PO
EN

Ár hamfara og hugrekkis

Deildu 

Ein hugsun hefur endurómað í kringum mig undanfarna daga og vikur: „Þetta ár er senn á enda og þess verður ekki saknað!“

Að einhverju leyti endurspeglar þessi hugsun þá trú okkar að áramót marki tímamót og á nýársdag renni upp nýr tími. Og um þessi áramót leyfi ég mér að trúa því að áramótin muni sannarlega marka tímamót því að árið sem nú er á enda hefur reynst afar krefjandi fyrir fjölmarga þó að það hafi um leið sýnt hvað í okkur býr.  

Jarðhræringar, snjóflóð, skriðuföll, efnahagskreppa og heimsfaraldur sem kallaði á samkomutakmarkanir sem aldrei höfðu verið settar áður í lýðveldissögunni; allt markaði þetta árið sem er að líða. Ár sem reyndi á samfélagslega innviði á öllum sviðum. Ár sem reyndi á almannavarnir og björgunarsveitir, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, atvinnulífið og velferðarsamfélagið. En líka ár sem kallaði fram styrk og hugrekki íslensks samfélags. Mikilvægi þess að eiga öflugt heilbrigðiskerfi þar sem allir eiga jafnan aðgang og afburða fagfólk sem sýndi gríðarlegt þrek og ábyrgð í fordæmalausum aðstæðum. Að eiga öfluga skóla og skólafólk sem þurfti reglulega að aðlaga allt skólastarf að breyttum veruleika. Að eiga sterkt velferðarkerfi sem grípur fólk sem verður fyrir því áfalli að missa vinnuna. 

Frá því að faraldurinn skall á hafa stjórnvöld haft tvö skýr markmið. Í fyrsta lagi að vernda líf og heilsu landsmanna. Í öðru lagi að gera það sem til þurfti til að lágmarka samfélags- og efnahagsleg áhrif faraldursins. Með þessi markmið að leiðarljósi höfum við tekist á við hverja áskorunina á fætur annarri og stöndum uppi nú í lok árs sem sterkt samfélag sem náð hefur markverðum árangri í baráttunni við faraldurinn. 

Aðgerðir stjórnvalda miðuðu strax að því að styðja við almenning og atvinnulíf. Hlutastarfaleiðin, lokunarstyrkir, tekjufallsstyrkir og viðspyrnustyrkir eru allt risavaxnar stuðningsaðgerðir við vinnandi fólk og fyrirtæki. Þá voru atvinnuleysisbætur hækkaðar, tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta lengt og barnabætur hækkaðar. Frá upphafi lögðum við áherslu á mótvægisaðgerðir til að bregðast við félagslegum afleiðingum sem þekkt er að fylgja efnahagskreppum. Vitundarvakning um heimilisofbeldi, aukin framlög til geðheilbrigðisþjónustu, stuðningur við félagslega viðkvæma hópa og styrkir til Kvennaathvarfsins eru dæmi um verkefni sem ráðist var í strax. 

Fjárlög verja velferð

Alþingi samþykkti nú fyrir jól fjárlög sem fyrst og fremst snúast um viðbrögð við heimsfaraldri en sýna líka  einbeittan vilja til að standa vörð um þær mikilvægu grunnstoðir sem hafa rækilega sannað gildi sitt á árinu; velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Um leið er haldið áfram að auka opinberar fjárfestingar til að vinna gegn atvinnuleysinu en það hefur ekki verið meira í seinni tíð. 

Hallinn á ríkissjóði verður 320 milljarðar króna á næsta ári og hefur aldrei verið meiri í lýðveldissögunni. Það er bæði vegna þess að skattkerfið og afkomutryggingakerfin virka eins og þau eiga að virka í kreppu en líka vegna þess að stjórnvöld tóku þá pólitísku ákvörðun að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að verja grunnþjónustuna og alla þá miklu uppbyggingu sem þar hefur orðið á síðustu árum með almenna velsæld, nýsköpun og græna atvinnuþróun í forgrunni. 

Þetta var stórpólitísk ákvörðun sem er fjarri því að vera sjálfsögð í kreppu eins og dæmin sanna en ég hef mikla trú á að sé sú rétta við þessar aðstæður. Peningastefnan sem birst hefur í umtalsvert lægri vöxtum en áður hafa þekkst hér á landi hefur síðan stutt vel við þessar ákvarðanir. Þar er jafnframt á ferðinni stórt lífskjaramál en lægri vextir létta skuldsettum heimilum róðurinn við þessar erfiðu aðstæður. 

