðun var tek­in að semja til skemmri tíma og var það for­ysta Starfs­greina­sam­bands­ins sem braut ís­inn þegar hún skrifaði und­ir samn­inga við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins í byrj­un des­em­ber. Í kjöl­farið fylgdu iðnaðar­menn, tækni­fólk og versl­un­ar­menn. Það er trú mín að aðilar vinnu­markaðar­ins hafi þarna stigið mik­il­væg skref til að verja kjör fé­lags­manna sinna á óvissu­tím­um.

Stjórn­völd gerðu sitt til að greiða fyr­ir samn­inga­gerð með mark­viss­um aðgerðum; aukn­um hús­næðisstuðningi við bæði leigj­end­ur og eig­end­ur og auknu fram­boði af hag­kvæmu leigu­hús­næði á kom­andi árum. Þá verður stuðning­ur auk­inn við barna­fólk í land­inu með nýju og end­ur­bættu barna­bóta­kerfi sem nær til fleiri barna­fjöl­skyldna. Verk­efnið fram und­an er stórt og um leið mik­il­vægt – að leggja grunn­inn að lang­tíma­samn­ing­um að ári með því að ná niður verðbólgu og vöxt­um og bæta um leið lífs­kjör og vel­sæld fólks­ins í land­inu.

Eftir­köst far­ald­urs

Við skul­um ekki ímynda okk­ur að tveggja ára tíma­bil af sam­komutak­mörk­un­um, þar sem við þurft­um öll stöðugt að taka til­lit til alls kyns reglna og ráðstaf­ana sem voru sí­breyti­leg­ar, hafi ekki haft áhrif á okk­ur öll. Við, sem erum vön því að geta gert það sem við vilj­um, þurft­um skyndi­lega að setja upp grímu áður en við geng­um inn í búð, þurft­um að gæta að fjar­lægð og mátt­um allt í einu ekki gera það sem okk­ur finnst alla jafna sjálfsagt. Samstaðan gat á köfl­um orðið þrúg­andi og umb­urðarlyndið lítið gagn­vart mis­tök­um.

Við höf­um sýnt sam­stöðu gagn­vart áföll­um – en þegar áföll­in vara lengi reyn­ir á þolgæðið. Því er kannski eng­in furða að við les­um nú frétt­ir um aukna van­líðan, vax­andi vopna­b­urð og of­beldi meðal barna og ung­menna, sem og frétt­ir af auk­inni hörku í und­ir­heim­un­um. Við höfðum okk­ur hæg í tvö ár og mörg­um líður ef­laust eins og þeir séu að springa.

Við sjá­um þessa þróun víða um heim eft­ir far­ald­ur­inn og stjórn­völd hér á landi eru und­ir­bú­in, við eyrna­merkt­um fjár­muni fyr­ir lok heims­far­ald­urs í fé­lags­leg­ar aðgerðir næstu þrjú árin til að styðja við viðkvæma hópa og koma í veg fyr­ir lang­tíma­áhrif vegna eftir­kasta Covid. Lögð hef­ur verið vinna í að kort­leggja sér­stak­lega stöðuna hjá börn­um og ung­menn­um en hana þarf að vakta vel þannig að hægt sé að grípa inn í með aðgerðum. Það er eng­in ástæða til að ætla annað en að jafn­vægi ná­ist að lok­um – en til þess að svo megi verða þurf­um við að gæta sér­stak­lega að fé­lags­leg­um þátt­um. Við lækn­um ekki of­beldi með meira of­beldi held­ur með því að byggja upp sam­fé­lag þar sem fólki líður vel, þar sem það nær end­um sam­an og hef­ur svig­rúm til að njóta sín, láta hæfi­leika sína dafna og drauma sína ræt­ast.

Þó að mikið hafi verið rætt að und­an­förnu um of­beldi í und­ir­heim­un­um má ekki gleyma því að und­an­far­in ár hafa heim­il­isof­beld­is­brot verið helm­ing­ur allra til­kynntra of­beld­is­brota. Í þeim efn­um eru kon­ur iðulega þolend­ur. Stjórn­völd hafa skorið upp her­ör gegn kyn­bundnu og kyn­ferðis­legu of­beldi og áreitni á und­an­förn­um árum. Þess sjást merki í aukn­um fjár­mun­um í meðhöndl­un þess­ara mála, breyt­ing­ar á lög­gjöf þar sem rétt­arstaða brotaþola hef­ur verið stór­bætt og ný laga­ákvæði hafa komið inn um umsát­ur­seinelti og kyn­ferðis­lega friðhelgi. Unnið er sam­kvæmt for­varna­áætl­un gegn kyn­bundnu og kyn­ferðis­legu of­beldi og áreitni í skól­um lands­ins. Mark­miðið er skýrt: Slíkt of­beldi er mein­semd sem á ekki að líðast.

Mark­miðið er ham­ingja

Á stóru heim­ili geng­ur oft mikið á. Það er ekk­ert öðru­vísi á þjóðar­heim­il­inu. Við erum jafn­mis­mun­andi og við erum mörg og hvert og eitt glím­ir við sín viðfangs­efni, stór og smá. Nú er farið að fækka fæðing­um í kring­um mig og vin­ir og vanda­menn glíma frek­ar við veik­indi eða hjóna­skilnaði. Ég horfi gjarn­an í kring­um mig þegar ég fæ til þess færi, hvort sem það er í sund­laug­inni eða stór­markaðnum og hugsa um ör­lög alls þessa fólks sem fyrst og fremst vill fá tæki­færi til að lifa lífi sínu, halda heilsu, ná end­um sam­an og leita ham­ingj­unn­ar fyr­ir sig og sína. Það er okk­ar hlut­verk, stjórn­valda, að búa til sam­fé­lag sem get­ur tryggt það.

Allt það sem gert hef­ur verið á und­an­förn­um árum, rétt­lát­ara skatt­kerfi, styttri vinnu­vika, lengra fæðing­ar­or­lof, lægri heil­brigðis­kostnaður, bygg­ing al­mennra íbúða, fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf, betra elli­líf­eyri­s­kerfi og um­bæt­ur í ör­orku­kerf­inu – allt þjón­ar þetta sama mark­miði: Að hver og einn fái lifað mann­sæm­andi lífi og fái tæki­færi til að leita ham­ingj­unn­ar. Og oft er hún ekki fjarri. Hún er ein­mitt oft­ast hér og nú eins og sagði í vin­sælu lagi – og við skul­um gera okk­ar til að sem flest fái notið henn­ar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search