Þó að margir muni fagna því sérstaklega að þetta ár sé að líða  í aldanna skaut og óskandi að það komi aldrei til baka þá hefur það líka leitt í ljós hvað við eigum sterkt samfélag. Samfélag þar sem vísindamenn hafa forgangsraðað baráttunni við heimsfaraldurinn til að leggja sitt af mörkum til að sigrast á veirunni. Samfélag þar sem hið opinbera og einkaaðilar hafa unnið saman sem ein manneskja í þessu stóra verkefni – og nefni ég þar einstakt framlag Íslenskrar erfðagreiningar í glímunni við faraldurinn. Samfélag þar sem við hugum að náunganum og hjálpumst öll að. Íslenskur almenningur hefur nálgast þetta verkefni af skynsemi og yfirvegun – eiginleikar sem hafa valdið því að við höfum náð markverðum árangri í þessari baráttu.

Stórar áskoranir framundan

Í ágúst birtist vísindagrein um að bráðnun Grænlandsjökuls væri hraðari en áður hefði verið talið og jafnvel óafturkræf. Þetta er enn ein viðvörunin um loftslagsvána sem er stærsta áskorunin sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Ísland kynnti ný og metnaðarfull markmið í loftslagsmálum nú í byrjun desember sem byggja á grunni uppfærðrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem kynnt var í sumar. Þar er boðað að í stað 40% samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda í samstarfi við ESB og Noreg verði samdrátturinn 55% og að auki muni Ísland stefna að áfangamarkmiði í kolefnishlutleysi í kringum árið 2030. Þá verður lögð aukin áhersla á loftslagstengd verkefni í þróunarsamvinnu Íslendinga.

Frá upphafi þessa kjörtímabils hefur baráttan gegn loftslagsvánni verið forgangsmál þessarar ríkisstjórnar sem kynnti fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina í í loftslagsmálum árið 2018. Blaðinu hefur sannarlega verið snúið við á kjörtímabilinu í þessum málaflokki. Ísland hefur alla burði til að taka forystu í þessari baráttu og byggja upp þekkingu á grænum lausnum til framtíðar sem gagnast okkur sjálfum sem og öllu alþjóðasamfélaginu. 

Önnur stór áskorun strax á komandi ári er viðspyrnan að loknum heimsfaraldri. Atvinnuleysi má ekki verða langtímaböl í samfélagi okkar og mikilvægt er að skapa fleiri störf og undirbyggja nýjar stoðir í atvinnulífinu til framtíðar. Líklega hefur fátt jafn afgerandi neikvæð áhrif á jöfnuð innan samfélaga og langvarandi atvinnuleysi og því er mikið undir þegar við tökumst á við það verkefni að ná atvinnuleysinu hratt og örugglega niður. Þar þarf bæði að styðja atvinnuleitendur til að sækja sér nýja færni og þekkingu í takt við breyttan vinnumarkað og tækniframfarir sem og að styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu. Áhersla stjórnvalda á fjárfestingar og félagslegar aðgerðir mun stuðla að því að tryggja að Ísland verði áfram samfélag jöfnuðar og jafnra tækifæra..

Skýr áhersla stjórnvalda á að efla grunnrannsóknir og nýsköpun í kreppunni mun skila aukinni verðmætasköpun í öllum atvinnugreinum, nýjum störfum og auknum viðnámsþrótti íslensks hagkerfis. Það mun stuðla að því að hraða grænni umbreytingu og að sama skapi reynast okkur mikilvæg fjárfesting til að takast á við fjórðu iðnbyltinguna en segja má að heimsfaraldurinn hafi virkað eins og hraðall fyrir samfélagið inn í nýja tækni og breytta atvinnuhætti. Ferðaþjónustan mun eiga sér bjarta framtíð þegar faraldrinum linnir og fyrirhugaður þjóðgarður á hálendi Íslands mun reynast sterkt aðdráttarafl ásamt því að vera mikilvægt framlag til náttúruverndar.

Bólusetningar við COVID-19 hófust hér á landi í vikunni. Ísland hefur í samstarfi við ESB og Noreg gert nokkra samninga við ólíka bóluefnisframleiðendur til að tryggja sem best hagsmuni og öryggi landsmanna. Bóluefni fyrir samfélagið allt hefur verið tryggt í gegnum þessa sameiginlegu samninga og hafa stjórnvöld gætt hagsmuna Íslands hvívetna og munu halda því áfram. Bólusetning mun smám saman breyta vígstöðu okkar gagnvart veirunni. Vissulega munum við áfram þurfa að viðhafa sóttvarnaráðstafanir á nýju ári en róðurinn mun léttast þegar líður á árið. Það eru því bjartari tímar framundan. Árið hefur verið erfitt en samfélagið hefur sýnt mikinn styrk og úthald.  Við munum saman koma sterkari út úr kófinu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search